Friday, January 31, 2014

Helgarblómin


Ég keypti þessa fallegu túlípana í gær. Það er svo gaman að eiga falleg blóm.Nú er föstudagur og helgin handan við hornið, ég vona að þið eigið öll ljúfa helgi framundan með fólkinu ykkar.

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, January 30, 2014

Guðdómleg skyrkaka með hvítu súkkulaði og ferskum berjum
Ég er yfir mig hrifin af osta- og skyrkökum. Þær eru eitthvað svo "creamy" og góðar. Ég fæ til mín svo góða gesti í mat í kvöld að ég ákvað að hafa góða köku í eftirrétt. Ég er ekki að plata ykkur þegar ég segi að þessi kaka er af einföldustu gerð, það tekur hámark 30 mínútur að búa hana til. Svo þarf hún bara að vera í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt og þá er hún tilbúin. Ég elska góðar kökur og hvað þá ef þær eru einfaldar og fljótlegar. Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa köku. Hún er virkilega góð, ég lofa ykkur því. Tilvalið að hafa hana sem eftirrétt eða þá bara í kaffitímanum. Ég er líka viss um að þessi kaka myndi nú slá í gegn í Eurovision boðum um helgina. 

Hér kemur uppskriftin. Njótið vel kæru lesendur. 


Uppskriftin er fyrir sex til átta.


Byrjum á því að mylja kexkökurnar í matvinnsluvél eða i blandaranum. Bætið smjörinu einnig saman við kexið, smjörið á að vera kalt. 

Ég notaði lausbotna pæ-form en þið getið auðvitað notað hvaða form sem er. Það er betra að nota lausbotna. Þetta form er 24x25 cm. 

Þrýstið kexblöndunni á botninn og upp með börmunum á bökunarforminu, notið bara hendurnar til þess. Það er einfaldara. 

Kælið botninn á meðan að þið útbúið fyllinguna. 

Leynivopnið í kökunni er án efa þetta dásamlega súkkulaði, hvítir súkkulaðidropar. 

Léttþeytið rjóma og leggið til hliðar. Blandið skyrinu, flórsykrinum og vanillusykrinum saman í hrærivél í örfáar mínútur. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið í smá stund (en ekki of lengi, það verður að vera silkimjúkt). Hellið súkkulaðinu út í skyrblönduna og hrærið saman með sleif. Bætið rjómanum saman við í lokin og hrærið vel saman. 

Dreifið skyrblöndunni yfir kexbotninn með sleif. 


Mér finnst rosalega gott að setja fersk ber ofan á kökur, þið getið notað hvaða ber eða ávexti sem þið viljið. Jarðarber og bláber eru í mínu eftirlæti svo ég notaði þau í dag. 


Sigtið smá flórsykri yfir kökuna og rífið endilega smávegis af súkkulaði yfir. Það gerir kökuna enn betri. Hún er best ef hún fær að vera lengi í kæli. Lágmark 3 klukkustundir en mér finnst líka gott að geyma hana yfir nótt. 

Algjör draumadís. Mikið er ég orðin spennt að gæða mér á henni með fjölskyldunni minni í kvöld. 

Ég mæli með að þið prófið og njótið. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


Wednesday, January 29, 2014

Instagram myndir


 1. Hjá Danna á Senter í vetrarhressingu. 
2. Klúbbsamlokan á Snaps er gúrm, mæli með að þið prófið. 

 3. Já fleiri matarmyndir, laugardagshuggulegheit á kaffihúsi í miðbænum. 
4. Eldhúsið mitt í Vesturbænum

 5. Yfirheyrsla í Fréttablaðinu. Léttar og skemmtilegar spurningar. 
6. Ég fór á þorrablót Skagamanna um síðustu helgi og skemmti mér ótrúlega vel, með mér á myndinni er Aldís Birna ofurfagra svilkona mín. 

 Í dag eyddi ég deginum með blaðamönnum frá Jamie Oliver tímaritinu í Bretlandi. Við löbbuðum um Reykjavík og ég sýndi þeim marga dásamlega veitingastaði sem við erum svo heppin að eiga. Það var ekki leiðinlegt að monta sig af góða og fjölbreytta matnum okkar hér á Íslandi.

Ykkur er meira en velkomið að fylgjast með mér á Instagram, mér finnst voða gaman að setja inn myndir af lífinu já þá einna helst myndir af góðum mat. Finnið mig undir evalaufeykjaran

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir 

Thursday, January 23, 2014

Heimakær

Birtan var svo fín í gær þegar sólin ákvað að skína örlítið. 
AB mjólk, special K og bláber í morgunsárið.

Nú eru liðnir tveir mánuðir frá því að við fluttum hingað í Vesturbæinn og okkur líður mjög vel. Mér finnst Vesturbærinn eiginlega vera eins og lítill bær, eins og Akranes. Stutt í allt og mjög þægilegt að vera hér. Íbúðin okkar verður líka heimilislegri með hverjum deginum og nú vantar mig bara nokkrar myndir á vegginn  og þá ætti allt saman að vera komið í bili. 

Það er líka sérstaklega notalegt að geta unnið heima fyrir þennan morgunin því veðrið úti er lítið spennandi. En ég þarf nú samt að koma mér af stað í nokkur verkefni eftir hádegi. Ég hef þó klukkustund til þess að hlusta á Coldplay og dunda mér í rólegheitum. Það finnst mér ansi fínt. 

Ég vona að þið eigið góða helgi framundan. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Tuesday, January 21, 2014

Já nú sigrum við janúar og febrúar!

 Það eru tveir mánuðir á árinu sem að mínu mati líða svolítið hægt, þá er ég að tala um janúar og febrúar. Þeir geta verið gráir og pínu fúlir. En við getum auðvitað alltaf tekið málin í okkar hendur og verið dugleg við að hitta fólkið okkar, hreyfa okkur og borða góðan mat auðvitað. Að plana og hafa eitthvað til þess að hlakka til er svo skemmtilegt (finnst mér, ég er pínu plan-óð). Hér eru nokkur dæmi sem hægt er að gera til þess að hressa upp á þessa ágætu en gráu mánuði. 

Að sáldra smá súkkulaði út í morgunkaffið eða fá sér einn bita af dökkum súkkulaðibita með, það er eitthvað við elsku súkkulaðið sem hressir og kætir. 

 Veðrið er búið að vera ágætt hjá okkur í janúar og vonandi helst það svona fínt (þ.e.a.s ekki snjór og leiðindi, já ég kalla það leiðindi). Reimið á ykkur íþróttaskóna og farið út að labba eða hlaupa. Það er ótrúlegt hvað hreyfingin hefur góð áhrif á okkur. Allt verður mikið betra eftir góða útiveru. 
 Hér fyrir ofan eru nokkur ágæt hlaupalög. 


 Planið matarboð með vinum og fjölskyldu, mér finnst fátt skemmtilegra en að hitta fólkið mitt og borða með þeim góðan mat. Það er sérstaklega skemmtilegt að velja þema og fá alla til þess að taka þátt í matargerðinni, í bókinni minni Matargleði Evu er ég með tvö þemu af matarboðum. Sushi veisla og mexíkóskt matarboð. Farið saman í búðina, veljið hráefnin og farið heim að elda. Það er uppskrift að stórgóðu kvöldi.

 Skelltu þér á matreiðslunámskeið eða á bakstursnámskeið hjá Salt eldhúsi. Ef þig langar að læra að búa til makkarónur, ferskt pasta eða baka þitt eigið brauð þá er þetta eitthvað fyrir þig. 

Hádegis-og kvöldverðardeit með fólkinu ykkar. Það brýtur svo sannarlega upp daginn og er að mínu mati nauðsynlegt að gera allavega einu sinni í viku. Í hádeginu finnst mér dásamlegt að fara á Jómfrúnna eða á Snaps. Mjög skemmtilegir staðir og maturinn sérlega góður. 

 • Bíóferðir eru alltaf skemmtilegar, ég held að ég sé búin að fara oftar núna í bíó í janúar en ég gerði yfir allt árið í fyrra. Það eru svo góðar myndir í bíó þessa stundina. 
 •  Að baka köku á kvöldin og njóta með glasi af mjólk. Það er hversdagslúxus. 
 • Taka almennilega til, henda gömlu dóti eða gefa. Við getum verið svo dugleg að safna allskyns hlutum og fötum sem við notum ekki lengur. Það er ágætt að nota janúar og febrúar í tiltekt, gera heimilið ferskt og fínt fyrir vorið. 
Það er svo margt skemmtilegt sem við getum gert daglega með fólkinu okkar, við ráðum því alveg sjálf. Ég vona að þið eigið góða viku framundan kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Friday, January 17, 2014

Ofnbakaður Camenbert

Ég ætla að deila með ykkur uppkrift að dásamlegum ofnbökuðum camenbert, þessi uppskrift er í bókinni minni Matargleði Evu. Ég er sérstaklega hrifin af ostum og gæti borðað þá í öll mál, ofnbakaðir ostar eru i´sérstöku uppáhaldi. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift um helgina. Fullkomið sem forréttur eða eftirréttur... svo gott að narta í góða osta á kvöldin. Sérstaklega í góðum félagsskap. Hér kemur uppskriftin, ég vona auðvitað að þið njótið vel. 

Bakaður camenbert er auðvitað algjört lostæti,
 hann einn og sér bræðir öll hjörtu.
 • 1 camembert
 • 1 msk smjör
 • 2 tsk góð fíkjusulta
 • handfylli heslihnetur
 • fersk hindber og bláber
Aðferð:


 1. Bræðið smjör, penslið ostinn með smjöri og leggið ostinn í eldfast mót.
 2. Snöggsteikið heslihneturnar í smjörinu sem er eftir. Það er algjört smekksatriði hvað maður notar mikið af hnetum og þið getið notað hvaða hnetur sem er. 
 3. Setjið væna skeið af fíkjusultunni yfir og í lokin hneturnar.
 4. Bakið ostinn við 180°C í 8 - 10 mínútur. 
 5. Dreifið ferskum berjum yfir ostinn þegar hann er kominn út úr ofninum, berið fram með ristuðu brauði eða kexi. 
Njótið vel.


Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Wednesday, January 15, 2014

Ljúffeng vetrarsúpa með kóríander, avókadó og steiktum tortillakökum.

Ég elska góðar og matarmiklar súpur sem ylja á köldum kvöldum. Fríða vinkona mín bauð okkur í vinahópnum upp á gómsæta súpu um daginn. Ég kolféll fyrir súpunni og prófaði að gera hana strax daginn eftir handa fjölskyldunni minni. Svo góð er hún að ég fæ ekki nóg.

Myndavélin var batteríslaus svo síminn bjargaði mér að þessu sinni, símamynd. 
Ljúffeng vetrarsúpa með kóríander, avókadó og steiktum tortillakökum.
Uppskrift fyrir 3 - 4 
 • 1 msk. olía
 • 1 rauðlaukur, smátt skorinn
 • 2 hvítlaukrif, pressuð
 • 1 1/2 rauð paprika
 • 5 - 6 gulrætur
 • 1 1/2 krukka hakkaðir tómatar, ég notaði tómata í krukku frá Sollu
 • 1 - 2 msk. tómatpúrra 
 • 1,2 - 1,5 l vatn + 2 grænmetis eða kjúklingateningar
 • 1 tsk. paprikukrydd
 • 1/2 tsk. þurrkuð basilíka
 • 1/2 tsk. þurrkað koríander (eða ferskt, það er betra)
 • smá chilikrydd, smekksatriði hvað þið notið mikið. Prófið ykkur áfram, kryddið er frekar sterkt.
!Fríða var með kjúkling í súpunni en ég sleppti honum. Súpan er mjög góð með kjúkling. Notið þá ca. 500 - 600 g af kjúklingakjöti. Skerið kjúklingakjötið í litla bita og steikið á pönnu í smá stund og bætið kjúklingnum síðan saman við súpuna. 

Aðferð:

Hitið olíu í potti við vægan hita, steikið laukinn og hvítlaukinn í smá stund. Hreinsið grænmetið og skerið í litla bita, bætið grænmetinu saman við og steikið í smá stund (1 - 2 mín). Bætið vatninu, hökkuðum tómötum og tómatpúrru saman við. Kryddið til með grænmetis-eða kjúklingakrafti. Því næst fara þau krydd sem ég tel upp hér að ofan, endilega prófið ykkur áfram með kryddin. Leyfið súpunni að malla í lágmark 30 mínútur. Mér finnst súpan alltaf betri ef hún fær að malla svolítið lengi. 

Meðlæti, það sem vð látum ofan á súpuna. 

 • 1 msk. olía
 • tortillakökur, skornar í litla bita 
 • sýrður rjómi 
 • avókadó, smátt skorið 
 • ferskur kóríander, smátt saxaður 
 • fetaostur
Hitið olíu við vægan hita á pönnu og steikið tortillakökurnar, skerið þær fyrst í litla bita. Það er dásamlegt að setja sýrðan rjóma, steiktar tortillakökur, avókadó, mulinn fetaost og ferskan kóríander yfir súpuna. Hver og einn getur sett saman sína súpu. Ég elska að hafa mikið í minni súpu. Það kom mér sérstaklega á óvart hvað það er gott að setja ferskt avókadó í súpur.


Einfalt, fljótlegt og dásamlega gott. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, January 9, 2014

Byrjun á nýju áriLoksins fann ég myndavélasnúruna mína svo nú get ég deilt með ykkur myndum kæru vinir. Byrjum bara árið á myndum sem ég tók í morgun, dagurinn í dag hefur farið í að plana næstu vikur og mánuði. Já, ég er ein af þeim sem verð að skrifa allt niður og skipuleggja mig vel og vandlega, annars fer allt í kaós. Verkefni morgundagsins er meðal annars að kaupa dagbók, já það er ekki nóg að skrifa plönin niður í tölvuna mér finnst eiginlega betra að nota gömlu góðu dagbókina. 

Árið byrjar vel, janúar er alltaf að mínu mati svolítið grár mánuður en hann hefur verið ansi ljúfur hingað til. Veðrið er líka búið að vera svo fínt og ég hef byrjað daginn á því að fara í sund og það er svo hressandi. Mikið er líka gott þegar sólin skín, ég hlakka til vorsins. 

Það eru nóg af verkefnum framundan og ég hlakka til að deila þeim með ykkur. Fyrsta verkefnið mitt hér á blogginu er að deila með ykkur uppskrift að dásamlegri súpu. Ég smakkaði súpuna hjá vinkonu minni í vikunni og uppskriftin verður komin hingað inn á bloggið í kvöld. Dásamleg kjúklingasúpa með kóríander, ferskum avókadó og stökkum tortilla vefjum. 

Ég vona að árið fari vel af stað hjá ykkur.

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir