Mér þykir einstaklega gaman að fá fólkið mitt í mat, þessar stundur eru mér svo mikilvægar. Sér í lagi vegna þess að fjölskyldan mín býr erlendis. Þau eru heima um páskana og þá var auðvitað ekkert annað í stöðunni en að baka kökur og bjóða heim í páskaboð.
Litlar Amerískar pönnukökur með jarðarberjum og súkkulaði
- 1 egg
- 5 dl hveiti
- 3 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 1 tsk vanillusykur
- 3 msk smjör (brætt)
- 2 1/2 dl mjólk
- 2 dl ab mjólk (súrmjólk)
Aðferð:
- Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt í skál. Blandið vel saman og bætið vanillu saman við.
- Bræðið smjörið, leggið til hliðar og kælið.
- Pískið eggið og blandið mjólkinni saman við.
- Hellið eggjablöndunni saman við hveitiblönduna, bætið smjörinu og ab mjólkinni saman við og hrærið vel í með sleif. Ég leyfi deiginu að standa í hálftíma - klukkutíma áður en ég steiki pönnukökurnar.
- Hitið smávegis af smjöri á pönnu og steikið pönnukökurnar, þær eru tilbúnar þegar þær eru gullinbrúnar á báðum hliðum. Þið ráðið því auðvitað hvort þið gerið stórar eða litlar eins og ég var með í þessu páskaboði.
Ég bræddi smávegis af súkkulaði yfir vatnsbaði, skar niður nokkur jarðarber og sáldraði smá flórsykri yfir í lokin. Pönnukökurnar ruku út enda fátt betra en nýbakaðar pönnukökur.
Páskakakan gómsæta
Það er ekkert páskaboð nema það sé gul kaka í boðinu.
Ég notaði
þessa uppskrift fyrir kökubotnana. Þessi súkkulaðikaka klikkar seint að mínu mati, sérlega mjúk og bragðmikil. Botnarnir lyfta sér líka mjög vel og þá er kakan hærri. Ég gerði
þetta krem.
Ég gerði eina og hálfa uppskrift. Ein uppskrift dugir en ef þið ætlið að gera rósir þá þarf meira krem, ég notaði Wilton stút númer 2D.
Það er eitthvað við þetta eplapæ sem ég fæ bara ekki nóg af.
Kjúklingabaka
Mér finnst nauðsynlegt að hafa eitthvað ósætt með kaffinu líka, ég var með kjúkling í gær og ákvað að nota afganginn í þessa ágætu kjúklingaböku.
Ég bjó til botninn (uppskrift finnið þið
hér). Steikti smá beikon sem ég var búin að skera niður og skar sömuleiðis kjúklinginn í litla bita og steikti með. Ég skar niður papriku og vorlauk og steikti á pönnu. Pískaði fimm egg ásamt smá mjólk. Lét fyllinguna í bökubotninn og hellti eggjablöndunni yfir. Kryddaði til með salti, pipar og paprikukryddi. Skar niður camenbert ost og dreifði yfir áður en ég lét bökuna í ofninn. Einfalt og stórgott!
New York Times brauð (pottabrauðið góða)
Loksins bakaði ég þetta dásamlega brauð. Ég hef smakkað það nokkrum sinnum og nú þegar ég er búin að eignast almennilegan ofnpott þá get ég bakað mitt eigið brauð. Það er lygilega einfalt að baka þetta brauð.
Hér getið þið fengið uppskriftina og það fylgir myndband með. Sem er alltaf ákaflega gott.
Ég er svo sannarlega södd og sæl eftir daginn. Það er ekkert betra en að fá fjölskylduna í kaffi og eiga notalega stund saman.
Ég vona að þið hafið það sem best.
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir