Monday, September 29, 2014

Ljúffenga gúllassúpan

Þetta veður kallar á góða og matarmikla súpu, við þurfum mat sem hlýjar okkur að innan á köldum rigningardögum. Það er eins og hellt sé úr fötu! Ég verð að viðurkenna að það er sérstaklega notalegt að vera heima við á svona dögum, ég þarf þó að koma mér út í matarbúð fljótlega. Mig vantar hráefnin í þessa súpu sem er að mínu mati ein sú allra besta. Gúllas, beikon, rófur og fleiri ljúffeng hráefni saman í eitt. Uppskrift sem klikkar ekki. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru lesendur. 



Gúllasdraumur

Uppskrift miðast á við fjóra til fimm manns.
  • 600 – 700 g nautagúllas
  • 2 msk ólífuolía 
  • 3 hvílauksrif, marin 
  • 1 meðalstór laukur, smátt skorinn
  • 2 rauðar paprikur, smátt skornar
  • 2 gulrætur, smátt skornar
  • 1 sellerístöng, smátt skorinn
  • 1 msk fersk söxuð steinselja
  • 5 beikonsneiðar, smátt skornar
  • 1 ½ l vatn 
  • 2 – 3 nautakraftsteningar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 meðalstór rófa, skorinn í litla bita
  • 5 – 6 kartöflur, skrældar og niðurskornar
  • Salt og pipar, magn eftir smekk 
  • 1 tsk kummin
  • 1 tsk paprikuduft 

Aðferð:

Hitið olíu við vægan hita í potti, mýkið hvítlauk og lauk í smá stund. Bætið nautakjötinu, paprikum, gulrætum, sellerí, steinselju og beikoni saman við og brúnið í 5 – 7 mínútur. Bætið vatninu og teningum saman við, hrærið vel í. Setjið tómatana, tómatpúrru, rófu, karöflur ofan í súpuna. Kryddið til með salti, pipar, paprikukryddi og kummin. Leyfið súpunni að malla í 40 – 60 mín við vægan hita. Berið súpuna fram með brauði og sýrðum rjóma. 

Njótið vel!

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, September 18, 2014

Vinningshafar... Matargleði Evu




Ég er búin að draga út fimm lesendur sem fá bókina mína Matargleði Evu senda heim. Það voru tæplega 1500 sem tóku þátt í þessum gjafaleik og það gleður hjarta mitt mjög mikið að svo margir hafa áhuga á bókinni minni. Auðvitað væri gaman að geta gefið ykkur öllum en það er nú ekki svo gott.  Ég bendi áhugasömum á vefsíðu Sölku, þið getið keypt bókina þar. 

Hér fyrir neðan eru nöfnin á þeim lesendum sem fá bókina. 

  • Stefanía Hrund Guðmundsdóttir
  • Erla María Árnadóttir
  • Rebekka Líf Karlsdóttir
  • Anna Lilja Flosadóttir 
  • Heiður Hallfreðsdóttir 
 Takk fyrir að taka þátt kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Monday, September 15, 2014

Morgunmaturinn


Morgunmaturinn smakkast tvímælalaust betur ef hann er borinn fram í háu glasi. 
Grískt jógúrt, múslí, jarðarber, grófar kókosflögur, chia fræ og smá agavesíróp. 
Ljúffengur morgunmatur á þessum fína mánudegi. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir



Friday, September 12, 2014

Súkkulaðibollakökur fyrir súkkulaði sælkera

Ég bakaði þessar kökur fyrr í sumar eða nánar tiltekið þann fjórða júlí. Ég man það mjög vel vegna þess að daginn eftir var ég komin upp á sjúkrahús og þann 6.júlí kom dóttir mín í heiminn. Kannski voru það þessar kökur sem komu mér af stað?. Þær eru allavega ofsalega góðar og kremið er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég mæli með að þið prófið þessar kökur, ég vona að þið njótið vel! 

Súkkulaðibollakökur fyrir sælkera

  • 115 g súkkulaði, helst 50 - 70 % 
  • 90 g smjör, við stofuhita
  • 175 g sykur
  • 2 egg, aðskilinn 
  • 185 g Kornax hveiti 
  • 3/4 tsk lyftiduft
  • 3/4 tsk matarsódi
  • salt á hnífsoddi 
  • 2 1/2 dl mjólk
  • 1 tsk vanilla extract eða vanillusykur
  • 60 g dökkt súkkulaði, hakkað
Aðferð: Hitið ofninn í 200°C. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði, hrærið vel í á meðan og passið að súkkulaðið brenni ekki. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar og kælið. Þeytið saman sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós, blandið eggjarauðum saman við og þeytið áfram. Næsta skref er að hella súkkulaði saman við og halda áfram að þeyta. Sigtið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt. Blandið hveitiblöndunni saman við súkkulaðiblönduna og hrærið vel saman. Hellið mjólkinni varlega saman við og vanillunni. Stífþeytið eggjahvítur og blandið þeim varlega saman við deigið með sleif. Saxið dökkt súkkulaði og blandið við deigið í lokin. Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið við 200°C í 20 - 22 mínútur. Kælið kökurnar áður en þið setjið á þær krem. 









 Kremið sem ég sprautaði á kökurnar er hvítt súkkulaðikrem. Þegar ég baka bollakökur þá nota ég yfirleitt þetta krem, það er ofsalega bragðgott og það er mjög gott að skreyta kökur með þessu kremi. Ef ykkur finnst kremið ekki nógu stíft þá bætið þið meiri flórsykri saman við. 

  • 250 g smjör, við stofuhita
  • 400 - 450 g flórsykur
  • 150 g hvítt súkkulaði
  • 1 - 2 tsk vanilla extract eða sykur
  • 1 - 2 msk rjómi eða mjólk 
Aðferð:  Það er mikilvægt að gefa sér tíma fyrir þetta krem. Þeytið saman smjör og flórsykur í 5 - 6 mínútur, stoppið tvisvar sinnum og skafið meðfram hliðum. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og blandið því saman við kremið. Þeytið kremið í 3 - 4 mínútur. Næsta skref er að bæta vanillu og rjóma/mjólk. Ég vil að kremið sé mjög mjúkt og þess vegna finnst mér frábært að nota smá rjóma en það er auðvitað hægt að nota mjólk líka. Þeytið kremið í 4 mínútur til viðbótar eða þar til þið eruð ánægð með kremið. Ljúffengt krem sem að mínu mati er fullkomið á bollakökur. 



 Hvítu súkkulaðihnapparnir frá Nóa Síríus hafa reynst mér best. Ég er búin að prófa mörg önnur hvít súkkulaði í þetta krem en mér finnst það best með þessu súkkulaði. 




Hér er ég búin að sprauta kökurnar. Kremið er silkimjúkt eins og þið sjáið. Ég skreytti þær með súkkulaðiperlum frá Nóa og dökku súkkulaði sem ég reif niður með rifjárni. 




Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Tuesday, September 9, 2014

Matargleði Evu


Fyrir tæplega ári kom mín fyrsta matreiðslubók út, Matargleði Evu. Þið sem fylgist með blogginu á Facebook hafið sennilega tekið eftir því að ég ætla að gefa nokkrum lesendum bókina mína. Það hafa yfir þúsund manns skráð sig og ég er ótrúlega ánægð að svo margir hafi áhuga á bókinni minni. Ef þið hafið áhuga á að eignast bókina þá getið þið kvittað hér í athugasemdum á blogginu. Skrifið nafn og netfang svo ég geti haft samband við ykkur. 





















xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Sunday, September 7, 2014

Amerískar pönnukökur


Það er ekkert betra en að sofa út um helgar og byrja síðan daginn á ljúffengum morgunmat. Morgunkúrið um helgar hefur aldrei verið betra eftir að dóttir mín fæddist, það er svo gaman að vakna með skælbrosandi barninu sínu í morgunsárið. Það er besta leiðin til þess að byrja daginn að vísu - pönnukökuátið er í öðru sæti. 

Þessi uppskrift er mjög einföld og því lítið mál að hræra í nokkrar pönnukökur, þannig á það líka að vera þegar maður er nývaknaður. Berið pönnukökurnar fram með ferskum berjum og góðu sírópi.

Njótið vel. 


 Amerískar pönnukökur


  • 5 dl. hveiti 
  • 3 tsk. lyftiduft
  • 1/2 tsk. salt 
  • 1 Egg
  • 3 dl. AB mjólk (súrmjólk) 
  • 2 -3  dl. mjólk 
  • 3 msk. smjör (brætt) 
  • 1 tsk. vanilla extract eða vanillusykur
  • 1 msk. sykur 

Aðferð:

1. Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt. 
2. Bræðið smjör, leggið til hliðar og kælið.
3. Pískið eitt egg og mjólk saman. 
4. Næsta skref er að blanda öllum hráefnum saman í skál með sleif, ég blanda sykrinum saman við í lokin. 
5. Leyfið deiginu að standa í 30 - 60 mínútur áður en þið steikið pönnukökurnar. (þess þarf ekki en mér finnst þær verða betri ef deigið fær að standa í svolitla stund)
6. Hitið smá smjör á pönnukökupönnu og steikið pönnukökurnar í ca. mínútu eða tvær á hvorri hlið. Þær eru tilbúnar þegar þær eru gullinbrúnar. 

Þetta er frábær grunnuppskrift að pönnukökum en stundum bæti ég eplum, bláberjum, bönunum eða súkkulaðispænum út í deigið. Prófið ykkur áfram með það hráefni sem ykkur finnst gott... pönnukökur eru einfaldlega ljúffengar!


 Upp með svunturnar kæru vinir og prófið þessa uppskrift. Ég þori að lofa að þið eigið eftir að gera þessa uppskrift aftur og aftur. Uppskriftin er afar einföld og pönnukökurnar eru silkimjúkar og bragðgóðar. 

Njótið dagsins. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Tuesday, September 2, 2014

Ljúffengur lax í rjómasósu með döðlum og sólþurrkuðum tómötum.




September er genginn í garð og það er óhætt að segja að haustið sé komið, það hefur rignt talsvert undanfarna daga (ekki að það hafi ekki rignt í sumar, haha). Rigning og vindur, ég kalla það inniveður og þá er ekkert betra en að matreiða góðan mat. Í gær var svona dagur og mig langaði í eitthvað gott í kvöldmatinn. Ég var búin að lesa þónokkrar uppskriftir sem innihéldu döðlur og sólþurrkaða tómata, ég var aldrei búin að prófa að nota döðlur í matargerð. Ég nota þær óspart í baksturinn og mér finnst þær svakalega góðar einar og sér en ég var ekki komið svo langt að nota þær í matargerðina. Ég átti góðan lax og ég ákvað að prófa að elda hann með döðlum og sólþurrkuðum tómötum. 

Útkoman var ljúffeng, ég á eftir að matreiða þennan rétt mjög oft.  Döðlurnar og sólþurrkuðu tómatarnir gegna lykilhlutverki í þessum rétti en þessi tvenna er svakalega góð. Ég mæli með að þið prófið þennan einfalda og bragðgóða rétt. 

Lax í rjómasósu með döðlum og sólþurrkuðum tómötum. 
  • 500 - 600 g laxabitar (ca. 4 - 5 bitar)
  • olía til steikingar og smá smjörklípa 
  • 1 1/2 dl smátt skorinn púrrlaukur 
  • 10 döðlur, mjúkar og smátt skornar
  • 10 sólþurrkaðir tómatar, smátt skornir
  • 1/2 tsk. timjan 
  • salt og nýmalaður pipar, magn eftir smekk 
  • 2 - 3 dl rjómi.
Aðferð: 

Hitið ofninn í 180°C. Skolið fiskinn og þerrið vel. Hitið olíu á pönnu og steikið laxabitana á hvorri hlið í tvær mínútur. Kryddið laxinn með timjan, salti og pipar. Bætið smjörklípu út á pönnuna rétt í lokin. Leggið laxabitana í eldfast mót og byrjið að undirbúa sósuna. Steikið púrrlauk við meðalhita á pönnunni, bætið síðan döðlum og sólþurrkuðum tómötum saman við og steikið í smá stund. Bætið rjómanum við og blandið öllu vel saman. Það er gott að pipra sósuna svolítið í lokin. Hellið sósunni yfir laxabitana og setjið fiskréttinn inn í ofn við 180°C í 6 - 7 mínútur. 

Berið fiskréttinn fram með góðu salati og kartöflum/hrísgrjónum. Nýjar kartöflur eru svo gómsætar og passa mjög vel með þessum rétti.

Hér koma svo myndir af ferlinu, skref fyrir skref. 














xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir