Monday, April 21, 2014

Instagram myndaflóð @evalaufeykjaran

1. Eftir viku fara þættirnir mínir 'Höfðingjar heim að sækja" í loftið á Stöð 2. 
2. Bröns með dásamlegri vinkonu á uppáhalds staðnum, Snaps. 

3. Árshátíðarfjör 365.
4. Við Haddi skemmtum okkur konunglega á árshátíðinni með 6 mánaða dömu innanborðs ;)

5. Nú er ég á fullu í tökum fyrir nýju matreiðsluþættina mína. Í þáttunum heimsæki ég skemmtilega Íslendinga og elda með þeim. Það var ótrúlega gaman að elda með Grétu Mjöll söngstjörnu.
6. Ég elska gult og það var allt gult hér heima um páskana. 

7. Það er fátt betra en laugardagsmorgnar, þá fær hafragrauturinn pásu og nýbakað bakkelsi kemur í stað hans. 
8. Bleik rósakaka. 

9. Myndatökur fyrir þáttinn. Ég fór auðvitað í svuntu, haha.
10. Ég heimsótti Hrefnu Sætran ofurkonu og fékk að elda með henni dásamlegan mat. 

 11. Súkkulaði og meira súkkulaði, þessar pönnukökur voru ansi góðar. 
12. Í gær þá lá ég í rúminu mjög lengi, drakk kaffi og borðaði súkkulaði. Það var ljúft en nú er ég komin með nóg af súkkulaði í bili (já það er hægt). Ég er búin að hafa það mjööög gott um páskana. 

Ykkur er meira en velkomið að fylgjast með mér á Instagram. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir



Saturday, April 19, 2014

Páskabröns


Mér þykir einstaklega gaman að fá fólkið mitt í mat, þessar stundur eru mér svo mikilvægar. Sér í lagi vegna þess að fjölskyldan mín býr erlendis. Þau eru heima um páskana og þá var auðvitað ekkert annað í stöðunni en að baka kökur og bjóða heim í páskaboð. 

 Litlar Amerískar pönnukökur með jarðarberjum og súkkulaði 

  • 1 egg 
  • 5 dl hveiti 
  • 3 tsk lyftiduft 
  • 1/2 tsk salt 
  • 1 tsk vanillusykur 
  • 3 msk smjör (brætt)
  • 2 1/2 dl mjólk
  • 2 dl ab mjólk (súrmjólk) 
Aðferð:

  1. Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt í skál. Blandið vel saman og bætið vanillu saman við. 
  2. Bræðið smjörið, leggið til hliðar og kælið. 
  3. Pískið eggið og blandið mjólkinni saman við. 
  4. Hellið eggjablöndunni saman við hveitiblönduna, bætið smjörinu og ab mjólkinni saman við og hrærið vel í með sleif. Ég leyfi deiginu að standa í hálftíma - klukkutíma áður en ég steiki pönnukökurnar. 
  5. Hitið smávegis af smjöri á pönnu og steikið pönnukökurnar, þær eru tilbúnar þegar þær eru gullinbrúnar á báðum hliðum. Þið ráðið því auðvitað hvort þið gerið stórar eða litlar eins og ég var með í þessu páskaboði. 
Ég bræddi smávegis af súkkulaði yfir vatnsbaði, skar niður nokkur jarðarber og sáldraði smá flórsykri yfir í lokin. Pönnukökurnar ruku út enda fátt betra en nýbakaðar pönnukökur. 



Páskakakan gómsæta 

Það er ekkert páskaboð nema það sé gul kaka í boðinu. 

Ég notaði þessa uppskrift fyrir kökubotnana. Þessi súkkulaðikaka klikkar seint að mínu mati, sérlega mjúk og bragðmikil. Botnarnir lyfta sér líka mjög vel og þá er kakan hærri. Ég gerði þetta krem. 

Ég gerði eina og hálfa uppskrift. Ein uppskrift dugir en ef þið ætlið að gera rósir þá þarf meira krem, ég notaði Wilton stút númer 2D. 



Það er eitthvað við þetta eplapæ sem ég fæ bara ekki nóg af.



Kjúklingabaka

Mér finnst nauðsynlegt að hafa eitthvað ósætt með kaffinu líka, ég var með kjúkling í gær og ákvað að nota afganginn í þessa ágætu kjúklingaböku. 

Ég bjó til botninn (uppskrift finnið þið hér). Steikti smá beikon sem ég var búin að skera niður og skar sömuleiðis kjúklinginn í litla bita og steikti með. Ég skar niður papriku og vorlauk og steikti á pönnu. Pískaði fimm egg ásamt smá mjólk. Lét fyllinguna í bökubotninn og hellti eggjablöndunni yfir. Kryddaði til með salti, pipar og paprikukryddi. Skar niður camenbert ost og dreifði yfir áður en ég lét bökuna í ofninn. Einfalt og stórgott!

 New York Times brauð (pottabrauðið góða)

Loksins bakaði ég þetta dásamlega brauð. Ég hef smakkað það nokkrum sinnum og nú þegar ég er búin að eignast almennilegan ofnpott þá get ég bakað mitt eigið brauð. Það er lygilega einfalt að baka þetta brauð. 

Hér getið þið fengið uppskriftina og það fylgir myndband með. Sem er alltaf ákaflega gott.



Ég er svo sannarlega södd og sæl eftir daginn. Það er ekkert betra en að fá fjölskylduna í kaffi og eiga notalega stund saman. 

Ég vona að þið hafið það sem best. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Wednesday, April 16, 2014

Páskasteikin - Nautalundir með Hasselback kartöflum og piparostasósu


Þessi uppskrift miðast við fjóra til fimm.

Það er fátt sem jafnast á við góða steik og gott meðlæti. Þessar nautalundir eru mjög bragðgóðar og safaríkar.

Nautalundirnar

1 kg nautalund, skorin í fjóra jafnstóra bita
svartur pipar og gróft 
sjávarsalt 
4-5 msk smjör

Hasselback kartöflur

4 stórar kartöflur
50 g smjör 
2 msk ólífuolía
maldon salt og pipar
fersk steinselja

Piparostasósa

1 peli rjómi 
½ piparostur
½ kjúklingakraftsteningur

Ferskt salat með 
smjörsteiktum perum

1 msk smjör 
2 perur
1 poki klettasalat 
1 tsk góð ólífuolía 
1 tsk balsamikedik
salt og nýmalaður pipar
fetaostur, magn eftir smekk

Nautalundir

Bræðið smjörið á pönnu. Kryddið nautalundina með salti og pipar 
og brúnið vel á öllum hliðum. Setjið hana í eldfast mót og steikið 
við 140°C í 15-20 mínútur. Látið kjötið standa á borðinu í að 
minnsta kosti 8 mínútur áður en þið berið það fram.

Hasselback kartöflur

Þessar kartöflur eru klassískt meðlæti með kjöti, rekja má þessar kartöflur til Svíþjóðar. Þær eru bæði svakalega góðar og einfaldar. 

Hitið ofninn í 220°C. Skolið kartöflurnar og skerið svo raufar í 
þær með stuttu millibili. Skerið djúpt niður en 
passið að kartaflan detti ekki í sundur. Smjör og olía eru brædd 
saman í potti. Raðið kartöflunum í ofnskúffu og hellið bræddu 
blöndunni yfir. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið 
þeim þannig vel upp úr feitinni. Stráið maldon salti og pipar yfir 
kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í 55-60 mínútur. Mér 
finnst dásemd að skera niður ferska steinselju og sáldra yfir 
kartöflurnar þegar þær eru komnar út úr ofninum. 

Piparostasósa

Þessa sósa er ljúffeng ein og sér, svo góð er hún. Hún hentar vel með kjöti, kjúkling og pastaréttum. Mæli með að þið prófið ykkur áfram með þessa sósu. 

Hitið rjóma við vægan hita í potti, skerið piparostinn í litla bita og 
bætið út í. Hrærið reglulega í pottinum, bætið ½ teningi af 
kjúklingakrafti saman við og hrærið vel í sósunni.

Ferskt salat með smjörsteiktum perum

Hitið smjör á pönnu, skerið perur í þunna strimla og snöggsteikið 
í 1-2 mínútur. Skolið klettasalatið og blandið öllum hráefnunum 
saman í skál. Perur eru einstaklega góðar þegar þær eru búnar að 
steikjast í smjöri, sætan af þeim er hreint út sagt himnesk.

Ég mæli með þessum tveimur eftirréttum, þeir eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. 



Ég vona að þið hafið það gott um páskana kæru vinir og njótið þess að vera með fólkinu ykkar. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Monday, April 14, 2014

LEVEL


Ég keypti mér svo fallegt fléttað hárband hjá vinkonu minni sem rekur verslunina LEVEL. Elísabet Maren er voðalega hæfileikarík og hönnunin hennar mjög falleg.

 Fléttuð hárbönd eru mjög vinsæl um þessar mundir og það er hægt að fá böndin í allskyns litum. Ég á pottþétt eftir að kaupa mér fleiri því það er svo einfalt að vera með hárið fínt ef maður er með svona fínt hárband. Ég væri til í blátt eða grænt, já svei mér þá. Ég þarf að gera mér aðra ferð til hennar Lísu fljótlega. Þið finnið LEVEL hér á facebook.

Í gær fór ég í fermingu, þá var auðvitað tilefni til þess að fara í kjól og nota fína hárbandið. Það er líka agalega gaman að punta sig þegar maður er ófrískur. Nú er ég komin á 30 viku sem þýðir að það er ekki langt eftir. Ég er orðin ferlega spennt. 

Ég vona að ykkar vika fari vel af stað og ég mæli með að þið skoðið úrvalið hjá henni Lísu í LEVEL. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Sunday, April 13, 2014

Bleik rósakaka.


Bleik rósakaka í tilefni dagsins. 

Gleðilegan sunnudag. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


Saturday, April 12, 2014

Nýbakað og rjúkandi heitt kaffi


Það er ekki að ástæðulaus að laugardagsmorgnar eru í sérstöku eftirlæti. Ég byrja yfirleitt laugardaga á góðum morgunverði. Að þessu sinni voru það nýbökuð crossaint (það væri gaman að segja ykkur frá því ef ég væri búin að baka þau sjálf en það er nú ekki svo gott, keypti frosin í Krónunni og hitaði upp í morgun). Nýbakað og gómsætt, lyktin af bökuðu brauði og nýlöguðu kaffi er dásamleg, nú er ég södd og sæl og tilbúin í helgina. Ég vona að ykkar morgun fari vel af stað. 

Góða helgi. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir