Wednesday, September 30, 2015

Mexíkósk pizza með djúsí ostasósu á örfáum mínútum


Mexíkóskur matur er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og fæ aldrei leið á þessum góða mat, möguleikarnir eru líka svo margir sem gerir þessa matargerð enn betri. Ég sá sérstakar pizza tortillur út í búð um daginn og var ekki lengi að grípa þær með mér ásamt öðru góðu hráefni. Ég útbjó mjög einfalda pizzu og það var frekar fínt að sleppa við að baka venjulegan pizzabotn, stundum er maður einfaldlega ekki í stuði fyrir mikið tilstand í eldhúsinu. Botninn var þunnur og stökkur en þannig finnst mér pizzabotnar bestir. Pizzan var einstaklega ljúffeng og þið ættuð að prófa þessa uppskrift.

Mexíkósk pizza með kjúkling og djúsí ostasósu 

 • 2 tortilla pizzakökur
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1 mexíkóostur, rifinn
 • salt og nýmalaður pipar
 • 500 – 600 g kjúklingakjöt t.d. úrbeinuð kjúklingalæri
 • 2 msk. Mexíkósk kryddblanda
 • 1 rauð paprika, smátt skorin
 • Salt og nýmalaður pipar

Tillögur að áleggi; lárpera, salsa sósa, sýrður rjómi og smátt saxaður kóríander.

Aðferð:

 1. Leggið kjúklingalæri eða annað kjúklingakjöt í eldfast mót og kryddið til með bragðmikilli kryddblöndu. Eldið í ofni við 180°C í 20 mínútur. (fer auðvitað eftir þykktinni á kjúklingakjötinu) 
 2. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum blandið þið sýrða rjómanum og nýrifnum mexíkóosti  saman í skál og kryddið til með salti og pipar.
 3. Smyrjið tortillakökur með ostasósunni (ég keypti sérstakar pizza tortillur í Hagkaup, þær eru aðeins þykkari).
 4. Skerið papriku og kjúklingakjöt í litla bita og dreifið yfir ostasósuna.
 5. Bakið í ofni við 180°C í ca. 5 – 7 mínútur. Þegar pizzan er tilbúin er gott að skera niður avókadó, tómata, ferskt kóríander og dreifa yfir. Einnig finnst mér algjört æði að mylja niður Nachos flögur og sáldra yfir. Einföld og stórgóð máltíð sem öllum í fjölskyldunni þykir góð. 
Mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa, hún er mjöööög góð.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Monday, September 28, 2015

Frískandi bláberjaboozt með hörfræjum
Bláber eru bæði ótrúlega holl og góð, þau eru stútfull af andoxunarefnum og bæta meltinguna. Ég elska bláber og nota þau mikið í bæði matargerð og bakstur, svo er auðvitað frábært að fá sér bláber sem nasl milli mála. Eitt af því besta sem ég fæ mér er bláberja boozt, ískalt og svakalega frískandi. Dóttir mín sem er 14 mánaða að verða 15 mánaða á næstu dögum (hjálpi mér hvað tíminn er fljótur að líða) fær boozt með mér og finnst þessi einstaklega góður. Við fáum okkur oft svona drykk í kaffitímanum eftir vinnu. Mæli svo sannarlega með að þið prófið þennan drykk og þori ég að veðja að þið eigið eftir að búa hann til aftur og aftur. 

Bláberja boozt 

 • 200 g Bláberjaskyr 
 • Handfylli af bláberjum
 • Einn banani 
 • Ein msk af hörfræjum 
 • Klakar 
 • Möndlumjólk, magnið fer eftir smekk (fer eftir því hvað þið viljið hafa drykkinn þykkan)
Aðferð: 

1. Setjið öll hráefnin í blandarann í smá stund eða þar til drykkurinn er silkimjúkur. Mér finnst best að setja nokkra klaka út í drykkinn. 
2. Hellið drykknum í glas og njótið. 


Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
Thursday, September 24, 2015

Stökkir kjúklingabitar í kornflexmulningi með hunangssósu


Ég elska stökka kjúklingabita með góðri sósu og það er fátt sem jafnast á við safaríka, bragðmikla og stökka bita. Í síðasta þætti af Matargleði eldaði ég þessa einföldu kjúklingabita sem þið ættuð að prófa, hollari útgáfa að gómsætum kjúklingabitum.

Stökkir kjúklingabita í kornflexmulningi


Kartöflubátar
 • 7 – 8 kartöflur, fremur stórar
 • 1 rauðlaukur
 • 4 hvítlauksrif
 • salt og pipar
 • ólífuolía


Aðferð:
 1. Skerið kartöflurnar í fjóra bita.
 2. Skerið rauðlaukinn í sneiðar og pressið hvítlauksrifin.
 3. Blandið öllu saman í skál með ólífuolíu og kryddið til með salti og pipar.
 4. Leggið í eldfast mót og bakið við 200° C í 40 – 45 mínútur. Mér finnst best að steikja kartöflurnar á pönnu í smá stund áður en ég læt þær í eldfast mót og inn í ofn. 

Marinering

 • 1 dós sýrður rjómi
 • 2 tsk hunangs Dijon sinnep
 • ½ tsk hvítlauksduft
 • salt og pipar
 • 4 kjúklingabringur
 • 5 bollar kornfleks (1 bolli=2 dl)
 • 2 tsk hvítlauksduft
 • 2 tsk fersk steinselja
 • 1 tsk tímían
 • salt og pipar
 • 1 msk ólífuolía


Aðferð:
 1. Skerið kjúklingabringurnar eða kjúklingakjötið í álíka stóra bita. Skolið kjötið og þerrið mjög vel. 
 2. Hitið ofninn í 200°C.
 3. Blandið sýrða rjómanum, hunangs sinnepi, hvítlauksdufti, salti og pipar saman í skál. Setjið kjúklingabitana út í marineringuna og leyfið honum að marinerast í nokkrar mínútur (því lengur því betri verður kjúklingurinn)
 4. Setjið kornflex, hvítlauksduft, steinselju, tímían, salt, pipar og ólífuolíu í matvinnsluvél.
 5. Veltið kjúklingabitunum upp úr kornflexinu og þekjið hvern bita mjög vel.
 6. Leggið bitana á pappírsklædda ofnplötu og bakið við 200°C í 25 – 30 mínútur. Þegar eldunartíminn er hálfnaður snúið þið bitunum við og dreifið smá olíu yfir bitana.
 7. Berið fram með hunangssósu, kartöflubátum og fersku grænmeti t.d. agúrku og gulrætur.


Hunangssósa

1 dós sýrður rjómi
1 – 2 msk majónes
2 – 3 msk Dijon sinnep með hunangi
salt og nýmalaður pipar
1 hvítlauksrif

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum vel saman í skál eða sem betra er í matvinnsluvél.

Missið ekki af Matargleði Evu öll fimmtudagskvöld á Stöð 2. 

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran HermannsdóttirMac & Cheese með beikoni og rjómasósu.


Í síðasta þætti mínum lagði ég áherslu á matargerð frá Bandaríkjunum og þessi réttur er einn þekktasti og vinsælasti rétturinn þar í landi. Ég gjörsamlega elska þennan rétt en hann inniheldur allt það sem mér þykir gott. Pasta, beikon, ost og rjóma... ég þarf ekki meira. Mæli með að þið prófið og ég vona að þið njótið vel. 


Ofnbakað Mac & Cheese 
 • 250 g makkarónupasta
 • 1 msk ólífuolía
 • 150 g beikon, smátt skorið
 • 300 g sveppir
 • 1 rauð paprika
 • 1 msk smátt söxuð steinselja
 • 1 msk smátt saxað tímían
 • 2 msk smjör
 • 1 laukur, sneiddur 
 • 500 ml matreiðslurjómi
 • 200 ml grænmetissoð (soðið vatn + einn græntmetisteningur)
 • 100 g rifinn Parmesan ostur
 • 100 g rifinn Cheddar ostur
 • 1 msk smátt söxuð steinselja
 • salt og pipar


Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Sjóðið makkarónupasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Hellið vatninu af og setjið pastað í eldfast mót.
 3. Hitið olíu á pönnu og steikið beikonið í nokkrar mínútur, bætið sveppum og papriku út á pönnu og steikið. Kryddið til með salti og pipar. Saxið niður ferskar kryddjurtir og dreifið yfir.
 4. Blandið beikonblöndunni saman við makkarónupastað.  
 5. Hitið smjör á pönnu, sneiðið niður einn lauk og steikið upp úr smjörinu í nokkrar mínútur við vægan hita eða þar til laukurinn verður mjúkur í gegn.
 6. Hellið matreiðslurjómanum og grænmetissoðinu saman við og leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur.
 7. Rífið niður Parmesan ost og Cheddar, setjið út í sósuna og leyfið ostinum að bráðna í rólegheitum. Kryddið til með salti og pipar.
 8. Hellið sósunni yfir pastað og blandið saman með skeið.
 9. Rífið niður nóg af osti t.d. Mozzarella og Cheddar og dreifið yfir formið. 
Eke missa af Matargleði Evu öll fimmtudagskvöld á Stöð 2. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 

Tryllingslega gott karamellupæ


Í síðasta þætti af Matargleði útbjó ég þetta tryllingslega góða karamellupæ sem er bæði fáránlega einfalt og fljótlegt. Ég kaupi yfirleitt karamellusósuna tilbúna í krukku en sósan fæst meðal annars í Hagkaup. Einnig er hægt að sjóða sæta niðursoðna mjólk í 2 - 3 klst en mjólkin breytist í ljúffenga karamellusósu. Þegar þið hafið ekki þessar 2 - 3 klst þá er í góðu lagi að kaupa hana tilbúna.. ég segi ykkur það satt. Ég elska að eiga nokkrar uppskriftir sem eru það einfaldar að ég get skellt í eina köku hvenær og hvar sem er. Ég mæli hiklaust með að þið prófið þessa um helgina, hún er æði. Var ég búin að segja æði? Ok. Nú er ég hætt. 

Karamellupæ með þeyttum rjóma og dökku súkkulaði 

Botn:
 • 250 g Digestive kexkökur
 • 150 g smjör
 • 2 tsk sykur
 • 50 g súkkulaði


Fylling:
 • 2 krukkur Dulce de leche karamellusósa (ca. 500 - 600 g samanlagt) 
 • 2 bananar
 • 200 ml rjómi
 • 1 tsk vanillusykur
 • 50 g súkkulaði

Aðferð:
 1. Setjið kex, smjör, sykur og súkkulaði í matvinnsluvél. Hellið blöndunni í hringlaga form helst lausbotna og þrýstið kexblöndunni í formið og upp með hliðum á forminu.
 2. Kælið botninn í hálftíma áður en þið setjið fyllinguna í hann.
 3. Fyllið botninn með karamellunni, skerið banana í sneiðar og raðið þeim yfir karamelluna. Þeytið rjóma með smá vanillusykri og dreifið yfir pæið.
 4. Saxið dökkt súkkulaði og sáldrið yfir. Kælið pæið mjög vel áður en þið berið það fram. 
Missið ekki af Matargleði Evu öll fimmtudagskvöld á Stöð 2. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Sunday, September 20, 2015

Brjálæðislega góðar súkkulaðibitakökur á 20 mínútumHelgin hefur verið frekar róleg á þessu heimili og 'to do' listinn minnkaði ekkert, það freistaði miklu meira að hanga á kaffihúsum, lita, baka eða taka leggju með Ingibjörgu Rósu en að mála vegg, setja upp gardínur og þið vitið.. allt sem verður að gerast strax, helst í gær. Stundum er bara alveg ágætt að taka rólega daga og plana ekki yfir sig, 'to do' listinn fer ekkert en tíminn er núna til að njóta með fólkinu okkar. Ég þarf að minnsta kosti að minna sjálfa mig á það af og til, það þarf ekkert alltaf allt að vera samkvæmt planinu og það er bara fínt að taka letidaga. 

Og fyrst við erum byrjuð að tala um letidaga þá verð ég að deila með ykkur uppskrift að einstaklega gómsætum súkkulaðibitakökum sem eru bæði mjög einfaldar og fljótlegar. Tilvalið á letidögum já eða bara þegar okkur langar í eitthvað gott. Mæli með að þið prófið þessar og ég vona að þið njótið vel.Súkkulaði- og hafrakökur 

 • 200 g smjör, við stofuhita
 • 2,5 dl púðursykur
 • 3 Brúnegg
 • 2 tsk vanilla (extract, dropar eða sykur)
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk salt 
 • 5 dl Kornax heilhveiti
 • 4 dl haframjöl
 • 150 g súkkulaði
Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C.

1. Þeytið saman smjör og sykur þar til blandan verður létt.
2. Bætið einu og einu eggi saman við og þeytið vel á milli. 
3. Blandið þurrefnum og vanillu saman og þeytið. 
4. Saxið súkkulaði og blandið við með sleikju. 
5. Mótið kökurnar með matskeiðum og setjið á pappírsklædda ofnplötu. 
6. Bakið við 180°C (blástur) í 10-12 mínútur. Kælið í örlitla stund áður en þið berið kökurnar fram. Njótið með ísköldu mjólkurglasi. 

Ég vona að þið eigið gott sunnudagskvöld í vændum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
Friday, September 18, 2015

Besta eplakakan


Það eru nokkrar kökur sem ég baka aftur og aftur, það er súkkulaðikaka, gulrótarkaka og svo þessi eplakaka. Kökur sem ég fæ aldrei leið á og minna mig á ljúfar stundir með fjölskyldu og vinum. Þessi eplakaka yljar manni að innan og kanililmurinn er hreint út sagt dásamlegur.

Eplakaka með þeyttum rjóma

 • 200 g smjör
 • 3 egg
 • 220 g hveiti
 • 220 g sykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanilla extract eða sykur
 • 1 dl rjómi
 • 2 græn epli
 • 2 msk sykur
 • 1,5 tsk kanill


Aðferð:
 1. Flysjið eplin, kjarnhreinsið og skerið í sneiðar. Blandið saman 2 msk af sykri og 1 tsk af kanil, sáldrið yfir eplin og leyfið þeim að liggja í kanilsykrinum í svolitla stund.
 2. Hrærið saman smjör og sykur þar til blandan verður létt og ljós, bætið eggjum saman við einu í einu.
 3. Blandið þurrefnum saman og bætið saman við eggjablönduna. Hellið rjómanum saman við ásamt vanillu.
 4. Smyrjið hringlaga kökuform og hellið deiginu í formið, raðið eplunum ofan á og bakið við 180°C í 40 – 45 mínútur.
 5. Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.
Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.