Monday, February 29, 2016

Vikumatseðill 29 febrúar - 6 mars

Enn ein helgin að baki og tíminn flaug áfram. Við áttum mjög góða helgi eftir veikindaviku heima fyrir, það var kærkomið að komast aðeins út og sérstaklega fyrir Ingibjörgu Rósu sem þráði að komast aðeins út að leika. Við höfum sagt skilið við pestir og tökum ekki á móti fleirum, nú tökum við hins vegar á móti hækkandi sól takk fyrir pent:)

Hér koma hugmyndir að vikuseðlinum sem ég vona að nýtist ykkur vel. 

Mánudagar eru fiskidagar samkvæmt mínum bókum og það er tilvalið að hefja vikuna á þessu gómsæta salati með ofnbökuðum laxi og sætum kartöflum. 

Á köldum dögum er fátt betra en góð og matarmikil súpa, frönsk lauksúpa er ein af þeirra og hún er virkilega bragðmikil. Ef þið hafið ekki smakkað hana nú þegar þá er tími til kominn á þriðjudaginn:)

Þetta er einn af mínum eftirlætis núðluréttum, þessi réttur er stútfullur af góðgæti og er borin fram með bragðmikill wasabi sósu.

Einfaldur og góður steiktur karrífiskur er frábær á fimmtudagskvöldi, borin fram með jógúrtsósu og fersku grænmeti. 

Föstudagar eru pizzadagar og hér má finna þrjár ljúffengar pizzur sem þið ættuð að prófa til dæmis þessi pizza með forsteiktu beikoni og rjómaosti. 

Um helgina ættuð þið að prófa að hægelda lambalæri með öllu tilheyrandi. 

Helgarbaksturinn er þessi fallega og einfalda Silvíukaka sem allir elska. 

Ég vona að þið eigið stórgóða viku framundan. 
xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

Friday, February 26, 2016

Ofnbakaður lax í sítrónu- og smjörsósu

Ef það væri hægt að finna lykt af matnum í gegnum sjónvarp/tölvu þá væruð þið eflaust kolfallin fyrir þessum ljúffenga rétti. Hann er það einfaldur að hann gæti flokkast sem skyndibiti, það tekur rúmlega fimmtán mínútur að búa hann til og er hann algjört sælgæti. Einfaldleikinn er of bestur og þessi réttur sannar það. 

Ofnbakaður lax með ferskum tómötum

 • 800 g beinhreinsað laxaflak með roði
 • Salt og pipar
 • 1 sítróna, börkur og safi
 • 5-6 msk smjör
 • Ólífuolía
 • 1 askja kirsuberjatómatar
 • 1 stór tómatur
 • 1 rauðlaukur
 • Balsmikgljái
 • Ólífuolía
 • Handfylli basilíka 

Aðferð:
 1. Leggið laxaflakið í eldfast mót, kryddið til með salti, pipar og nýrifnum sítrónuberki.
 2. Sáldrið ólífuolíu yfir og smjöri. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur.
 3. Á meðan fiskurinn er í ofninum útbúið þið einfalt tómatasalat.
 4. Skerið kirsuberjatómata, rauðlauk og saxið basilíkuna mjög smátt. Blandið öllum hráefnum saman í skál og kryddið til með salti og pipar. Hellið ólífuolíu og balsamikgljáa yfir, leyfið salatinu að standa inn í kæli áður en þið berið það fram með laxinum.
 5. Þegar laxinn er tilbúinn færið þið hann á disk og leggið salsa yfir. Berið strax fram og njótið vel.


Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld á Stöð 2. 

Njótið vel. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni sem notuð voru í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 
Bragðmikið og bráðhollt fiskitakkós úr Matargleði Evu

Fiskitakkós er algjör snilld til þess að fá fjölskylduna til að borða meira af fisk og grænmeti. Ég elska þessa uppskrift og geri hana mjög oft hér heima fyrir, það tekur enga stund að búa til þennan rétt og það er lygilega einfalt að baka sínar eigin tortillavefjur. Á föstudögum er hefð á mörgum heimilum að gera vel við sig og ég skora á ykkur að prófa þessa uppskrift, ég veit að þið eigið eftir að slá í gegn. 

Fiski takkós


Hveititortillur
 • 100 g heilhveiti
 • 60 g vatn
 • smá sjávarsalt

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum saman í skál, hnoðið í nokkrar mínútur á hveitistráðu borði. Setjið deigið í hreina skál og viskastykki yfir, leyfið deiginu að hefast í 30-60 mínútur eða þegar deigið hefur tvöfaldast að stærð. Eftir þann tíma fletjið þá deigið út í litlar pönnukökur og steikið á pönnu í mínútu á hvorri hlið. Setjið viskastykki yfir kökurnar svo þær verði ekki of þurrar. 

Mangósalsa

 • 1 mangó 
 • 1 lárpera 
 • handfylli af kóríander 
 • 1 rauð paprika 
 • 1/2 rauðlaukur 
 • ólífuolía 
 • límónusafi 
 • salt og pipar 
 • 1 ananas
 • 1 tómatur 
Aðferð: Skerið hráefnin afar smátt niður og blandið vel saman í skál. Best er að geyma salsa inn í ísskáp í hálftíma áður en þið ætlið að bera það fram. 


Fiskurinn

 • 700 - 800 g fiskur, þorskur eða ýsa 
 • salt og pipar
 • 1 1/2 tsk paprikukrydd
 • 1 tsk cumin krydd 
 • ólífuolía 
Aðferð: Hitið olíu á pönnu, skeri fiskinn í jafn stóra bita og kryddið með salti, pipar, paprikukryddi og cumin kryddi. Veltið fiskinum vel upp úr kryddinu og steikið á pönnu í  2 - 3 mínútur á hvorri hlið. Berið strax fram í heilhveitivefjum með fersku mangósalsa og grísku jógúrti. Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld á Stöð 2. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


Skyramisú
Flest þekkjum við ítalska eftirréttinn ,Tíramisú' og er hann einn af vinælustu eftirréttum heims. Ég ákvað að skipta út rjómaostinum út fyrir vanilluskyr og útkoman var stórkostleg. Ég elska, elska þennan eftirrétt og hvet ykkur til þess að prófa hann. Mjög einfaldur og inniheldur rjóma, súkkulaði, skyr og kaffi, semsagt veisla fyrir bragðlaukana og fullkomið eftir góða máltíð. 

Skyramísú 

 • 2 egg
 • 50 g sykur
 • 500 g vanilluskyr
 • 250 ml rjómi, þeyttur
 • 1 tsk. Vanilla extract eða vanillusykur
 • 200 g kökufingur (Lady fingers kex)
 • 6-7 dl sterkt uppáhellt kaffi
 • Gott kakó, magn eftir smekk
 • Súkkulaði, smátt saxað

Aðferð:
 1. Stífþeytið egg og sykur saman þar til þykk froða myndast.
 2. Blandið skyrinu við eggjablönduna og hrærið vel.
 3. Bætið vanillunni og rjómanum (þeyttur) varlega saman við með sleif. Leggið blönduna til hliðar í stutta stund á meðan þið hugið að kökunum.
 4. Hellið upp á sterkt kaffi og setjið kaffið í skál.
 5. Veltið kökufingrunum upp úr kaffinu og skiptið þeim niður í desert skálar eða fallega skál.
 6. Setjið helminginn af skyrblöndunni ofan á kökufingurna, stráið svolitlu kakói yfir og smátt söxuðu súkkulaði. Endurtakið leikinn þar til hráefnið er búið.
 7. Í lokin er stráð vel af kakói og smátt söxuðu súkkulaði yfir réttinn.
 8. Það þarf að kæla þennan rétt í lágmark 4 klukkustundir áður en þið berið hann fram, best finnst mér að geyma hann í kæli yfir nótt. 


Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld á Stöð 2. 

Njótið vel. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Hráefnin sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


Humarsúpan úr Matargleði Evu


Í síðasta þætti lagði ég sérstaka áherslu á sjávarfang og eldaði meðal annars þessa ljúffengu humarsúpu sem er mjög vinsæl í minni fjölskyldu. Ef það er ferming, skírn eða önnur stór veisla í fjölskyldunni er þessi súpa undantekningarlaust á boðstólnum, og alltaf er hún jafn vinsæl. Uppskriftin kemur frá mömmu minn og þykir mér mjög vænt um þessa uppskrift. Ég lofa ykkur að þið eigið eftir að elda súpuna aftur og aftur. 


Lúxus humarsúpa 

Humarsoð
 • Smjör
 • 600-700 g humarskeljar
 • 2 stilkar sellerí
 • 3 gulrætur
 • 1 laukur
 • 2-3 lárviðarlauf
 • 3-4 hvítlauksrif
 • 3-4 tímían greinar
 • 1 tsk eftirlæti hafmeyjunnar
 • 1 tsk Ítölsk sjávarréttakryddblanda
 • 1 l fiskisoð (soðið vatn + 2 fiskikraftsteningar)
 • 1 glas hvítvín (ca 3 dl)
 • Salt og pipar


Aðferð: Skolið humarinn mjög vel og takið humarhalana upp úr skelinni. Leggið halana til hliðar. Skerið sellerí, gulrætur og lauk gróft. Steikið upp úr smjöri ásamt humarskeljum. Hellið fiskisoði og hvítvíni yfir, kryddið til með þeim kryddum sem talin eru upp hér að ofan. Leyfið soðinu að malla við vægan hita í rúmlega klukkstund, því lengur sem soðið fær að malla því betri verður súpan. Eftir þann tíma sigtið þá skeljarnar og grænmetið frá.

Súpan
 • 2 msk hveiti
 • 2 msk smjör
 • Humarsoðið
 • Smjör
 • Humarhalar
 • 1 hvítlauksrif
 • ½ tsk eftirlæti hafmeyjunnar
 • ½ ítölsk sjávarréttarblanda
 • 500 ml rjómi
 • salt og pipar
 • fersk steinselja 

Aðferð: Búið þið til smjörbollu með því að bræða smjör og blanda hveiti saman við, hellið síðan soðinu út í pottinn og hrærið. Á annarri pönnu hitið smjör, steikið humarhala og kryddið til með eftirlæti hafmeyjunnar, sjávarréttakryddi, salti, pipar og hvítlauk. Steikið humarinn í 2 – 3 mínútur. Hellið rjómanum út á pönnuna og blandið öllu vel saman, hellið rjómablöndunni út í pottinn með soðinu og leyfið súpunni að malla í smá stund áður en þið berið hana fram. Saxið niður ferska steinselju og sáldrið yfir rétt áður en þið berið súpuna fram.


Njótið vel kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefni sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


Monday, February 22, 2016

Vikumatseðill


Vá hvað það var yndislegt að fara út í daginn í morgun um níuleytið og finna fyrir sólinni, dagurinn er að lengjast og það gleður mig. Mjög góð byrjun á vikunni myndi ég segja og orkan er tífalt meiri, ég er að segja ykkur það satt. Ég ákvað að því tilefni já eða bara afþví bara að skella í vikuseðil og með honum vona ég að þið fáið hugmyndir að kvöldmat út vikuna, 

Best finnst mér að byrja vikuna á góðum fisk og get ég lofað ykkur því að þessi einfalda og bragðgóða uppskrift á eftir að slá í gegn, virkilega góður lax með blómkálsmauki. 

Matarmikil og ljúffeng brokkólísúpa sem yljar að innan verður á boðstólnum á þriðjudaginn. 

Á miðvikudaginn er tilvalið að skella í þetta æðislega mexíkóska salat með stökkum kjúkling og lárperusósu. 

Þessi ljómandi fíni mangó fiskréttur er einn af mínum eftirlætis fiskréttum, djúsí og ferlega góður.

Föstudagar eru pizzadagar í mínum bókum og ekkert er betra en mexíkósk pizza með þunnum og stökkum botni. Namm!
Um helgar er nauðsynlegt að gera vel við sig í mat og drykk, nautalund með bernaise eða piparostasósu er ávallt uppskrift að hamingju.

Helgarbaksturinn er möndlukakan hennar mömmu sem ég elska og fæ ekki nóg af. 

Ég vona að þið hafið fengið hugmyndir að vikumatseðlinum og ég vona að þið eigið stórgóða viku framundan. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 
Sunday, February 21, 2016

Kanilkaka sem ég fæ ekki nóg afVið fjölskyldan erum í góðu yfirlæti á Hvolsvelli og njótum þess að liggja í leti. Eitt af því sem mér þykir skemmtilegast er að baka góða köku á sunnudögum – að vísu finnst mér gaman að baka alla daga en það veitir mér enn meiri ánægju á sunnudögum og ekki veit ég afhverju það er. Í morgun ákvað ég baka ljúffenga kanilköku eða ‘monkey bread’ eins og kakan heitir á ensku. Ég hef legið yfir myndum og uppskriftum að þessari köku í langan tíma en hún er vægast sagt girnileg og mamma mía hvað hún er góð! Kanilsnúðar og kökur eiga vel við sunnudaga einhverra hluta vegna, heimilið verður svo hlýlegt með góðum kanilkeim. Eitt af því góða við þessa uppskrift er að þið þurfið ekki mörg hráefni og þið þurfið ekki hrærivél, svo þið ættuð að geta gert þessa köku hvenær og hvar sem er. Tilvalið að baka þessa í sumarbústað til dæmis. 


Kanilkaka með glassúr

*1 bolli = 2,5 dl

Deigið
 • 1 bolli nýmjólk
 • 1/3 bolli vatn
 • 3 msk smjör
 • 2 ½ tsk þurrger
 • ¼ bolli sykur
 • 1 tsk vanilludropar
 • 3 ¼ bolli Kornax hveiti
 • salt á hnífsoddi
 • 1 egg

Kanilsykurblanda
 • 120 g brætt smjör
 • 1 ½ bolli sykur eða púðursykur
 • 3 tsk kanill

Aðferð:
 1. Hitið mjólk, vatn og smjör í potti við vægan hita. Leggið til hliðar og leyfið blöndunni að kólna í smá stund.
 2. Blandið þurrefnum saman í skál. Pískið eggið saman við mjólkina og hellið síðan vökvanum ásamt vanillu og vatni saman við, hrærið með sleif í smá stund, ef ykkur finnst deigið of blautt þá bætið þið smávegis af hveiti við.
 3. Leggið deigið á hveitistráð borð og hnoðið í nokkrar mínútur (með höndum eða í hrærivél ef þið viljið). Setjið deigið í hreina skál og leggið viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
 4. Þegar deigið er tilbúið skiptið þið því niður í jafn stóra bita og rúllið upp í kúlur sem þið veltið upp úr bræddu smjöri og síðan kanilsykrinum, því meira af kanilsykri því betri verða kúlurnar.
 5. Smyrjið hringlaga form (helst með gati í miðjunni en þess þarf auðvitað ekki). Raðið kúlunum ofan í formið og sáldrið síðan smávegis af kanilsykri yfir. Leyfið deiginu að hefa sig í 15 mínútur til viðbótar.
 6. Hitið ofninn í 180°C og bakið kökuna í 18 – 22 mínútur.
 *Á meðan kakan er í ofninum er gott að útbúa glassúrinn.

Vanilluglassúr
 • 1 bolli flórsykur
 • 2 msk mjólk
 • 1 tsk vanilla
Aðferð:
 1. Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið þar til kremið verður silkimjúkt, þegar kakan hefur kólnað hellið þið vel af glassúr yfir og njótið strax.
Njótið dagsins og gleðilegan konudag <3 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.