Saturday, September 28, 2013

Skemmtilegir tímar



Þess vika hefur verið ansi viðburðarrík. Ég skilaði af mér myndum fyrir bókina, svo nú er lítið eftir og það styttist óðum í að bókin komi út. Mikið hlakka ég til að sýna ykkur hana loksins. Svo tók ég upp matarinnslag fyrir Síðdegisútvarpið, ég hef verið á mánudögum undanfarnar vikur með eina uppskrift sem ég deili með hlustendum. Þið getið hlustað á upptökurnar hér. Í gær var mjög skemmtilegur dagur, ég stökk á fætur klukkan sex með fiðring í maganum. Við tókum upp fyrsta þáttinn "Í eldhúsinu hennar Evu". Ég var svolítið stressuð fyrst um sinn eins og gengur og gerist þegar maður prófar eitthvað nýtt og er óvanur, en stressið var fljótt að hverfa þegar ég fór að dúllast í matnum og vonandi kemur þetta vel út:) 

Ég vona að helgin ykkar fari vel af stað, veðrið er nú ágætt og upplagt að skella sér í göngutúr og baka síðan eitthvað gott með kaffinu. 

Góða helgi kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran


Monday, September 23, 2013

Rauðrófusafi sem bætir og kætir

 Vertu velkomin mánudagur... vikan lítur vel út og margt skemmtilegt framundan. Mér finnst mánudagar svo fínir, í morgun er  ég búin að skipuleggja vikuna og búa mér til dásamlegan safa.

 Í vikunni skila ég af mér öllum myndum fyrir bókina og fyrsti þátturinn "Í eldhúsinu hennar Evu" verður tekinn upp. Ég er með mörg fiðrildi í maganum, þetta verður skemmtileg vika með fjölbreyttum verkefnum. 

Ég átti nú svolítið erfitt með að vakna í morgun, svona eins og gengur og gerist á mánudögum eftir helgina. Ég byrjaði daginn á því að búa mér til safa, sem er svo góður og hressandi. Ég á ekki safapressu og nota bara blandarann minn, það virkar vel. Hér kemur uppskriftin, ég mæli svo sannarlega með að þið prófið. 

Rauðrófusafi 

600 ml ískalt vatn 
3 meðalstórar gulrætur
2 litlar rauðrófur 
5 cm engiferrót
1 sítróna
1 appelsína
smávegis af grænkáli 

Aðferð:

Flysjið og skerið grænmetið fremur smátt. Setjið vatn í blandarann og bætið hráefninu saman við, einu í einu. Í þeirri röð sem sést hér að ofan. Blandið í nokkrar mínútur, það er gott ráð að halda aðeins við lokið á blandaranum því þetta er mikið magn og það væri verra ef rauðrófusafinn myndi skvettast upp um alla veggi. ;-) 


Hér er safinn tilbúinn, sjáið hvað liturinn er ótrúlega fallegur. 


Ég læt safann minn alltaf í gegnum gróft sigti, þess þarf auðvitað ekki en mér finnst það betra

 Fallegur, bragðgóður og einfaldur safi sem bætir og kætir. 

 Ég vona að þið eigið góðan mánudag kæru vinir. 

xxx
Eva Laufey Kjaran 

Sunday, September 22, 2013

Súkkulaðidraumur

Á sunnudögum finnst mér svo notalegt að baka köku og dúllast hér heima við. Í dag er þannig dagur, reyndar ætla ég að baka nokkrar kökur þar sem ég er að klára að taka myndir fyrir kökukaflann í bókinni minni. Það verður kökufjör á þessu heimili í dag og mér leiðist það nú ekki.  Mig langar að deila með ykkur uppskrift að súkkulaðiköku sem ég geri voðalega oft, hún er ótrúlega einföld og góð. Ég mæli með að þið prófið hana í dag kæru vinir. 



Súkkulaðidraumur

140 g smjör, mjúkt
100 g flórsykur 
3 egg 
170 g súkkulaði, brætt
2 msk. hveiti 
1 tsk. vanillusykur
2 msk. kakó

flórsykur
fersk ber 

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C.  Hrærið saman smjör og flórsykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið eggjum út í, einu í einu. Hellið brædd súkkulaðinu saman við og hrærið vel í. Í lokin fer hveitið, vanillusykur og kakóið saman við. Hellið blöndunni í smjörpappírsklætt smelluform(24cm) og bakið í 25 - 30 mínútur.  

Sáldrið smávegis af flórsykri yfir kökuna áður en þið berið hana fram. 
Kakan er dásamleg með ferskum berjum og rjóma. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, September 16, 2013

Lífið Instagramað

Já, það er sko komið haust og kuldinn svo sannarlega farinn að segja til sín. Ég er kuldaskræfa og kann lítið að meta kulda, þó það sé vissulega kósí að vera inni á kvöldin með kveikt á kertaljósum þá er minna kósí að hlaupa út í bíl á morgnana. Ó jæja, ég ætla nú ekki að röfla um veðrið við ykkur. Dagurinn í dag hefur verið frekar skemmtilegur, fór á þrjá fundi sem voru allir voðalega góðir. Bókin farin að taka á sig skemmtilega mynd, mikið hlakka ég til að þess að sýna ykkur bókina loksins!. Tökur hefjast fljótlega á þáttunum og snillingurinn hún Andrea sem er að  hanna nýtt útlit fyrir bloggið er komin á gott skrið. Ég endaði daginn í Reykjavík á því að fara út að borða með vinkonu minni henni Guðrúnu Selmu sem er að flytja til Kaupmannahafnar í vikunni. Mikið sem það var ljúft og ég á nú eftir að sakna hennar heil ósköp. Mánudagar geta svo sannarlega verið skemmtilegir ef við bara gerum þá skemmtilega, við gleymum bara þessum kulda. 

Hér eru nokkrar myndir af Instagram, þar er ég voða dugleg að setja inn myndir og ykkur er velkomið að fylgjast með mér þar. Þið finnið mig undir evalaufeykjaran.

1. Það er sko enn sumar í Washington, ég og Vilhjálmur fórum á Kajak í góða veðrinu. 
2. Keypti mér  fallegan kjól í Ellu. 
3.  Þegar mamma er heima þá er veisla á hverju kvöldi. Namminamm 
4. Búið að sjæna fyrir myndatöku, Tara frænka mín er snilli. 
5. Ég var að vinna í forrétta kaflanum í bókinni minni í síðustu viku. 
6. Forsíða Lífsins, hressandi rjómabollumynd. haha.
7. Ný bók, gott rauðvín og súkkulaði. Svona sigrar maður leiðinlega veðrið. 
8. Ég naut mín í Boston um helgina með yndislegri vinkonu.

9. Allt að gerast. Það er ekki langt í bókina mína, Matargleði Evu.... 


Ég vona að þið eigið góða viku framundan kæru vinir, ég verð að koma mér í háttinn. Flug eldsnemma í morgunsárið. Góða nótt. 

xxx

Eva Laufey Kjaran



Thursday, September 12, 2013

Lífið

Lífið getur verið svo skemmtilegt og tækfærin mörg ef maður bara kýlir á þau.

 Afsakið bloggleysið kæru vinir, mér finnst það agalega leiðinlegt að hafa ekki tíma til þess að sinna blogginu nógu vel þessa dagana en fljótlega verða breytingar á því. Ég hlakka til að deila með ykkur uppskriftum í haust/vetur. Fljótlega verður breyting á blogginu, kærkomin breyting. Þá verður auðveldara fyrir ykkur að nálgast uppskriftir og bloggið verður þægilegra að mörgu leyti og svo ætla ég að bæta við skemmtilegum nýjungum sem þið verðið vonandi ánægð með.  

Nú fer að líða að því að matreiðslubók mín komi út, ég full tilhlökkunar og í leiðinni smá stressuð í leiðinni. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt verkefni og það verður gaman að sjá lokaútkomuna, það er verið að setja bókina upp og ég er að klára að taka síðustu myndirnar þessa dagana svo þetta er allt að smella. Það er mjög sérstakt að sjá hugmyndina sína verða að veruleika.

 Ég fékk skemmtilegt boð um daginn og ég ákvað að slá til, mér bauðst að vera með matreiðsluþætti á Stöð 3 núna í haust. Nú er ég að undirbúa þættina og ég hlakka mikið til að hefja tökur, þetta er eitt af því sem mig hefur langað til þess að prófa og ég er mjög spennt. 

Ég ákvað að byrjun haustannar að minnka við mig í skólanum þessa önnina, einfaldlega vegna þess að það eru svo  mörg skemmtileg tækifæri sem mér býðst um þessar mundir og ég vil grípa þau núna. Ég vil lifa í dag, gera það sem mér þykir skemmtilegt og ég nýt mín í. Annað væri eflaust tóm vitleysa. Ég er ánægð í náminu mínu og ég er ánægð í þeim verkefnum sem ég er að vinna í, það einfaldar hlutina að taka fáa áfanga og hafa tækifæri til þess að sinna bókinni, fluginu, þáttum, námskeiðum og fleira til. 

Lífið er í dag, ég þarf að minna mig á það á hverjum degi og það sama á við um okkur öll. Það er nauðsynlegt að fylgja því sem gerir okkur ánægð, því ef við erum ánægð þá gerum við hlutina miklu betur og fáum að njóta okkar í leiðinni. Það væri súrt að líta tilbaka eftir nokkur ár með eftirsjá. " Hvað ef..".  

Ég byrjaði á að segja hér fyrir ofan hvað lífið væri skemmtilegt og óvænt, fyrir nokkrum árum þá var ekki á planinu að stofna blogg sem ætti eftir að gefa mér svo mörg tækifæri. 
Það er ykkur að þakka kæru lesendur. 

Ég fór í myndatöku í gær og frænka mín hún Tara Pétursdóttir gerði mig fína. Hún er algjör snillingur og ég mæli svo sannarlega með henni. Ég var í myndatöku fyrir Lífið, en á morgun mun birtast viðtal við mig í því blaði.


xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, September 2, 2013

Halló mánudagur!

Gleðilegan mánudag kæru vinir. Ný vika, ný tækifæri og margt skemmtilegt framundan þessa vikuna. Ég byrjaði þennan mánudag á hressandi morgundrykk sem ég mæli með að þið prófið. Bætir og kætir. 


Hressandi mánudagsdrykkur

Handfylli spínat
3 dl frosið mangó í bitum
1 banani 
1/2 límóna, safinn
1 msk chia fræ (gott að leggja þau í bleyti í 10 mín) 
3 cm rifinn engiferrót
1 lítil vanillu skyrdós
smá skvetta agavesíróp eða lífrænt hunang
cayenne pipar (mjög sterkt, svo farið varlega! magn eftir smekk) 
appelsínusafi með aldinkjöti, magnið fer eftir smekk. 

Blandið öllu saman í blandara í 3 - 4 mínútur. Þessi skammtur dugir mér í tvö til þrjú glös yfir daginn. Mæli svo sannarlega með að þið prófið þennan drykk því hann er svakalega góður og næringarríkur. 


Ég vona að vikan ykkar fari vel af stað, ég er að vinna í allskyns skemmtilegum verkefnum og vikan byrjar mjög vel. Ég mæli með að þið hafið það fyrir reglu að skipuleggja eitt kvöld í viku  með fjölskyldu og vinum, bjóðið þeim í mat og njótið þess að vera saman. Það eru allir svo uppteknir og mikið að gera hjá öllum, en það er nauðsynlegt að hitta fólkið sitt og borða góðan mat. Stundirnar sem við eigum saman við matarborðið eru þær mikilvægustu í amstri dagsins, gefum okkur tíma fyrir fólkið okkar og höfum gaman. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, September 1, 2013

Ljúffeng bananakaka með pekanhnetum

Ef ég er í fríi á laugardögum þá þykir mér svo gaman að baka eitthvað gott, bakstursilmurinn gerir líka heimilið enn notalegra. Ég átti banana sem voru á síðasta snúning og ætlaði að búa til bananabrauð, en svo datt mér í hug að prófa að búa til bananaköku fyrst mig langaði í almennilega köku með kremi. Ég er yfir mig hrifin af pekan hnetum og þær gegna lykil hlutverki í kökunni að mínu mati, auðvitað getið þið sleppt hnetunum ef þið eruð ekki hrifin af þeim. Ég mæli alla vega með að þið prófið. 


Bananakaka með pekanhnetum 

Fyrir fjóra til sex

Uppskrift

2 egg
3 dl sykur
2 þroskaðir bananar
60 g smjör
3 1/5 dl hveiti 
1 tsk vanillu extract (eða vanillusykur)
1/2 dl mjólk
2 tsk lyftiduft
½ tsk kanil
50 g pekanhnetur

Aðferð:

Hrærið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Bræðið smjörið við vægan hita og leggið til hliðar. Sigtið saman hveiti og lyftiduft a.m.k. tvisvar sinnum saman og blandið saman við eggjablönduna. Merjið banana og bætið saman við ásamt mjólkinni, vanillu og smjörinu. Blandið öllu vel saman, saxið hneturnar smátt og bætið saman við í lokin.

Smyrjið form og hellið deiginu í formið. Bakið við  við 180°C í 45 - 50 mínútur.

Kælið kökuna mjög vel áður en þið setjið á hana kremið góða.

Rjómaostakremið dásamlega

100 g hreinn rjómaostur
100 g smjör
200 – 250 g flórsykur
1 tsk vanillusykur
50 g brætt hvítt súkkulaði
Ristaðar pekanhnetur, magn eftir smekk
karamellusósa

Hrærið saman rjómaostinum og smjörinu í tvær til þrjár mínútur, bætið flórsykrinum smám saman við og vanillu. Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og bætið út í kremið í lokin. Hrærið vel í blöndunni eða þar til kremið verður ljóst og létt.

 Dreifið kreminu yfir bananakökuna og sáldrið ristuðum pekanhnetum yfir. (ristið hneturnar í smá stund á þurri pönnu.) Fyrst við erum hvort sem er búin að setja ljúffengt krem á kökuna þá er alveg eins gott að fara alla leið og setja smávegis af karamellusósu yfir. Sósan setur punktinn yfir i-ið. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma og njótið.



 Ég vona að þið hafið átt góða helgi kæru vinir og að ný vika verði ykkur enn betri. Það er alltaf tími fyrir kökur svo ég mæli með að þið prófið þessa köku einn daginn, ég vona að þið njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran