Saturday, December 31, 2011

Árið 2011 á enda.

 Gamlársdagur.
Í hádeginu þá hittumst við fjölskyldan heima hjá mömmu. Borðuðum ýmsar kræsingar sem hún móðir mín bauð uppá. Horfðum svo á kryddsíldina og höfðum það huggulegt. Bræður mínir fóru að metast um flugelda á meðan að ég lagaði eftirrétt sem ég hlakka mikið til að bragða á í kvöld, Tiramisu. Ítalskur eftirréttur sem mér finnst yndislega góður. Ég læt uppskrift fylgja sem fyrst á nýju ári.

Ég ætla að eyða kvöldinu með góðu fólki, horfa á svipmyndir frá árinu sem er að líða, skaupið og kveðja árið rækilega um miðnætti og bjóða 2012 velkomið.

Gleðilegt nýtt ár og megi nýja árið færa ykkur ómælda lukku og hamingju.
Takk fyrir það liðna og þúsund þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til þess að koma hingað og skoða bloggið. Þúsund þakkir fyrir öll skilaboðin sem mér hafa borist á árinu, mér þykir voða vænt um þau.

Það hefur verið ótrúlega gaman að fylgjast með blogginu vaxa frá degi til dags.

Árið 2012 leggst vel í mig, ný tækifæri og margar uppskriftir sem ég hlakka til að prufa og deila með ykkur.

Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og munið að jákvæðni drífur okkur áfram, held að það sé gott ráð að setja sér hófleg áramótaheit en muna bara að hafa jákvæðni að leiðarljósi þá gengur allt betur.

Þetta verður gott ár, það er hér með ákveðið. Bannað að  breyta...











 

Njótið kvöldsins.
Áramótaknús

Eva Laufey Kjaran

Friday, December 30, 2011

Árið 2011

 Árið 2011 var viðburðarríkt, lærdómsríkt og sérlega skemmtilegt ár.
Ég tók saman nokkrar myndir frá árinu sem er að líða. 

 Árshátíð með Hadda mínum

Að pæjast í mars
 Um páskana var ég í bústað með þessum yndislegum gaurum og fór síðan til Akureyrar sömu helgi, það var ansi ljúft. 

 Heimsins bestu foreldrar.
 Vinahópurinn minn yndislegi
Starfsmenn í þjálfun.
 Ég varð flugfreyja
 Skemmtilegasti árgangur sem sögur fara af
 Notalegheit á Hvolsvelli

 Ójá, það var sko drukkið kaffi á árinu.

 Yndisleg sumarbústaðarferð

 Fyrsta Ameríkuferðin. New York með Hadda
 Empire State

 Í Washington með mömmu


 Best er þó að sóla sig á Skipaskaganum
 ...drakk rauðvín
 Seattle. Dásamlegi markaðurinn!

 Fór til Eyja, það var mikið fjör.

 Chinatown Washington D.C.
 Besta frí í heimi. París með Hadda
 Þetta var svo ljúft


 Vinkonuhópurinn var í miklu blóma þetta árið
 

 London í Desember
 Bakaði smá þetta árið.

Ansi gott ár og er ég sérlega þakklát fyrir allt það góða sem árið færði mér. 
Ég hef góða tilfinningu fyrir 2012. 

xxx

Eva Laufey kjaran

Thursday, December 29, 2011

Súkkulaðimús á þrjá vegu

 Ég elska jólafrí. Elska að geta dúllað mér á daginn við bakstur og huggulegheit. Nokkrir dagar eftir svo það borgar sig að nýta tímann vel.
Ég prufaði að gera súkkulaðimús í dag, æfing fyrir gamlárskvöld. Tókst ansi vel til. 

Súkkulaðimús (Fyrir ca. 8 manns.)
250 gr. Dökkt súkkulaði 
75 gr. Smjör
2 - 3 msk. Kalt sterkt uppáhellt kaffi
9 Eggjahvítur 
150 gr. Sykur



 Byrjum á því að bræða súkkulaði og smjör saman við vægan hita.

 Þegar að súkkulaðið er bráðnað þá tökum við pottinn af hellunni og bætum kaffinu saman við og hrærum vel í. Látum súkkulaðið kólna á meðan að við þeytum eggjahvíturnar.


 Eggjahvíturnar. Ég keypti mér eggjahvítur í brúsa , um það bil 30 eggjahvítur í hverjum brúsa. Mjög þæginlegt.
Svo er bara að stífþeyta eggjahvíturnar og bæta sykrinum smám saman við, í þremur skömmtum.


 Ljúffengt ekki satt?

 Þá er að blanda súkkulaðinu saman við eggjablönduna, í þremur pörtum.
Mikilvægt að blanda þessu varlega saman með sleif. 

 Svo er bara að hella þessu í skálar, falleg glös eða hvaðeina sem hentar ykkur. Inn í ísskáp í lágmark tvær klukkustundir.

Ég lék með smávegis með þessa einföldu súkkulaðimús. 

 Dökk súkkulaðimús og hvítsúkkulaðismús. 

Það er nánast sama ferlið með hvítu-súkkulaðimúsina.
Við sleppum kaffinu en bætum fræum úr einni vanillustöng saman við eggjablönduna.
Mér finnst voða gott að blanda dökku og hvítu súkkulaði saman.

Í fyrsta glasið lét ég dökku súkkulaðimúsina á botninn, helmingi minna af hvítu músinni og síðan sigtaði ég góðu kakó yfir, lét fáein bláber og smá súkkulaðiskraut.

Draumur í dós.

Í hinum tveimur glösunum var ég með venjulega dökka súkkulaðimús, sigtaði góðu kakó yfir og lét súkkulaðiskraut, sama sagan með þriðja glasið en rúsínan í pylsuendanum var skvetta af Amarula  líkjöri.
Þið ráðið því hversu mikið þið setjið en það var svakalega gott bragð og agalega sniðugt á góðu gamlárskvöldi að bera fram í boðum.


Einfalt, fljótlegt og ljúffengt. 

Svo er súkkulaðimús alltaf góð með þeyttum rjóma og allskyns ferskum ávöxtum.
Súkkulaðimús er indæl í maga eftir þunga máltíð. 

Njótið 

xxx
Eva Laufey Kjaran