Sunday, December 30, 2012

Bloggárið 2012.

Árið 2012 er senn á enda, mjög gott ár sem hefur verið viðburðarríkt og mjög lærdómsríkt. Undanfarin tvö ár þá hef ég litið yfir bloggfærslur ársins og tekið saman þær færslur sem hafa verið vinsælastar það árið. Það kom mér skemmtilega á óvart að bakstursfærslurnar eru mjög vinsælar. Bakstur er svo sannarlega í uppáhaldi hjá mér svo það gleður mig að sjá að þið hafið líka mjög gaman af bakstrinum. 

Mig langar til þess að byrja á að þakka ykkur lesendum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Þúsund þakkir fyrir falleg orð, athugasemdir og tölvupósta sem ég hef fengið frá ykkur. Það er ómetanlegt að eiga góða lesendur og mér þykir ótrúlega vænt um að þið skulið gefa ykkur tíma til þess að líta hér inn á bloggið mitt. Þúsund þakkir, þið eruð frábær.  .

Ég tók saman nokkrar færslur sem hafa verið vinsælar árið 2012, ég vona að þið njótið vel kæru vinir.
Vinsælasta uppskrift/færsla ársins var Mexíkósk kjúklingasúpa.  Það kemur mér lítið á óvart, þessi súpa er svakalega góð og á alltaf vel við. Ég hef ekki tölu á því hve oft ég hef eldað þessa súpu þetta árið. Það er fátt betra en að gæða sér á henni á köldu vetrarkvöldi. 
Oreo bollakökurnar voru sérdeilis vinsælar þetta árið enda með eindæmum dásamlegar bollakökur. Að mínu mati er allt sem inniheldur Oreo ofsalega gott. 
Þessi fiskréttur er sá allra besti sem ég hef smakkað, uppskriftin kemur frá móður minni. Ég lét uppskriftina inn að þessum fiskrétt árið 2011 en mér finnst hún vel eiga heima yfir vinsælustu færslurnar árið 2012 vegna þess að hún er mikið skoðuð þessi færsla. Fiskrétturinn hennar mömmu er algjört afbragð.

Gulrótarkakan dásamlega á svo sannarlega skilið að vera á þessum lista. Kremið er það besta sem ég hef smakkað, ég fann uppskriftina að kreminu í matreiðslutímariti. Ég er sérlega mikið fyrir gulrótakökur og þessi er líklega sú besta sem ég hef smakkað. 
Einfaldleikinn er oft bestur og þessi eplakaka er gott dæmi um það. Þessi kaka er virkilega einföld og fljótleg en bragðast guðdómlega. Mjög gott að bera hana fram með ís og karamellusósu. Ég baka þessa köku mjög oft, sérstaklega þegar von er á gestum með stuttum fyrirvara. 
Mexíkósk matargerð er í miklu uppáhaldi hjá mér og það er gaman að sjá að þið hafið líka gaman af. Ég bjó til mexíkóskt lasagna handa bræðrum mínum og þeir voru ferlega ánægðir með réttinn svo ég ákvað að deila þessum rétti með lesendum og hann hefur verið mjög vinsæll hér á blogginu.

Ég keypti mér nokkra kökustúta frá Wilton fyrr á þessu ári og síðan  þá hef ég mikið verið að skreyta kökur svo þær líti út eins og rósir. Mér finnst það sérstaklega fallegt. Vanillubollakökur eru alltaf vinsælar og einfalt smjörkrem, í færslunni eru einnig skref fyrir skref myndir sem sýna  hvernig eigi að  búa til rósir á kökur. 
 Vinahópurinn hélt tvö Babyshower á árinu. Babyshower eða gjafaveislur eru veislur sem haldnar eru til heiðurs tilvonandi mæðrum. Líkt og nafnið gefur til kynna þá er hugmyndin með slíkri veislu að tilvonandi móðirin sé böðuð í gjöfum. Fáar veislur eru eins skemmtilegar þar sem vininir leggja allir hönd á plóg til þess að undirbúa veislu fyrir vinkonu sem á von á sínu fyrsta barni. Mikil stemmning og eftirvænting ríkir í vinahópnum eftir litla krílinu. 
 Það er nú fátt sem jafnast á við sænsku kanilsnúðana með glassúr. Þeir eru ljómandi góðir og fanga svo sannarlega augað. Snúðarnir eru bestir nýkomnir út úr ofninum og ískalt mjólkurglas verður að fylgja með. Ég baka þessa snúða oft á sunnudögum og ég gjörsamlega elska lyktina af þeim. Heimilið verður mun huggulegra. 

Franskar Makrónur. Ég fór til Parísar árið 2011 með manni mínum og það var frábært frí. París er ótrúlega falleg og skemmtileg borg. Ég naut þess að skoða bakaríin og gæða mér á petit-sætabrauðum.. Við fórum nokkur kvöld á Ladurée og fengum okkur gómsætar makrónur og drukkum kampavín með, það er allt leyfilegt í París. Ég ákvað að prufa að gera Makrónur þegar heim væri komið sem og ég gerði með ágætum árangri, auðvitað voru þær ekki samanburðarhæfar við kökurnar í Ladurée en góðar voru þær.
Ég komst alla leið til Parísar í huganum og naut þess í eitt augnablik! 

Ég baka mikið af smábitakökum og mér finnst mjög gott að gæða mér á nýbakaðri smábitaköku. Það er virkilega einfalt og fljótlegt að baka smábitakökur. Þessar kökur eru í uppáhaldi hjá mömmu minni svo þær fá auðvitað að vera með á listanum. Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá er hvítt súkkulaði í miklu eftirlæti hjá mér og nota ég það mikið í baksturinn. Ég mæli hiklaust með þessum súkkulaðibitakökum.

Ég hlakka til að deila enn fleiri uppskriftum með ykkur árið 2013. Það er margt spennandi í kortunum sem gaman verður að deila með ykkur á nýju ári.

Gleðilegt nýtt ár og ég óska ykkur öllum farsældar á nýju ári. Ég vona að árið 2013 færi ykkur ómælda gleði og hamingju. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Brúðkaupsundirbúningur..

 Dagurinn í gær var algjörlega frábær. Maren systir mín gekk að eiga unnusta sinn hann Andra. Athöfnin var mjög falleg og veislan ótrúlega fín. Ég tók nokkrar myndir af brúðkaups-sjæningunni sem mig langar að deila með ykkur. 
Maren Rós opnar kampavínsflösku og það var skálað, auðvitað.

 Mamma fér sér sopa af góðu kampvíni
 Aldís Birna förðunarsnillingur, Maren og Silja frænka. 
 Stefa á Mozart var með ljúffengar veitingar fyrir okkur.

 Hér er verið að mála og gera hana ömmu fína. 
 Rebecca og Daisy, kærustur bræðra minna. Yndislegar. 
 Stefa á Mozart, algjör snilli. 
 Verið að leggja lokahönd á fallegu brúðurina
 Við Daníel skáluðum auðvitað nokkuð oft. 
Spenntar systur. 

Brúðhjónin voru þau allra glæsilegustu og þau eru mér ansi kær. Þetta var draumur í dós. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, December 28, 2012

Nú skal baka..brúðartertu

 Stóri dagurinn hjá Mareni systur minni er á morgun. Spennan er mikil og það er mikið að gera. Allir með sitt hlutverk og allt að verða klárt. Ég fæ að sjá um brúðartertuna eins og ég var búin að segja við ykkur svo nú hugsa ég eingöngu í smjöri og sykri.
 Við völdum svakalega einfalda tertu, súkkulaðikaka með súkkulaðimús og kremið er vanillukrem.
Einföld en mjög ljúffeng. Ég vona alla vega að þetta komið vel út! Okkur finnst hún góð og vonandi finnst gestunum slíkt hið sama.
Ég er svo heppin að eiga góða ömmu sem er mín aðal hjálparkona, við dúllum okkur hér heima við að fylla kökurnar með súkkulaðimús á meðan allir eru að græja salinn.
 
 
Sumsé mikil spenna og tilhlökkun fyrir stóra deginum.
 
xxx
 
Eva Laufey Kjaran

Komdu með mér í gamlárspartí....

Fáeinir dagar í áramót og þá er nú aldeilis tilefni til þess að gleðjast með fjölskyldu og vinum.
Í nýjasta tölublaði Gestgjafans er að finna bestu uppskriftirnar árið 2012. Þar að auki eru uppskriftir að kokteilum sem henta mjög vel í áramótapartí. Mér fannst regulega gaman að blanda þessa kokteila og ég hlakka mikið til að blanda nokkra um áramótin með vinum mínum. 


Þeir kokteilar sem er í miklu eftirlæti hjá mér eru Mojito með ástaraldin og Jóla Magnús. 
Magnús Örn Sölvason sem starfar á veitingastaðnum Galító á Akranesi fékk fyrstu verðlaun fyrir þann  kokteil á Íslandsmeistaramóti barþjóna. Án efa jólakokteillinn í ár. 
Mæli svo sannarlega með að þið blandið nokkra ljúffenga kokteila um áramótin með fólkinu ykkar. 
Njótum þess að vera saman og göngum hægt um gleðinnar dyr. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, December 26, 2012

Jólahuggulegheit

Ég er búin að vera í svo góðu yfirlæti hjá fjölskyldunni minni og tengdafjölskyldu yfir jólin.
Ég er búin að borða á mig gat og gott betur en það. Virkilega huggulegt að labba á milli húsa og gæða sér á gómsætum kræsingum, það kann ég vel að meta. Sjónvarpsgláp, huggulegar stundir með fjölskyldunni og göngutúrar til þess að rýmka til í maganum fyrir fleiri kræsingar hafa einkennt þessi jól. Ég hef varla komið nálægt eldavélinni sjálf, nema þá bara til þess að smakka til hjá yfirkokkunum. 

Systir mín er að fara að gifta sig eftir þrjá daga, ég fæ að gera kökuna og sé um veislustjórn svo nú er verið skipuleggja og skipuleggja, búin að ákveða með kökuna og bakstur hefst á morgun. Þið fáið auðvitað að fylgjast með frumraun minni í brúðarkökugerð. Annað væri nú algjör hneisa. 

Nú ætla ég hins vegar að drífa mig út að hlaupa, það eru víst tvö jólaboð í kvöld svo ég verð eiginlega að rýmka vel til í maganum fyrir komandi veislur. 

Ég vona að þið eigið ljúfar stundir með ykkar fólki elsku vinir

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, December 24, 2012

Jólakveðja


Gleðileg jól elsku vinir. Ég vona að þið hafið það sem allra best yfir jólin og njótið þess að vera til með ykkar fólki. Jólakossar og knús frá mér. Myndin hér að ofan var tekin fyrr í kvöld (aðfangadagskvöld). Systkinin mín og amma og afi. Virkilega huggulegt kvöld með elsku fólkinu mínu. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, December 23, 2012

Brúðkaup..

Systir mín hún Maren Rós er að fara að gifta sig eftir viku. Ég hlakka ofboðslega mikið til og ég er svo heppin að fá að baka kökuna. Það var smá æfing í gær og mikið sem það er gaman að skreyta kökur. 
Rómantískar og fínar kökur sem fanga augað. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, December 21, 2012

Dökkar súkkulaðibitakökur og marenstoppar.

Smákökur eru vissulega ómissandi um jólin, það er mjög gaman að prufa nýjar uppskriftir og það er alltaf ákveðinn sjarmi að baka kökurnar sem hafa fylgt fjölskyldunni í mörg ár. Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að dásamlegum súkkulaðibitakökum en uppskriftina að þeim fann  ég í norsku tímariti sem ég held mikið upp á. Marenstopparnir hennar mömmu hafa alltaf verið í miklu eftirlæti hjá mér og ég leit alltaf á þær sem "spari" smákökurnar. Þær eru mjög einfaldar en ótrúlega góðar. Ég vona svo sannarlega að þið njótið vel kæru vinir. 
Dökkar súkkulaðibitasmákökur

115 g smjör, við stofuhita
130 g púðursykur
1 egg
160 g hveiti
30 g kakó
1 tsk vanillu extract (eða vanilludropar)
130 g dökkt súkkulaði (brætt yfir vatnsbaði)
250 g súkkulaðihnappar (dökkt súkkulaði)
1 tsk lyftiduft

1.       Byrjið á því að bræða 130 g súkkulaði yfir vatnsbaði og leggið til hliðar.
2.       Þeytið sykur og smjör saman þar til blandan verður létt og ljós.
3.       Bætið egginu og vanillu saman við og hrærið vel.
4.       Sigtið þurrefnin saman, bætið hveitiblöndunni og brædda súkkulaðinu saman við.
5.       Að lokum bætið þið súkkulaðihnöppum eða grófsöxuðu súkkulaði saman við með sleif. Þið getið auðvitað notað hvaða súkkulaði sem er, mér finnst dökkt súkkulaði voðalega gott en þessar kökur eru dásamlegar með öllu súkkulaði.
6.       Ég notaði msk til þess að búa til kúlur. Setjið kúlurnar á bökunarpappír í ofnskúffu og þrýstið smávegis á kúlurnar áður en að þið setjið þær inn í ofn. 
Bakið í miðjum ofni við 160°C í 12 mínútur.  


Ég bræddi smávegis af súkkulaði og dýfði kökunum ofan í, skreytti þær svo með sykurskrauti. 
Algjör súkkulaðisæla og kökurnar smökkuðust mjög vel að mínu mati. 


Marenstopparnir hennar mömmu
3 stk eggjahvítur
200 g sykur
1 tsk vanillu extract eða vanilludropar
180  g súkkulaði, smátt saxað
100 g mulið kornflex

70 g kókosmjöl

Stífþeytið eggjahvítur og sykur, bætið vanillu saman við þegar marensinn er alveg að verða klár. Saxið súkkulaðið smátt og myljið kornflexið, blandið því varlega saman við marensinn með sleif. Ég notaði tsk til þess að búa til kökurnar. Setjið þær á bökunarpappír í ofnskúffu og bakið í miðjum ofni við 150°C í 15 – 20 mínútur. 

Þessar kökur eru virkilega góðar, marenstopparnir hafa verið í eftirlæti hjá mér frá því að ég var lítil og þær eru algjörlega ómissandi á jólum að mínu mati. Súkkulaðibitakökurnar smökkuðust mjög vel og ég á eftir að baka þá uppskrift mjög oft. 

Ég vona að þið hafið það gott og að þið séuð ekki í of miklu jólastressi. 
Vonandi eigið þið ljúft kvöld framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, December 20, 2012

Jóladagur með frábærum vinum

Ég átti dásamlegan dag með frábærum vinum mínum. Við stofnuðum klúbb fyrir nokkrum árum, Bíóklúbbinn Bríet. Við höfum það fyrir reglu að hittast fyrir jólin, borða saman og skipast á gjöfum. Það er krúttlegt og ótrúlega skemmtilegt.Mig langaði til þess að deila með ykkur nokkrum myndum frá því í dag, sannkallaður jóladagur í Reykjavík. 
Aglan mín sæt og fín. 
Skál í boðinu, klúbburinn eignaðist tvö börn á árinu og því ber að fagna. 
Lúxusplatti á Restaurant Reykjavík. Mjög huggulegur veitingastaður og frábær matur. 
Stefán Jóhann er sjarmatröllið í okkar vinahóp. 
Ég og Fríða mín fengum okkur jólaglögg og vorum kampakátar með það. 
Fríða, Eva og Stefán. Fallegu fallegu vinir mínir. 

Brugðið á leik í jólalandi á Ingólfstorgi. 

Þegar að við löbbuðum niður Laugaveginn þá fundum við dásamlega lykt streyma á móti okkur, lyktin var af ristuðum möndlum. Einstaklega huggulegt!

Yndislegur dagur með frábærum vinum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran