Tuesday, May 29, 2012

Ofnbakaður lax

 

Ofnbakaður lax 

1 laxaflak
3 msk ólífuolía 
1 msk smjör
Safi úr 1/2 sítrónu 
1/2 búnt af graslauk
Maldon salt og nýmalaður pipar eftir smekk
4 - 5 hvítlauksgeirar
6 - 8 kirsuberjatómatar



 Einfaldur og dásamlegur lax. Ég lét eitt laxaflak á álpappír, stráði Maldon salti og nýmöluðum pipar yfir flakið. Skar graslauk og hvítlauk niður, mjög smátt og dreifði yfir. Ákvað svo að skera fáeina kirsuberjatómata og setja með. Safi úr 1/2 sítrónu sáldrað yfir ásamt ólífuolíunni og smjörinu. Inn í ofn í 15 mínútur við 180°C. 

Meðlætið var ansi einfalt, skar niður sætar kartöflur og venjulegar kartöflur. Lét þær á álpappír, hellti smávegis af olíu yfir og stráði Maldon salti og pipar yfir þær sömuleiðis. Blandaði þessu vel saman og lét þær inn í ofn í 35 mín við 180°C.  


 Hvítlaukssósa

1 lítil dós sýrður rjómi
safi úr 1/2 lime
handfylli af graslauk
salt & pipar
2 - 3 hvítlauksgeirar

Skerið graslauk og hvítlauk mjög smátt. Blandið öllu saman í skál, mikilvægt að smakka sig til. Kannski viljið þið minni hvítlauk eða meiri hvítlauk. Þessi sósa er sérlega einföld og er svakalega góð. 


 Safaríki laxinn tilbúinn, sá var góður. 

 Einföld og svakalega bragðmikil máltíð. Mjög notalegt kvöld að baki með vinkonum mínum, alltaf gott að fá þær í mat og smá spjall. 




Algjör nauðsyn að gera svolítið vel við sig af og til. Eplagotterí í eftirrétt. 

2 - 3 stór græn epli
100 g smjör
100 g sykur
100 g hveiti
50 g haframjöl
kanill
1 msk púðursykur

Hnoðið saman hveiti, sykur og smjör. Skrælið eplin og skerið þau í litla bita. Setjið eplin í skál og stráið 1 tsk af kanil yfir þau, blandið því vel saman. Síðan er hveitiblandan mulin yfir allt saman. Bakið við 200 gráður í  30 mín eða þar til kakan er orðin ljósbrún. 

Það passar ansi vel að bera eplagotteríið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma. 

xxx

Eva Laufey Kjaran 

Monday, May 28, 2012

Eurovision gleði




Helgin er búin að vera ansi ljúf, í raun er enn helgi og því ætla ég að liggja út í garði í dag og njóta sólarinnar. Á laugardaginn var smá eurovision gleði hér heima við, það var ótrúlega skemmtilegt. Ég hef örugglega sagt það áður og segi það enn og aftur, ég á svo skemmtilega vini! 

En nú ætla ég að slökkva á tölvunni og koma mér út í blíðuna. 
Ég vona að þið eigið eftir að eiga góðan dag.








xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, May 25, 2012

Sex sumarlegir eftirréttir


Í nýjasta tölublaði Gestgjafans finnið þið m.a. sex sumarlega eftirrétti. 
Ég mæli með því að þið nælið ykkur í þetta flotta grillblað, margar grilluppskriftir sem væru t.d. sniðugar í júró teitin. Mig langar allavega að fara að grilla, hugsa að ég geri það um helgina.




Góða helgi elsku þið, gleðilega júró helgi öllu heldur! 
xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, May 23, 2012

Mangókarrý Kjúklingasamloka


Í gær var ég með heilan kjúkling í matinn og átti afgang af honum í dag. Mér finnst fátt leiðinlegra en að henda mat, þannig ég er að venja mig á það að nýta afgangana betur. 
Þannig ég ákvað að búa til eitthvað gott og fljótlegt.

Mangókarrý kjúklingasamloka


Ég skar endana af fjórum brauðsneiðum, nuddaði dálítið af ólífuólíu á brauðið og lét smá salt og pipar á það. Hitaði smá olíu á pönnu við vægan hita og steikti brauðið þar til það var orðið fremur stökkt. Tók það af pönnunni og lét til hliðar.

Skar niður kjúkling, kjötið sem ég skar niður samsvaraði 1 kjúklingabringu myndi ég halda . Ég notaði sömu pönnu og ég steikti brauðið á, bætti smá olíu á pönnuna og steikti kjúklinginn smávegis. Bætti 1 1/2 msk af mango chutney og 1/2 tsk af karrý á kjúklinginn. Blandaði þessu vel saman á pönnunni og þá er kjúklingurinn klár.

 Lét brauðið í eldfast mót, setti kjúkling á brauðið, reif niður ost og lét á kjúklinginn. Inn í ofn í 3 - 4 mín við 180°C, eða þar til osturinn hefur alveg bráðnað.

Notið það grænmeti sem ykkur þykir best. Ég notaði ruccola, tómata og rauðlauk.
Grænmetisfranskar fylgdu auðvitað með, paprika og agúrka. 
Ég mæli með að þið setjið dass af kotasælu á samlokuna, það gerir hana einstaklega góða.






Nú sit ég hér pakksödd en agalega sæl með góða máltíð. 

Ég vona að þið njótið vel.
 xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, May 21, 2012

Mexíkósk kjúklingasúpa

Ég er mikil súpu kona og finnst fátt betra en góð súpa. Þessi kjúklingasúpa er í miklu uppáhaldi, mér finnst hún best þegar að hún er búin að malla lengi. Það er best að taka sér góðan tíma til þess að dúlla sér við súpugerð. Það er líka svo notalegt að hafa góða súpulykt ilma um heimilið.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Þessi uppskrift er fyrir 5 - 6 manns. 

4 - 5 kjúklingabringur
1 rauð paprika
1 græn paprika
2 gulrætur
1/2 blaðlaukur 
4 - 5 hvítlauksgeirar
1 laukur 
1 grænt eða rautt chili, ég gleymdi að kaupa chili svo ég notaði 1 tsk af þurrkuðum chili pipar
2 msk olía 
1 dós saxaðir tómatar
1 1/2 - 2 teningar af kjúklingakrafti
2 - 3 tsk karrý
2,5 lítri vatn
1 peli rjómi
1/2 - 3/4 úr krukku af Heinz chili tómatsósu
100 - 150 g rjómaostur 

Aðferð:


Hráefnin sem við þurfum í súpuna




Hitið olíu á pönnu við vægan hita, saxið grænmetið smátt og steikið í smá stund á pönnunni, bara rétt til að fá smá gljáa. 

     Setjið grænmetið í stóran pott, bætið vatninu , chili tómatsósunni, karrýinu, kjúklingateningum og    söxuðum tómötum saman við, leyfið þessu að malla á meðan þið steikið kjúklinginn. 

Skerið kjúklinginn í litla bita og steikið á pönnu upp úr olíu, kryddið með chili, salti og pipar.
 Bætið kjúklingnum við súpuna. Látið hana sjóða við vægan hita í 10 - 15 mín.

                                           Að lokum fer rjóminn og rjómaosturinn saman við.  
              Takið ykkur góðan tíma til að laga súpuna, ég leyfði henni að malla við vægan hita í nærri 2 klukkustundir en þess þarf auðvitað ekki. Látið hana þó malla í lágmark 30 mín. Bragðbætið súpuna að vild, gæti verið að þið viljið meiri karrý eða meiri pipar. Mikilvægt að smakka sig til! 

Berið súpuna fram með sýrðum rjóma, rifnum osti og nachos flögum, sem hver og einn bætir á sinn disk eftir smekk.

Matarmikil súpa sem hressir og kætir. Stundum sleppi ég því að setja rjóma og rjómaost, bæti þá við meiri grænmeti. En að mínu mati er hún betri með rjómanum, elsku rjómanum.
 Lúxus súpa sem á alltaf vel við. 


Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

21.05.12

Komin heim eftir ansi ljúfa daga í Noregi. Það er svakalega gott að vera komin heim en mikil ósköp er erfitt að kveðja fjölskylduna og ég er hálf vængjabrotin fyrstu dagana hér heima án þeirra. Virkilega virkilega erfitt.  Sem betur fer er þó ekki langur tími þar til ég sé þau aftur. Það er ótrúlega gott að eiga góðan mann sem gott er að koma heim til og hann huggar sína konu þegar þess þarf.  Ég er rík að eiga góða fjölskyldu hér heima við og yndislega vini. 

Veðrið í dag var algjör dásemd, ég naut mín í sólinni á florída skaganum. Ég hef grun um að þessi vika verður sérlega skemmtileg..Ég er búin að bíða eftir þessari viku í ár. Við erum að tala um þrjú, ekki eitt , ekki tvö, heldur þrjú kvöld sem eru tileinkuð eurovision. Það gleður mig ómælt! Ég er mikill eurovision aðdáandi og er sérlega ánægð með framlag íslendinga í ár. Ég vona að við vinnum - ég vona það á hverju ári. Hvur veit! 

Ég vona að þið eigið góða viku.


 Daníel Mar yngsti prinsinn minn var svo huggulegur við frænku sína, gaf henni hálsmenn sem hann bjó til á leikskólanum.
Mér finnst það ósköp fallegt.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, May 20, 2012

Sunnudagsmorgun

Morgunmaturinn minn. Spínatsafi, vanillujógúrt með múslí og hindberjum. 
Sunnudagslúxusinn er amerískar pönnukökur og kirsuber. 
Nú ætla ég að drífa mig út að hlaupa og leika við litlu prinsana mína. Ég fer heim í dag, mikið sem ég eftir að sakna allra strax. Agalega leiðinlegt að kveðja! 




Ég vona að þið eigið ljúfan sunnudag 

 xxx

Eva Laufey Kjaran