Friday, December 19, 2014

Toblerone marengsterta.


Ég er afskaplega mikið fyrir góðar marengstertur og þessi er sú allra besta. Ég fékk þessa uppskrift hjá Eddu systur minni. Hún hlýtur að vilja deila henni með ykkur, hún fær engu um það ráðið blessunin. Þessi terta er svakalega einföld og góð, ef ykkur finnst marengs, rjómi og súkkulaði gott þá ættu þið að prófa þessa uppskrift. Það er tilvalið að bera þessa tertu fram sem desert á jólunum eða einfaldlega með kaffinu um helgina. Marengsterta er alltaf góð hugmynd. Ég mæli einnig með því að þið frystið tertuna. Ég er einmitt með eina í frystinum sem ég ætla að bjóða mínu fjölskyldunni upp á um jólin, þetta getur nefnilega líka verið ljúffeng ísterta.
Toblerone marengsterta
Fyrir 8 - 10 

Botnar:
 • 4 Brúnegg eggjahvítur
 • 4 dl púðursykur

Aðferð: Stillið ofn á 110°C. Setjið bökunarpappír á ofnplötu eða bökunarpappír í botninn á tveimur 22 cm lausbotna formum og smyrjið hliðarnar með smjöri. Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykri saman við í smáum skömmtum. Stífþeytið þar til blandan hreyfist ekki til í skálinni sé henni hvolft. Skiptið marengsblöndunni á bökunarpappírinn eða í formin og bakið í 1 ½ klst við 110°C.

Toblerone kremið góða.
 • 500 ml rjómi
 • 2 Brúnegg eggjarauður
 • 4 tsk flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur eða dropar
 • 150 g Toblerone, smátt saxað


Aðferð:  Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til eggjablandan verður ljós og létt. Þeytið rjóma og bætið eggjablöndunni varlega saman við rjómann með sleif ásamt vanillu. Í lokin fer súkkulaðið dásamlega út í rjómablönduna. Setjið kremið á milli botnanna og ofan á. Skreytið kökuna með ferskum berjum og nokkrum súkkulaðibitum.

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Monday, December 15, 2014

Vinningshafar í gjafaleiknum í samstarfi við Prentagram....


Vinningshafar í gjafaleiknum i samstarfi við Prentagram eru þær Jónína Klara og Magna Járnbrá. Takk fyrir þátttökuna kæru lesendur.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sunday, December 14, 2014

Klassísk eplabaka, ljúffeng með rjóma!


Smákökur eru án efa vinsælastar yfir jólin en það er nú líka gott að baka eina og eina gómsæta köku og bjóða upp á með kaffinu eða heita súkkulaðinu. Þessi klassíska eplabaka stendur alltaf fyrir sínu, hún er að sjálfsögðu langbest volg borin fram með rjóma eða ís.. eða hvor tveggja ;-) 

Klassísk eplabaka

 • 150 g sykur
 • 3 Brúnegg
 • 60 g smjör
 • 1 dl mjólk
 • 150 g Kornax hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • 2 tsk. Vanilla extract eða sykur
 • 100 g Odense marsípan
 • 3 græn epli
 • 2 msk sykur.
 • 2 tsk. Kanill

 Aðferð:  Hitið ofninn í 180°C. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Bræðið smjör, bætið mjólkinni saman við smjörið og hellið út í deigið í nokkrum skömmtum. Sigtið þurrefnin og blandið þeim varlega saman við deigið ásamt vanillu. Rífið marsípan niður og blandið  út í deigið. Skerið eplin í litla teninga og eplaskífur, veltið eplunum upp úr kanilsykri og bætið bitunum út í deigið. Smyrjið 24 – 26 cm smelluform og hellið deiginu í formið. Raðið eplaskífum ofan á deigið og setjið kökuna inn í ofn við 180°C í 40 – 50 mínútur. Þegar kakan er tilbúin þá er afar gott að dreifa ristuðum möndlum yfir kökuna. Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Jólakortið okkar í ár. Langar þig í jólakort hjá Prentagram?
Mér þykir vænt um að fá jólakort frá fjölskyldu og vinum, jólakortin eru orðin svo flott og það er gaman að sjá fallegar myndir sem prýða kortin. Í ár sendum við Haddi jólakort í fyrsta sinn, að sjálfsögðu prýðir daman okkar hún Ingibjörg Rósa kortið. 

Við ákváðum að láta prenta kortin okkar hjá Prentagram, en við notum Instagram mjög mikið og á okkar aðgangi eru margar mjög fallegar myndir sem við notuðum. Ég pantaði kortin seint á laugardagskvöldi og kortin voru komin til mín með frímerkjum nokkrum dögum síðar. Það kalla ég topp þjónustu og verð ég að hrósa Prentagram fyrir góða þjónustu. Ég ætla að gefa tveimur lesendum 15 jólakort hjá Prentagram og dagatal, þau eru sérlega flott og ég hvet ykkur til þess að skoða úrvalið af vörum á vefsíðu Prentagram. Endilega skrifið nafn og netfang í athugasemdir við þessa færslu. Ég dreg út heppna lesendur á morgun, mánudag. (15.des).

Svo er auðvitað sniðugt að gefa Prentagram like á Facebook, þá getið þið fylgst með flottum vörum á góðu verði. 

Ég vona að þið njótið dagsins með fjölskyldu og vinum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Friday, December 12, 2014

Glútenfríar piparkökur, þessar klassísku og góðu.


Piparkökur eru þær jólasmákökur sem ég tengi hvað mest við jólin. Lyktin af þeim er svo góð og jólaleg, Það er fastur liður hjá mér að baka gómsætar piparkökur fyrir jólin. Þessi uppskrift er að glútenfríum piparkökum en þið getið auðveldlega notað venjulegt hveiti ef þið viljið það frekar. Það er ágætis ráð að setja hveitið út í deigið smám saman, um leið og deigið er orðið slétt og þétt þá er það tilbúið. Það gæti verið að þið þurfið minna af venjulegu hveiti en þið prófið ykkur bara áfram. Þessar eru svakalega góðar og ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift og fáið svo fjölskyldu og vini til þess að skreyta kökurnar með ykkur. 


Glútenfríar piparkökur
 • 150 g smjör, við stofuhita
 • 1 dl síróp
 • 2 dl sykur
 • 1 dl rjómi eða mjólk
 • 2 tsk. Kanill
 • 1 tsk. Negull
 • ½ tsk. Engifer
 • ¼ tsk. Hvítur pipar
 • 1 tsk. Vínsteinslyftiduft
 • 450 – 550 g fínt Fínax mjöl

Aðferð: Hitið smjör, síróp og sykur í potti við vægan hita. Þegar sykurblandan fer að þykkna takið þið pottinn af hellunni og kælið í smá stund og bætið rjómanum út í. Hellið blöndunni í stóra skál og sigtið þurrefnin út í, það er gott að geyma smá hveiti sem þið bætið við smám saman en deigið er tilbúið þegar það er orðið slétt og þétt. Því næst er plastfilma er sett yfir skálina og deigið geymt í kæli í nokkra klukkustundir helst yfir nóttu.

Hnoðið deigið smávegis og fletjið út með kökukefli. Það er alltaf gott að strá svolítið af hveiti á borðið áður en þið fletjið deigið út, það kemur í veg fyrir að deigið festist við borðið. Piparkökurnar eru mótaðar með piparkökuformum. Bakið kökurnar við 175°C í um það bil 10 mínútur.

Kælið kökurnar og skreytið gjarnan með glassúr. Ég sáldraði flórsykri yfir nokkrar kökur en ég ætla að skreyta restina af kökunum í desember með litlum frændum sem eru að koma heim frá Noregi. Það er miklu skemmtilegra að skreyta kökurnar í góðum félagsskap. 


xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, December 11, 2014

Jólasnúðar og sölt karamellusósa.Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að klassískum kanilsnúðum með jólakeim. Fyllingin er jólaleg að því leytinu að ég notaði kryddin sem ég nota við piparkökubakstur. Ef það er eitthvað jólalegt þá er það ilmurinn af piparkökum. Ég bjó til karamellusósu og ristaði heslihnetur sem ég bar fram með snúðunum. Heit karamellusósan fullkomnaði snúðana og þeir hurfu mjög fljótt. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir.


Jóla kanilsnúðar

Deig:

 • 550 g Kornax hveiti
 • 100 g sykur
 • 1 tsk. vanillusykur
 • 2,5 tsk. ger
 • 250 ml volg mjólk
 • 70 ml bragðlítil olía (alls ekki ólífu olía)
 • 2 Brúnegg
Fylling:
 • 50 g sykur
 • 100 g smjör
 • 2 tsk. kanill
 • 1 tsk. negull
 • ½ tsk. engifer

Aðferð: Blandið öllum þurrefnum saman og bætið vökvanum smám saman við deigið og hnoðið vel. Breiðið röku viskustykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 – 40 mínútur á hlýjum stað. Á meðan deigið er að hefa sig er gott að útbúa fyllinguna.
Setjið öll hráefnin í pott og hitið við vægan hita eða þar til blandan fer að þykkna.
Þegar deigið hefur hefað sig er það flatt út og smurt með fyllingunni. Deiginu er svo rúllað út og skorið í hæfilega marga bita. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, raðið snúðunum á pappírinn og leggið rakt viskustykki yfir þá. Leyfið þeim að standa í 30 mínútur áður en þeir fara inn í ofn. 

Bakið snúðana við 180°C í 13 – 15 mínútur. Berið snúðana fram með saltri karamellusósu og ristuðum heslihnetum. 

Sölt karamellusósa

Þetta er sósan sem þið verðið að prófa. Hún passar vel með kökum og eftirréttum, og í raun gæti ég borðað hana eina og sér. Það er meðal annars mjög sniðugt að gefa sælkeranum í fjölskyldunni þessa sósu í jólagjöf. Sósan geymist í ísskáp í tvær vikur. Það er ágætt að hita hana aðeins upp áður en þið berið hana fram. Ég þori að lofa ykkur því að þið kaupið ekki aftur tilbúna sósu þegar þið hafið útbúið ykkar eigin.

Hráefni:
 • 200 g sykur
 • 2 msk smjör
 • ½  - 1 dl rjómi
 • ½ tsk salt (sjávarsalt er best að mínu mati)

Aðferð: Setjið sykurinn á pönnu og bræðið hann við vægan hita. Gott er að hafa ekki of háan hita og fara hægt af stað. Takið pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við og hrærið vel. Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er þykk og fín. Í lokin bætið þið saltinu saman við. Það er líka afskaplega gott að rista hnetur og bæta út í sósuna. 
Njótið dagsins með fjölskyldu og vinum.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sunday, December 7, 2014

Ómótstæðilegar Oreo smákökur
Þessar kökur slógu heldur betur í gegn á heimilinu mínu en þær kláruðust hratt og örugglega. Þannig á það vera, þá get ég bakað þessar kökur aftur. Ég notaði glútenfrítt hveiti en þið getið auðvitað notað venjulegt hveiti, þið þurfið aðeins minna af því svo byrjið bara að setja 200 g af hveiti og bætið svo í ef ykkur finnst deigið of blautt. Ég þori að lofa ykkur því að þið eigið eftir að baka þessar kökur aftur og aftur.. ekki bara um jólin heldur allt árið um kring. 

Njótið vel. 

Oreo smákökur 
 • 110 g smjör 
 • 100 g hreinn rjómaostur
 • 200 g syk­ur
 • 1 egg
 • 250 g Finax glútenfrítt hveiti
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 150 g súkkulaði
 • 1 tsk vanilla extract
 • 1 pakki Oreo kexkökur
 • 100 g hvítt súkkulaðiAðferð: Hitið ofninn í 180°C. Þeytið smjör og rjómaost saman þar til blandan verður létt og ljós, bætið sykrinum saman við og einu eggi. Blandið hveitinu og lyftidufti út í og hrærið í 2 – 3 mínútur. Í lokin bætið þið vanillu og smátt söxuðu súkkulaði saman við og hrærið í smá stund. Geymið deigið í ísskáp í 10 – 15 mínútur. Mótið litlar kúlur með teskeið og veltið kúlunum upp úr muldu Oreo kexi. Setjið kúlurnar á pappírsklædda ofnskúffu og inn í ofn við 10 – 12 mínútur við 180°C. Það er afar gott að bræða hvítt súkkulaði og sáldra yfir kökurnar þegar þær koma út úr ofninum.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Friday, December 5, 2014

Piparkökuís uppskrift

Það er fastur liður á mörgum heimilinum fyrir jólin að útbúa jólaís. Á mínu heimili hefur aldrei verið sérstök eftirréttahefð en tengdamóðir mín býr alltaf til svo góðan ís og í ár langaði mig til þess að gera minn eigin sem ég ætla að bjóða upp á jólunum. Ég notaði grunnuppskrift frá Ingibjörgu, tengdamóður minni en það er ein eggjarauða á móti einni matskeið af sykri og þeyttur rjómi. Magnið fer svo eftir því hvað þið ætlið að gera mikið af ís. Piparkökur eru algjört lostæti og eru sérstaklega góðar í þessum ís, en þið getið auðvitað bætt t.d. súkkulaði eða karamellu út í ísinn. Ég mæli þó með að þið prófið þessa uppskrift, silkimjúkur ís og "crunch" af piparkökunum. Ég bauð upp á salta karamellusósu með ísnum, það er miklu einfaldara að útbúa eigin karamellusósu en ykkur grunar. Mér dettur ekki í hug að kaupa tilbúna sósu þegar ég er fimm mínútur að útbúa sósuna mína. Þið verðið auðvitað að prófa.

Njótið vel. 

Piparkökuís
Fyrir 6 - 8
Hráefni:
 • 10 Brúnegg eggjarauður (ég notaði eggjahvíturnar í marengs botna) 
 • 10 msk sykur
 • 1 tsk vanilla extract eða vanillusykur
 • 400 ml rjómi, þeyttur
 • 250 g piparkökur (myljið kökurnar)
Aðferð: Þeytið eggjarauðurnar og sykurinn þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu og piparkökumylsnu út í eggjablönduna og hrærið vel saman. Þeytið rjóma og blandið honum varlega saman við með sleif. Hellið blöndunni í form og frystið í lágmark sólarhring. Berið ísinn gjarnan fram með saltri karamellusósu.
xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sölt karamellusósa uppskrift


Sölt karamellusósa

Þetta er sósan sem þið verðið að prófa. Hún passar vel með kökum og eftirréttum, og í raun gæti ég borðað hana eina og sér. Það er meðal annars mjög sniðugt að gefa sælkeranum í fjölskyldunni þessa sósu í gjöf. Sósan geymist í ísskáp í tvær vikur. Það er ágætt að hita hana aðeins upp áður en þið berið hana fram. Ég þori að lofa ykkur því að þið kaupið ekki aftur tilbúna sósu þegar þið hafið útbúið ykkar eigin.

Hráefni:
 • 200 g sykur
 • 2 msk smjör
 • ½  - 1 dl rjómi
 • ½ tsk salt (sjávarsalt er best að mínu mati)
Aðferð: Setjið sykurinn á pönnu og bræðið hann við vægan hita. Gott er að hafa ekki of háan hita og fara hægt af stað. Takið pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við og hrærið vel. Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er þykk og fín. Í lokin bætið þið saltinu saman við. Það er líka afskaplega gott að rista hnetur og bæta út í sósuna. xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Tuesday, December 2, 2014

Í Vikunni


Kökublað Vikunnar er komið út og það er ekki leiðinlegt fyrir köku konuna mig að fá að vera með í þessu glæsilega blaði. Ég er í léttu viðtali um baksturinn og fjölskylduna mína, ég deili uppskriftum að kökum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Frönsk súkkulaðikaka, súkkulaðikaka sælkerans með bananafyllingu og klassísk eplakaka. Ég er búin að sjá margar uppskriftir í blaðinu sem ég get ekki beðið með að prófa, það er alltaf svo gaman að prófa nýjar uppskriftir. 


Ingibjörg Rósa fékk að sjálfsögðu að vera með á mynd. Súkkulaðikaka sælkerans í allri sinni dýrð.


xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Saturday, November 22, 2014

Franskt eggjabrauð


Um helgar er nauðsynlegt að gera vel við sig, það er svo notalegt að dúllast í eldhúsinu í rólegheitum á morgnana. Hella upp á gott kaffi og útbúa gómsætan morgunmat. Sunnudagar er minn uppáhalds vikudagur, við byrjum á því að fara með Ingibjörgu Rósu í ungbarnasund og förum síðan heim og eldum okkur eitthvað gott á meðan hún sefur vært eftir sundið. Um síðustu helgi eldaði ég franskt eggjabrauð (e. French toast). Eftir að hafa legið yfir uppskriftum að þessu girnilega brauði þá ákvað ég að útbúa mína útfærslu. Þetta er svo gott að þið trúið því ekki, ég skil ekki afhverju ég var ekki verið búin að prófa að elda þetta brauð fyrr. Brauðið verður silkimjúkt með ljúffengum jarðarberjum og sírópi. Ég naut mín í botn þennan morgunin og vildi helst ekki að máltíðin tæki enda. Það er afar heppilegt að nú sé helgin gengin í garð og þetta ljúfenga brauð verður á boðstólnum hjá okkur í fyrramálið.


French Toast.

 • 4 stórar brauðsneiðar
 • 4 Brúnegg
 • 2 dl rjómi
 • 2 msk. appelsínusafi
 • Rifinn appelsínubörkur, um það bil matskeið
 • ½ tsk kanill
 • 1 tsk. Vanilluextract eða dropar
 • Smá skvetta af hlynsírópi eða ein teskeið sykur
Aðferð: Skerið brauðið niður í þykkar sneiðar. Pískið egg og rjóma léttilega saman. Bætið appelsínusafa, kanil, vanillu og sírópi út í og hrærið vel. Hellið blöndunni yfir brauðsneiðarnar og snúið þeim einu sinni við. Leyfið brauðinu að liggja í eggjablöndunni í 2 – 3 mínútur. Hitið smjör á pönnu og steikið á hvorri hlið í nokkrar mínútur eða þar til eggin eru elduð. Gætið þess að hafa ekki of háan hita á pönnunni. Berið brauðin fram með ávöxtum og hlynsírópi. Njótið vel!

 Ég vona að þið eigið góða helgi kæru lesendur.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, November 20, 2014

Heimagert pestó og ljúffengur kjúklingaréttur.


Fyrir rúmlega ári steig ég mín fyrstu skref í sjónvarpi í þáttunum Í eldhúsinu hennar Evu sem sýndir voru á Stöð 3. Það var ákaflega skemmtileg og dýrmæt reynsla, í þáttunum lagði ég ríka áherslu á heimilismat sem allir ættu að geta leikið eftir. Ég er búin að uppfæra uppskriftalistann hér á blogginu og nú getið þið nálgast allar uppskriftir sem voru í þættinum hér á vefnum. Það gleður mig einnig að segja frá því að þættirnir eru nú aðgengilegir á vísi.is. Þið finnið þættina hér undir matur. 

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að heimagerðu pestó og ljúffengum kjúklingarétt sem er í miklu eftirlæti hjá mér.


Rautt og gómsætt pestó
 • 200 g sólþurrkaðir tómatar
 • 90 g furuhnetur
 • 2 hvítlauksrif
 • 150 g ferskur rifinn Parmesan ostur
 • salt og nýmalaður pipar
 • 1 – 2 dl góð ólífuolía

Aðferð: Blandið öllu saman í matvinnsluvél í nokkrar mínútur. Áferðin á pestóinu fer eftir því hversu mikið af olíu þið notið. Það er ágætt að setja olíuna saman við pestóið smám saman. 

Kjúklingabringur í pestói

 • 4 – 5 kjúklingabringur
 • Salt og nýmalaður pipar
 • 1 uppskrift rautt pestó
 • 1 krukka fetaostur + olían í krukkunni

Aðferð: Hitið ofninn í 200°C. Leggið kjúklingakjötið í eldfast mót, það er ágætt að skera bringurnar í tvennt. Kryddið kjúklingakjötið til með salti og pipar.  Blandið pestóinu og fetaostinum saman í skál, það er gott að blanda ostinum saman við pestóið með gaffli. Hellið sósunni yfir kjúklinginn og inn í ofn í 35 – 40 mínútur. Berið kjúklingaréttinn fram með góðu pasta eða hrísgrjónum og fersku salati.

 Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, November 13, 2014

Ljúffengur lax í sítrónusósu.


Lax er í algjöru eftirlæti hjá mér, það er gaman að matreiða lax og möguleikarnir eru endalausir. Ég bauð stórfjölskyldunni upp á dýrindis fiskrétt í gærkvöldi og þau voru öll afar sæl með matinn. Það er nú bara þannig að stundum hefur maður ekki mikinn tíma til þess að stússast í eldhúsinu og þá er gott að geta farið smá flýtileið, ég prófaði að elda laxinn upp úr ljúffengri sítrónusósu sem ég keypti tilbúna og mig langar að segja ykkur aðeins meira frá þessum sósum.

Simply Add Fish sósurnar eru nýjung á Íslandi. Sósurnar koma með þremur bragðtegundum og eru án allra aukaefna, sem er lykilatriði að mínu mati. Bragðtegundirnar eru Creamy Herb, Touch of Tomato og Lovely Lemon. Ég get sagt ykkur það að sósurnar komu mér mikið á óvart. Ég eldaði laxinn upp úr Lovey Lemon sósunni og fiskurinn var silkimjúkur og mjög bragðgóður.

Þetta er fullkomið þegar tíminn er af skornum skammti eða bara þegar ykkur langar í góðan fiskrétt. Það er þess virði að fara flýtileiðir ef útkoman er gómsæt. Á meðan að fiskurinn var í ofninum þá útbjó ég ofnbakaðar kartöflur og grænmeti. Ég mæli hiklaust með að þið prófið þessar sósur, ég lofa ykkur því að þið verðið ekki vonsvikin.Ljúffengur lax í sítrónusósu
 • 1 kg lax, beinlaus
 • Salt og nýmalaður pipar
 • 2 pokar Lovely Lemon fiskisósa
 • Ferskt dill, magn eftir smekk

Aðferð: Skolið og hreinsið fiskinn vel áður en þið leggið hann í edfast mót. Það er líka ágætt að skera fiskinn í nokkra bita og snöggsteikja á pönnu. Leggið fiskinn í eldfast mót, kryddið til með salti og pipar og hellið sósunni yfir. Einn poki ætti að duga en við fjölskyldan erum mikið fyrir sósur og þá var fínt að nota 2 poka. Setjið fiskinn inn í ofn við 180°C í 25 – 30 mínútur. Þegar fiskurinn er tilbúinn þá er gott að saxa niður ferskt dill og dreifa yfir.

 Bakaðar karöflur, gulrætur og fennel með fersku dilli.

 • 3 stórar bökunarkartöflur
 • 1 stór sæt kartafla
 • 3 – 4 gulrætur
 • 1 meðalstór fennelbelgur
 • Salt og nýmalaður pipar
 • 2 – 3 msk ólífuolía
 • Sítrónusafi
 • Ferskt dill, smátt saxað

Aðferð: Afhýðið grænmetið og skerið smátt. Skerið endana af fennelbelgjunum og rífið af ystu blöðin ef þau eru ekki falleg. Skerið síðan í tvennt á lengdina og skerið síðan niður litla bita. Setjið grænmetið í eldfast mót og hellið vel af olíu yfir, kryddið til með salti og pipar og blandið öllu vel saman. Bakið við 180°C í 40 – 45 mínútur. Þegar grænmetið er tilbúið þá kreistið þið safann úr ½ sítrónu yfir og blandið dilli saman við. Berið fram með fiskréttum, algjört sælgæti. 


Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir