Tuesday, January 31, 2012

Þakklátur Vökuliði.

Fyrir viku var planið allt annað en að liggja hér eins og skata upp í sófa á þessu góða þriðjudagskvöldi. Fyrir viku síðan fór ég að finna fyrir undarlegum verkjum og viku síðar er ég búin að vera meira og minna rúmliggjandi. Heima fyrir sem og á spítala, búin að fara í aðgerð og er nú á batavegi. 
Það var virkilega ekki á „planinu“. Fremur óheppilegur tími, ekki að það sé til heppilegur tími fyrir veikindi en mér finnst svakalega erfitt að geta ekki tekið þátt í kosningabaráttunni af fullum krafti.
  Ég veit að Vökuliðar, það frábæra fólk leggur sig 200% fram í baráttuna og eiga þau mikið lof skilið.
 Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa kynnst öllu því frábæra fólki í Vöku , ég er heppin að geta kallað þau vini mína. 


 Það er eðlilegt að maður verði svolítið væmin eftir að hafa fundið fyrir sérstakri hlýju undanfarna daga í minn garð. Það er ómetanlegt að eiga góð að. Ég er sérlega rík að eiga frábæra fjölskyldu og frábæra vini. 


Nú er aðal markmiðið að ná góðum bata sem fyrst og ég ætla að einbeita mér að því. Það er virkilega erfitt að liggja heima fyrir þegar að hugurinn er svo sannarlega á reiki og vill helst vera út um allt. En það mikilvægasta sem við eigum er heilsan okkar, því er mikilvægt að hlúa að henni. 
Auðveldara að segja það en að standa við það. 

(Ég á yndislega vinkonu sem heitir Agla og hún kann að gleðja mig. Kom færandi hendi í dag með þessar gómsætu og fallegu bollakökur.)

Það er mér hjartans mál kæru lesendur að þið sem stundið nám við Háskóla Íslands kynnið ykkur málefnin vel fyrir kosningarnar. Það er kosið þann 1. og 2. feb á Uglunni, svo það er sérlega auðvelt að nýta kosningaréttinn. 


Mig langar virkilega til þess að deila með ykkur málefnaskrá Vöku, ég er stolt af því að hafa verið með í því að móta þessa flottu  málefnaskrá


Ég vona að þið eigið ljúft kvöld í vændum og hafið það sem allra best. 


xxx


Eva Laufey Kjaran



Sunday, January 29, 2012

Thursday, January 26, 2012

Spaghetti Bolognese


 Um síðustu helgi þá lagaði ég mér Spaghetti Bolognese.  
Mér finnst Spag.Bolognese alltaf ótrúlega gott, sérstaklega með parmesan osti, góðu salati, brauði og rauðvíni. Ég passa mig alltaf á því að gera svolítið mikið svo ég geti borðað réttinn aftur daginn eftir.

En hér kemur uppskriftin.

50 gr. Smjör
2 msk. Ólífuolía
50 gr. Beikon
3 stk. Hvítlauksgeirar
6 Kirsuberjatómtar
1 stk. Laukur
1 Lítil gulrót
1 Stilkur sellerí
350 gr. Hakk (Ég notaði nautahakk)
1 dl. Rauðvín
1 msk. Tómatpuré
100 ml. Kjötsoð (Vatn + teningur)
100 gr. Tómatar í dós, saxaðir
100 ml. Vatn
1 tsk. Þurrkað rósmarín
5 - 6 Lárviðarlauf
Salt og pipar eftir smekk. 
Parmesanostur 
Klettasalat

 Byrjum á því að hita olíu og smjör í potti. Brúnum beikonið varlega í 2 - 3 mínútur.
 Söxum grænmetið fínt. 
 Bætum grænmetinu í pottinn saman með beikoninu. Eldum við vægan hita í um það bil 10 mínútur. 
 Svona lítur þetta út eftir 10 mínútur. Setjum þetta til hliðar á meðan við steikjum hakkið. 

 Eftir nokkrar mínútur er hakkið tilbúið og þá bætum við grænmetinu saman við.
 Hellum rauðvíni í pottinn og sjóðum niður. Næst bætum við kjötsoðinu , tómatpuré, tómötum, rósmarín og lárviðarlaufum saman við. Ég bætti 100 ml. af vatni aukalega í pottinn áður en ég lét þetta malla í 1 1/2 klst við vægan hita. Hrærið af og til með sleif, ath. að sósan á ekki að sjóða. 
Smakkið sósuna til með salti og pipar. 





 Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Mér finnst best að nota heilhveiti spaghetti.
 Dásemd. 
 Ég notaði ótrúlega gott rauðvín í réttinn. Da Vinci Chianti. Svo er agalega gott að fá sér eitt glas með matnum. Þetta rauðvín er kirsuberjarautt og fremur þurrt. Mjög bragðgott og hentaði svakalega vel með þessum rétt.  Mæli sérlega með því :) 
 Ótrúlega gott að skera klettasalat í litla bita og strá yfir. Svo er náttúrlega yndislegt að strá nýrifnum parmesanosti yfir. 

Njótið. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, January 25, 2012

Virkjum kosningaréttinn.

Virkjum kosningaréttinn.


Háskóli Íslands er elsti háskóli landsins. Í hundrað ár hafa stúdentar stundað nám við Háskóla Íslands.  Skólinn býður upp á fjölbreytilegt og krefjandi nám. Það ættu allir að geta fundið sér nám við sitt hæfi.

Nám er frábær fjárfesting í mannauði og þekkingu, því er sérstaklega mikilvægt að við stöndum vörð um gæði námsins. Við viljum taka þátt í því að efla skólann okkar og gera hann enn betri ár hvert. Þess vegna er hagsmunabarátta stúdenta mikilvæg og ekki má vanmeta hlutverk stúdenta í baráttunni fyrir bættum Háskóla.

Það er mjög mikilvægt að hver og einn einasti nemandi við Háskóla Íslands taki þátt í kosningum til Stúdentaráðs þann 6. og 7. feb. Hagsmunir okkar eru í húfi. Stúdentaráð Háskóla Íslands er nauðsynlegt afl til að gæta hagsmuna stúdenta innan skólans sem og utan hans. Það er deginum ljósara að Stúdentaráð verður öflugara með fleiri og fjölbreyttari stúdenta að baki sér.

Í Stúdentaráði vinnur hópur fólks dag og nótt óeigingjarnt starf í þágu stúdenta. Reynslan sýnir að hagsmunabaráttan skiptir virkilega miklu máli. Stúdentaráð hefur náð miklum árangri í gegnum tíðina hvað varðar aukin fjárframlög úr Lánasjóði íslenskra námsmanna, byggingu stúdentagarða og jafnan rétt til náms. Stúdentaráð á að vera virkt framkvæmdaafl og öflugt þrýstiafl.

Það er auðvelt að detta í þá gryfju að hugsa um að allt sé ómögulegt. Það þýðir ekki að láta bölsýni af því tagi letja okkur í baráttunni fyrir auknum hagsmunum og betra námi.Við þurfum að hugsa í lausnum og ganga hreint til verks. Við gætum verið ósammála um það hvernig markmiðum okkar skal náð, en það er einfaldlega skylda okkar að vera sammála um að við viljum og ætlum að berjast fyrir hagsmunum okkar.

Fyrst og fremst hvet ég ykkur til þess að kynna ykkur málefnin vel. Það er mikilvægt við tökum  upplýsta ákvörðun á kjördag.

Það er afar nauðsynlegt að fólk nýti sér rétt sinn og kjósi. Okkur er ekki sama um okkar hagsmuni. Sýnum það í verki og kjósum þann 6. og 7. feb. 

Kosningarnar eru rafrænar í gegnum Ugluna. Það er því ósköp auðvelt og fljótlegt að nýta kosningaréttinn.

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir.
Frá Akranesi.
Skipar þriðja sæti Vöku til Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Þessi grein birtist í Skessuhorni þann 25.01.12


Monday, January 23, 2012

Tilhlökkun

 Elsku vinkona mín hún Agla á von á litlu kríli eftir fáeinar vikur. 
Ég er mjög spennt og tek frænku hlutverkinu mjög alvarlega. 
Ég ætla að kenna barninu að syngja og að borða. 

Þetta er svo fallegt og merkilegt dæmi að inn í maganum er falleg manneskja sem verður bráðum komin í mitt fang.
 (Ég er kannski að eigna mér barnið of mikið, en það er í lagi) 


xxx
Eva Laufey Kjaran

Saturday, January 21, 2012

Epladraumur Evu


Ég er búin að vera með mína tegund af eplaköku á heilanum lengi vel og ákvað að prufa að baka þessa "hugmynd" Hún heppnaðist ótrúlega vel og  ég er sérstaklega ánægð með kökuna. 

Epladraumur Evu. 

Uppskrift. 

2 x Græn epli
ca 300 gr. Sykur (Bæði í botn og eplamauk)
250 gr. Hveiti
4. Egg
ca. 300 gr. Smjör (Bæði í botn og eplamauk)
1 ½ tsk. Vanilla Extract (Eða vanilludropar)
1 x Sítróna
1 ½ tsk. Lyftiduft
4  tsk. Kanill 



 Byrjum á því að skera eplin í litla bita. 

 Við ætlum að nota bæði safann og börkinn af sítrónunni. 
 Tvö epli, 2 msk. Sítrónusafi og börkur af einni sítrónu.
 Setjum ca. 30 gr. Smjör í pott og setjum eplin saman við, hrærum vel í og bætum síðan sítrónusafanum og börknum saman við. Stráum 5 msk. Af sykri yfir og 4 tsk. Af kanill. 
Leyfum þessu að malla við vægan hita í 3 mínútur, hrærum þó í á meðan. 
Bætum svo 40 ml. Vatni saman við og leyfum þessu að malla áfram í 2 mín. Svo er nauðsyn að smakka til, ef þetta er enn of súrt þá endilega að bæta meiri sykri eða kanil saman við. 

 Svona lítur þetta út þegar að þetta er tilbúið, leggjum þetta til hliðar á meðan að við lögum botninn. 
 250 gr. Hveiti, 250 gr. Sykur, 250 gr. Smjör, 4 egg,  1 1/2 tsk. Vanillu Extract og 1 1/2 Lyftiduft. 
Byrjum á því að hræra sykur og smjör saman í tvær mín, bætum síðan eggjum saman við og hrærum í smá stund. Svo fer restin ofan í og þessu blandað vel saman í rúmar þrjár mín. 

 Epla crumble. 

50 gr. Hveiti
½ tsk. Kanill
35 gr. Smjör
25 gr. Sykur

Aðferðin er sú að við sigtum saman hveiti og kanil. Skerum smjörið í litla bita, blöndum sykrinum og smjörinu saman við hveitiblönduna og blöndum þessu vel saman með höndunum. Þar til þetta verður orðið ansi fíngert.


 Þá setjum við fyrsta grunninn, skiptum deiginu í tvö lög.
 Eplasítrónumauk á milli.
 Annað lag komið á. 
 Epla Crumble komið á og þá má kakan fara inn í ofn við 180°C (blástur )í 40 - 45  mínútur. (Ofnar eru auðvitað misjafnir svo það er gott að stinga pinnaí kökuna til þess að athuga hvort hún sé tilbúin, ef deigið festist ekki á pinnanum þá er kakan tilbúin)
 Tilbúin og falleg.
 Karamellusósan. 
Hentar í raun vel með hvaða köku sem er, sérstaklega epla og súkkulaði. 
En það eina sem þarf að gera er að setja 1 dl. Af rjóma í pott og poka af Góa kúlum og bræða saman við vægan hita, passa að hræra í á meðan. 

 Jummí. 

Ég var sérstaklega ánægð með útkomuna. 
Auðveld og ótrúlega bragðgóð. 
Best nýbökuð með ís eða rjóma. 

Mæli hiklaust með að þið prufið og vonandi finnst ykkur hún jafn góð og mér finnst hún. 

Gleðilegan sunnudag. 
xxx

Eva Laufey Kjaran

Átti hádegisdeit með manni mínum í borginni í vikunni og svo fórum við í smá göngutúr um miðbæinn, vitaskuld var ekkert annað í stöðunni en að taka mynd af mér og Hörpu.. og góða kaffinu sem ég hellti svo yfir mig stuttu seinna. Það var nú sérdeilis ánægjulegt.

Ég elska að sólin sé farin að láta sjá sig og dagarnir eru að lengjast. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, January 20, 2012

Kjúklingur í hvítvínschili sósu.


Kjúklingur í hvítvínschilisósu. 

Þessi réttur er sérlega góður og ótrúlega auðveldur. Uppskrift frá mömmu minni, hún er náttúrlega snillingur í eldhúsinu. 

Uppskrift (Fyrir tvo )

1 x Lítill laukur 
2 x Tómatar
1 - 2 Hvítlauksgeirar
1 x Rautt chili (Ég tók steinana í burtu þar sem ég vildi ekki hafa þetta of sterkt)
Kjúklingur (4 bitar ) 
2 - 3 msk. Chilitómatsósa
1/2 Kjúklingateningur

300 ml. Vatn 
150 ml. Hvítvín
350 g. spagettí


 Byrjum á því að skera laukinn, tómatana og chiliið.

 Ég átti ekki hvítlauk en ég átti þessa guðdómlegu olíu með hvítlauksbragði. 

 Steikjum laukana og tómatana upp úr olíunni, pössum okkur á því að þetta verði ekki brúnt. 

 Bætum chili-tómatsósunni saman við og blöndum þessu vel saman. 

Setjum svo kjúklingabitana saman við, brúnum þá léttilega.
Piprum og söltum!

 Bætum síðan 200 ml. Af vatni saman við og 100 ml. Af hvítvíni sem og 1/2 kjúklingatening.

Leyfum þessu að malla við vægan hita í 30 mínútur. Ilmurinn verður orðinn dásamlegur eftir 30 mínútur og þá hrærum við örlítið í þessu og bætum restinni af vatninu og hvítvíninu við og leyfum þessu að malla í um það bil 10 mínútur til viðbótar. 

Þá er að huga að því að sjóða pasta. Persónulega finnst mér skemmtilegast að bera réttinn fram ásamt spagettí en ég átti því miður ekki spagettí við þetta tilefni svo ég tók þá tegund sem ég átti inn í skáp.
Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Ég læt alltaf smá olíu í pottinn og smá salt saman við.

 Pasta, klettasalat, kjúklingur og mikil sósa. Rúsínan í pylsuendanum er svo að strá vel af parmesan ost yfir.


 Í réttinn notaði ég Baron De Ley hvítvín. Það hentaði mjög vel með þessum kjúklingarétt, vínið er fremur þurrt og einstaklega bragðgott. 

Jummí. Þetta var svakalega gott!

Bon appetit!

Mæli hiklaust með að þið prufið þennan rétt. Einfaldur og ljúffengur. 

Njótið helgarinnar því það ætla ég svo sannarlega að gera. 

xxx

Eva Laufey Kjaran