Monday, April 30, 2012

Ljómandi fín menning á Akranesi.



Þegar að ég kom heim eftir próf í dag þá henti ég mér í kjól.  Mikið sem það er gaman að fara í kjól og að punta sig í prófatíð.   


Ég fór í kjól vegna þess að ég fór í leikhús með ömmu minni, afa mínum, bróður mínum og kærustu hans á söngleikinn Blóðbræður sem sýndur er þessa daganna í Bíóhöllinni Akranesi. 

Vá Þetta leikrit er frábært, leikararnir eru hver öðrum betri og ótrúlega vel að þessu staðið.
Það er greinilegt að Flokkurinn á Akranesi er í miklum blóma og hlakka ég til þess að fylgjast með þeim í framtíðinni. Akranes er stútfullur af hæfileikaríku fólki, svo mikið er víst.
Til hamingju öll með frábæra sýningu. 

Hvet ykkur öll sem eitt til þess að mæta á sýninguna og hvet ykkur auðvitað til þess að taka þátt í leiknum í færslunni hér fyrir neðan. Þið eigið möguleika á því að vinna gjafabréf fyrir tvo í þriggja rétta máltíð á Galító og í leikhús á Blóðbræður.





Ég tók eftir einu ansi skemmtilegu í dag, fyrir ári síðan voru heimsóknir á bloggið yfir apríl mánuð 2234 en nú ári seinna eru heimsóknir yfir apríl mánuð 51.500 sem gleður mig svakalega mikið. Mig langar til þess að þakka ykkur fyrir að nenna að fylgjast með þessu áhugamáli mínu. Met þess mikils. :-)

Ég vona að þið eigið ljúfa viku framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran


Sunday, April 29, 2012

Hugguleg kvöldstund á Akranesi.


Flokkurinn á Akranesi frumsýndi söngleikinn  Blóðbræður eftir Willy Russell þann 28.apríl. 
Söngleikurinn er einn af vinsælustu söngleikjum sem settur hefur verið upp síðustu áratugi og verið stanslaust á fjölunum á West End í Englandi síðan 1988. Verkið er bráðskemmtilegt og galsafullt þótt undir niðri liggi djúp og áhrifamikil saga. 

Galító veitingastaður á Akranesi býður upp á þessa dagana girnilegan þriggja rétta Leikhúsmatseðill.
Galító er í sérstaklega miklu uppáhaldi hjá mér. Þangað fer ég ansi oft hvort sem það er í hádeginu, um kaffileytið eða á kvöldin. Það er ávallt hægt að ganga að því vísu að fá góðan mat og njóta þess að vera í huggulegu umhverfi.







Að því tilefni ætla ég að gefa einum heppnum lesenda gjafabréf fyrir tvo í þriggja rétta máltíð á Galító og í leikhús á sýninguna Blóðbræður.

 Það sem þú kæri lesandi þarft að gera til þess að eiga möguleika á því að næla þér í gjafabréfið er að skrifa nafn og netfang fyrir neðan færsluna í 
athugasemdakerfið og gefa blogginu like á Facebook. 

Ef þú hefur nú þegar gefið blogginu like á Facebook þá er nóg að setja nafn og netfang í athugasemdakerfið.

 Ég dreg út heppinn vinningshafa þann 2. maí. 

Ég fagna því að hægt sé að njóta góðrar menningar á Akranesi og hvet ykkur til þess að njóta hennar. 



Eva Laufey Kjaran


www.midi.is - Hér er hægt að fá upplýsingar um sýningatíma og miðapantanir. .
www.galito.is - Glæsilegur veitingastaður á Akranesi

Saturday, April 28, 2012

Sesar salat


 Sesar salat er í miklu uppáhaldi hjá mér. Frumútgáfan af  Sesar salati er romaine salat eða iceberg, ristaðir brauðmolar, rifinn ferskur parmesan ostur og sesar salat sósa. Það er ósköp gott að bæta við  kjúkling, beikoni og öðru grænmeti.  
Uppskriftin hér fyrir neðan er fyrir þrjá - fjóra.

Sesar salat


1 Iceberg höfuð (eða romaine salathöfuð).
1 Pakki kjúklingbringur.
5 Brauðsneiðar, heilhveiti.
3 Tómatar.
1 Agúrka.
½ Rauðlaukur.
Rifinn parmesan ostur.
Hellmann‘s Sesar sósa.

Aðferð.

Grænmetið skolað og skorið niður. Kjúklingurinn er skorinn í sneiðar og steiktur á pönnu, kryddaður með salti, pipar og smá kjúklingakryddi.  Á meðan að kjúklingurinn er að steikjast þá náum við okkur í aðra pönnu og byrjum á því að laga brauðteningana. (Það er líka hægt að gera þá áður en þið byrjuð að steikja kjúklinginn en geymið þá teningana á meðan í  eldhúspappír t.d.)
Skerið brauðsneiðar í litla teninga, steikið þá á pönnu upp úr smjöri, kryddið með hvítlaukssalti og pipar á meðalheitri pönnu og veltið vel þannig að allar hliðar brúnist.

Rífið niður parmesan ostinn að lokum.

Náið ykkur í fjóra diska. Byrjið á því að raða kálinu, svo hinu grænmetinu sem þið óskið að hafa með, svo fer kjúklingurinn og brauðteningarnir ofan á. Síðast en ekki síst fer parmesan osturinn og sesar salat sósan dásamlega. Kryddið jafnvel aðeins með salti og pipar, þá er salatið tilbúið. 


Einfaldara verður það líklega ekki og mikil ósköp sem salatið er gott. 














Matarmikið og gott salat. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, April 27, 2012

Rúrik


Rúrik kom til mín í heimsókn í gær ásamt mömmu sinni og ég gat einfaldlega ekki staðist það að taka nokkrar myndir af þessum prins, honum fannst frænka sín mjög skemmtileg. 



Þessi mæðgin eru í miklu uppáhaldi

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, April 26, 2012

Límónukókos Cupcakes


Ég geri ansi oft vanillu cupcakes en ákvað að breyta til í dag og lagaði mína tegund af límónukókos cupcakes.


LímónuKókos cupcakes. ca. 22 kökur


200 g smjör
3 dl sykur
4 egg
5 dl hveiti
1 ½ tsk. lyftiduft
4 dl Kókosmjólk
Rifinn börkur af einni límónu
Safi úr einni límónu
2 msk. Vanilla Extract ( eða vanilludropar)

Hitið ofninn í 200°C. Hrærið smjör og sykur saman í hrærivél og bætið síðan eggjum saman við, einu í einu (Helst að hræra hvert egg í tvær mínútur áður en þið bætið næsta eggi við). Blandið hveiti og lyftidufti saman í annarri skál og sigtið blönduna þrisvar til fimm sinnum í gegnum sigti. Bætið hveitinu og kókosmjólk saman við smjörblönduna í smáskömmtum. Bætið vanilla extract,límónusafa og börknum af einni límónu við í lokin. 
Skiptið deiginu í pappaform og bakið í 20 mín. 

Ég notaði hvítt súkkulaðikrem á kökurnar, uppskriftina finnið þið hér

Ég sáldraði kókosmjöli yfir kremið og skar sömuleiðis niður límónu í litla bita og skreytti kökurnar með fallegum límónu bitum.

Ég vona að þið njótið vel.


 Byrjunin á huggulegum bakstri






 Gómsætt deig



Þessi sumarlegu form fást m.a. í Hagkaup. En ég lét bollakökurnar þó í hvít form að bakstrinum loknum, einfaldlega vegna þess að mér fannst það fallegra myndefni. Hvítu formin voru of lítil til þess að baka í svo þetta var bara með útlitið að gera fyrir myndirnar því auðvitað smakkast kökurnar jafn vel í hvaða formum sem er. 







Mjög einföld uppskrift. Ég vona að þið njótið vel og mæli ég auðvitað hiklaust með því að þið prufið þessa uppskrift, einstaklega sumarlegar kökur sem koma skapinu í lag.

xxx

Eva Laufey Kjaran





Bollakökuhuggulegheit

 Nú er námsmaðurinn glaður. En ekki vegna þess námsmaðurinn náði að glósa vel í dag heldur vegna þess að nú er námsmaðurinn búin að baka og ætlar að hafa það huggulegt með lestrinum.

Uppskriftin kemur inn á morgun 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Kotasæludraumur


Ég hef örugglega bloggað tvisvar ef ekki þrisvar um þessa dásemd sem þið sjáið hér á myndinni fyrir ofan. Hrökkbrauð með osti, kotasælu, grænmeti, salti og pipar. Jummí!

Hollt og gott, ég elska að fá mér þetta í hádeginu eða í raun hvenær sem er. 

Mæli með að þið prufið - þetta er svo sáraeinfalt og ljómandi gott. 

Kláraði fyrsta prófið í morgun þannig ég ætla að baka nokkrar bollakökur sem ég er búin að vera með á heilanum á meðan að hagfræðilestri stóð, þannig ég verð að prufa að baka þær svo ég einbeiti mér betur að markaðsfærslulestrinum sem hefst í dag. Þannig endilega fylgist með - ef baksturinn heppnast vel þá kemur auðvitað uppskriftin hingað inn. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, April 23, 2012

Kornbrauð


Ég sá svo girnilega uppskrift af brauði um daginn og ákvað að prufa að laga mína útgáfu, henti út hvítu hveiti og bætti inn frekar mikið af kornum. Brauðið var sérlega gott og sérstaklega þegar að það var nýkomið út úr ofninum, fátt betra í morgunsárið en nýbakað brauð. Mjög einföld uppskrift, þið getið notað þau korn sem að ykkur þykir best og um að gera að prufa sig áfram. 

Kornbrauð


170 gr. Grófmalað spelt
80 gr. Haframjöl
1 1/2  dl. Létt ab mjólk
2 dl. Mjólk
1 tsk. Lyftiduft
1/2 tsk. Salt
2 msk. Sólblómafræ
2 msk. Sesamfræ
2 msk. Graskersfræ
1 msk. Mjólk til að pensla með
2 - 3 msk. Blönduð fræ til að strá yfir brauðið. 

Setjið þurrefni saman í skál og blandið þeim vel saman. Hellið ab-mjólk og venjulegri mjólk út í og hrærið þar til deigið verður orðið samfellt. Mótið eitt brauð úr deiginu. Setjið bökunarpappír á ofnplötu (Ég átti ekki bökunarpappír og því varð smá vesen að taka brauðið af plötunni eftir baksturinn). Setjið brauðið á ofnplötuna, penslið mjólk yfir brauðið og stráið blönduðum fræjum ofan á. 

Inn í ofn við 200°C í 25 mín. 









Gott að hefja daginn á því að fá sér nýbakað brauð með allskyns áleggi.


Ég vona að þið hafið það gott í dag. 

xxx

Eva Laufey Kjaran