Monday, August 25, 2014

Íslenska kjötsúpan

Á haustdögum er fátt betra en matarmikil og góð súpa, að mínu mati er Íslenska kjötsúpan sú allra besta. Það er fátt notalegra en að útbúa gómsæta súpu og leyfa henni að malla í rólegheitum, ilmurinn sem fer um heimilið er dásamlegur. Það góða við þessa súpu er að hún er enn betri daginn eftir. Ég fæ ekki nóg af þessari súpu og það skemmir ekki fyrir að hún er bráðholl. 

Prófið gjarnan þessa uppskrift og ég er handviss um að þið eigið eftir að njóta vel. 

Uppskriftin er úr bókinni minni Matargleði Evu.

Íslenska kjötsúpan 
 • 700 – 800 g lambasúpukjöt
 • 3 l vatn
 • 4 grænmetisteningar
 • 200 g gulrætur, flysjaðar og skornar í litla bita
 • 2 meðalstórar rófur, flysjaðar og skornar í litla bita
 • ½ spergilhálshöfuð, skorið í litla bita
 • ½ hvítkálshöfuð, skorið í litla bita
 • 5 msk súpujurtir
 • Örlítið af hafra—eða hrísgrjónum, um msk
 • Salt og pipar, magn eftir smekk
 • Smátt söxuð fersk steinselja
Aðferð: 


Setjið kjötið í pott og hellið köldu vatni yfir. Hitið rólega að suðu og fleytið froðu ofan af. Endurtakið nokkrum sinnum til að losna við sem mest af froðunni. Skerið grænmetið í litla bita og bætið
út í, kryddið til með salti og pipar. Leyfið súpunni að malla undir loki í 30 mínútur. Bætið grænmetisteningum, súpujurtum og hafra- eða hrísgrjónum saman við og leyfið súpunni að malla í 30
mínútur til viðbótar. Það er mjög mikilvægt að smakka súpuna á þessum tímapunkti. Sjóðið kartöflur í sér potti og berið fram með súpunni. Saxið ferska steinselju og sáldrið yfir súpuna áður
en þið berið hana fram. Á mínu heimili er alltaf boðið upp á smurt rúgbrauð með súpunni og það þykir mér einstaklega gott.xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, August 7, 2014

Mánaðargömul

Ingibjörg Rósa varð mánaðargömul í gær 6.ágúst. Tíminn líður hratt og okkur Hadda finnst hún stækka á ógnarhraða. Emilía Ottesen vinkona mín tók myndir af henni þegar hún var tveggja vikna og mig langar að deila nokkrum myndum með ykkur. Á Facebook síðu Emilíu getið þið skoðað fleiri myndir sem hún hefur tekið. Hún er mjög hæfileikarík og myndirnar hennar gullfallegar. Við erum ótrúlega ánægð með myndirnar sem við fengum. 

Hér eru þrjár myndir af draumadísinni okkar. 
xxx

Eva Laufey K.Hermannsdóttir

Tuesday, August 5, 2014

Besta eplabakan með salthnetum og ljúffengri karamellusósu.

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að eplaböku sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Bakan er afskaplega einföld og fljótleg sem er alltaf plús. Ég baka þessa mjög oft, bæði þegar ég á von á góðum gestum og svo bara þegar kökulöngunin kemur upp. (sem gerist ósjaldan). Ég hvet ykkur til þess að prófa þessa uppskrift. Ég þori að lofa ykkur því  að þið eigið eftir að baka þessa aftur og aftur. 

 Besta eplabakan með salthnetum og ljúffengri karamellusósu.

 • 5-6 stór græn epli
 • 2 msk. sykur
 • 2 - 3 tsk. kanill
 • 1 tsk. vanillusykur eða vanilludropar
 • 50 - 60 g. súkkulaðispænir frá Nóa Síríus
 • 80 g. hveiti
 • 80 g. sykur
 • 80 g. smjör
 • 50 g. haframjöl
 • salthnetur, magn eftir smekk
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Flysjið eplin, fjarlægið kjarna og stilka. Skerið eplin í litla bita og dreifið eplabitunum í eldfast mót. Blandið sykri, vanillusykri og kanil saman við eplin. Sáldrið súkkulaðispænum yfir eplin. Næsta skref er að útbúa deigið sem fer ofan á eplin. Blandið hveiti, sykri, smjöri og haframjöli saman í skál og blandið saman með höndunum. Dreifið deiginu yfir eplin og sáldrið salthnetum yfir í lokin. Setjið bökuna inn í ofn í  35 - 40 mínútur. 

Á meðan að bakan er í ofninum þá er upplagt að útbúa ljúffenga karamellusósu. 

 • 1 poki Góa kúlur 
 • 2 - 3 dl. rjómi 
Aðferð: Bræðið kúlurnar í rjómanum við vægan hita í potti. 

Berið eplabökuna fram með ís og karamellusósunni. 
Ég er virkilega ánægð með þessa tvennu, rúsínur og salthnetur eru algjör dásemd. Ég vona að þið njótið vel.

xxx

Eva Laufey K.Hermannsdóttir