Friday, November 30, 2012

Dásamlegar súkkulaðibitasmákökur


Súkkulaðibitakökurnar hennar mömmu. Þessar kökur hefur mamma mín alltaf bakað fyrir jólin og auðvitað hef ég staðið mig ofsalega vel í gegnum árin að borða þær. Kökurnar eru virkilega einfaldar og það tekur enga stund að skella í eina uppskrift. 
Ég mæli því hiklaust með að þið setjið upp svuntuna og vindið ykkur í baksturinn.

Súkkulaðibitakökur
300 g smjör, við stofuhita
2 egg 
200 g sykur
200 g púðursykur
500 g hveiti
2 tsk lyftiduft
2 tsk matarsódi
150 g súkkulaði, smátt saxað 
1 tsk vanilludropar - eða möndludropar


Aðferð: 

Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós. Bætið næst eggjum saman við einu og einu í senn, blandið því næst öllu öðru saman við og hrærið við miðlungshraða í nokkrar mínútur. Kökudeigið á að vera mjög þykkt, það er gott að klára að hræra það saman með sleif í lokin. 

Mótið kökurnar með tsk eða msk, þið ráðið auðvitað stærðinni. Hitið ofninn í 180°C og bakið kökurnar í 12 - 15 mínútur. 
Ilmurinn um heimilið er dásamlegur á meðan bakstrinum stendur, það er fátt huggulegra en að hafa smákökur í ofninum. Það getur verið strembið að bíða eftir þeim. Þær eru vissulega bestar nýkomnar úr ofninum og auðvitað verður ískalt mjólkurglas að fylgja með. 
Ég bræddi ca. 50 g af súkkulaði yfir vatnsbaði og dreifði yfir kökurnar, ég stráði að lokum smá kókósmjöli yfir þær og það kom sérlega vel út. Smökkuðust mjög vel að mínu mati. 
Ég gæti nú haldið endalaust áfram að skrifa um þessar gómsætu kökur en skólabækurnar kalla á mig þannig ég læt þetta gott heita í bili en hlakka til að deila með ykkur fleiri uppskriftum af mínum eftirlætis smákökum fyrir jólin.

Ég vona að þið eigið ljúft kvöld í vændum kæru vinir

xxx

Eva Laufey Kjaran 

Föstudagsblóm og Baggalútur á Akranesi.

Þennan fallega jólalega blómvönd fékk ég í gærkvöldi. Ég fékk til mín góða gesti í mat, bauð þeim upp á kjötsúpu og súkkulaðimús í dessert. Röltum svo yfir í Bíóhöllina á jólatónleika með Baggalút. 
Mikil ósköp var gaman!  Þeir voru algjörlega frábærir. Ég hlakka tl að fara á tónleika með þeim aftur. 
Sumsé, virkilega huggulegt kvöld með góðu fólki. 

Nú er helgin að ganga í garð, ég fór í síðasta tíma annarinnar í morgun og prófin byrja á mánudaginn.
Nú ætla ég að fá mér meira kaffi og halda áfram að læra. 
Ég vona að þið eigið ljúfan föstudag kæru vinir.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, November 29, 2012

Heimalagað múslí

 Heimalagað múslí, ab mjólk og bananar, algjört lostæti í morgunsárið. Ég geri oft mitt eigið múslí, ég nota þá bara það sem ég á í skápunum hverju sinni svo múslíið hjá mér er aldrei eins.

Ég held að það geti flestir verið sammála um að múslí sé mjög gott og því er tilvalið að útbúa heimalagað múslí, setja það i fallega krukku og gefa sem gjöf.  Gjafir sem er heimalagaðar eru að mínu mati dásamlegar. Ég hef verið að skoða svo mikið af skemmtilegum gjafahugmyndum fyrir jólin sem ég ætla að prufa og auðvitað kem ég til með að deila þeim með ykkur. 

Heimalagað múslí 

2 dl hafrar
2 dl hörfræ
2 dl sólkjarnafræ
2 dl möndlur 
2 dl kókosmjöl
1 dl valhnetur
1/2 tsk kanil
1 dl rúsínur
2 dl vatn 
1 dl olía t.d. kókos
1 dl lífrænt hunang
smá salt 

 Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Setjið öll þurrefnin í blandarann og grófhakkið í smá stund. Blandið því næst vökvanum saman við og blandið vel saman með sleif. Dreifið blöndunni á bökunarpappír í ofnskúffu. Ég læt rúsínurnar með inn í ofninn vegna þess að ég vil hafa þær stökkar en auðvitað getið þið bætt þeim við eða hvaða ávöxtum sem þið viljið eftir að blandan kemur út úr ofninum. 

Bakið í 15 mínútur, opnið þá ofninn og hrærið aðeins í blöndunni og bakið áfram í 10 - 15 mínútur. Þá ætti að múslíblandan að vera tilbúin. Að vísu hef ég blönduna alltaf svolitið lengur, eða þar til blandan er orðin vel dökk en það er bara vegna þess að ég vil hafa mitt múslí mjög stökkt. En þið fylgist bara með og smakkið ykkur auðvitað til. 
 Mjög einfalt og svakalega gott. Mæli svo sannarlega með að þið prufið. 

Ég vona að þið njótið vel

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, November 28, 2012

Jólablað fréttablaðsins

Jólablað fréttablaðsins kom út í gær. Þar deildi ég uppskriftum með lesendum, uppskriftum sem að mínu mati henta svo sannarlega vel í desember. 

Mæli svo sannarlega með að þið skoðið jólablað fréttablaðsins. Ansi glæsilegt og veglegt blað, aragrúa af góðum hugmyndum fyrir jólin. 
xxx

Eva Laufey Kjaran


Monday, November 26, 2012

Lífið instagrammað

 1. Bróðir minn Allan,  amma Stína, ég og mamma mín Rósa. 2. Ég og litli bróðir minn hann Guðmundur Jóhann. 

 3. Yndislegur lunch með fluffu vinkonum mínum. 4. Mexican fiesta fyrir bræður mína.
 5. Það eru þemadagar á föstudögum í viðskiptalögfræði   6. Ég er svo rík eiga heimsins bestu vinkonur.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Þreyttur mánudagur og bleikur boozt

 Þegar að klukkan hringdi í morgun kl.05:30 þá voru augnlokin þúsund kíló, ég sem var svo ánægð að hafa farið snemma upp í rúm í gær en þá auðvitað var ég andvaka til að verða tvö. Þannig ég gat ómögulega hugsað mér að skottast af stað í Metabolic þegar að klukkan hringdi, ég vaknaði  tveimur tímum síðar og sá mjög eftir því að hafa ekki farið. Það er ekkert betra en góður íþróttatími í morgunsárið, vissulega er erfitt að vakna en orkan verður mun meiri og betri fyrir vikið eftir tímann. Það var því leitt að missa af tímanum í dag því ég gæti vel þegið smá meiri orku í dag, sumir dagar eru sumsé þreyttari en aðrir. 

Góður og orkumikill boozt er því nauðsynlegur í morgunsárið, bætir og kætir. 

Bleikur boozt 

Frosin blönduð ber
Frosinn banani, skorinn í bita
Grískt jógúrt
Hörfræ
Rifinn engiferrót
Superberries safi
Sítrónusafi

Allt saman sett í blandarann í nokkrar mínútur!

Nú er ég komin í ullarsokka, ætla að hita mér gott kaffi og halda áfram að læra. 

Ég vona að þið eigið ljúfan mánudag.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, November 25, 2012

Piparkökur og kökuboxin hennar ömmu Stínu

Mánuður í jólin og þá má sko byrja að baka smákökur. Gærdagurinn byrjaði á lærdómi en svo tók baksturinn við heima hjá ömmu Stínu. Við áttum ansi ljúfan dag saman. Amma kenndi okkur að baka piparkökurnar hennar sem hún hefur bakað í mörg ár, þær eru að mínu mati ótrúlega góðar. 
Amma mín Stína og Harpa frænka. Tilbúnar í baksturinn.
Sigurbjörg Heiða og amma, þær eru yndislegar. Sigurbjörgu fannst kökurnar hennar ömmu rosalega góðar.

Piparkökurnar hennar ömmu

500 g hveiti 
400 g púðursykur
250 g smjör, við stofuhita
2 egg
2 tsk lyftiduft
1 tsk natron
2 tsk engifer
2 tsk kanill
1 tsk negull
salt á hnífsoddi 

Aðferð: 

Setjið öll hráefnin saman í hrærivél og hrærið við miðlungshraða í nokkrar mínútur. Því næst setjið þið deigið á eldhúsborðið og hnoðið. Skerið deigið í nokkrar lengjur og rúllið hverri lengju upp. Skerið lengjuna í litla bita. Mótið litlar kúlur og setjið á bökunarplötu, þrýstið kúlunni niður með t.d. gaffli. 

Setjið kökurnar inn í ofn við 180°C í 10 - 12 mínútur.

Harpa frænka myndarleg í eldhúsinu
Amma sýnir okkur réttu tökin og Sigurbjörg Heiða fylgist mjög spennt með. 
Lyktin af deiginu er dásamleg, það er erfitt að standast freistinguna að fá sér smá bita af deiginu.

Ilmurinn af kökunum er dásamlegur og enginn lykt betri. Lyktin af jólum ef svo má segja.
Kökurnar eru langbestar nýkomnar úr ofninum.
Kökuboxin hjá ömmu voru fyllt í gær. Þessi kökubox hefur amma mín átt í mörg ár, ég man þegar að amma og afi bjuggu í Kópavoginum og við komum í heimsókn fyrir jólin þá vissi ég nákvæmlega hvar þessi ljúffengu jólabox væru geymd, hægra megin í eldhúsinu í eldhússkápunum vinstra megin, nálægt glugganum. Þar voru boxin geymd og amma var alltaf búin að baka allskyns sortir og búin að fylla fallegu jólaboxin af yndislegum kökum, algjört smáköku sæluríki sem ég hafði fullan aðgang að :)

Nýbökuð piparkaka og ísköld mjólk. Ég á svolítið erfitt með að lýsa með orðum hvað mér þótti vænt um gærdaginn, svona dagar eru einfaldlega yndislegir. Amma sagði mér áður en að ég fór heim í gær að við værum rétt að byrja svo ég er mjög spennt að halda áfram að baka með ömmu fyir jólin. 

Nú ætla ég hinsvegar að snúa mér að lestrinum, sem betur fer þá fékk ég kökur með mér heim í gær svo lesturinn í dag verður huggulegri fyrir vikið með kökur mér við hlið. 

Njótið ykkar í dag elsku vinir

xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, November 24, 2012

Ostasalat


Ég átti mjög gott kvöld með vinkonum mínum í gær. Við drukkum rauðvín, fengum okkur allskyns góðgæti að borða og spjölluðum um allt og ekki neitt. Það var orðið verulega langt síðan að við áttum svona ljúft kvöld.

Við vorum auðvitað með smá veitingar, ég kom með ostasalat sem er í miklu eftirlæti hjá mér. Virkilega gott að bera það fram með ritz kexi eða snittubrauði. 

OSTASALAT

1 mexíkóostur
1 hvítlauksostur
1 dós sýrður rjómi
1 1/2 msk grískt jógúrt
1 rauð paprika, smátt söxuð
1/4 púrrulaukur, smátt saxaður
vinber, magn eftir smekk

Aðferð:

Hrærið sýrða rjómanum og gríska jógúrtinu saman. Skerið ostana niður í litla bita og blandið saman við sósuna. Skerið papriku og púrrulauk smátt og blandið saman við. Skerið að lokum nokkur vínber, magn fer eftir smekk. Ég læt svolítið vel af vínberjum vegna þess að mér finnst þau svakalega góð. Blandið þeim saman við og hrærið vel í salatinu. Að mínu mati er salatið betra ef það fær að standa í nokkrar klst. í ísskápnum áður en það er borið fram.

Ég mæli hiklaust með að þið prufið!

Evurnar tvær, Fríða og Agla. 
Virkilega gott kvöld með þessum elskum!

Ég vona að þið eigið ljúfan laugardag framundan.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, November 23, 2012

Ákvað að slá til!MasterChef í kvöld. Ég ákvað að slá til og taka þátt í keppninni.
 Ég er með nokkur fiðrildi í maganum fyrir kvöldinu, bæði spennt og stressuð að horfa á. 

Úr fréttablaðinu í dag. 

Ég vona að þið eigið gott kvöld framundan.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, November 22, 2012

Heitt piparmyntusúkkulaði


Heitt piparmyntusúkkulaði er í miklu eftirlæti hjá mér, hér kemur einföld uppskrift að heitu súkkulaði.

Piparmyntusúkkulaði

1 líter mjólk 
175 g suðusúkkulaði
1 stk pipp súkkulaði (40 g)
2 dl vatn
smá salt 

Hitið vatn og látið súkkulaðið bráðna í því, passið ykkur á því að sjóða ekki vatnið. Hrærið vel í á meðan. Þegar súkkulaðið er bráðið þá bætið þið mjólkinni út í og hitið þar til fer að sjóða. Að lokum þá bætið þið smá salti út í, leyfið þessu að malla í smá stund við vægan hita.

Mér finnst best að þeyta rjóma og setja væna skeið af rjóma í minn bolla, en það er líka dásamlegt að setja vanilluís út í. Ég átti nokkra jólastafi sem ég braut í litla mola og sáldraði yfir súkkulaðið. Svo mæli ég líka með því ef þið eigið góða súkkulaðisósu t.d. þykka íssósu að dreifa smá sósu yfir rjómann. Það er sko aldeilis lúxus súkkulaði. 

Ég mæli með heitu súkkulaði á köldum vetrarkvöldum, súkkulaði bætir og kætir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran


Wednesday, November 21, 2012

Lestur og heitt súkkulaði

Aðeins tólf dagar í blessuð prófin og svona er útsýnið mitt þetta miðvikudagskvöldið. Núna er ég búin að skipuleggja dagana fram að prófum og flokka námsefnið, þannig nú má fjörið hefjast. Ég reyni að hafa huggulegt í kringum mig á meðan að ég læri,  kveiki á kertum, hlusta á jólalög, fæ mér heitt súkkulaði og kaffi til skiptis, svo auðvitað stelst ég í baksturinn. Jólabaksturinn er algjör nauðsyn fyrir mig, þá næ ég að dreifa huganum og stressið minnkar töluvert. Það eina sem skiptir þá máli í eitt augnablik er hversu mikið af sykri, smjöri og hveiti ég þarf að nota í kökurnar. Svo er nú ekkert betra en nýbakaðar smákökur með lestrinum. 

Núna sit ég hér inni með kertaljós mér við hlið, ég er að hlusta á jólalög og er að glósa. Virkilega notalegt. Ég er búin að dreyma  um heitt súkkulaði með piparmyntu í nokkra daga  og ég held að kvöldið í kvöld verði kvöldið sem ég fæ mér þetta dásamlega súkkulaði. Göngutúr og heitt súkkulaði, það hljomar vel sem ágætis hressing. 

Ég vona að þið eigið ljúft kvöld framundan 

xxx

Eva Laufey Kjaran 

Mexíkóskt lasagna


Bræður mínir voru að fara aftur til Noregs í dag, svo í gær þá langaði mig til þess að bjóða þeim í mat. Ég var svolítið lengi fyrir sunnan í gær svo það var ekki mikill tími sem ég hafði til þess að elda, þá datt mér í hug mexíkóskt lasagna. Réttuinn er mjög einfaldur og fljótlegur. Ég hef alltaf notað kjúkling í þann rétt en ákvað að breyta aðeins til og nota nautahakk í staðinn. Ég dreif mig í búðina, að vísu þurfti ég að fara í tvær ferðir vegna þess að ég er svo ferlega gleymin. Það er ekkert eins dásamlegt og vera loksins komin heim, með fulla poka, loksin búin að taka upp úr þeim og átta sig síðan á því að hafa gleymt mikilvægu hráefni. En sem betur fer þá tókst þetta vel til, bræður mínir voru mjög ánægðir með réttinn og ég var nú sæl með það. 

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af þessu ljúffenga lasagna, ég vona að þið njótið vel kæru vinir.
Mexíkóskt lasagna fyrir fjóra til sex

800 g nautahakk
5 stórar tortillur
1 meðalstór rauðlaukur, smátt saxaður
1 rauð paprika, smátt söxuð
1 gul paprika, smátt söxuð
8 – 10 sveppir, smátt saxaðir
1/4  rautt chili, fræhreinsað og smátt saxað
2 – 3 msk kóríander, smátt saxað
Mexíkósk kryddblanda, taco seasoning mix í pakka
1 dós gular baunir
1 dós niðursoðnir tómatar
350 g salsasósa
4 msk hreinn rjómaostur
Rifinn ostur
Nachosflögur, saltaðar
Salt og pipar
Aðferð:

1.    Skolið grænmetið og skerið það smátt niður. 2. Hitið olíu í potti við vægan hita, setjið grænmetið í pottinn og mýkjið. 3. Brúnið nautahakkið á pönnu og bætið kryddblöndunni saman við samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. 4. Blandið því næst hakkblöndunni saman við grænmetið í pottinum. Bætið gulu baununum, niðursoðnum tómötum, salsasósunni, og rjómaostinum saman við. Hrærið vel í. Kryddið til með salti og pipar. 5. Að lokum saxið þið ferskann kóríander smátt niður og bætið við, leyfið þessu að malla við vægan hita í nokkrar mínútur. Munið að smakka ykkur til með salti og pipar.

Leggið tortillaköku í botninn á eldföstu móti, setjið hakkblöndu þar ofan á og dreifið rifnum osti yfir hakkblönduna. Leggið síðan aðra tortilluköku ofan á og endurtakið þar til hakkblandan er komin yfir fimmtu tortillukökuna. Dreifið vel af rifnum osti yfir og saxið ferskt kóríander, um það bil msk og sáldrið yfir réttinn. 

Stingið  nokkrum nachos flögum í réttinn. Setjið réttinn inn í ofn og bakið við 180°C í 25 – 30 mínútur.


                Mér finnst best að bera réttinn fram með fersku salati, sýrðum rjóma og guacamole.Gvakkamóle 'guacamole'

Ég gæti borðað gvakkamóle alla daga með öllu, mér þykir það svo afskalega gott. Það er fátt betra en að fá sér gvakkamóle með söltuðum nachosflögum.

2  meðalstórar lárperur, vel þroskaðar.
Safi úr einni límónu
1 rautt chili, fræhreinsað
Handfylli af kóríander
¼ tsk. cumin (ísl.Broddkúmin)
2- 3 hvítlauksrif
1 meðalstór rauðlaukur
Salt og pipar, magn eftir smekk
2 ferskir tómatar

Aðferð:

Setjið allt í matvinnsluvél og blandið vel saman þar til þetta verður að 
fínu mauki. Kryddið til með salti og pipar. Skerið ferska tómata í litla bita og blandið saman við með sleif. Setjið í skál og berið strax fram. 

Ferskt salsa ' Pico de gallo'

4 tómatar skornir í litla bita 
½ rauðlaukur, saxaður mjög smátt
2 msk. fínsaxaður kóríander
Maldon salt
Safi úr einni límónu.

Blandið öllu vel saman sem er í uppskriftinni og geymið í kæli í 30 mínútur. 


Ég vona að þið njótið vel og ég mæli með að þið prófið þessar uppskriftir. 
xxx

Eva Laufey Kjaran