Friday, August 30, 2013

Föstudagsmorgun


Ég var að koma heim úr næturflugi en ég þarf alltaf smá tíma til þess að ná mér niður áður en ég fer að sofa. Ég hellti mér upp á smá morgunkaffi (eiginlega bara til þess að finna kaffilyktina) er með ný tímarit fyrir framan mig sem ég ætla að glugga í, dagbókin góða er auðvitað líka með því næstu dagar verða sérdeilis skemmtilegir og mikið að gera, svo það er gott að hafa skipulagið ágætt. Annars þá finnst mér eitthvað svo notalegt við að sitja hér inni, ein í kyrrðinni og úti er hundleiðinlegt veður, svei mér þá ef það kallar ekki á góðan súkkulaðibolla. Nú er ég komin með verkefni þegar ég vakna á eftir ; laga heitt súkkulaði og þeyta rjóma. ;) 

Víst ég fór að tala um heitt súkkulaði við ykkur þá verð ég að minna á gamla færslu, þar deildi ég uppskrift að uppáhalds heita súkkulaðinu mínu. Uppskriftin er hér. Það er útlit fyrir að veðurspáin ætli ekki að vinna með okkur þessa helgina (þá sjaldan) svo það er tilvalið að fá sér heitt súkkulaði, kveikja á kertum og hafa það svolítið huggulegt. 

Nú ætla ég að snúa mér að þessum tímaritum sem bíða mín.. og fara að sofa. Ég vona að þið eigið góðan föstudag og góða helgi framundan. Föstudagar eru svo skemmtilegir, helgin að ganga í garð og þá er tími til þess að gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki. Við eigum bara að einbeita okkur að skemmtilegheitum, annað væri tóm vitleysa. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, August 27, 2013

Lífið Instagrammað

 1. Útihlaup eru miklu skemmtilegri í svona fallegu umhverfi, Central Park. 
2. Styttist í flutninga hjá okkur Hadda svo nú ligg ég yfir skemmtilegum hugmyndum fyrir heimilið. 
 3. Myndataka fyrir bókina mína, ég ákvað að taka myndirnar sjálf og það hefur gengið nokkuð vel.
4. Ávextir í fallegu og háu glasi, hressandi kokteill! 
 5. Sushiveisla sem verður í bókinni minni.
6. Ég að vera vandræðilegur túristi í New York.
 7. Karamellu frappuccino, læt inn uppskrift fljótlega.
8. Stígvélin eru komin á, því það rignir bara og rignir...
 9. Bollakökurnar sem ég bakaði fyrir veislu um helgina. 
10. Skemmtilegt kvöld á Borginni með góðu fólki á menningarnótt.
Það er ár frá því að ég eignaðist snjallsíma og ég hef notað hann ótrúlega mikið, ég tek ótrúlega mikið af myndum á símann og er sérlega hrifin af Instagram. Þar deili ég allskonar myndum úr lífi mínu og hef náð að festa á filmu ljúfar stundir með fólkinu mínu. Það er svo verðmætt að eiga myndir, þess vegna tek ég mikið af myndum og ég elska að fletta í gegnum gamlar myndir og ylja mér við góðar minningar. 

Ég vil mæla með prentagram, hágæða prentun á Instagram myndum. Ég er búin að panta einu sinni og kem til með að panta aftur fljótlega. Ódýr, fljótleg og góð þjónusta. Það er miklu skemmtilegra að eiga útprentaðar myndir heldur en að eiga myndirnar bara í tölvunni. Ég er að vinna í því að búa til myndavegg þar sem myndirnar fá að njóta sín. Hér getið þið fengið frekari upplýsingar um prentagram. 

Ég vona að þið eigið góðan dag kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, August 24, 2013

Kanilsnúðar með ljúffengri eplafyllingu

 Það er nú fátt betra en að vakna í sveitinni á ljúfum laugardagsmorgni, vitandi það að hægt sé að kúra örlítið lengur því það er jú helgi og þá er allt kúr veraldar leyfilegt. Mig langaði eins og svo oft áður í eitthvað gott í morgunmat, helgargott ef svo má að orði komast. Á helgum finnst mér ástæða til þess að gera örlítið betur við sig en aðra daga. Ég er sólgin í kanilsnúða og ég er sólgin í eplakökur. Ég gat ekki valið á milli svo ég ákvað að prófa að baka kanilsnúða með eplafyllingu. Ég dreif mig út í kaupfélag og keypti það sem mig vantaði fyrir baksturinn, kom heim og fór aftur í náttfötin og hóf baksturinn. Kanilsnúðarnir heppnuðust vel að mínu mati, ég lét þá vera svolítið stóra svo fyllingin myndi nú njóta sín. Þeir eru kannski pínkulítið grófir að sjá í útliti en það gerir þá enn heimilislegri, gómsætir og einfaldir snúðar sem eiga svo sannarlega vel við á helgum. 

 Mjúkir kanilsnúðar með eplafyllingu 

Deig:
500 g hveiti
100 g sykur
1 tsk vanillusykur
2, 5 tsk þurrger
250 ml mjólk
70 ml smjör, brætt
2 egg 
1 tsk salt

Fylling:

2 meðalstór græn epli
50 g sykur
100 g smjör
2 - 3 msk kanill. 

Aðferð: 

Öllum þurrefnum í deigið er blandað vel saman, bætið vökvanum saman og hnoðið vel. Breiðið röku viskustykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 - 40 mínútur. Á meðan að við bíðum eftir deiginu þá getum við útbúið fyllinguna. Hitið smjörið í potti, afhýðið eplin og skerið þau í litla bita, bætið þeim út í pottinn ásamt sykrinum og kanil. Leyfið blöndunni að malla við vægan hita í nokkrar mínútur eða þar til eplin eru orðin silkimjúk, hrærið vel í á meðan. 

Þegar deigið hefur hefað sig er það flatt út og smurt með fyllingunni. Deiginu er svo rúllað út og skorið í hæfilega marga snúða. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, raðið snúðunum á pappírinn og leggið viskustykki yfir þá, rakt viskustykki. Leyfið þeim að standa í 30 mínútur áður en þeir fara inn í ofn. Bakið við 170°C í 12 - 15 mínútur. 

Ég bræddi smá súkkulaði yfir vatnsbaði og dreifði yfir, mæli með að þið gerið slíkt hið sama. Súkkulaði passar einstaklega vel saman við þessa snúða. 


Ég sit södd og sæl hér í stofunni í sveitinni, eftir augnablik þá ætla ég að koma mér út og fara í hressandi göngutúr í rigningunni. Planið var að hlaupa hálft maraþon í dag en þar sem ég er ekki alveg nógu hress eftir blessuðu veikindin þá ákvað ég að sleppa því, það kemur annað hlaup eftir þetta. Ég dáist af öllu duglega fólkinu sem hljóp í dag, húrra fyrir ykkur. 

Ég vona að þið hafið það sem allra best um helgina.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, August 23, 2013

Yndislegur föstudagur

Þessi föstudagur er með þeim betri í langan tíma. Ég fór ásamt vinkonum mínum í nudd og dekur, fórum í heilsulindina í Hreyfingu, Blue Lagoon Spa. Ég veit ekki hvað við höfum oft talað um að eiga svona dag saman en aldrei gert neitt úr því en ákváðum að kýla á þetta loksins og almáttugur hvað það var frábært. Fórum í nudd og í djúpslökun, mikil ósköp sem það var gott. Við áttum virkilega notalegan dag saman, skáluðum fyrir nýjum tækifærum og nutum þess að vera saman í slökun. Eftir dekrið þá fórum við Agla út að borða, prófuðum veitingastaðinn Nora Magasin og við erum sérlega hrifnar af staðnum. Maturinn var ótrúlega góður og skemmtilega borin fram. 

Ég kemst ekki yfir það hvað ég á góða og skemmtilega vini, það er ómetanlegt að eiga svo gott fólk í kringum sig. Dagurinn í dag var afar kærkomin fyrir sálina og líkamann auðvitað.


 Aglan mín. Verkfræðingurinn og súpermamman. 
 Fengum okkur ljúffengt panini, ég með geitaosti og Agla fékk sér með gráðosti. Við vorum báðar mjög ánægðar með matinn. Og eftirréttinn... brownie með miklu hnetusmjöri. Namminamm.



Agla, Guðrún Selma og ég. Þrjár vinkonur himinlifandi með daginn. (og með hárið til fyrirmyndar) 

Nú erum við Haddi komin í sveitina og ætlum svo sannarlega að njóta þess, ég er búin að kveikja á kertum, úti rignir og rignir. Ljúft haustkvöld og nú ætla ég að slökkva á tölvunni og opna eina bók. 

Ég vona að þið hafið það sem allra best kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, August 22, 2013

Mæli með


Fyrir rúmum mánuði síðan þá vantaði mig nýtt dagkrem, ég er búin að nota dagkrem frá Sóley (sem ég er mjög hrifin af) en ákvað að breyta aðeins til og prófa nýtt krem. Ég var búin að heyra svo ótrúlega góða hluti um EGF húðvörurnar svo mig langaði að prófa þær. 

 Ég er búin að nota bæði dagkremið og dropana núna í rúman mánuð og ég finn þvílíkan mun á húðinni minni. Mér finnst húðin á mér silkimjúk, mikið stinnari og frísklegri.  Ég er mjög ánægð með þessar vörur og þegar að maður er ánægður þá á maður að segja frá og deila gleðinni - ég mæli því eindregið með þessum vörum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Fyrir einu ári...




Það er margt gott við að eiga þetta blogg mitt, og eitt af því er að fletta í gegnum gamlar færslur. Skoða gamlar myndir og rifja upp skemmtilegar stundir. Bloggið mitt byrjaði einmitt bara sem dagbók í raun veru fyrir sjálfa mig, ég mæli með því að skrifa niður skemmtilegar stundir og taka nógu mikið af myndum af því sem að ykkur þykir skemmtilegt. 

Þessar myndir hér að ofan deildi ég með ykkur fyrir nákvæmlega einu ári síðan, mér datt í hug áðan að kanna hvað ég hefði verið að gera fyrir ári. Þá er svo auðvelt að fletta á blogginu og færslan sem ég skrifaði fyrir ári var um Toronto. Ég var þá nýkomin heim eftir að hafa verið í Toronto og mamma mía hvað þessar myndir fengu mig til þess að vilja fara aftur. Stórkostleg borg, góður matur og gott veður. Þetta var ákaflega ljúft. Hér getið þið lesið færsluna.  

Ég er loksin orðin hress eftir að hafa fengið frekar slæma veirusýkingu í síðustu viku, lá í rúminu í heila viku og það var aldeilis ekki ánægjulegt - að vera lasin er aldrei ánægjulegt. Í gær var ég orðin frekar hress og lagði lokahönd á rúmlega 90 uppskriftir fyrir matreiðslubók mína sem kemur út fyrir jólin, ég er búin að gefa bókinni nafn og nafnið verður , Matargleði Evu'

Það er nóg að gera um þessar mundir og margt skemmtilegt framundan í sambandi við bloggið, þið fáið auðvitað að vita meira þegar nær dregur. Ég var svo heppin að fá það tækifæri að vera í Síðdegisútvarpinu á mánudögum núna í haust, þar getið þið hlustað á spjall um mat og ég deili með ykkur nokkrum uppskriftum sem verða í bókinni. Hér getið þið hlustað á þær upptökur.

Annars langaði mér bara að stinga inn nefinu og segja hæ við ykkur, langt síðan að ég hef skrifað færslu án þess að láta uppskrift fylgja með.

Ég vona að þið hafið það rosa gott kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, August 7, 2013

Vinningshafinn í gjafaleiknum...


 Alls tóku 510 lesendur þátt í gjafaleiknum hér á blogginu í samstarfi við verslunina Borð fyrir Tvo. Eins og ég  hef gert í þeim gjafaleikjum sem ég hef verið með á blogginu þá nota ég forrit á netinu til þess að velja sigurvegara. Það var hún Bryndís Gunnarsdóttir sem var númer fjórtán að þessu sinni og fær hún því þessa fallegu bolla. 

Takk fyrir góða þátttöku kæru vinir, það verður vonandi fljótlega aftur gjafaleikur fyrir ykkur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran



Tuesday, August 6, 2013

Græni ofurdjúsinn


Ég er viss um að þessi dagur sé upplagður fyrir grænan ofurdjús. Stærsta útileiguhelgi ársins á enda og eflaust margir þreyttir eftir herlegheitin. Þessi djús hjálpar svo sannarlega til við að fá smá hressingu í líkamann. 

Græni ofurdjúsinn 

1 bolli frosið mangó 
handfylli ferskt spínat 
2 - 3 cm rifinn engiferrót 
1 msk. Chia fræ (ég legg þau fyrst í bleyti í 10 mín) 
appelsínusafi með aldinkjöti, magn eftir smekk 
nokkur myntulauf 
1/2 límóna, safinn 
klakar 
skvetta af hunangi eða agavesírópi (smekksatriði) 

Aðferð:

Setjið allt í blandarann í nokkrar mínútur, njótið strax. 

Djúsinn hressir og kætir, svo mikið er víst. Ég vona að þið hafið haft það gott um helgina og ég vona að vikan verði ykkur enn betri. Ég mæli með að þið fylgist með blogginu í kvöld því ég ætla að draga út heppinn vinningshafa í PIP leiknum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran






Friday, August 2, 2013

Góða helgi


Góða helgi kæru vinir. Ég byrjaði helgina á því að fara í hjólatúr í sveitinni, veðrið er draumur í dós og því um að gera að hreyfa sig í náttúrunni. Ég eyði helginni í bókaskrif og vinnu, ætla líka að borða góðan mat og hafa það huggulegt heima við. Ég vona að helgin ykkar verði stórkostleg og munið að njóta hennar í botn með fólkinu ykkar. 

Farið varlega og góða skemmtun. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, August 1, 2013

Lífið Instagramað

Ég skrifaði undir samstarfssamning við Kost. Það verður spennandi samstarf! 

 Bíóklúbburinn Bríet bregður á leik, ég á svo skemmtilega vini. 

 Morgunbooztið í háu og fallegu glasi.

 Systur að kokteilast á Kopar.

 Fallegt útsýni. 

Kokteill í Boston. 

Með Ernu minni á Sushitrain. 

Ég minni ykkur á gjafaleikinn á blogginu kæru vinir, hér skráið þið ykkur til leiks. 

Þið getið fylgst með mér á Instagram, finnið mig undir evalaufeykjaran.

Helgin byrjar hjá mörgum í kvöld og ég vona að þið eigið góða helgi framundan, munið þó að ganga hægt um gleðinnar dyr kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran