Thursday, February 28, 2013

Grænmetispítsa

Heimagerðar pítsur eru að mínu mati langbestar. Þegar við vorum yngri þá var mamma dugleg að baka pítsur og við fengum að setja áleggið á, hver fékk að velja sitt álegg og það var svolítið sport. Það góða við heimagerðar pítsur er að við stjórnum því hvað fer í deigið og hvað fer ofan á pítsurnar. Það er ótrúlega einfalt að baka pítsu og tekur sennilega styttri tíma en að panta pítsu á pítsustað. Svo er það nú líka hollara að gera þetta sjálfur, eins og allt annað. Ég sá svo girnilega uppskrift að pítsabotn á www.cafesigrun.com og sá botn er í miklu eftirlæti hjá mér. Ég ætla að deila ljúffengri grænmetispítsu með ykkur í dag.

Einfalt, fljótlegt og ljúffengt. 

Pítsabotn frá CafeSigrún
Botn sem dugir fyrir 2  - 3 

250 spelt (ég blanda saman grófu og fínmöluðu spelti)
1,5 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk sjávarsalt
1 tsk. pizzakrydd t.d. frá Pottagöldrum
0,5 tsk oreganó
200 ml volgt vatn
1 msk. kókosolía

  • Blandið saman í stóra skál; spelti, vínsteinlsyftidufti, oregano, pizzakryddi og salti. Hrærið vel. Blandið vatni og kókosolíu saman við. Hnoðið lauslega.
  • Blandið vel saman og hnoðið lauslega.Ef deigið er of blautt má setja meira spelti út í þannig að hægt sé að fletja með kökukefli.
Setjið spelt á borð (eða bökunarpappír) og fletjið deigið þunnt með kökukefli.


  • Einnig má fletja deigið út í ferkantaða ofnskúffu (með bökunarpappír undir).
  • Bakið við 150°C í um 15 mínútur eða þangað til brauðið er farið að dökkna og aðeins stökkt í köntunum. Pizzabotninn ætti að vera tilbúinn fyrir sósu og álegg.
Sósa og álegg.

Pizza sósa

1/2 laukur
1 hvítlaukur
2 msk ólífuolía
2 dósir saxaðir tómatar
1 tsk basilika
1/2 tsk oreganó
salt og pipar eftir smekk
1 tsk agave síróp

Mýkið lauk og hvítlauk í olíu á pönnu við vægan hita, bætið niðursoðnum tómötum við. Látið malla í nokkrar mínútur, bætið síðan  salti og pipar saman við. Að lokum fer  basilika,oreganó og agave síróp saman við. Leyfið þessu að malla í smá stund og setjið síðan allt saman í matvinnsluvél, þess þarf auðvitað ekki ef þið viljið hafa sósuna grófa.

Álegg. 

Auðvitað er hver og einn með sínar óskir hvað varðar álegg en ég mæli með þessu áleggi sem ég nefni hér fyrir neðan, ég fékk pítsu með þessu áleggi í matarboði um daginn og ég var ótrúlega hrifin. Bragðmikil og góð pítsa. 

Kúrbítur
tómatar
sveppir
fersk basilíka
avókadó, vel þroskað
rifinn mozzarella ostur
fetaostur

Ég skar niður það grænmeti sem ég vildi á mína pítsu, lét sósu á pítsabotninn og dreifði rifnum osti yfir. Raðaði síðan grænmetinu ofan á pítsuna og kryddaði til með salti og pipar. Ath. að ferska basilíkan, avókadó og fetaosturinn eiga ekki að fara á pítsuna fyrr en hún er tilbúin. Setjið pítsuna því næst inn í ofn við 150°C í 8 - 10 mínútur. 

Ég geri mér oft hvítlauksolíu og dreifi vel af henni yfir pítsuna, það er einstaklega ljúffengt. 

 Ég mæli svo sannarlega með þessari pítsu kæru vinir og ég vona að þið njótið vel. 

xxx
Eva Laufey Kjaran

Wednesday, February 27, 2013

Falleg blóm og ferskir ávextir.


 Morgunstund gefur gull í mund, þá sérlega ef maður er með svona fallega Lilju á skrifborðinu. Í dag er ég að fara í miðannarpróf, eina miðannarprófið sem ég fer í svo það er ágætt. Dagurinn fer því í lestur og meiri lestur... 
Ferskir ávextir í morgunsárið gera daginn enn betri. Ég hlakka til  að deila með ykkur uppskrift í kvöld að pizzu sem ég geri mér mjög oft. Spelt grænmetispizza sem er að mínu mati ferlega góð. Læt uppskriftina inn beint eftir prófið í kvöld. 

Ég vona að þið eigið ljúfan dag kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, February 26, 2013

Franskar makrónur og smáréttir fyrir fermingarveisluna.

Franskar makrónur eru svo ljúffengar og sérlega mikið augnayndi. Ég hef nokkrum sinnum bakað makrónur og hér finnið þið uppskrift.  Ég skráði mig á makrónunámskeið hjá Salt eldhúsi og námskeiðið er í dag. Vinkona mín ætlar einnig að koma með svo það verður frekar ljúft. Ég er nýlega búin að uppgötva þetta skemmtilega eldhús og það eru mörg námskeið í boði, ég hvet ykkur til þess að skoða úrvalið. Þann 28. febrúar er t.d. námskeið þar sem áherslan er lögð á fermingarveisluna. Farið verður í gerð hinna ýmsu smárétta sem henta í fermingarveislum og galdraðar verða fram 10 tegundir af dásamlegum munnbitum. Ég mæli því með þessu námskeiði fyrir foreldra sem ætla að sjá um veitingarnar í fermingarveislunum hjá börnum sínum og sömuleiðis mæli ég með þessu námskeiði fyrir þá sem eru að fara að halda stærri veislur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, February 25, 2013

Lemon

Sælkerasamloku og djússtaðurinn Lemon opnar þann 8.mars næstkomandi. Ég var svo heppin að fá að smakka nokkrar kræsingar sem í boði verða á Lemon og mikið sem ég er hrifin. Ég kann svo vel að meta veitingastaði sem leggja aðal áherslu á ferskleika. Ég hef varla hætt að hugsa um samlokuna sem var í eftirlæti hjá mér í dag, sú samloka var með tómötum, basilíku og ferskum mozzarella. Ég á eftir að heimsækja Lemon frekar oft og gæða mér á ljúffengum og ferskum kræsingum. Ég mæli svo sannarlega með að þið gerið ykkur ferð á Lemon þegar staðurinn opnar. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, February 24, 2013

Konudagur

Til hamingju með konudaginn kæru konur. Það er nú gaman að vera kona en sérstaklega gaman á dögum sem þessum. Huggulegt að fá kökur og blóm í tilefni dagsins. 

Ég vona að þið eigið ljúfan dag. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, February 23, 2013

Lúxus laugardagur.

 Ég fór með mömmu minni, ömmu og systir mömmu minnar til Reykjavíkur í morgun og áttum við huggulegan dag saman. Byrjuðum á því að fá okkur að borða á Jómfrúnni, enda byrja allir ljúfir laugardagar á góðum hádegisverði þar. Svo röltum við um Laugaveginn og skoðuðum margt fínerí í búðum og drukkum mikið kaffi, semsé afslappaður og ljúfur laugardagur. 

 Móðir mín hún Sigurrós og systir hennar hún Sesselja Laufey. Glæsilegar systur. 
 Amma Stína alltaf glæsileg. 
 Smurbrauðin dásamlegu.
 Ég og amman mín.
 Í Andersen&Lauth voru svo margir fínir kjólar að  ég stóðst ekki mátið og mátaði nokkra fallega sumarkjóla, sumarið er alveg að koma svo það má nú.
Einn Swiss mokka með miklum rjóma í lok dagsins, lúxus kaffi á lúxus laugardegi.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, February 22, 2013

Súkkulaðiást í Gestgjafanum

 Ég gerði mjög skemmtilegan súkkulaðiþátt fyrir nýjasta tölublað Gestgjafans. Það er alltaf skemmtilegt að vinna með súkkulaði því það kemur alltaf eitthvað gott út úr því. Ég hef að minnsta kosti ekki smakkað neitt vont sem inniheldur súkkulaði.  Ég er mjög hrifin af nýjasta tölublaðinu, þar er rík áhersla lögð á veislur og tilefni. Aragrúa af flottum uppskriftum og fallegum myndum. Mæli með að þið nælið ykkur í eitt eintak kæru vinir. 

Súkkulaði er allra meina bót... það held ég nú. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, February 21, 2013

Safaríkar fylltar kjúklingabringur með ofnbökuðum kartöflum og sveppasósu.

Safaríkar fylltar kjúklingabringur með ofnbökuðum kartöflum og sveppasósu. Mér finnst ótrúlega gaman að elda kjúkling, það býður upp á svo marga möguleika. Ég prufaði í fyrsta sinn að elda fylltar kjúklingabringur um daginn og það heppnaðist mjög vel að mínu mati. Ég hef sjaldan verið eins södd og sæl eftir máltíð. Þetta er að mínu mati tilvalinn helgarmatur ef svo má að orði komast, ég veit ekki með ykkur en ég legg svolítið meira upp úr matnum sem ég borða um helgar. Líklega er það vegna þess að þá er meiri tími til þess að dúllast og prufa sig áfram í eldhúsinu. 

Ég var svo heppin að fá foreldra og litla bróðir heim frá Noregi um helgina svo það verður aldeilis veisla í mömmukoti alla helgina og það gleður mig endalaust. Móðir mín er besti kokkur sem ég veit um og hún er alltaf að kenna mér eitthvað nýtt og spennandi. Þannig þetta stefnir nú í ljúfa helgi með fjölskyldunni. 
Fylltar kjúklingabringur
(Uppskrift miðast við 3 - 4 manns)

3 kjúklingabringur 
spínat 
sveppir
rjómaostur með kryddblöndu
fetaostur
beikon
ferskt timjan
fersk steinselja
salt og pipar

Aðferð:
Ég útbjó einfalda fyllingu. Setti handfylli af spínati, 2-3 msk af söxuðum sveppum, 2-3 msk af fetaosti, 2 – 3 msk af rjómaosti með kryddblöndu, 1 tsk ferskt timjan og 1 tsk af ferskri steinselju, salt og pipar og blandaði þessu saman í potti við vægan hita í 1 – 2 mínútur. 
  1.    Fyrst er að skola kjúklingabringurnar vel og þerra með pappír. Ég skar lundina frá og lagði til hliðar. Setjið kjúklingabringurnar því næst í lítinn plastpoka (nestispoka) og fletjið bringurnar út með kjöthamri. 
  2.  Leggið bringurnar síðan á disk eða bretti og setjið 2 msk af fyllingu á hverja bringu. Leggið lundina ofan á og vefjið 3 – 4 beikonsneiðum utan um hverja bringu. Til þess að fyrirbyggja að þetta myndi nú detta í sundur við eldun þá stakk ég nokkrum tannstönglum í bringurnar.  
  3.   Steikið bringurnar við vægan hita á pönnu í smá stund, 2 mínútur á hvorri hlið dugar. Leggið því næst bringurnar á eldfast mót og setjið inn í ofn við 180°C í 25 – 30 mínútur.
Meðlætið var einfalt, ofnbakaðar kartöflur, ferskt salat og sveppasósa.

Ofnbakaðar kartöflur 

Ég byrjaði á því að flysja sætar kartöflur, venjulegar kartöflur og gulrætur. Skar því næst kartöflur og gulræturnar í litla bita. Ég hitaði olíu við vægan hita á pönnu og byrjaði á því að setja hvítlauk saman við sem ég var búin að skera í grófa bita, því næst bætti ég ferskum timjan greinum við olíuna og saxaðri steinselju. Því næst fóru kartöflur og gulrætur á pönnuna í smá stund, rétt til að brúna þær. Saltið og piprið að vild. Leggið síðan kartöflur og gulrætur í eldfast mót og inn í ofn við 180°C í 35 - 40 mínútur.

Sveppasósa. 
Hitið smá smjör í potti og saxað timjan (1tsk) og sveppi saman við, magn af sveppum fer eftir smekk. Sáldrið salti og pipar yfir að vild og hrærið vel í þessu. Hellið kjúklingasoði í pottinn (ca. 250 ml - ég var búin að leysa 1 kjúklingatening í 250 ml heitu vatni) bætið 60 ml rjóma saman við og leyfið suðunni að koma upp. Smakkið sósuna til á þessum tímapunkti, þið viljið kannski meiri pipar eða meiri salt. Þykkið sósuna með smjörbollu eða maizena sósumjöli. Mjög einföld sósa sem hentar vel með  þessum kjúklingabringum.

Ég hef sjaldan verið eins södd og sæl eftir máltíð. Kjúklingurinn var dásamlega safaríkur og bragðlaukarnir fengu að njóta sín. 

Ég mæli með að þið prufið þessa uppskrift kæru vinir og njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, February 20, 2013

Kaffibolli með góðri vinkonu.

 Það er ótrúlega notalegt að brjóta upp daginn og fá sér kaffibolla með góðri vinkonu. Ég er svo heppin að eiga marga góða vini en í amstri dagsins þá getur verið svolítið erfitt að skipuleggja kaffihittinga. En mikil ósköp sem það er gott þegar maður loksins nær að hitta góða vini, spjalla um allt milli himins og jarðar yfir ljúffengum cappuccino. 

Þetta er hún Elísabet Sara mín, einstaklega vel heppnuð manneskja. Við kynntumst í Menntaskólanum á Egilsstöðum þegar við bjuggum báðar á heimavistinni á busaárinu okkar. Mikið sem ég er heppin að hafa kynnst henni. Hún flutti suður eftir menntaskólann og er að læra arkitektúr. Hörkudugleg og dásamleg vinkona. 

Nauðsynlegt fyrir okkur öll að brjóta upp daginn og hitta góða vini. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, February 19, 2013

Að búa til sykurmassaskraut á bollakökur.


Bollakökur eru í miklu eftirlæti hjá mér eins og þið hafið líklega tekið eftir. Það eru óteljandi mögulegar þegar kemur að skreytingum og ég prufaði í fyrsta sinn um daginn að búa til sykurmassaskraut. Hjördís hjá mömmur.is var svo yndisleg að kenna mér einfaldar skreytingar með sykurmassa. Það tók enga stund að búa til skrautið og nú vil ég helst ekki annað skraut en sykurmassablóm á mínar bollakökur. 

 Nú eru fermingar á næsta leiti og líklega margir að spá í fermingarkökunni. Þegar ég og systir mín vorum að skoða kökur fyrir brúðkaupið hennar þá kom sú hugmynd upp á borðið að baka margar bollakökur og skreyta fallega, við kusum þó að fara hefðbundnu leiðina en bollakökuhugmyndin þótti mér alltaf mjög sniðug. Það er svolítið flott að bera fram bollakökur í stærri veislum, raða þeim fallega upp og skreyta þær með allskyns skrauti. 
Um að gera að leyfa fermingarbarninu að spreyta sig í skreytingum. 

Ég hef fengið talsvert mikið af póstum hvað varðar veitingar í stærri veislum, margir að spá í fermingarveislum þessa dagana og því langar mig að benda foreldrum og þeim sem eru að fara að halda stórar veislur á skemmtilegt námskeið hjá Salt Eldhús sem haldið verður þann 21.febrúar. Á námskeiðinu er lög áhersla á fermingarveislur,  farið verður  í  gerð hinna ýmsu smárétta sem henta á slík smárétta-hlaðborð og galdraðar verða fram 10 tegundir af dásamlegum munnbitum. Ég mæli með að þið kynnið ykkur námskeiðin hjá Salt Eldhús. Dásamlegt eldhús og úrval af flottum námskeiðum. 
Ég er sjálf búin að skrá mig á makkarónunámskeið hjá þeim  og ég hlakka mikið til. 

Nú ætla ég að deila með ykkur nokkrum myndum sem sýna hversu einfalt það er að búa til sykurmassaskraut.

Það sem til þarf er auðvitað sykurmassi, ég keypti hann tilbúinn en auðvitað er hægt að búa hann til sjálfur. Svo þurfum við mót, sykurmassa lím, kökukefli og skraut. Þá getum við byrjað að dúlla okkur við skreytingagerð. 

1. Byrjið á því að skera lítinn bút af sykurmassanum.
2. Hitið hann í höndunum með því að rúlla honum upp í kúlu í smá stund. 
3. Fletjið sykurmassann út með kökukefli eða sérstöku sykurmassakefli. 
4. Passið ykkur á því að hafa sykurmassann ekki of þunnan. Veljið ykkur mót og pressið mótinu á sykurmassann.

5. Þrýstið mótinu svolítið fast á sykurmassann.
6. Losið mótið frá og þrýstið ofan á mótið, þá dettur skrautið af mótinu.


 Einfaldara verður það ekki. Falleg fiðrildi og falleg blóm. Hægt er að skreyta sykurmassann með allskyns skrauti en mér finnst mjög fallegt að hafa þetta frekar einfalt og stílhreint. 

Það sem þið þurfið til þess að skreyta sykurmassann er sykurmassa lím, perlur og glimmer. Það er einnig til aragrúa af öðru skrauti svo það er um að gera að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. Ég fékk allar mínar vörur hjá www.mömmur.is og ég mæli svo sannarlega með að þið skoðið úrvalið hjá þeim. Verðið er líka mjög fínt hjá þeim og það er margt á tilboði þessa dagana. Góðar vörur sem endast afar lengi. 
 Bollakökur í spariklæðum eru algjört augnayndi. 

Ég vona að þið njótið vel kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran