Friday, November 29, 2013

Nýja heimilið

Nú erum við flutt og íbúðin okkar verður heimilislegri með hverjum deginum, það er voða gaman að koma sér fyrir. Okkur líður vel hér í borginni, ekki það að okkur hafi ekki liðið vel á Akranesi. Það er bara svo ansi gott að sleppa akstrinum, mér finnst ég eiga miklu meiri tíma. 

Um helgina er fyrsta helgin í aðventu sem þýðir að það styttist í elsku jólin, tíminn flýgur áfram og það er nóg að gera fram að jólum. Ég ætla að reyna að baka eitthvað um helgina, hálf tómlegt að eiga engar smákökur á nýja heimilinu. Það gengur auðvitað ekki. 
Kökur gera heimilið enn heimilislegra og hlýlegra. 

Svona er útsýnið mitt þennan föstudagseftirmiðdag, ég sit hér drekk ljómandi gott kaffi og borða dásamlega súkkulaðibitaköku. Ég er að undirbúa ræðu sem ég ætla að flytja á morgun á Akranesi á stefnumótunarfundi í atvinnumálum.  Ég er einnig að undirbúa jólaútvarpsþátt sem ég verð með á morgun. Ég mæli þess vegna með að þið hlustið á Útvarp Akranes (95.0) klukkan 17.30 á morgun. Jólajóla. :) 

Ég vona að þið eigið góða helgi framundan kæru vinir. Ég hugsa að það sé ekkert svo galið að setja á sig svuntuna og baka nokkrar jólasmákökur. Svona til að eiga með kaffinu eða próflestrinum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, November 25, 2013

Lífið Instagramað @evalaufeykjaran


 1. Bókin mín Matargleði Evu kom út þann áttunda nóvember. Það var dásamleg tilfinning að fá bókina í hendurnar eftir langa bið, ég er voða ánægð með bókina og ég er algjörlega í skýjunum yfir því hvað henni hefur verið vel tekið. Ég hélt útgáfuboðið sama daga og bókin kom út. Hátt í tvö hundruð manns komu og fögnuðu þessum áfanga með mér. Mikið sem ég er heppin að eiga allt þetta góða fólk. Ómetanlegt að eiga góða fjölskyldu, góða vini og auðvitað góða lesendur. Þúsund þakkir til ykkar allra. Án ykkar hefði ég ekki tækifæri til þess að gefa út matreiðslubók. 

 2. Rice Krispíes kakan dásamlega í tökum.
3. Kynning á Stöð 3 í Kringlunni, þættirnir mínir Í eldhúsinu hennar Evu eru einmitt sýndir á mánudögum á Stöð 3.

 4. Fríðan okkar kom heim frá Ameríku, við skáluðum auðvitað í piparkökulatte í tilefni þess. Stefán Jóhann kemur líka heim frá New York fyrir jólin, mikil ósköp sem það verður gott að fá hann heim. 
5. Það verður auðvitað allt að gerast á sama tíma svo ég hafi nú örugglega nóg að gera. Við erum flutt til Reykjavíkur. Málningarvinna og flutningar hafa einkennt síðustu daga. Íbúðin okkar verður heimilislegri með hverjum deginum og get ég ekki beðið eftir því að elda í fína eldhúsinu mínu og deila uppskriftum með ykkur. 

 6. Ég hélt bókakynningu á Akranesi eina helgina í nóvember, það var afskaplega huggulegt. Elskulegu vinkonur mínar komu auðvitað. 
7. Mér fannst voða gaman að sjá bækurnar okkar saman á lista yfir mest seldu handbækurnar, nú er bókastríðið á milli okkar farið á fullt líkt og við vorum búin að tala um og hlæja mikið af. 
 8. Að byrja daginn á því að hægelda lamb er góð skemmtun, í kvöld er matreiðsluþátturinn minn Í eldhúsinu hennar Evu sýndur á Stöð 3 klukkan 20:45. Ég mæli með að þið fylgist með - hægeldað lambalæri, gott meðlæti og ljúffengur desert. 
9. Bollakökur á leið í Ráðhúsið. Ég bauð upp á bollakökur á bókamessunni í Ráðhúsinu um helgina. Það var virkilega skemmtilegt. 
10. Í dag naut ég þess að drekka jólakaffi, borða piparkökur, hlusta á jólalög og undirbúa jólaþætti sem við tökum upp á morgun. Jólajóla. Ég er orðin mjög spennt fyrir jólunum, það styttist nú heldur betur í þau. 

Ég vona að þið hafið það rosalega gott. Ég vildi stinga nefinu aðeins hingað inn, bloggið hefur verið í smá dvala undafarið en vonandi hef ég meiri tíma næstu vikurnar. Því nú byrjar jólabaksturinn og þá vil ég auðvitað deila jólauppskriftum með ykkur. 

 xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, November 18, 2013

Dásamlega vetrarsúpa sem yljar


Veturinn er kominn, það má með sanni segja. Það er snjór úti og svolítið kalt, þá er nú ekkert betra að mínu mati en ljúffeng súpa sem yljar. Ég er einstaklega mikil súpukona og mér finnst fátt betra en góð og matarmikil súpa. Ég bjó til afskaplega einfalda og gómsæta tómatsúpu um daginn og ég verð að deila uppskriftinni með ykkur. Ég prófaði að nota kirsuberjatómata í dós að þessu sinni og ég verð að segja að ég er yfir mig hrifin af þeim, einstaklega bragðgóðir. Ég mæli með að þið prófið þessa súpu, það er svo huggulegt þegar heimilið ilmar af matargerð og á köldum dögum gefa súpur hita í kroppinn. 


Dásamlega vetrarsúpa
uppskrift miðast við 3 - 4 

 • 1 msk. ólífuolía
 • 1/2 meðalstór laukur
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 2 dósir tómatar, kirsuberja
 • 10 - 12 fersk basilíkulauf
 • 1 kjúklingateningur eða grænmetisteningur
 • 4 dl vatn 
 • 1 dl rjómi 
 • 50 g rifinn ostur 
 • salt og nýmalaður pipar, magn eftir smekk
Aðferð:

 • Við byrjum á því að hita olíu við vægan hita í potti, skerum laukinn smátt og setjum út á pönnuna. Bætið hvítlauknum saman við og hrærið vel í, við ætlum bara rétt að mýkja laukinn. Því næst fara tómatar og basilíkulauf saman við, bætið kjúklinga eða grænmetistening saman við. Næsta skref er að setja allt saman í blandarann í örfáar mínútur eða þar til súpan er orðin silkimjúk. Hellið henni aftur í pottinn, bætið vatninu, rjómanum og ostinum saman við. Leyfið súpunni að malla við vægan hita í fimm - sjö mínútur. Kryddið auðvitað til með salti og pipar. Það er mikilvægt að smakka sig til, sérstaklega í súpugerð að mínu mati. 


 Ég vona að þið njótið vel kæru vinir. Ég minni svo á sjónvarpsþáttinn minn í kvöld 'Í eldhúsinu  hennar Evu' klukkan 20:45 á Stöð 3. Í kvöld ætlum við að fara í pestógerð og útbúa fljótlegan og gómsætan kjúklingarétt. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, November 12, 2013

Tiramisú og bakaðir ávextir með vanilluís.


Tiramisú

Tiramísú er guðdómlegur ítalskur eftirréttur. Nafnið þýðir í raun „taktu mig upp“ og er þá verið að
vísa í að hann fer með okkur í hæstu hæðir, svo góður er hann. Þegar ég gæði mér á tiramisú fer
hugurinn með mig á lítinn sætan veitingastað í Bretlandi þar sem ég smakkaði réttinn í fyrsta sinn.
Það eru til margar útgáfur af tiramisú, þessi útgáfa er virkilega einföld.

 • 4 egg
 • 100 g sykur
 • 400 g mascarpone ostur
 • 2 msk Amarula líkjör (má sleppa)
 • 2 tsk vanillu extrakt
 • 4 dl þeyttur rjómi
 • 250 g kökufingur
 • (Lady Fingers)
 • 6-7 dl sterkt uppáhellt kaffi
 • kakó eftir þörfum


Stífþeytið egg og sykur saman þar til þykk froða myndast.
Blandið mascarpone ostinum saman við eggjablönduna og hrærið
vel. Bætið líkjörnum, vanillunni og rjómanum varlega saman við
með sleif. Leggið blönduna til hliðar í stutta stund á meðan þið
hugið að kökunum. Hellið upp á sterkt kaffi og setjið kaffið í
skál.Veltið kökufingrunum upp úr kaffinu og raðið þeim með
jöfnu millibilli í fallegt form, það er líka hægt að bera réttinn
fram í nokkrum glösum en þá gerið þið bara það sama og segir
hér á undan. Setjið helminginn af ostablöndunni ofan á kökufingurna,
stráið svolitlu kakói yfir og endurtakið leikinn þar til
hráefnið er búið. Í lokin er stráð vel af kakói yfir réttinn. Það þarf
að kæla þennan rétt í lágmark 4 klukkustundir áður en þið berið
hann fram, best finnst mér að geyma hann í kæli yfir nótt.Ofnbakaðir ávextir með kókos og hvítu súkkulaði

Bakaðir ávextir með kókosog vanilluís. Þessi ofureinfaldi eftirréttur er einn sá allra besti. Hægt er að nota hvaða ávexti sem er, allt eftir smekk hvers og eins. 

Bakaðir ávextir
 • 3 bananar
 • 2 mangó
 • ½ ananas
 • 15 jarðarber
 • 1 askja/200 g bláber
 • 100 g vínber
 • 3 kíví
 • 180 g hvítt súkkulaði
 • 4 msk kókosmjöl
Skerið ávexti í bita og setjið í eldfast form. Saxið hvítt súkkulaði og dreifið yfir ávextina, sáldrið kókosmjöli yfir og skellið inn í 180°C heitan ofn. Bakið þar til ávextirnir verða ljósbrúnir. Berið fram með vanilluís.

Friday, November 8, 2013

Útgáfudagur

Mikil ósköp var það góð tilfinning að fá bókina í hendurnar í gærkvöldi. Ég er mjög ánægð með bókina og hlakka svo til að sýna ykkur kæru vinir. Mér þætti virkilega vænt um að sjá ykkur í útgáfuhófinu mínu í dag. Verið hjartanlega velkomin!Risaknús 

Eva Laufey Kjaran

Friday, November 1, 2013

Fylltar kjúklingbringur með dásamlegu pestó


Helgin er að skella á og þá er svo sannarlega tilvalið að gera vel við sig og sína. Ég hef lítið náð að blogga í vikunni því nú verr og miður en ég vona að þessi uppskrift bæti upp fyrir bloggleysið. Ég er sérlega hrifin af kjúkling og elda hann mjög oft eins og þið hafið örugglega tekið eftir. Fylltar kjúklingabringur eru í eftirlæti, þessi uppskrift sem ég deili með ykkur í dag er afar einföld og þægileg. Fullkomin föstudagsuppskrift ef svo má að orði komast. Ég smakkaði svo gott og ferskt pestó um daginn að ég ákvað að nota það í þennan rétt. Ég er mjög hrifin af pestó og þá sérstaklega ef það er mjög ferskt. 

Fylltar kjúklingabringur með dásamlegu pestó 

Uppskriftin er fyrir fjóra 

4 kjúklingabringur 
8 msk. hreinn rjómaostur
7 - 8 msk. pestó 
1 msk. fínt brauðrasp 
fersk steinselja, magn eftir smekk 
salt og nýmalaður pipar
ólífuolía 
kirsuberjatómatar 

Aðferð: 

Þerrið kjúklingabringurnar og skerið í þær vasa til að koma fyllingunni í. Blandið saman í skál rjómaostinum, pestóinu, svolítið af ferskri steinselju og kryddið til með salti og pipar. Setjið 1 - 2 msk af fyllingunni inn í hverja bringu. Til þess að fyrirbyggja að fyllingin myndi nú leka út þá lét ég nokkra tannstöngla til þess að halda fyllingunni inn í bringunni. Leggið bringurnar á eldfast mót, kryddið þær til með salti og pipar. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og setjið þá á eldfasta mótið. Sáldrið bæði brauðraspinu og ólífuolíunni yfir að lokum. Setjið bringurnar inn í ofn við 180°C í 25 - 30 mínútur. Þegar bringurnar eru komnar út úr ofninum þá er gott að saxa niður ferska steinselju og sáldra yfir áður en þið berið þær fram. Ég var ekki með sósu því bringurnar voru mjög safaríkar en þið getið auðvitað búið til létta og góða sósu ef þið viljið. Gott er að bera þennan rétt fram með hrísgrjónum eða sætum kartöflum. Já  og auðvitað fersku salati. 

Einfaldur, fljótlegur og gómsætur réttur sem ég mæli með að þið prófið. 

 Þetta er pestóið góða sem ég notaði, algjör dásemd sem ég mæli með. Pestóið fæst m.a. í Hagkaup. 

Ég vona að þið eigið ljúfa helgi framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran