Thursday, October 20, 2016

Fagurbleikur og bragðgóður


Fagurbleikur og bragðgóður boozt er fullkomin byrjun í góðu brönsboði. Á tyllidögum má svo fara alla leið og fylla drykkinn upp með kampavíni. Virkilega frískandi og góður drykkur sem tekur enga stund að búa til og allir elska. 

Bleika dásemdin

  • 1 bolli frosin jarðarber 
  • 1 bolli frosin hindber 
  • 1 bolli klakar 
  • 4-5 góðar matskeiðar af grísku jógúrti 
  • 1 banani 
  • Appelsínusafi, magn eftir smekk
  • Smá skvetta af hunangi 
Aðferð: Setjið allt í blandarann í 2-3 mínútur eða þar til drykkurinn er silkimjúkur. Berið strax fram og njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin sem voru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.



Wednesday, October 19, 2016

Comfort food á rigningardegi


 Beef Bourguignon, hinn fullkomni vetrarmatur. Hægeldað nautakjöt í rauðvínssósu og fullkomin kartöflumús. Klárlega einn af mínum uppáhalds réttum.


Góðir ostar, ljúffengt heimabakað brauð og gott rauðvín er ávísun á huggulega kvöldstund. Einföld leið til þess að gera vel við sig og sína!

Lokkandi sjávarréttasúpa sem tekur enga stund að búa til og ilmurinn sem fer um heimilið er virkilega ljúffengur og svo er náttúrlega alltaf svo notalegt að hafa súpu mallandi á hellunni í eldhúsinu. 

Kjúklingur Saltimbocca er einn af þessum réttum sem enginn fær nóg af. Kjúklingabringur með hráskinku, salvíu og ómótstæðilegri hvítvínssósu. Tilvalið á köldum dögum!

Ofboðslega gott og einfalt kjúklingapasta með heimagerðu pestói sem tekur enga stund að búa til en bragðlaukarnir fá svo sannarlega að njóta sín. 

Mæli með að þið kveikið á kertum þegar þið komið heim, eldið góðan mat og njótið með fólkinu ykkar. Þetta veðrið sem kallar á inniveru og kósíheit!

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups




Monday, October 17, 2016

Fimm myndir á mánudegi

Morgungrauturinn var af betri gerðinni í morgun en við Ingibjörg Rósa vorum heima í dag og þess vegna var hægt að nostra við morgunmatinn. Ég elska þennan graut en ég stappa alltaf 1/2 banana saman við hafragrautinn og strái síðan hörfræjum og bláberjum yfir. 

Ég fékk guðdómlega súkkulaðisendingu í dag og ég kemst ekki yfir það hvað þetta er gott, mæli sérstaklega með saltkaramellu-og lakkrískúlunum en þær eru algjörlega ómótstæðilegar. 

Mánudagsfiskinum var skipt út fyrir þetta ljómandi fína tómat- og mozzarella salat sem ég elska. Uppskriftin kemur inn á morgun, sáraeinföld og góð! 

Þessi fallegi ananas nýtur sín vel í eldhúsinu mínu en besta vinkona mín hún Agla sem býr í Danmörku gaf mér hann í innflutningsgjöf og hann minnir mig á hana. Allt sem minnir á hana gleður, sakna hennar semsagt óbærilega oft á tíðum. 

Ingibjörg Rósa hjálpaði mömmu sinni í garðinum fyrir kvöldmat, hún fékk ælupest um helgina er öll að koma til og við höfðum gott af því að fara aðeins út í góða veðrið. 

Mánudagur geta auðvitað verið gráir og erfitt að rífa sig í gang eftir ljúfa helgi en þá er einfaldlega gott ráð að líta aðeins í kringum sig og minna sig á hvað gleður. Í mínu tilfelli var það gæðastun með dóttur minni í dag, góður morgunmatur, gott súkkulaði, vinkonu áminning og tiltekt í garðinum. 

Vonandi eigið þið góða viku framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, October 13, 2016

Æðislegar kjúklinganúðlur

Kjúklinganúðlur með wasabi sósu 

  • 800 g kjúklingakjöt (ég notað úrbeinuð læri)
  • 2 dl sojasósa
  • 2 dl sweet chili sósa
  • 200 g núðlur
  • 1 rautt chili
  • 1 agúrka
  • 1 rauð paprika
  • 2 stilkar vorlaukur
  • kóríander
  • límóna
  • salt og pipar 
  • Wasabi hnetur
Aðferð:
  1. Blandið sojasósu og sweet chili sósunni saman.
  2. Leggið kjúklingakjötið í eldfast mót og hellið sósunum yfir. Gott er að leyfa kjúklingnum að marinerast í 1 – 2 klst. Þess þarf ekki en kjúklingurinn verður bragðbetri. Kryddið til með salti og pipar. 
  3. Eldið kjúklinginn við 180°C í 25 – 30 mínútur.
  4. Skerið agúrku, papriku og vorlauk mjög smátt.
  5. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
  6. Skerið kjúklinginn í munnbita þegar hann er klár og blandið honum saman við núðlurnar og grænmetið. Það ætti að vera sósa í fatinu sem er frábær út á núðlurnar.
  7. Berið núðlurnar fram með kóríander, límónu, bragðmikilli wasabi sósu og hnetum.

Bragðmikil sósa með wasabi og límónu 

  • 1 dós sýrður rjómi 10% t.d. frá MS 
  • 3 – 4 msk majónes
  • Wasabi paste, magn eftir smekk
  • Safinn úr hálfri límónu
  • 1 tsk hunang
  • Salt og pipar
Aðferð:
  1. Blandið öllu saman í skál, best er að byrja að setja minna en meira af wasabi þar sem það er afar sterkt. 
  2. Gott er að geyma sósuna í kæli í 30 mínútur áður en hún er borin fram. Það gildir með allar kaldar sósur.

Njótið vel.

Öll hráefni sem notuð eru í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

Thursday, October 6, 2016

Bananapönnukökur með Chia fræjum


Ég er sífellt að prófa mig áfram með hollari uppskriftir handa Ingibjörgu Rósu og að sjálfsögðu fyrir sjálfa mig líka. Það er svo auðvelt að grípa í hvítt brauð og eitthvað sem er kannski ekkert svo hollt og gott fyrir okkur. Hér er hollari útgáfa að pönnukökum sem ég baka oft handa okkur og eru mjög góðar. Gott er að setja t.d. ost og gúrku sem álegg ofan á þessar pönnsur. Prófið ykkur endilega áfram.

Bananapönnukökur með Chia fræjum 

ca. 8 litlar pönnukökur
  •  2 egg
  • 1 1/2 banani 
  • 1 - 1,5 dl Kornax heilhveiti 
  • 1 msk Chia fræ 
  • Smá kanill
Aðferð: 

1. Létt þeytið eggin, stappið banana og blandið saman. 
2. Bætið hveitinu smám saman við, byrjið á því að setja minna en meira ef ykkur finnst deigið of blautt þá bætið þið einfaldlega meiri hveiti saman við. 
3. Í lokin bætið þið Chia fræjum og kanil út í og hrærið vel. 
4. Hitið smjör á pönnukökupönnu og steikið í ca. 2 - 3 mínútur á hvorri hlið.
5. Berið fram með smjöri og osti. Svakalega gott og og hollt!



Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.


Wednesday, October 5, 2016

Súper gott kjúklinga Enchiladas með Mexíkó osti





Kjúklinga Enchiladas með Mexíkó osti 
  • Ólífuolía
  • 1 rauðlaukur
  • 1/2 rautt chili
  • 1 rauð paprika
  • 1 græn paprika
  • 2 hvítlauksrif 
  • salt og pipar
  • 2 kjúklingabringur 
  • 1 dós niðursoðnir tómatar 
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 mexíkóostur 
  • 1 dl vatn
  • Kóríander 
  • Tortilla kökur
  • Rifinn mozzarella
  • Sýrður rjómi 
  • Salsa 
Aðferð: 

  1.  Hitið olíu á pönnu, skerið niður grænmetið. 
  2.  Steikið laukinn í smá stund, bætið paprikum og chili út á pönnuna. 
  3. Pressið hvítlauksrif og bætið þeim einnig út á pönnuna. 
  4. Steikið kjúklingabringurnar á annarri pönnu eða eldið í ofni við 180°C í 20 mínútur. Kryddið bringurnar með kjúklingakryddi. Rífið bringurnar niður og bætið út á pönnuna. 
  5. Hellið tómötum og tómatmauki saman við. 
  6. Kryddið til með salti, pipar og smátt söxuðum kóríander. 
  7. Skerið mexíkó ostinn í litla bita eða rífið niður, setjið ostinn á pönnuna og hrærið. 
  8. Bætið smávegis af vatni saman við og leyfið þessu að malla í nokkrar mínútur.
  9. Setjið tortillakökur í eldfast mót, fyllið þær með kjúklingablöndunni og rúllið upp. 
  10. Sáldrið rifnum mozzarella osti yfir, ég reif einnig niður eina stóra mozzarella kúlu yfir. Það kom mjög vel út.
  11. Bakið við 180°C í ca. 20 - 25 mínútur eða þar osturinn er gullinbrúnn. 
  12. Berið fram með sýrðum rjóma, salsa, ferskum kóríander og gjarnan nachos flögum. 



Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Sunday, October 2, 2016

Belgískar vöfflur með súkkulaði og jarðarberjum

Sunnudagar eiga að vera til sælu, svo mikið er víst. Að byrja daginn á bakstri er einfaldlega vísir að góðum degi og í morgun ákvað ég að skella í þessar einföldu og gómsætu vöfflur með súkkulaði og jarðarberjum. Ég eignaðist svo fínt belgískt vöfflujárn um daginn og mér þykir svo gaman að baka þessar þykku og góðu vöfflur, það tekur enga stund að skella í vöfflurnar og ilmurinn um heimilið er himneskur. Uppskriftin er ekki stór en það er lítið mál að tvöfalda eða þrefalda hana, upplagt að skella í þessar fínu vöfflur í kaffitímanum í dag. 

Annars vona ég að þið eigið ljúfan sunnudag framundan með fólkinu ykkar, á morgun hefst prófavika hjá mér í háskólanum og eyði ég þess vegna deginum inni að læra. Ég strax orðin spennt fyrir næstu helgi en þá ætla ég að njóta þess að vera með Ingibjörgu Rósu. 

Belgískar vöfflur með súkkulaði og jarðarberjum

ca. 10 vöfflur (lítil uppskrift - auðvelt að tvöfalda eða þrefalda)
  • 2 bollar Kornax hveiti (ca. 5 dl ) 
  • 1 tsk lyftiduft 
  • 2 egg 
  • 1 tsk vanilla (extract eða sykur)
  • 3 msk sykur 
  • 1 bolli mjólk (2,5 dl)
  • 1 bolli AB mjólk (2,5 dl)
  • 3 msk ljós olía
  • Smjör
Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál. 
  2. Pískið tvö egg, hellið mjólkinni, olíunni og ab mjólkinni saman við og blandið við þurrefnin. 
  3. Blandið öllu vel saman og hitið vöfflujárnið, smyrjið járnið með smjöri og bakið vöfflurnar þar til þær eru gullinbrúnar. 
  4. Berið vöfflurnar strax fram og þær eru gómsætar með súkkulaði og jarðarberjum. Það er líka ótrúlega gott að rista nokkrar pekanhnetur og útbúa einfalda karamellusósu... þið getið sumsé borið vöfflurnar fram með öllu því góðgæti sem ykkur lystir. 


Ég vona að þið njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.