Wednesday, November 30, 2011

Kjúklingur í pestósósu

Kjúklingur í flýti er afskaplega þægilegur réttur og ótrúlega bragðmikill, ég geri þennan rétt mjög oft og er alltaf jafn hrifin af honum. Mér finnst best að bera hann fram með fersku salati og kartöflum, venjulegum og sætum. Njótið vel kæru vinir. 

Kjúklingur í pestósósu 

fyrir fjóra til fimm 

1 pk. kjúklingabringur (4 bringur) 
1 krukka rautt eða grænt pestó 
1 krukka fetaostur 
salt og pipar 

Aðferð:

Blandið fetaostinum(og olían fer líka)  saman við pestóið. Skolið bringurnar og leggið þær í eldfast mót, gott er að skera bringurnar í tvennt. Kryddið til með salti og pipar. Hellið pestó-og fetablöndunni yfir kjúklingabringurnar. Setjið réttinn inn í ofn í 30 - 35 mínútur við 180°C. 

Ég var með einfalt meðlæti með réttinum í þetta sinn, skar niður venjulegar og sætar karöflur í litla teninga. Setti kartöflur í eldfast mót, dreifði svolítið af olíu yfir og kryddaði til með salti og pipar. Inn í ofn við 180°C í 35  - 40 mínútur. 










Ég vona að þið njótið vel

xxx

Eva 

Sunday, November 27, 2011

27.11.11

Fyrsti í aðventu, yndislegt. Ég er að springa úr jólatilhlökkun, ég fékk mér "Jól í bolla" rétt áðan með lestrinum.

Heitt jólakakó. Sá þessa fínu kakóuppskrift um daginn hér og ég varð að prufa. Einfalt og dásamlegt með alvöru rjóma. Ég sauð mjólk með kanilstöngum og negulnöglum, sigtaði það síðan frá mjólkinni og bætti við nokkrum bitum af siríus suðusúkkulaði og einni tsk. af sykri.

Algjör jóladásemd!

Saturday, November 26, 2011

Laugardagur i allri sinni dýrð. Lestur á hug minn í dag en  mikil ósköp sem mig dreymir um allt það notalega sem hægt er að gera á svona fallegum dögum.. en það verður að bíða til betri tíma.

Það er líka hægt að gera lærdóminn kósí. Lágstillt jólalög, ilmkerti, mandarínur og súkkulaðirúsínur. Kakó seinnipartinn og göngutúr til þess að hressa upp á heilann... Þetta er nú ekki sem verst.

Njótið dagsins því þetta er svo sannarlega fallegur dagur.



Friday, November 25, 2011

Ostafylltar tartalettur.


Síðasti skóladagurinn í dag fyrir próf. Önnin á enda, mikil ósköp sem  tíminn ætlar að fljúga áfram.
Ég sé 16. des í hyllingum, mikið verður gott og gaman að komast í jólafrí. Kakó og kökur í hvert mál, huggulegheit með fjölskyldu og vinum. En þangað til verður lesið og kannski borðað nokkra kökubita með lestrinum.. Hvur veit. 
Í gær kom vinahópurinn til mín í kökuklúbb, ég bauð m.a. upp á ostafylltar tartalettur.
 Mmm, ég er tartalettu fíkill og með allskyns ostum eru þær dásemd. Einfalt og sérlega fljótlegt :) 

1x Hvítlauksostur
1xPiparostur
1xCamenbert
1/2 Líter Matreiðslurjómi

Osturinn er skorinn smátt, settur í pott saman með rjómanum. Látið malla við vægan hita í nokkrar mínútur, þar til osturinn er alveg bráðnaður. Gott að hræra rólega í á meðan. 

1x Rauð paprika
1xGræn paprika
ca. Heil askja af sveppum

Grænmetið steikt í smá stund upp úr olíu á pönnu og síðan bætt saman við ostablönduna þegar að hún er tilbúin. 

Svo er bara að fylla tartaletturnar og inn í ofn í 15. mínútur við 180°C.

Algjört lostæti með góðu sultutaui. 

Eigið góða helgi kæru lesendur :-) 



Thursday, November 24, 2011

Það kom umfjöllun um bloggið í Nýju lífi sem kom út í dag. Sérlega gaman að fá svona fína umfjöllun og þúsund þakkir enn og aftur kæru lesendur fyrir að nenna að koma hingað inn á síðuna. Mikið sem það gleður mig! 


Í kvöld ætla ég að eyða kvöldinu með Kökuklúbbnum, það verður ansi yndislegt.

xxx

Tuesday, November 22, 2011

Spínatspergilskáls kjúklingur

Nú er sá tími sem að margir eru í prófum þ.á.m. ég sjálf og þá er agalega mikilvægt að huga að því hvað maður lætur ofan í sig. Ótrúlega auðvelt að detta í þann gír að borða lítið yfir daginn og enda á einhverjum skyndibitastað af því stressið verður svo mikið að það virðist ekki vera tími fyrir almennilega máltíð. En ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hvern og einn að gefa sér tíma í hádegis-og kvöldmat. Sérstaklega í prófum, þurfum að hugsa extra vel um okkur á meðan á þeim stendur svo við séum nógu orkumikil fyrir lesturinn. Það tekur ekki einfaldlega ekki langa stund að útbúa góða máltíð.
Í kvöld þá lagaði ég mér kjúklingabringu í spínatspergilkálsmauki. 
Ég byrjaði á því að berja kjúklingabringuna með buffhamri þannig að hún yrði nánast alveg flöt.  Ég hrærði saman eitt egg og smá sítrónusafa. Velti kjúklingabringunni upp úr egginu og því næst velti ég henni upp úr smá speltmjöli. Lagði hana til hliðar á meðan ég útbjó spínatspergilskálsmaukið
¼ Spergilkálshaus, notaði bara toppana. Semsé skar stóru stilkana frá, lét í blandarann í ca. 3 mínútur. (Mjög hægfara með blandara, nú set ég matvinnsluvél á óskalistann fyrir jólin). Bætti handfylli af spínati, 1.msk af olíu, 1.tsk. Af fetaost, dass af salt og pipar saman við og blandaði í góðar 5 mínútur. Þá var maukið tilbúið. Tók kjúklingabringuna og velti henni upp úr þessu ljúffenga mauki sem ilmaði vel, nuddaði maukinu vel á bringuna.
Setti smá olíu á pönnu og steikti í ca. 2 mínútur á hvorri hlið. Reif niður smá hvítlauk vegna þess að ég var of sein að fatta að setja það saman við maukið, prufa það næst.
Inn í ofn við 180°í 20 - 25 mínútur.
Ég var með einfalt meðlæti, spínat og tómata. Bragðið var dásamlegt og kjúklingabringan sérlega safarík.
Fljótlegur, ljúffengur og orkumikill kvöldverður. 
Mæli með að þið prufið.  









Monday, November 21, 2011

Mánudagsmorgun

Það er dimmt úti, rigning og mikill vindur. Hér sit ég við skrifborðið í náttklæðunum ennþá, með gott kaffi og kertaljós. Á svona augnablikum verður maður aðeins að staldra við, hversu kósí.
Ég er endurnærð eftir sérlega góða helgi og nú hefst lærdómur fyrir prófin.
Vonandi eigið þið góðan dag kæru lesendur.





xxx

Sunday, November 20, 2011

Rjómalagaður laugardagur.

Í gær var svo sannarlega rjómalagaður laugardagur. Ég fór í jólabrunch með vinkonum mínum á Nítjándu, þar borðaði ég yfir mig af ljúffengum kræsingum og hafði það notalegt í góðum félagsskap. Seinna um daginn fórum við Haddi út að borða með vinafólki okkar og svo að sjá uppistand með þeim Pétri Jóhanni og Þorsteini Guðmunds. Algjör snilld sú sýning. Svo lá leiðin upp á Skaga í pæjupartí og á ball með Páli Óskari. Jeremías hvað þetta var skemmtilegur dagur. Eins og ég sagði hér áður, rjómalagaður.

xxx












Friday, November 18, 2011

Ritzkex hjúpaður Camenbert

Ég elska camenbert, ég elska ritxkex og ég elska góða sultu. Hví ekki að blanda þessu öllu saman í ljúffengan smárétt? Þessi réttur er að mínu mati gudómlega góður. 

Ritzkex hjúpaður Camenbert

1/2 Pakki Ritzkex
2. Egg
Ca. 100 gr. Hveiti
1. Camenbert ostur

 1. Setjið kexkökrunar í blandarann í smá stund.       2. Svona eiga kökurnar að líta út

 Þá byrjar föndrið. 

 Camenbert osturinn skorinn í litla bita

 1. Ofan í eggjaskálina                                 2. Ofan í hveitiskálina

 3. Síðast en ekki síst, ofan í Ritzkex skálina. 

 Þá er þetta tilbúið til þess að fara í ofninn. Inn í ofn við 180°C í 6 - 8   mínútur. (Misjafnt eftir ofnum, fylgist með ostinum, um leið og hann er farin að bráðna þá er hann tilbúinn )

Ég segi ykkur það satt, með góðri sultu þá er þetta dásamlegt.

Ég mæli hiklaust með að þið prufið þetta kæru vinir.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Grænmetissúpa á góðu föstudagskvöldi




Helgi enn á ný. Þessi helgi leggst svo yndislega vel í mig... að því leytinu til að ég eyði henni með góðu fólki og ljúffengum mat. Ójá, ég segi það satt. JólaBrunch í turninum á morgun með fögrum píum. Seinna um daginn fer ég  út að borða og í  leikhús með fallega manninum mínum og vinafólki okkar. Þetta gæti nú ekki verið betra.. Ég hugsa ekki um neitt annað en jólapurusteik, þess vegna verð ég að hlaupa einn extra sprett í kvöld ef ég á njóta mín til fulls á morgun.

Í kvöld gerði ég vel við mig með góðri grænmetissúpu, ég er mikil súpukerling og  að mínu mati er töframáttur í súpunni. Góð í maga og næringarrík! Ég tók það grænmeti sem ég átti til í ísskápnum og skar niður í litla bita og lét það malla í rúma klukkustund, með því að sjóða hana svona lengi þá verður súpan dásamlega bragðmikil.

Paprika, laukur, spergilkál, gulrætur,kartöflur, vatn, ½ kjúklingateningur og ¼ grænmetisteningur.

Einfaldara verður það ekki – en ég segi ykkur það að þið verðið ekki vonsvikin. (Rúsínan í pylsuendanum er að mínu mati  að strá smá rifnum osti yfir súpuna og blanda saman við) Súpan verður örlítið djúsí fyrir vikið en það má nú alveg á föstudagskvöldi.

Njótið ykkur um helgina og munið að gera vel við ykkur, það er nú einu sinni helgi!