Thursday, May 29, 2014

Ómótstæðilegar súkkulaðibitakökur sem bráðna í munni.



Þegar að kökulöngunin bankar á dyrnar, þá er gott að skella í einfalda uppskrift af súkkulaðibitakökum. Það er eitthvað svo sérstaklega gómsætt við þær. Best er að borða þær nýbakaðar með ískaldri mjólk. Tvenna sem klikkar aldrei. Uppskriftin er frekar stór og gerir rúmlega 30 kökur. Í þetta skiptið frysti ég helmingin af deiginu til þess að geta gripið í og skellt í ofn þegar að góða gesti ber að garði, eða einfaldlega þegar kökulöngunin kallar


Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir. Ég þori að veðja á að þið eigið eftir að verða stórhrifin af þessum kökum!



 Amerískar súkkulaðibitakökur með litríkum súkkulaðiperlum
  • 2 egg 
  • 230 g smjör
  • 400 g sykur 
  • 3 tsk vanillusykur
  • 320 g Kornax hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • salt á hnífsoddi
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 poki litríkar súkkulaðiperlur frá Nóa Síríus
  • 1 poki súkkulaðihnappar frá Nóa Síríus
Aðferð: 
  1.  Hitið ofninn í 180°C (blástur) 
  2. Þeytið saman smjör, sykur og egg þar til blandan verður létt og ljós. 
  3. Blandið þurrefnum saman við og þeytið. Gott er að stoppa einu sinni til tvisvar og skafa meðfram hliðum svo allt blandist vel saman. 
  4. Blandið súkkulaðiperlum og súkkulaðihnöppum saman við og blandið saman með sleif. 
  5. Ég notaði tvær matskeiðar til þess að móta kökurnar. Setjið kökurnar á pappírsklædda ofnskúffu og bakið við 180°C í 10 - 12 mínútur. 
  6. Kælið kökurnar svolítið áður en þið berið þær fram, mér finnst sérlega gott að bræða svolítið súkkulaði og dreifa yfir kökurnar í lokin. Það gefur kökunum þetta extra! 

 Uppskriftin að þessum kökum má finna í bókinni minni, Matargleði Evu. Ég notaði reyndar annað súkkulaði í þá uppskrift. Það er gaman að prófa sig áfram með allskyns gúmmilaði í þessa uppskrift.





 Litríkt og fallegt deig.



Kökurnar nýkomnar úr ofninum og búnar að fá súkkulaði sjæningu. Þá er ekkert annað í stöðunni en að fá sér nokkrar kökur, já nokkrar og njóta. 

 Mér finnst mjög gott að dýfa kökunum ofan í mjólkurglasið mitt. Fullkomin tvenna. 


Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift um helgina kæru vinir og munið að njóta, til þess er nú elsku baksturinn!

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Saturday, May 24, 2014

Laugardagsmorgun


Helgarnar eru svo notalegar, ég byrjaði þennan laugardaginn á því að baka dásamlega kanilsnúða. Uppskriftin er hér. Ég er enn í náttfötunum og klukkan að ganga eitt. Svona dagar eru nauðsynlegir, ró og næði. Ætli það sé ekki best að loka tölvunni í bili, koma sér vel fyrir upp í sófa og kíkja í einhverjar bækur. Heimilið ilmar af kanilsnúðum og Elvis minn Presley sér um tónlistina. 

Ég vona að þið eigið góða helgi framundan. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, May 22, 2014

Dúndurgott kvöldsnarl


Frosin vínber eru algjört lostæti. Mæli með að þið prófið!

Wednesday, May 21, 2014

Einfaldleikinn er oftast bestur


Ég er mjög og þá meina ég mjög hrifin af pasta. Ég fæ mér reglulega þennan einfalda og gómsæta pastarétt, að mínu mati er einfaldleikinn sá besti.

Ítölsk pastasósa
Þessi sósa er svakalega einföld og passar með flestum pastaréttum, ég mæli með að þið prófið ykkur áfram með þessa uppskrift.

Ólífuolía
  • 1 meðalstór rauðlaukur
  • 2 – 3 hvítlauksrif, smátt söxuð
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 msk. Basilíka, smátt söxuð
  • Salt og pipar, magn eftir smekk
  • Smá skvetta af agave sírópi

Aðferð: Hitið olíu í potti, steikið rauðlaukinn og hvítlaukinn í smá stund. Bætið tómötum og basilíku saman við og kryddið til með salti og pipar. Smakkið ykkur til og bætið endilega við kryddum sem ykkur þykir góð. Mér finnst gott að setja smá skvettu af agave sírópi í lokin, bara rétt aðeins. Ég læt sósuna í matvinnsluvél en það er ekki nauðsynlegt.

Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum og berið fram með sósunni, rifnum osti og stráið ferskri basilíku yfir. Ótrúlega einfalt og gómsætt. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Sunday, May 18, 2014

Bleikar makrónur, kaffi og gott lesefni á sólríkum degi!

Að byrja daginn á því að fara út á svalir með kaffibolla og lesefni í góðu veðri er hrein dásemd. Svona byrjaði minn dagur í dag. Vonandi eru margir sólríkir dagar sem bíða okkar í sumar. Ég trúi nú ekki öðru. Svalirnar okkar eru loksins að taka á sig mynd og sólin skín þar allan daginn. 

Ég er búin að hafa það mjög gott yfir helgina, ég átti afmæli á föstudaginn og það hafa verið veisluhöld frá því að ég vaknaði þann daginn. Veisluhöldin halda áfram í dag en hún mamma mín fagnar sínum afmælisdegi í dag. Hún er sú allra besta og við ætlum að eiga huggulegan dag saman í blíðunni. 

Ég vona að þið eigið góðan dag kæru vinir. Við heyrumst fljótt aftur! Það eru þónokkrar uppskriftar sem bíða eftir að komast hingað inn. 





xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir