Tuesday, March 27, 2012

Cupcakes skreytingar og ljúffengar Vanillu cupcakes.


Ég fékk margar fyrirspurnir um það hvaða stút ég notaði til þess að búa til rósir og hvernig maður býr til svona rósir svo ég tók nokkrar myndir sem vonandi sýna ykkur hversu auðvelt það er að laga svona fallegt kökuskraut. 

Ég nota stút frá Wilton númer 2D.

Ég fékk hann í Noregi og er því miður ekki viss hvar hann fæst hér, en endilega ef það er einhver sem veit það þá má sá hinn sami endilega deila því með mér og okkur. 

Mér finnst þessar rósir einstaklega fallegir. 

Ein og sér á cupcakes eða margar saman og búa þannig til blómvönd

Þegar að ég bý til margar saman þá grunna ég kökuna fyrst með kreminu og geri svo rósirnar.
Með því þá festast þær betur.

Gott er að setja kökuna í kæli þegar að þið eruð búin að skreyta kökuna, því kremið er misjafnlega stíft og það væri heldur leiðinlegra ef skrautið færi að leka. 

Í dag lagaði ég vanillu cupcakes með vanillusmjörkremi

Vanillu cupcakes

250 gr. Sykur
140 gr. Smjör
2 Egg
250 gr. Hveiti
1 1/2 msk. Vanilla Extract
1 tsk. Lyftiduft
1 - 2 dl. Mjólk

Þeytið saman smjör og sykur í þrjár mínútur, bætið einu og einu eggi saman við. Þeytið vel á milli. 
Sigtið saman hveiti og lyftiduft amk. þrisvar sinnum. Bætið hveitiblöndunni, vanilla extract og mjólkinni saman við og blandið mjög vel saman í nokkrar mínútur þar til blandan verður orðin silkimjúk.

Setjið í cupcakes form og inn í ofn við 180°C í 20 mínútur. 

Kælið alveg að bakstri loknum og skreytið með góðu kremi. 

Smjörkrem:

230 gr. Mjúkt smjör
5 dl. Flórsykur
2 tsk Vanilla Extract
2 msk. Mjólk

Ég skipti kreminu í tvo helminga og lét smá bleikan matarlit í annan helminginn. 


Helmingur hvítur og helmingur bleikur. 
Kemur sérlega skemmtilega út á kökunum.

 Fallegar vanillu cupcakes. 

 WILTON 2D Stútur

                                      Nr. 1                                                                 Nr.2                                         Nr.3                                                               Nr.4

                                 Nr.5                                                                    Nr.6


Yndislegar. 

 Glimmer sem er algjör snilld. Fæst m.a. í Hagkaup
 Fallegar cupcakes og fallegar rósir. 
Skemmtilegt að bera þær fram. 

Ég vona að þið njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, March 25, 2012

Blómvöndur í súkkulaðiformi.


Blómvöndur í súkkulaðiformi.

Í dag þá bakaði ég uppáhalds súkkulaðikökuna mína, mömmudraum. 
Uppskrift finnið þið hér
Ég skreytti hana sem blómvönd og mér finnst hún agalega falleg. 

Augnyndi og ansi ljúffeng.Huggulegheit. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, March 24, 2012

Orkuríkt Berjaboozt

 Líkt og ég hef sagt áður þá finnst mér mjög gott að laga mér boozt eins oft og ég get.
 Þetta boozt er svakalega gott.

Berjaboozt 

2 1/2 dl. Frosin ber (Ég skolaði þau áður en ég notaði þau)
2 Lófar spínat
1 Banani
1 1/2 msk. Hörfræ
Engiferrót eftir smekk. Rótin skræld og rifinn niður með rifjárni. 
1 Stórt glas Trópí Tríó 

Allt saman í blandarann í nokkrar mínútur. 

Orkumikið og bragðgott. 

Í morgun vaknaði ég við sólargeisla, það var dásamlegt. Dreif í sund og er búin að hafa það ansi huggulegt. Næst á dagskrá er göngutúr í sveitinni.
 Þegar veðrið er gott þá langar manni  að gera allt og njóta þess að sleppa dúnúlpunni. 

Það verður allt betra með sólinni og góðum boozt auðvitað!

Ég vona að þið eigið ljúfa helgi.
xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, March 23, 2012

Huggulegt föstudagskvöld

Við Haddi höfðum það huggulegt í kvöld á Hvolsvelli. 
Í matinn var uppáhalds matur okkar beggja, lambahryggur. Ég held að það sé fátt sem er jafn gott. 
Lambahryggur, grænmeti, rjómakennd hrísgrjón og brún sósa.

Er nokkuð betra en íslenska lambið??

Ansi, ansi gott. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, March 22, 2012

23.03.12

 Viðtal við mig um elskulega bloggið í skólablaði HR.
Mjög skemmtilegt þegar að fólk hefur áhuga á blogginu og mikil ósköp sem ég er heppin að þið gefið ykkur tíma til þess að heimsækja bloggið. 


Vonandi eigið þið ljúfan föstudag og góða helgi! 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sumarþrá

Er ekki sumarið alveg að fara að koma?? 
Ég get varla beðið lengur. Mikið sem ég hlakka til að fá sólina til mín! 
Ég hugsa um París einu sinni á dag. Ég og Haddi fórum þangað síðastliðið sumar og þvílík dásemd!
Sól, góður matur, falleg borg og huggulegheit. 
Ég hlakka til að ferðast eitthvað í sumar og hafa það huggulegt. 


Ég mæli innilega með því að þið farið Parísar. Borgin er yndisleg.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, March 20, 2012

Vanillu cupcakes með karamellum.


Elsku Haddi minn á afmæli í dag og ákvað ég því að skella í nokkrar cupcakes. 
Mér finnst þessar agalega góðar og kremið dásamlegt. 
Þær eru líka bara svo fallegar, ég tók svo margar myndir af þeim og var farin að semja sögur um hverja köku fyrir sig. Jú þið heyrðuð rétt, að mínu mati segir hver og ein kaka krúttlega sögu. Ég er líkast til pínu skrýtin að halda það, en en það er nú gott að vera pínu skrýtin. 
Ég hef það alla vega mjög huggulegt með kökunum mínum.  :-) 

Vanillu cupcakes með karamellum. 

200 gr. Smjör
3 dl. Sykur
4 Egg
5 dl. Hveiti
1 1/2 tsk Lyftiduft
4 dl. Rjómi
2 msk. Kakó
2 msk. Vanilla Extract
14 karamellur að eigin vali ( Ég notaði Toms Golden karamellur) 

Aðferð. 

Þeytum smjör og sykur saman í um það bil fjórar mínútur, þá verður deigið orðið fluffy og fínt.
Bætum einu og einu eggi saman við. Sigtum hveiti og lyftiduft saman. 
Bræðum karamellur og 1 dl. af rjómanum í potti við vægan hita, það er gott að byrja á þessu því karamellublandan þarf að kælast áður en við blöndum henni saman við. 
Bætum hveitiblöndunni, vanillu extract, kakóinu, rjómanum og karamellusósunni saman við og blöndum í ca. 3 mínútur.
Þá ætti cupcakes blandan að vera tilbúin. 

Inn í ofn við 180°C í 20 mínútur. 

Uppskrift að kreminu finnið þið hér 

Dásamlegt hvítt súkkulaðikrem
Ég bræddi nokkrar karamellur til viðbótar og skreytti nokkrar cupcakes þannig. 

Njótið vel elsku þið.
Hver stal kökunni úr krúsinni í gær?

xxx


Eva Laufey Kjaran