Tuesday, February 24, 2015

Fimm myndir


Bleikir og fallegir túlípanar fegra heimilið


Það er svo agalega notalegt að kúra með dömunni minni, kúrið varir þó ekki lengi því henni finnst mikið skemmtilegra að vera á hreyfingu og hafa smá fjör í þessu. 


Ingibjörg Rósa drottning heimilisins bræðir mig alla daga og ég fæ ekki nóg af því að mynda hana. 


Blómagleðin á heimilinu, það er svo gaman að eiga fín og falleg blóm. Þennan blómvönd gaf hann Haddi minn mér á konudaginn. 


Uppáhaldið mitt í miðbænum, Matarkistan. Ég ELSKA góðar makkarónur og í Matarkistunni eru þær lang bestar. Þetta er ótrúlega falleg sælkerabúð og mig langar í allt hjá henni Sigurveigu ofurkonu í eldhúsinu. Ef þið hafið ekki kíkt þangað þá mæli ég með að þið gerið það undir eins. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Monday, February 23, 2015

Fiskibollurnar hennar ömmu Stínu

Öll eigum við minningu um mat, ég á margar mjög góðar minningar úr eldhúsinu hennar ömmu. Eitt af því sem mér fannst best að fá hjá henni voru fiskibollurnar hennar. Ég sé ömmu alltaf fyrir mér í eldhúsinu sínu í Engihjallanum með svuntu á hundrað að gera bollur handa stórfjölskyldunni. Mamma gerði þessar bollur reyndar líka mjög oft heima, þá þótti mér mesta sportið að fylgjast með þegar hún hakkaði fiskflökin. Það var mjög spennandi. Ég hef smakkað allskonar bollur en það er engin uppskrift sem kemst með tærnar þar sem þessi hefur hælana. Lyktin sem umvefur heimilið er ótrúlega góð og bollurnar eru svo ljúffenga. Þær eru silkimjúkar og bragðast æðislega vel með soðsósunni góðu.


Fiskibollurnar hennar ömmu 
 • 800 fiskhakk
 • 1 meðalstór laukur, smátt saxaður
 • 1 msk. Aromat
 • Salt og nýmalaður pipar, magn eftir smekk
 • Kornax hveiti 
 • 1 Brúnegg
 • 3 msk. smjör, brætt
 • 1/2 - 1 dl. mjólk
Aðferð: 

 1. Blandið fiskhakkinu og lauknum saman í skál. 
 2. Þjappið deiginu jafnt niður í skálina og skiptið í fjóra hluta með því að skera létt i deigið. 
 3. Takið einn hluta upp úr skálinni og leggið til hliðar. 
 4. Fyllið það hólf með hveiti og kryddið til með aromat, salti og pipar. 
 5. Bætið egginu og smjörinu saman við og blandið öllu mjög vel saman, bætið mjólinni smám saman við eða þar til þið eruð ánægð með áferðina á farsinu. 
 6. Hitið smjör á pönnu og mótið bollurnar með tveimur skeiðum, steikið bollurnar á hvorri hlið í 3 - 4 mínútur.
 7. Þegar bollurnar eru tilbúnar þá leggið þið þær í rúmgóðan pott, hellið sjóðandi  vatni yfir og leyfið bollunum að malla við vægan hita í 20 - 30 mínútur. 
 8. Takið bollurnar upp úr soðinu, þykkið soðið með smjörbollu eða maizena. Leyfið sósunni að malla í smá stund og smakkið til með salti, pipar og fisktening ef ykkur finnst þurfa meira bragð. 
 9. Berið bollurnar fram með soðnum kartöflum, sósu og sultu. (Og smjöri). 
Fyllið hólfið með hveiti og kryddinu. Því næst bætið þið fiskpartinum sem þið tókuð upp úr aftur ofan í skálina og blandið öllu mjög vel saman.Ég vil hafa áferðina svona, en þið prófið ykkur áfram og finnið út hvernig þið viljið hafa farsið.

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sunday, February 22, 2015

Besta döðlukakan með karamellusósuÞessi kaka fer með mig til Bretlands í huganum, ég bjó í Oxford í nokkra mánuði eftir að ég kláraði framhaldsskóla. Þar var ég í enskunámi og vann á litlu veitingahúsi. Það er ekki hægt að segja að bresk matarmenning hafi heillað mig upp úr skónum en einn eftirréttur gerði það svo sannarlega, en hann heitir Sticky Toffee Pudding. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég gæddi mér á honum og ég geri hann mjög oft hér heima fyrir, en þá ber ég hann fram sem eina stóra köku. Döðlur eru dísætar og dásamlegar og eru einstaklega ljúffengar í þessari köku. Þetta er fullkomin kaka á sjálfan konudaginn. 

Döðlukaka með dásamlegri karamellusósu

 • 5 msk sykur
 • 120 g smjör, við stofuhita
 • 2 Brúnegg
 • 100 g Kornax hveiti 
 • 210 g döðlur
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/2 salt
 • 1/2 vanillu extract, eða dropar
 • 1 1/2 tsk lyftiduft


Aðferð; í máli og myndum  1. Byrjið á því að stilla ofninn á 180°C.
 2. Leggið döðlurnar í pott og látið vatn fljóta yfir.
 3. Hitið döðlurnar og vatnið í potti, þegar vatnið er byrjað að sjóða takið pottinn af hitanum og látið standa í 3 - 4 mínútur. 


4. Blandið matarsóda saman við döðlumaukið og hrærið vel saman.
5. Leggið blönduna til hliðar. 


6. Hrærið saman sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós. Bætið eggjum saman við, einu í einiu. Sigtið þurrefnin saman og bætið út í deigið ásamt vanillu. 
7. Blandið döðlumaukinu smám saman út í deigið og blandið varlega saman með sleif. 8. Smyrjið hringlaga bökunarform (ég notaði 9" eða 24 cm). Mér finnst best að klippa út bökunarpappír og setja í botninn, það auðveldar að ná kökunni úr forminu. 
9. Hellið deiginu í formið og bakið í 30 - 40 mínútur eða þar til miðjan er alveg bökuð. 

Kakan tilbúin og lyktin dásamleg, leyfið kökunni að kólna aðeins áður en þið berið hana fram. 

Heit karamellusósa. 

 • 120 g smjör
 • 1 1/2 dl rjómi
 • 120 g púðursykur


1. Hitið öll hráefnin í potti þar til karamellan fer að sjóða, hrærið reglulega í pottinum eða þar til þið hafið náð ágætri þykkt á karamellunni. Ég vil ekki hafa hana of þykka og ég hræri þess vegna ekki of lengi. Þessa sósu er hægt að bera fram með flestum eftirréttum, en hún er algjört lostæti. 


Kakan er vissulega góð ein og sér en karamellusósan er eiginlega nauðsynleg. Svo er auðvitað afskaplega gott að hafa ís eða rjóma með. 


xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Wednesday, February 18, 2015

Heimagerð dekurlína í Reykjavík Makeup Journal


Í nýjasta tölublaði Reykjavík Makeup Journal er lögð áhersla á húðina. Í blaðinu má finna nokkrar uppskriftir að andlitsmöskum og skrúbbum sem ég gerði úr hráefnum sem ég átti til í eldhúsinu. Það var mjög skemmtilegt að útbúa eigin dekurlínu. Einnig er það einfaldara en ég hélt og útkoman kom á óvart. Fyrir þá sem vilja forðast snyrtivörur með óæskilegum eiturefnum er kjörið að búa þær til sjálfur. Ég hvet ykkur til þess að prófa ykkur áfram en þið getið byrjað á því að prófa þessar uppskriftir sem eru í blaðinu. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera einfaldar, þægilegar og ljúffengar. Reykjavík Makeup Journal er afar glæsilegt blað og fyrir mig, sem veit lítið um snyrtivörur þá er þetta algjör snilld. Hér getið þið lesið blaðið á netinu. Erna Hrund Hermannsdóttir á mikið lof skilið fyrir glæsilegt blað. 
Það er fullkomið þegar veðrið er grátt og leiðinlegt að skipuleggja dekurkvöld með vinkonum og vinum. Það bæði bætir og kætir.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, February 12, 2015

Brauðbollur með hörfræjum
Ilmurinn af nýbökuðu brauði er dásamlegur. Þegar ég er í morgunstuði, þá baka ég eitthvað gott og nýt þess í botn að fá mér góðan morgunmat í rólegheitum á meðan Ingibjörg Rósa tekur lúrinn sinn. Ilmurinn af nýbökuðu brauði og kaffi er ofsalega góður og hefur róandi áhrif. Ég baka oft brauð hér heima. Ég hef verulegan áhuga á brauði og mér finnst lærdómsríkt að prófa mig áfram. Ég verð líka svo montin þegar vel tekst til. Það kemur fyrir að baksturinn gangi bara ekki neitt - þá stekk ég út í bakarí. Æfingin skapar meistarann og ég held áfram að æfa mig. Öðruvísi lærum við ekki neitt. Þessar bollur eru af einföldustu gerð, það er lygilega fljótlegt að útbúa þær. Brauð eru alltaf langbest samdægurs og þess vegna baka ég bara minni skammta ef þetta er bara fyrir okkur Hadda. Það er engu að síður ekkert mál að tvöfalda þessa uppskriftina.


Brauðbollur með hörfræjum


 • 3 dl volgt vatn
 • 2 tsk. þurrger
 • 1 msk. fljótandi hunang 
 • 275 g Kornax hveiti 
 • 50 g Kornax heilhveiti 
 • 50 g ýmis korn eða fræ að eigin vali (ég notaði hörfræ í þetta sinn)


Aðferð:


 1. Leysið gerið upp í volgu vatni. (látið standa í þrjár mínútur)
 2. Bætið hunanginu út í og blandið saman.
 3. Setjið hveiti, heilhveiti og fræ í skál og hrærið.
 4. Hnoðið allt hráefni saman í skál. 
 5. Breiðið klút yfir skálina og látið deigið lyfta sér að minnsta kosti í hálftíma. 
 6. Mótið bollur og raðið þeim á pappírsklædda ofnplötu, látið bollurnar lyfta sér í hálftíma. Ég fæ um það bil 6 - 8 bollur úr einfaldri uppskrift. 
 7. Pískið eitt egg og penslið bollurnar með eggjablöndunni, sáldrið gjarnan fræjum yfir. 
 8. Bakið við 200°C í 30 - 35 mínútur. 

Berið strax fram og njótið.

Mitt uppáhald, morgunbolla með smjöri, osti og eggi. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran HermannsdóttirSunday, February 8, 2015

Ómótstæðilegar rjómabollur
Það hefur tíðkast á Íslandi í yfir hundrað ár að borða bollur á bolludaginn og frá því að ég var lítil þá hefur þessi dagur verið í algjöru uppáhaldi. Ég veit fátt betra en vatnsdeigsbollu með sultu og rjóma, eða annarri góðri fyllingu. Þegar ég var yngri var mikið sport að fá bollu með bleikum og dísætum rjóma, mamma bakaði alltaf heil ósköp af bollum og svo voru alltaf fiskibollur um kvöldið og rjómabollur í desert. Svo vorum við að sjálfsögðu með bolluvendi en ég hef ekki föndra mér slíkan undanfarin ár, ég hlakka til þegar Ingibjörg Rósa smakkar sína fyrstu bollu. Það verður auðvitað ekki nú í ár en kannski á næsta ári, ég er kannski eina móðirin sem hlakka til að bjóða barninu mínu rjómalagað bakkelsi en það má nú heldur betur skapa skemmtilegar minningar og það er allt gott í hófi, það er reglan okkar. Ég tók forskot á sæluna og bakaði nokkrar bollur, það þarf alltaf að æfa sig fyrir stóra daginn. Ég gerði hefðbundnar vatnsdeigsbollur bæði með glúteini og án glúteins. Þið finnið uppskrift að glútenfríum bollum hér.
Það er lítill vandi að búa til sínar eigin bollur og það er gaman að prófa allskonar fyllingar þó vissulega sé bolla með sultu og rjóma alltaf góð þá getur verið ágætt að breyta til. Ég mæli með að þið margfaldið ekki uppskriftina því það er hætta á að hlutföllin riðlist, mér finnst best að laga eina uppskrift í einu.
Hér er uppskrift að vatnsdeigsbollum og þremur ljúffengum fyllingum.

8 - 10 bollur

 • 100 g smjör
 • 2 dl vatn
 • 2 msk sykur (má sleppa)
 • 110 g Kornax hveiti
 • 3 stór Brúnegg (eða fjögur lítil)
Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 200°C. (blástur)
 2. Hitið vatn, smjör og sykur saman í potti og látið suðuna koma upp. (gott er að láta vatn, sykur og smjör sjóða vel saman í 2 - 3 mínútur áður en hveitið er sett út í.
 3. Setjið hveiti út í, hrærið saman og látið kólna í 4 mínútur.
 4. Takið pottinn af hitanum og setjið eggin út í eitt í einu, sláið vel saman á milli. Það er líka ágætt að setja deigið í hrærivélaskál og hræra þannig saman.
 5. Setjið í sprautupoka og sprautið bollunum á pappírsklædda bökunarplötu en það má auðvitað gera það líka með tveimur skeiðum.
 6. Bakið bollurnar í 25 – 30 mínútur, það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar af bökunartímanum því þá er hæta á að bollurnar falli.  


Tips! Mér finnst gott að slá eggin létt saman áður en bæti þeim saman við deigið.

Svona lítur deigið út þegar það er tilbúið, svolítið stíft viðkomu. Sprautið bollurnar á pappírsklædda ofnplötu eða notið tvær skeiðar til að móta bollurnar.

Ljúffengar fyllingar
Jarðarberjafylling
 Klassísk og góð fylling sem fær mig til þess að fara aftur í tímann þegar ég var yngri og fékk pening hjá mömmu til þess að hlaupa út í bakarí og kaupa mér eina gómsæta bollu með dísætu bleiku kremi. Nostalgían í hámarki við hvern bita...

 • 1 askja jarðarber (10 - 12 stk)
 • 4 dl rjómi
 • 2 tsk. flórsykur

Aðferð:
 1. Maukið jarðarberin með töfrasprota eða með gaffli.
 2. Þeytið rjóma og sigtið flórsykur saman við í lokin
 3. Blandið jarðarberjamaukinu varlega saman við rjómablönduna með sleif.

Nutella - og bananarjómi

 Þetta er fyllingin sem þið óskið að taki aldrei enda, hún er of góð til að vera sönn. (en þetta er engu að síður sönn saga)
 • 4 dl rjómi
 • 1 banani
 • 3 msk. Nutella

 Aðferð:
 1. Þeytið rjóma.
 2. Maukið banana og Nutella saman með töfrasprota eða stappið vel saman með gaffli.
 3. Blandið bananablöndunna varlega saman við rjómann með sleif.

 Karamellufylling
Karamella er klassísk og hún er alltaf góð, það er ekki annað hægt en elska hana. Þessi fylling er algjört sælgæti og ég gæti vel trúað að hún eigi eftir að falla vel í kramið hjá börnum. Dísæt og dásamleg.
 • 4 dl rjómi

 • 3 msk. karamellusósa (sjá uppskrift hér)


 • 1 - 2 dl. karamellukurl
Aðferð:
 1. Þeytið rjóma.
 2. Blandið karamellusósu saman við rjómann með sleif, prófið að gera ykkar eigin karamellusósu. Það er miklu einfaldara en ykkur grunar. Hér er góð uppskrift. Passið að hún sé köld þegar þið blandið henni saman við rjómann.
 3. Í lokin blandið þið karamellukurli saman við rjómablönduna.


Njótið vel kæru lesendur.
xxx
Rjómabollan

Glútenfríar og ljúffengar rjómabollur með jarðarberjafyllinguÞað eru margir sem þola illa glútein og vilja sleppa því. Sjálf borða ég það, en mig langaði engu að síður að búa til glútenfríar bollur fyrir þá eða þær sem vilja sleppa glúteini. Ég notaði glútenfrítt mjöl frá Finax í bollurnar, persónulega finn ég engan mun á þeim sem innihalda ekki glútein og týpískum vatndeigsbollum. Það er eingöngu munur á áferðinni á deiginu þegar ég bý þær til, glútenfría mjölið er mjög fíngert, deigið verður því léttara í sér og þarf því örlítið meira magn af mjölinu. Að öðru leyti bragðast þetta eins og eru bollurnar sérstaklega góðar með gómsætri jarðaberjafyllingu.

 
 
Glútenfríar og ljúffengar rjómabollur með jarðarberjafyllingu
 
8 - 10 bollur • 100 g smjör
 • 2 dl vatn
 • 2 msk sykur (má sleppa)
 • 120 g Finax glútenfrítt mjöl
 • 3 stór Brúnegg (eða fjögur lítil)
Aðferð:
 1. Hitið ofninn í 200°C.
 2. Hitið vatn, smjör og sykur saman í potti og látið suðuna koma upp. (gott er að láta vatn, sykur og smjör sjóða vel saman í 2 - 3 mínútur áður en hveitið er sett út í. )
 3. Setjið hveiti út í, hrærið saman og látið kólna í 4 mínútur.
 4. Takið pottinn af hitanum og setjið eggin út í eitt í einu, sláið vel saman á milli. Það er líka ágætt að setja deigið í hrærivélaskál og hræra þannig saman.
 5. Setjið í sprautupoka og sprautið bollunum á pappírsklædda bökunarplötu en það má auðvitað gera það líka með tveimur skeiðum.
 6. Bakið bollurnar í 25 – 30 mínútur, það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar af bökunartímanum því þá er hæta á að bollurnar falli.  
Jarðarberjafylling
 • 1 askja jarðarber ca. 8 - 10 stk.
 • 4 dl rjómi
 • 2 tsk flórsykur
Aðferð:
 1. Maukið jarðarberin með töfrasprota eða með gaffli.
 2. Þeytið rjóma og sigtið flórsykur saman við í lokin.
 3. Blandið jarðarberjamaukinu varlega saman við rjómablönduna með sleif.
 4. Setjið fyllinguna í sprautupoka og sprautið á bollurnar. Ég sáldraði flórsykri yfir bollurnar en það er að sjálfsögðu hægt að setja á þær glassúr. Bæði betra.
 
Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Saturday, February 7, 2015

Ástaraldin mojito, suðrænn og seiðandi.


Síðastliðinn fimmtudag dæmdi ég í Íslandsmeistarakeppni barþjóna, þar bragðaði ég á mörgum ótrúlega góðum kokteilum og það var ansi skemmtilegt að sjá mismunandi kokteila og metnaðurinn var mikill hjá barþjónunum. Það skapar oft skemmtilega stemningu að bera fram fallegan og frískandi drykk í boðum, að mínu mati þurfa þeir ekkert endilega að vera áfengir. Á meðan ég var ólétt fékk ég mér oft góðan kokteil með vinkonum mínum, óáfenga og mjög góða. Ég mæli með að þið prófið að gera kokteil heima við, það getur verið mjög skemmtilegt. Í bókinni minni Matargleði Evu er að finna uppskriftir að nokkrum ljúffengum kokteilum og hér kemur ein uppskrift sem er í mínu uppáhaldi. Ástaraldin mojito, suðrænn og seiðandi. 

Mojito
2 - glös

 • 4 límónur 
 • 20 myntulauf, og fleiri til skreytingar
 • 8 tsk hrásykur
 • 8 cl ljóst romm (má sleppa)
 • 4 ástaraldin eða fleiri til skreytingar
 • sódavatn eða sprite 
 • mulinn klaki 
Aðferð: Skiptið límónu, myntulaufum, hrásykri, rommi og ástaraldinum niður í tvö glös og merjið allt saman. Setjið mulinn klaka í glösin, allt upp að brún og hrærið vel í. Passið að ávextirnir liggi ekki á botninum í glasinu. Fyllið upp með sódavatni og skreytið drykkinn með myntulaufum og ástaraldinbitum. 

 Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Friday, February 6, 2015

Ítalskar kjötbollur í ljúffengri sósu


Ítalskar kjötbollur eru einfaldlega ómótstæðilegar, Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég birti uppskrift að þessum bollum.(og ekki í síðasta sinn) Ég nota yfirleitt aldrei sömu uppskrift þegar ég bý til bollurnar og þetta var í fyrsta skipti sem ég blanda nautahakki og svínahakki saman. Útkoman var dásamleg og bollurnar voru afar safaríkar og góðar. Það er mjög gott að bera þær fram með góðri sósu og  pasta, ég notaði linguine sem að mínu mati er betra með bollunum en spaghetti. Að sjálfsögðu er gott að sáldra vel af ferskum parmesan yfir bollurnar í lokin. Mér fannst óþarfi að vera með annað meðlæti með bollunum en það gæti verið gott að hafa ferskt salat og brauð með. Það er bara smekksatriði. Þetta er rétturinn sem þið ættuð að prófa um helgina kæru lesendur.

Ítalskar kjötbollur

Kjötbollur.

 • 500 g. Nautahakk
 • 500 g. svínahakk
 • 1 dl. brauðrasp
 • 1 laukur, smátt skorinn
 • 3 hvítlauksrif, marin
 • 3 msk. fersk steinselja, smátt söxuð
 • 1 msk. fersk basílika, smátt söxuð
 • 2 msk rifinn Parmesan ostur
 • 1 egg, létt pískað
 • salt og pipar, magn eftir smekk
 • smá hveiti
 • góð ólífuolía

Aðferð:
 1. Blandið öllum hráefnum saman með höndunum og búið til jafn stórar bollur úr deiginu.
 2. Veltið bollunum upp úr smá hveiti og leggið þær á pappírsklædda ofnplötu. Sáldrið olíu yfir bollurnar og setjið inn í ofn við 180°C í 10 – 15 mínútur.
 3. Þegar bollurnar eru tilbúnar þá setjið þið þær varlega ofan í sósuna og leyfið bollunum að malla í sósunni við vægan hita í 30-60 mínútur.  
 4. Sjóðið pasta sem þið viljið nota samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, ég mæli með að þið notið spaghettí eða linguini.
 5. Berið réttinn fram með rifnum parmesan og mikið af honum. 
Sósan

 • 2 -3 hvítlauksrif, marin
 • 1/2 laukur, smátt skorinn
 • 2 dósir hakkaðir tómatar
 • 4 dl vatn
 • 1/2 kjúklingateningur
 • 1 msk.fersk steinselja, smátt söxuð
 • 1 msk. fersk basilíka, smátt söxuð
 • 1 tsk. agave síróp
 • salt og pipar, magn eftir smekk


Aðferð:
 1. Hitið olíu við vægan hita í potti, steikið lauk og hvítlauk í olíunni í 1 - 2 mínútur. 
 2. Bætið öllu hinu í pottinn og leyfið sósunni að malla á meðan þið búið til kjötbollurnar. Mér finnst mjög gott að nota töfrasprotann eða matvinnsluvél til að mauka sósuna. Það er smekksatriði.


Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Tuesday, February 3, 2015

Ostaplatti og Focaccia.

Í Sunnudagsmogganum deildi ég uppskriftum úr matarboði sem ég hélt fyrir vinkonur mínar. Ef félagsskapurinn er góður er góður matur bara plús. Ítalskt þema var fyrir valinu þetta kvöld og við nutum þess að sitja, borða og blaðra langt fram á kvöld. Alveg eins og það á að vera.

Ég bauð upp á ostaplatta og nýbakaða Focacciu í forrétt, ótrúlega einfalt og mjög góð byrjun á matarboðinu. Ég vil gjarnan bera fram góðan mat en á sama tíma vil ég hafa þetta frekar þægilegt, ég er nefnilega oft á tíðum í stressi rétt áður en gestirnir koma og það er ferlega leiðinlegt þegar eldhúsið er á hvolfi þegar gestirnir hringja dyrabjöllunni. Ég þoli illa að vera ekki með allt tilbúið á réttum tíma. Ég tók það fram í textanum sem fylgdi Sunnudagsmogganum að besta reglan sem ég hef tamið mér undanfarið er að leggja alltaf á borð kvöldinu áður, þá losna ég við allt stress og það virðist allt svo áreynslulaust þegar gesti ber að garði. Þó maður hafi verið sveittur fimm mínútur áður en þau komu þá er alltaf búið að dekka upp. Það er besta húsfreyjuráð! Ég tók þetta upp eftir að ég sá að tengdamóðir mín er gjörn á að gera þetta með góðum árangri.

Ostaplatti og Focaccia


Fallegur ostaplatti er ávísun á góða samverstund. Það er fátt notalegra en að spjalla við skemmtilegt fólk og narta í ljúffenga osta á meðan. Ég ákvað að bjóða upp á ostabakka í forrétt og það kom mjög vel út og það setti tóninn fyrir þessu góða kvöldi. Ég fór í Sælkerabúðina á Bitruhálsi og fékk aðstoð við að velja osta sem passa í forrétt, ég var eins og barn í leikfangabúð í sælkeraversluninni en úrvalið er frábært. Ég mæli með að þið prófið að setja saman ostaplatta fyrir næsta matarboð. Það kemur skemmtilega á óvart!

Ostabakki
 • 3 ólíkir ostar að eigin vali, ég mæli með Prima Donnu, Brie og Saint Albray.
 • Góðar ólífur
 • Piccante, Sterkkrydduð Salami
 • Þykkvabæjar Salame, Hrossa Salami
 • Góð sulta
Raðið á bakka eða fat og berið fram með góðu brauði t.d. FocacciaFocaccia með hvítlauk og rósmarín

 • 900 g. Hveiti
 • 2 msk hunang
 • ½ tsk. Salt
 • 100 g. Smjör
 • ½ L mjólk
 • 1 pakki þurrger
 • 3 – 4 msk. Ólífuolía
 • 4 hvítlauksrif, smátt skorin
 • 2 msk. Rósmarín, smátt saxað


Aðferð:
 1. Hitið mjólkina í potti við vægan hita (mjólkin á að vera volg).
 2. Bætið þurrgeri út í mjólkina og látið standa í 4 – 5 mínútur.
 3. Bræðið smjör við vægan hita.
 4. Blandið öllu saman og hnoðið deigið vel eða þar til deigið er slétt og sprungulaust. Þá er deigið látið hefast undir viskastykki þar til það hefur tvöfaldast eða í um það bil 50 – 60 mínútur.
 5. Því næst er ofnskúffa smurð með ólífuolíu, deigið sett í skúffuna og því þrýst jafnt út í alla kanta. Viskastykki lagt yfir og látið hefast í um það bil 30 mínútur til viðbótar.
 6. Þegar brauðið hefur lyft sér er fingri stungið í brauðið og myndaðar holur á nokkrum stöðum. Því næst stingið þið hvítlauksrifum í deigið og sáldrið bæði ólífuolíu og söxuðu rósmarín yfir deigið. Það er líka mjög gott að setja gróft sjávarsalt yfir í lokin.
 7. Bakið brauðið við 200 °C í 15-20 mínútur eða þar til brauðið er orðið gullinbrúnt. Berið fram með góðri ólífuolíu. Hér eru þær, dásamlegu vinkonur mínar. Guðrún Sóley. Gunnhildur, Fríða og Elín Edda. Ég mæli með að þið bjóðið fjölskyldu og vinum í mat sem fyrst, það er ávísun á gæðastund. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir