Saturday, March 28, 2015

Hægeldað lambalæri með ljúffengu kartöflugratíni og piparostasósu.


Að elda mat í ofni er einföld matargerð, það er algjör óþarfi að standa yfir henni þó svo að hún taki stundum langan tíma. Það er ósköp notalegt að hafa lamb inn í ofni yfir daginn, ilmurinn um heimilið verður svo góður. 

Hægeldað lambalæri 

1 lambalæri, rúmlega 3 kg
Salt og nýmalaður pipar
Lambakjötskrydd 1 msk t.d. Bezt á Lambið
Ólífuolía
3 stórir laukar, grófsaxaðir
1 heill hvítlaukur, skorinn í tvennt, þversum
2 fenníkur (fennel), skornar í fernt
3 sellerístilkar, grófsneiddir
5 gulrætur
1 rauð paprika
700 ml grænmetissoð
3 greinar tímían
2 greinar rósmarín
Handfylli fersk steinselja


Aðferð.

1.      Hitið ofninn í 120°C.
2.      Finnið til stóran steikarpott eða stórt eldfast mót.
3.      Leggið lærið í steikingarpottinn eða mótið, veltið upp úr ólífuolíu og kyddið með salti, pipar og lambakjötkryddi.
4.      Bætið grænmetinu í steikarpottinn/eldfasta mótið.
5.      Hellið soði í pottinn. Lokið pottinum eða leggið álpappír þétt yfir mótið.
6.      Bakið lærið í miðjum ofni í sjö klukkustundir.
7.      Þegar 30 mínútur eru eftir af eldunartímanum er lokið eða álpappírinn tekinn af, fínsöxuðum kryddjurtum (steinselju, tímían og rósmarín ) og  hitinn í ofninum hækkaður í 200°C. Þá verður puran dökk og stökk.
8.      Það er mikilvægt að leyfa kjötinu að hvíla í lágmark 20 mínútur áður en þið berið það fram.


  
Ljúffengt kartöflugratín

900 g kartöflur, mér finnst best að nota bökunarkartöflur
8 dl rjómi (það er gott að nota matreiðslurjóma til helminga)
1  laukur, skorinn í strimla
1 kjúklingateningur
1 msk blandað krydd t.d. Bezt á allt
salt og pipar
rifinn ostur

Aðferð:

1. Kartöflurnar skolaðar vel og skornar í sneiðar ca. ½ cm
2. Laukur skorinn niður og steiktur upp úr smjöri í smá stund. Kartöflum, rjóma, kjúklingatening og kryddi er blandan saman í pottinum.  
3. Sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur  eða þar til kartöflurnar eru orðnar vel mjúkar.
4. Hellið þá kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200°C í ca. 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.


Piparostasósa
Smjör

1 msk smjör eða olía
250 g sveppir, skornir í sneiðar
1 – 2 tsk lambakjötskrydd t.d. Bezt á Lambið
1/2 l rjómi
1/2-1 piparostur, skorin í smáa bita
½ kjúklingateningur

Aðferð: 


  1. Bræðið smjör í potti. Látið sveppina malla við vægan hita í smjörinu í nokkrar mínútur. Kryddið til með lambakjötskryddi. 
  2. Hellið rjóma yfir og bætið piparosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita um stund. Hrærið í á meðan og passið að osturinn brenni ekki við.
  3. Bætið tening í pottinn og leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur. 
  4. Þessi sósa er jafn góð heit og köld, það er upplagt að bera hana fram með grillmatnum í sumar. 

Algjör sælkeramáltíð sem allir ættu að prófa. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sunday, March 22, 2015

Möndlukakan hennar mömmu


Möndlukakan hennar mömmu vekur upp skemmtilegar minningar úr æsku en mér þótti engin kaka jafn góð og möndlukakan með bleika kreminu. Mamma bakaði þessa köku í vikunni og hún kláraðist mjög fljótt, það var þess vegna alveg tilvalið að baka hana aftur í gær og deila uppskriftinni með ykkur. Mamma er ein af þeim sem fylgir sjaldan uppskrift og bakar og eldar eftir minni, ég náði þó að fullkomna uppskriftina og kakan heppnaðist mjög vel. Það er eitthvað við þessa silkimjúku köku sem ég fæ bara ekki nóg af og það virðast flestir vera á sama máli. Þessi kaka er ofureinföld, fljótleg og algjörlega ómótstæðileg. 

Ef þið viljið slá í gegn í sunnudagskaffinu þá mæli ég með þessari. 


Möndlukakan hennar mömmu

200 g flórsykur
200 g smjör, við stofuhita
2 Brúnegg
230 g Kornax hveiti 
1 tsk lyftiduft 
1 tsk möndludropar
1 1/2 dl sjóðandi heitt vatn 

Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 175°C. 
  2. Hrærið flórsykri, smjöri og eggjum saman í 2 - 3 mínútur eða þar til blandan verður orðin létt og ljós. 
  3. Bætið hveiti og lyftidufti út í blönduna og hrærið vel. 
  4. Hellið möndludropum og vatni saman við í lokin og hrærið vel eða þar til deigið verður slétt og silkimjúkt. 
  5. Smyrjið hringlaga form og hellið deiginu í formið, bakið við 175°C í 30 mínútur. 
Kælið kökuna á meðan þið útbúið bleika kremið. 

Bleikur glassúr
 Það sem einkennir möndlukökuna góðu er bleiki fallegi glassúrinn. 


50 g smjör, brætt
150 - 200 g flórsykur
Vatn eftir þörfum
Möndludropar, magn eftir smekk (c.a. 1/2 teskeið)
Bleikur matarlitur, magn eftir smekk (þið getið líka notað Ríbena sólberjasafa)

Aðferð:
  1. Bræðið smjör í potti. 
  2. Blandið flórsykrinum saman við og hrærið stöðugt, bætið vatninu saman við og hrærið þar til þið eruð ánægð með áferðina á kreminu. 
  3. Ég setti smávegis af möndludropum í kremið en það er smekksatriði. 
  4. Hellið kreminu yfir kökuna og berið strax fram. 





Njótið vel kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Saturday, March 21, 2015

Mexíkósk pizza

Um helgar þá nýt ég þess að borða eitthvað gott og á föstudögum finnst mér eiginlega nauðsynlegt að fá mér pizzu, það eru örugglega margir sem borða pizzu á föstudagskvöldum enda er ágætt að enda vinnuvikuna á góðum mat og sjónvarpsglápi fram eftir kvöldi, það er ekkert verra að maula á súkkulaði á meðan. Ég útbjó gómsæta mexíkóska pizzu sem mig langar að deila með ykkur, ég var svöng þegar ég fór í búðina og keypti allt það sem mig langaði í. Það er auðvitað lykilregla að fara ekki út í búð svöng, ég keypti allt í taco og þegar heim var komið ákvað ég að útbúa pizzu með mexíkósku ívafi. Einföld og bragðmikil pizza sem ég mæli með að þið prófið.


Ítalskur pizzabotn 
 Þessi uppskrift er aftan á hveitipokanum sem ég nota yfirleitt þegar ég baka pizzur og brauð, mjög góð uppskrift.

500 g Kornax hveiti (Í bláu pökkunum)
2,5 dl volgt vatn
7,5 g þurrger
0,5 dl olía
1 tsk sjávarsalt
1 tsk sykur

Aðferð:

  1. Gerið er leyst upp í volgu vatni 
  2. Kornax hveiti, sykri, salti og olíu er bætt í og hnoðað í vél í um það bil 6 - 10 mínútur. 
  3. Deigið er látið standa í 45 - 60 mínútur við stofuhita og pizzabotn mótaður.
  4. Setjið fyllinguna á pizzuna og bakið við 180°C (blástur) í 15 - 18 mínútur eða þar til botninn er gullinbrúnn, ég tók botninn minn út of snemma og þess vegna er hann í ljósari kantinum. 
Mexíkósk hakkblanda 

olía 
1 rauðlaukur, smátt saxaður
1 msk vorlaukur, smátt saxaður
6 - 8 sveppir, smátt skornir
500 g nautahakk
salt og nýmalaður pipar 
taco spice mix, ég notaði frá Santa Maria
2 dl vatn
2 dl sýrður rjómi 

Aðferð: 
  1. Hitið olíu á pönnu og steikið laukana þar til þeir eru mjúkir
  2. Bætið sveppum út á pönnuna og hakkinu
  3. Kryddið til með salti, pipar og taco kryddblöndu
  4. Þegar hakkið er alveg að verða tilbúið er gott að hella vatninu og bæta sýrða rjómanum saman við en með því að bæta sýrða rjómanum út á pönnuna verður hakkið safaríkara og bragðbetra. 
  5. Dreifið hakkinu yfir pizzabotninn, sáldrið vel af osti yfir hakkið. Ég noti bæði venjulegan ost og mexíkóost sem ég var búin að rífa niður. 

Þegar pizzan kom út úr ofninum skar ég niður paprikur, ólífur, tómata, ferska steinselju og lét ofan á pizzuna. Í lokin sáldraði ég nachos flögum og hellti smávegis af sýrðum rjóma yfir pizzuna. Algjört lostæti. 





Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Thursday, March 19, 2015

2.þáttur. Matargleði Evu. Matur sem yljar á köldum dögum.



Pottabrauð
„Það er bæði einstaklega ánægjulegt og róandi að baka sitt eigið brauð. Það veitir öryggistilfinningu að vita nákvæmlega hvað fer í brauðið og svo er notalegt að fylgjast með bakstursferlinu.“ Ég baka oft brauð hér heima. Ég hef verulegan áhuga á brauði og mér finnst lærdómsríkt að prófa mig áfram. Ég verð líka svo montin þegar vel tekst til.“
  • 470 g hveiti 
  • 370 ml volgt vatn
  • 1 tsk salt
  • 1/4 tsk þurrger
1. Blandið þurrefnum saman í skál og hrærið vatni saman við. Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið við stofuhita í að minnsta kosti tólf klukkustundir. 
2. Hellið deiginu á hveitistráðborð og stráið smá hveiti yfir deigið, hnoðið deigið rétt aðeins í höndunum og brjótið það saman þannig að þa myndi kúlu. 
3. Smyrjið ofnpott með olíu og setjið pottinn inn í ofn við 230°C. Takið pottinn út úr ofninum, setjið brauðið í pottinn og inn í ofn í 30 mínútur. Þegar 30 mínútur eru liðnar takið þið lokið af pottinum og bakið áfram í 10 - 15 mínútur.


Basilíkupestó
·         1 búnt basilíka, stilkar og lauf
·         2 hvítlauksrif
·         50 – 60 g furuhnetur
·         50 g parmesanostur
·         1 dl ólífuolía
·         1 tsk.Sítrónusafi
·         Salt og nýmalaður pipar
     Aðferð: Setjið basilíkuna, hvítlaukinn, furuhneturnar og ostinn í matvinnsluvél og setjið í gang í um það bil 15 sekúndur. Bætið olíunni við í smáum skömmtum og setjið svo sítrónusafann út í og bragðbætið með salti og pipar. 

Matarmikil sjávarréttasúpa með tælensku yfirbragði

Í minni fjölskyldu er það óskráð regla að þegar eitthvað stendur til t.d. stórt matarboð, skírn eða fermingarveisla, þá er alltaf boðið upp á sjávarréttasúpuna hennar mömmu. Hún er virkilega góð, einfalt að gera hana og gaman að geta gengið að henni vísri við hátíðleg tækifæri. Hrifning mín á súpunni hennar mömmu hefur fengið mig til að prófa mig áfar við sjávarréttasúpugerð

·         2 rauð chili-aldin, fræhreinsuð og skorin í bita
·         4 hvítlauksrif
·         6 cm ferskt engiferrót
·         40 g ferskur kóríander
·         1/2 tsk kóríanderfræ
·         3 msk olía
·         700 g kókosmjólk
·         5 dl vatn
·         1 ½ fiskiteningur
·         ½ - 1  tsk fiskisósa
·         500 g fiskur t.d. Langa
·         20 - 25 risarækjur, ósoðnar
·         200 g heilhveitinúðlur, soðnar skv. leiðbeiningum á pakka
·         3 vorlaukar, fínt sneiddir
·         1 grænt chili aldin, fræhreinsað
·         Ferskt kóríander til skrauts

Aðferð:

1.      Maukið chili, hvítlauk, engiferrót, koríanderfræ og 1 msk af olíu saman í matvinnsluvél.
2.      Hitið olíu í potti og steikið kryddmauk í 1 – 2 mínútur.
3.      Bætið kókosmjólk, vatni og fiskikrafti út í, látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur. Bætið fiskisósu út í og síðan fiskinum og rækjunum út í og látið sjóða í 2 – 3 mínútur.
4.      Setjið núðlur í botninn á skálum, ausið súpunni yfir og setjið vorlauk og grænt chili ofan á. Skreytið með ferskum kóríander.

Eplabaka með ljúffengri karamellusósu.

Ég ásamt nokkrum vinkonum mínum stofnuðum kökuklúbb, í raun er það bara venjulegur vinkonuhittingur en við ákváðum að það er að sjálfsögðu kjörið að borða kökur saman við slík tilefni. Þessi eplabaka er einn vinsælasti rétturinn í klúbbnum, ekki síst vegna þess hve dásamlega auðvelt er að baka hana. Það kemur þó ekki niður á bragðinu, og ilmurinn af nýbökuðum eplunum gleður sérhvert hjarta. Bakan er best með karamellusósu og ís eða rjóma.. eða hvoru tveggja.
  • 5-6 stór græn epli
  • 2 msk. sykur
  • 2 - 3 tsk. kanill
  • 1 tsk. vanillusykur eða vanilludropar
  • 50 - 60 g. Hakkað súkkulaði
  • 80 g. hveiti
  • 80 g. sykur
  • 80 g. smjör
  • 50 g. Haframjöl
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Flysjið eplin, fjarlægið kjarna og stilka. Skerið eplin í litla bita og dreifið eplabitunum í eldfast mót. Blandið sykri, vanillusykri og kanil saman við eplin. Sáldrið súkkulaðinu yfir eplin. Næsta skref er að útbúa deigið sem fer ofan á eplin. Blandið hveiti, sykri, smjöri og haframjöli saman í skál og blandið saman með höndunum. Dreifið deiginu yfir eplin og sáldrið salthnetum yfir í lokin. Setjið bökuna inn í ofn í  40 – 45 mínútur. 

Á meðan að bakan er í ofninum þá er upplagt að útbúa ljúffenga karamellusósu. 

Karamellusósa

Þetta er sósan sem þið verðið að prófa. Hún passar vel með kökum og eftirréttum, og í raun gæti ég borðað hana eina og sér. Það er meðal annars mjög sniðugt að gefa sælkeranum í fjölskyldunni þessa sósu í gjöf. Sósan geymist í ísskáp í tvær vikur. Það er ágætt að hita hana aðeins upp áður en þið berið hana fram. Ég þori að lofa ykkur því að þið kaupið ekki aftur tilbúna sósu þegar þið hafið útbúið ykkar eigin.

·         200 g sykur
·         2 msk smjör
·         ½  - 1 dl rjómi
·         ½ tsk salt (sjávarsalt er best að mínu mati)

Aðferð: Setjið sykurinn á pönnu og bræðið hann við vægan hita. Gott er að hafa ekki of háan hita og fara hægt af stað. Takið pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við og hrærið vel. Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er þykk og fín. Í lokin bætið þið saltinu saman við. Það er líka afskaplega gott að rista hnetur og bæta út í sósuna. 

 Ingibjörg Rósa kom og heimsótti mig á tökustað þegar við tókum upp þátt númer tvö. Það var ótrúlega gaman og hún naut sín fyrir framan myndavélarnar. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Sunday, March 15, 2015

Vöfflur með vanillurjóma og karamelliseruðum pekanhnetum



Ég fékk mikla löngun í vöfflur og rjóma í morgun, það er auðvitað fátt betra en ilmurinn af nýbökuðum vöfflum. Við erum í góðu yfirlæti á Akranesi hjá henni mömmu og í kaffitímanum vorum við með vöfflupartí. Sunnudagar eru til þess að njóta. Ég mæli með þessum vöfflum og karamelliseraðar pekanhnetur eru auðvitað út úr þessum heimi góðar, ég segi ykkur það satt. 

Vöfflur með vanillurjóma og karamelliseruðum pekanhnetum

  • 4 Brúnegg
  • 400 ml súrmjólk 
  • 300 g Kornax hveiti 
  • 1 tsk matarsódi
  • 2 msk sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 2 tsk vanilludropar
  • 4 msk smjör, brætt 
Aðferð:

  1. Þeytið egg og súrmjólk saman. 
  2. Blandið þurrefnum saman í skál, bætið eggjablöndunni og smjörinu saman við og hrærið vel saman. 
  3. Hitið smá smjör í vöfflujárninu og steikið hverja vöfflu í nokkrar mínútur. Berið fram með vanillurjóma, sultu og karamelliseruðum pekanhnetum. 

Karamelliseraðar pekanhnetur

  • 1 poki pekanhnetur 
  • 50 g sykur
  • 1 msk smjör
  • rjómi, magn eftir smekk
Aðferð:
  1. Bræðið sykur á pönnu.
  2. Þegar sykurinn er uppleystur bætið þið smjörinu út á pönnuna og hrærið í. Saxið hneturnar og setjið út á pönnuna, steikið í 1 - 2 mínútur. Hellið rjóma út á blönduna og hrærið aðeins saman. 

Vanillurjómi

  • 250 ml rjómi 
  • 2 tsk vanillusykur
Aðferð: 

1. Setjið rjóma og sykur í skál og þeytið þar til rjóminn er orðinn léttþeyttur.

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Saturday, March 14, 2015

1.Þáttur. Matargleði Evu. Hollir og fljótlegir réttir.

„Í þessum þætti gef ég ykkur uppskriftir að góðum mat sem fljótlegt er að elda án þess að þurfa að slaka á gæðum. Ég ætla að útbúa gómsæta hristinga, ljúffengt granóla, æðislegt kjúklingasalat með satay sósu og síðast en ekki síst, mangójógúrt ís með mintu.“


 Morgun hristingar

Spínat hristingur

  • Handfylli spínat 
  • 1 bolli frosið mangó (ca. 1 1/2 dl)
  • 2 cm engifer
  • 1 msk chia fræ
  • 1/2 banani
  • Létt AB mjólk, magn eftir smekk
Berja hristingur

  • 3 dl frosin ber 
  • 1/2 banani 
  • 1 dl frosið mangó
  • 1 msk chia fræ 
  • Létt AB mjólk, magn eftir smekk
Aðferð: Setjið allt í blandarann og blandið þar til þið eruð ánægð með áferðina. Mér finnst best að nota frosin ber en þá verður drykkurinn ískaldur og mjög frískandi í morgunsárið. 




Ljúffengt Satay kjúklingasalat

„ Ég veit ekki hversu oft ég hef boðið upp á þetta salat – sem að mínu mati er besta salat sem ég hef smakkað. Ég fékk það fyrst hjá vinkonu minni henni Fríðu fyrir nokkrum árum og kolféll fyrir því en ég hef prófað mig áfram með það og breytt því smávegis. Salatið er ansi oft á boðstólnum þegar ég á von á vinkonum í mat og því tengi ég það við þær og kalla það vinkonusalatið góða“

Satay sósa

Ljúffeng sósa sem hefur í sér austurlenskt yfirbragð.


  • ½ - 1 dl vatn
  • 3 msk. Smátt saxaður kóríander
  • 1 tsk. Sambal oelek, chíli mauk
  • 4 msk gróft hnetusmjör
  • 2 cm rifið engifer
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 límóna
  • Salt og nýmalaður pipar
Aðferð:

Blandið öllu vel saman í matvinnsluvél, smakkið til með salti og pipar. Sósan er tilbúin þegar áferðin er orðin eins og þú vilt hafa hana.

Kjúklingasalat


  • 700 g kjúklingakjöt, helst bringur
  • 1 skammtur Satay sósa
  • 200 g kúskús
  • Spínat, einn poki
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 2 lárperur
  • 1 mangó
  • Kasjúhnetur, þurrristaðar
  • 150 g fetaostur

Aðferð:

  1. Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Hellið satay sósunni yfir og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.
  2. Sjóðið kúskús eftir leiðbeiningum á pakka.
  3. Skerið kirsuberjatómata  og lárperur í sneiðar og mangó í litla bita.
  4. Setjið spínat í botninn á fati. Dreifið úr kúskúsinu yfir og setjið kjúklinginn yfir kúskúsið. 
  5. Stráið kirsuberjatómötum, lárperum, mangó og fetaosti ásamt smá af olíunni yfir. 
  6. Dreifið að lokum ristuðum kasjúhnetum yfir. 


Jógúrtís með mangóbragði

„Ég nýt þess að fá mér góða deserta og slæ aldrei hendinni á móti einum slíkum. Þegar ég vil eitthvað létt og frískandi í desert þá er þessi jógúrtís fullkominn“

  • 250 g frosið mangó
  • 1 msk. Fljótandi hunang
  • Rifinn börkur og safi  af ½ límónu
  • Nokkur mintulauf, 6 - 7 
  • 150 g grískt jógúrt
  • Dökkt súkkulaði, til skrauts

Aðferð:

Maukið mangóið í matvinnsluvél, bætið jógúrti, mintu, límónubörk og hunangi þar til réttri áferð er náð. Setjið í form og inn í frysti í lágmark klukkustund. Berið fram með dökku súkkulaði og ferskum berjum. 


Ljúffengt granóla

  • 8 dl hafrar
  • 2 dl möndlur, saxaðar
  • 2 dl pekanhnetur, saxaðar
  • 2 dl sólblómafræ
  • 2 msk hörfræ
  • 2 dl eplasafi
  • 1 dl kókosolía, brædd
  • 2 - 3 msk. gott fljótandi hunang
  • Grófar kókosflögur
  • þurrkuð trönuber


Aðferð

 Hitið ofninn í 170°C. Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og dreifið blöndunni á plötuna. Bakið í ca. 30 mínútur eða lengur. Fylgist vel með og hrærið nokkrum sinnum í blöndunni á meðan bökunartíma stendur.  Þegar blandan er tilbúin þá bætið þið grófum kókosflögum og þurrkuðum trönuberjum saman við. Njótið með grísku jógúrti eða sem millimál. 


Í næsta þætti ætla ég að baka gómsætt pottabrauð, búa til æðislegt pestó, elda ljúffenga fiskisúpu með tælensku ívafi og baka eplaböku sem fær hjörtu til að slá aðeins hraðar. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Tuesday, March 10, 2015

Bakvið tjöldin; Matargleði Evu

Næstkomandi fimmtudagskvöld fara matreiðsluþættirnir mínir, Matargleði Evu í loftið. Við erum á fullu þessa dagana að taka upp efni og það er ofboðslega gaman hjá okkur í vinnunni. Ég er svo heppin að vera í frábæru teymi og saman vinnum við í því að gera góða matreiðsluþætti. Hér eru nokkrar myndir af tökustað, í fína eldhúsinu mínu. 


Ég er svo heppin að hafa hana Rikku sem leikstjóra, hún er frábær og algjör fagmaður.



Tommi tökumaður einbeittur að mynda granóla. 


Þetta er hún Vera mín sem aðstoðar mig á tökustað, hún er svo skemmtileg og gaman að vera í kringum hana. Hér pósar hún með brauði, allt eins og það á að vera. 


Ingibjörg Rósa og Haddi kíktu að sjálfsögðu á okkur, Ingibjörg var bara sátt og sæl fyrir framan myndavélarnar. 





Tökumenn í action! Þeir eru frábærir og svo flinkir. 


Rjóminn elsku rjóminn, hann kemur við sögu í Matargleði Evu. 

Í þættinum á fimmtudaginn  gef ég ykkur uppskriftir að góðum mat sem fljótlegt er að elda án þess að þurfa að slaka á gæðum. Hraði nútímasamfélagsins er mikill og æ minni tími gefst til matseldar að loknum vinnudegi, allir eru þreyttir og vilja bara fá eitthvað fljótlegt að borða, og já það strax! Fljótlegt, einfalt og hollt fyrir nútímafólk.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir