Thursday, January 31, 2013

Hamingjusamur bloggari!

Þúsund þakkir fyrir heimsóknir á bloggið í janúar kæru vinir. Heimsóknir fyrir janúarmánuð voru yfir 155.000 og mikil ósköp sem ég er þakklát fyrir svona góða lesendur. Fyrir ári síðan voru heimsóknir í janúar 40.000 svo það er reglulega gaman að fylgjast með litla blogginu mínu vaxa. 

Ef ekki væri fyrir svona frábæra lesendur þá væri ég örugglega löngu hætt að blogga. Það er svo skrítið hvað bloggið hefur haft mikil áhrif á mitt líf. Tækifæri og ákvarðanir sem ég hef tekið út frá blogginu, tækifæri sem ég hefði líklega aldrei fengið. Ég er allt annarri braut en ég var búin að "ákveða" fyrir nokkrum árum, sem er mjög skemmtilegt. 

Ég vil þakka ykkur öllum, mér finnst eins og ég sé búin að eignast marga vini sem mér þykir svo vænt um. Ég vona að þið eigið ljúfan dag og gerið eitthvað ánægjulegt í tilefni föstudags. Það er föstudagur og það er kominn febrúar, því ber að fagna. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Twix bomba.

Ég hef alltaf verið afskaplega hrifin af kökum og það er fátt sem gleður mig meira en fallegar og góðar kökur. Kökuást mín byrjaði mjög snemma og eina minningin sem ég á af ættarmóti sem var haldið fyrir mörgum árum eru kökurnar, ég setti mér það markmið að smakka hverja einustu köku sem var á borðinu. Fyrirkomulagið var þannig að hver fjölskylda kom með eina köku og það fannst mér reglulega spennandi. Þetta var mjög fjölmennt ættarmót en ég naut þess að smakka allar kökurnar, á meðan hin börnin léku sér þá var ég að vinna í því að ná settu markmiði. Síðasta kakan sem kom á borðið var kívíkaka í einskonar hlaupi, ég man það sérstaklega vegna þess að ég hef varla borðað kíví síðan þá.

Ég sá svo ótrúlega girnilega uppskrift um daginn að Twix bombu.  Ég gat ekki staðist freistinguna og varð að prufa. Ein af mínum bestu vinkonum útskrifaðist um síðustu helgi og þá fannst mér kjörið tilefni til þess að baka þessa bombu. Twix bomban var svakalega góð og mæli innilega með að þið prufið þessa uppskrift kæru vinir og njótið. 


Twix bomba

100 g smjör, við stofuhita
40 g kakó
2 dl vatn
220 g sykur
2 egg
175 g hveiti
1/2 tsk. matarsódi
2 eggjahvítur
80 g sykur

Fylling:

4 dl rjómi
2 tsk flórsykur
3 stk twix (60 g hvert)

Aðferð:

Hitið ofninn í 160°C. Setjið kakó í litla skál og hellið sjóðandi vatni yfir, hrærið vel saman. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós, bætið eggjum út í, einu og einu í senn. Blandið súkkulaðblöndu, hveiti og matarsóda út í og hrærið vel saman við. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar í smá stund. Stífþeytið eggjahvítur, bætið sykrinum saman við smám saman. 

Smyrjið tvö form (ég notaði 22 cm í þvermál) og skiptið súkkulaðideiginu á milli formana. Skiptið marensdeiginu ofan á og dreifið úr því. Bakið botnana í 35 - 40 mínútur, kælið þá vel áður en þið takið þá úr formunum. 

Þeytið rjóma og bætið flórsykrinum saman við, skiptið honum á milli botnana og leggið þá saman.  Setjið rjóma ofan á kökuna, saxið twix og dreifið yfir kökuna.

Ég vona að þið njótið vel kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, January 30, 2013

Að baka...

Gærdagurinn byrjaði á því að fínpússa verkefnið mitt sem ég flutti í skólanum í gær og eftir tímann þá brunaði ég aftur heim og byrjaði á því að skipuleggja bakstursdaginn mikla.  Ég er bæði að vinna í dag og tek þátt í því að skipuleggja kökuveislu Vöku sem er í kvöld svo það komst lítið annað að en baksturinn í gær.  Sem er aldeilis fínt og þið fáið auðvitað að sjá afraksturinn þegar þar að kemur. 

Annars langaði mig nú bara til þess að bjóða áhugasömum á kökuveislu Vöku í kvöld. Úrval af kökum og bollakökukeppni milli nemenda. Herlegheitin hefjast kl. 20.00 í kosningamiðstöð Vöku, Vesturgötu 10a. Það væri mjög skemmtilegt að sjá sem flesta og það er öllum velkomið að mæta. Þetta er skemmtilegasta fjáröflun ársins hjá okkur svo þetta verður að ég held mikið fjör, þar sem kökur eru þar er ætíð fjör. 

Ég vona að þið eigið góðan dag elsku vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran


Tuesday, January 29, 2013

Ofnbökuð ýsa í mangókarrísósu.

Þegar ég var yngri þá var alltaf fiskur í matinn heima hjá mér á mánudögum og ég reyni að halda í þá hefð hér heima hjá mér.  Það má með sanni segja að ég sé að taka upp þær venjur sem mamma var með heima hjá okkur, ég man nú samt eftir því að ég var ekkert agalega ánægð með mánudagsfiskinn þegar  ég var yngri. Þá hét ég því auðvitað að þegar ég yrði stór þá skyldi nú vera pítsupartí á hverju kvöldi og hananú! En allt kom fyrir ekki og nú finnst mér mánudagar ómögulegir ef ég fæ ekki fisk í kvöldmatinn. 

 Að mínu mati er soðin ýsa stöppuð saman við kartöflur og smjör alltaf dásamlega gott en það er líka mjög gaman að prufa sig áfram með mánudagsfiskinn. Þessi fiskréttur sem ég ætla að deila með ykkur í dag er hollur, einfaldur hversdagsréttur sem er að mínu mati virkilega ljúffengur. Í sósunni er bæði karrí og mangó chutney sem eru bæði í miklu uppáhaldi hjá mér við matargerðina. 

Ég vona að þið njótið vel. 

Ofnbökuð ýsa í mangókarrísósu 
Uppskrift miðast við  þrjá til  fjóra manns. 
                                                                            
600 g ýsa (má líka nota annan fisk)
1 msk ólífuolía
2 meðalstórar paprikur (rauð og gul)smátt skornar
2 gulrætur, smátt skornar
2 msk blaðlaukur, smátt skorinn
1 peli rjómi 
1 1/2 msk mangó chutney
1 1/2 - 2 tsk karrí
1 msk fersk steinselja, smátt söxuð
1 tsk ferskt timjan, smátt saxað 
rifinn ostur, magn eftir smekk
salt og pipar 

Aðferð:
1. Skerið grænmetið niður. Hitið olíu við vægan hita og steikið grænmetið í svolitla stund.
2. Hellið rjómanum saman við og bætið fersku kryddjurtunum út á pönnuna, leyfið þessu að malla í smá stund við vægan hita. 
 4. Bætið mangó chutney og karrí saman við og hrærið vel í. Kryddið til með salti og pipar, mjög mikilvægt að smakka sósuna á þessum tímapunkti. 

Það getur vel verið að þið viljið hafa sósuna sterkari eða mildari og þá er nauðsyn að dassa sig til. Ef ykkur finnst sósan of þykk þá getið þið bætt smávegis af vatni saman við. 
5. Skolið fiskinn vel og leggið hann í eldfast mót. Hellið sósunni yfir og stráið að lokum rifnum ost yfir réttinn. 
6. Setjið fiskréttinn inn í ofn við 190°C í 30 - 35 mínútur. 

 Ilmurinn af réttinum var dásamlegur. Mangó chutney og karrí eru að mínu mati ótrúlega góð saman og ég verð aldrei fyrir vonbrigðum ef ég blanda þeim saman. 
Berið fiskréttinn fram með fersku salati og hrísgrjónum.
Litirnir eru svo afskaplega fallegir og grænmetið fær svo sannarlega að njóta sín í réttinum.
 Ýsa er í eftirlæti hjá mér en það má auðvitað nota hvaða fisk sem er. 

Þessi réttur er svo ótrúlega einfaldur og er sérstaklega ljúffengur. Hann er mjög fljótlegur sem er mikill kostur að mínu mati þessa dagana þegar lítill tími gefst við matargerð. 
 Mánudagsfiskurinn í dásamlegum búning. 

Ég mæli svo sannarlega með að þið prufið þessa uppskrift kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, January 28, 2013

Fimm myndir

Ég er nú örugglega ekki sú eina sem þrái sólina og sumarið. Í janúar þá er mjög freistandi að skoða utanlandsferðir og láta sig dreyma um huggulegheit. Ég tók saman nokkrar myndir frá því í fyrrasumar sem var ó svo dásamlegt!

Um 40°C stiga hiti í New York. Ég var búin að ráfa svolítið lengi um borgina þegar að ég loksins fann Magnolia bakaríið. Þar féll ég í kökuhimnaríki. Ég keypti mér kökur, kökubók og límonaði. Rölti yfir í Central Park, sat í garðinum í langa stund. Borðaði köku í dásamlegum garði og naut þess að vera til.
 Uppi á þaki á hótelinu í Boston í ansi miklum huggulegheitum.
 Í fyrsta sinn í Kanada og túristinn dreif sig auðvitað upp í CN turninn. Magnað útsýni og veðrið var guðdómlegt.
Hvítvínslunch með yndislegum vinum á góðum degi í sumar. 
Að ferðast um landið okkar er algjörlega toppurinn.
xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, January 27, 2013

Annasöm vika, pizza Parma og Bridget Jones.

Nú er vikan á enda og tíminn flaug áfram. Það var frekar mikið að gera í vikunni og er ég ótrúlega ánægð með vikuna, margt spennandi í kortunum framundan sem ég hlakka mikið til að deila með ykkur. 

Ég vaknaði snemma í morgun og fór suður í verkefni sem tók nærri því 10 klst. Ég var orðin fremur þreytt eftir langan dag en mig langaði nú  í eitthvað gott í kvöldmatinn svo ég dreif mig út í búð og keypti mér hráefni til þess að útbúa Parma Pizzu. Þegar að ég kom heim þá fór ég beinustu leið í náttfötin, bjó mér til pizzu, hellti í eitt rauðvínsglas, kom mér vel fyrir upp í sófa og horfði á Bridget Jones í sjónvarpinu á meðan ég gæddi mér á dýrindis pizzu. Virkilega huggulegur endir á helginni. 

Ég vona að þið hafið haft það ótrúlega gott elsku vinir. Við heyrumst spræk á morgun. 

xxx
Eva Laufey Kjaran

Thursday, January 24, 2013

Rjómalöguð tómatsúpa.

 Þessi vika hefur verið sérdeilis viðburðarrík og mikið að gera svo ég hef ekki haft mikinn tíma fyrir matargerð en mig langar þó alltaf í eitthvað gott að borða og þá er ekkert betra og fljótlegra en súpa. Súpur eru í sérstöku eftirlæti hjá mér og ég gæti borðað þær í öll mál. Ég bjó til tómatsúpu eitt kvöldið í vikunni, súpan heppnaðist vel að mínu mati og mig langar því til þess að deila uppskriftinni með ykkur. 
 Rjómalöguð Tómatsúpa

1 msk ólífuolía 
1/2 meðalstór laukur, smátt saxaður
2 - 3 hvítlauksrif, pressuð
2 dósir niðursoðnir saxaðir tómatar. 
handfylli af basilíku, smátt söxuð 
800 ml vatn 
1 kjúklinga - eða grænmetisteningur
3 dl rjómi
salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

Hitið olíu við vægan hita, steikið laukinn og hvítlaukinn í smá stund. Bætið söxuðum tómötum, vatni, basilíku og kjúklinga-eða grænmetistening saman við. Leyfið þessu að malla við vægan hita í 10 - 15 mín. Ég lét súpuna í blandara en auðvitað er hægt að nota töfrasprota til þess að hræra þessu öllu vel saman. Setjið svo allt í pottinn aftur og bætið rjómanum við, kryddið til með salti og pipar eftir smekk. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur og smakkið auðvitað til, það gæti vel verið að þið viljið meiri basilíku eða meiri pipar. 
Það er alltaf gott að bera brauð fram með súpu, að þessu sinni þá lét ég nokkrar brauðsneiðar með osti, tómötum og þurrkaðri basilíku inn í ofn og bakaði í nokkrar mínútur. Skar svo niður allt það grænmeti sem ég átti til, skar niður ferskan mozzarella og svolítið vel af balsamik ediki. Ljúffengt! 
Einfalt, ljúffengt og bragðgott. Mæli svo sannarlega með að þið prufið þessa súpu kæru vinir. Hún er líka enn betri daginn eftir svo ég var verulega ánægð að eiga súpu í hádeginu í gær. 

Vonandi eigið þið ljúfan dag. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, January 23, 2013

On the road

Ég er svo afskaplega ánægð með veðrið, það er svo gott að vakna og sjá að sólin skín. Það er vissulega kalt en á meðan sólin er á lofti þá skiptir það ekki máli. Að því sögðu þá virðist ég tala mikið um veðrið við ykkur, sem er pínu fyndið. Ég vona að þið hafið gaman af pælingum um veðrið. 

Dagurinn í dag byrjaði á tölvupóstum og aftur tölvupóstum, er búin að drekka alltof marga kaffibolla og klukkan er bara tólf.  Ég bjó mér til svakalega góðan boozt rétt í þessu sem ég ætla að drekka á leiðinni suður, ekki meira kaffi í dag. Ég má til með að mæla með þessum booztglösum sem ég keypti í krónunni. Mér finnst þau ákaflega þægileg og fín. 

Ég vona að þið eigið ljúfan dag kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, January 22, 2013

Lífið instagrammað

                      1. Hugguleg kvöldstund með uppáhalds bókunum og tímaritunum mínum.
2. Vinkonur ánægðar með Stúdentakjallarann sem var opna. 
 3. Kjúklingur í rjómasósu með beikoni og sveppum, gúrme. 
4. Hressir Vökuliðar á listakynningu Vöku.
 5. Ég og Sara í frambjóðendaferð Vöku             6. Elsku vinir mínir að syngja og halda uppi fjörinu. 
 7. Heitt súkkulaði með miklum rjóma á ljúfum laugardegi
 8. Anna Fríða og Anna Margrét, vinkonur mínar í viðskiptafræðinni. Langþráður lunch eftir jólafríið.
 9. Í dag var sól, þá lét ég auðvitað sólgleraugun upp. 
10. Rjómalöguð tómatsúpa og salat, uppskriftin kemur inn á morgun kæru vinir. 

Ykkur er velkomið að fylgjast með mér á instagram, finnið mig undir evalaufeykjaran. 

Ég vona að þið hafið átt fínan dag kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, January 20, 2013

Fimm uppskriftir að ljúffengum morgunmat.

Morgunmatur skiptir gríðarlega miklu máli. Ég hef ekki mikinn tíma á morgnana en ég hef það  fyrir reglu að fá mér eitthvað, þó ekki nema einn banana eða jógúrt. Þegar  ég hef hinsvegar smá tíma þá fæ ég mér yfirleitt boozt, hafragraut eða  gott brauð/hrökkbrauð.

Mig langar til þess að deila með ykkur fimm uppskriftum að ljúffengum morgunmat, uppskriftirnar eiga það sameiginlegt að vera einfaldar og fljótlegar. 

Ég vona að þið njótið vel kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, January 19, 2013

Ljúfur laugardagur

 Ég fór í mjög skemmtilega frambjóðendaferð Vöku í gær og þar var mikið fjör og skálað fram á nótt. Ég fór þess vegna alltof seint að sofa og vaknaði snemma þar sem við í menntamálanefnd SHÍ vorum að halda málþing sem gekk ótrúlega vel og ég ætla að deila með ykkur von bráðar nokkrum myndum af þinginu sem ég er svo ánægð með. 
 Þegar að ég kom heim áðan þá byrjaði ég á því að hita mér heitt súkkulaði, kveikti síðan á nokkrum kertum, lét Elvis minn á fóninn og er nú búin að koma mér vel fyrir upp í sófa með matreiðslublöð og tímarit. Huggulegheit á þessum bæ.
 Það er kökuklúbbur á morgun. Ég ætla að baka einhverja köku og er því að fletta í gegnum bækurnar/blöðin mín. Verst hvað það er nú erfitt að velja því uppskriftirnar eru hver annari girnilegri. 

Ég vona að þið eigið ljúfan laugardag kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, January 18, 2013

Listakynning, frambjóðendaferð, málþing og bragðgóður boozt. Gleðilega helgi!

 Gleðilegan föstudag kæru vinir. Föstudagsblómin komin á sinn stað og nú má helgin koma.  
Ég var kynnir ásamt Maríu Rut á listakynningu Vöku í gær og mikið sem það var nú gaman, fullt af nýjum andlitum og fjör í mannskapnum. Nú má kosningafjörið byrja!
Um helgina þá ætlar nefndin mín sumsé menntamálanefnd SHÍ að halda málþing undir yfirskriftinni 

"Hvað geta nemendur gert til þess að bæta gæði náms"

Ég er sérlega spennt fyrir þinginu og hlakka mikið til að heyra í bæði nemendum og kennurum. Dagurinn í dag hefur mestmegnis farið í að undirbúa þingið, en nú er allt að smella saman og þá er ég glöð. Seinna í dag er förinni heitið á Selfoss, þar ætla ég að eyða kvöldinu með frábæru fólki í Vöku. 
Berjaboozt er í miklu eftirlæti hjá mér og ég elska að byrja daginn á því að fá mér þetta boozt. Í þetta boozt fer eftirfarandi: Frosið mangó, frosin bláber, frosin jarðaber, vanilluskyr, hörfræ og superberries safi. Dásamlega ferskt og gott boozt sem ég mæli með að þið prufið. 

Ég vona að þið eigið dásamlega helgi, njótið þess að vera til, dúllið ykkur á náttfötunum, eldið góðan mat, bjóðið vinum í bröns, farið í göngutúr, horfið á skemmtilega mynd og útbúið eitthvað gott með sunnudagskaffinu og leyfið ykkur að vera smá löt. Þá má um helgar. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, January 17, 2013

Kjúklingabringur í rjómasósu með beikoni og sveppum.

Það hefur verið svokallað inniveður undanfarna daga og þá finnst mér ekkert huggulegra en að koma heim úr skólanum og fara beinustu leið inn í eldhús að dunda mér við matargerð. 

 Ég bauð bróður mínum og kærustunni hans í mat og við vorum öll sammála um að þetta væri einn sá besti kjúklingaréttur sem við höfum smakkað.  Við kláruðum réttinn og það er alltaf góðs viti að mínu mati, þá veit ég að rétturinn var góður. Við sátum svo yfir sjónvarpinu, pakksödd að horfa á landsleikinn sem því miður endaði ekki nógu vel.  Þeir standa sig nú alltaf afskaplega vel strákarnir, við getum ekki alltaf unnið :) 

En hér kemur uppskriftin að sérstaklega bragðgóðum og einföldum kjúklingarétt sem við vorum svo ótrúlega ánægð með í gærkvöldi. Njótið vel kæru vinir. 
Kjúklingur í rjómasósu með beikoni og sveppum
Fyrir 3 - 4 manns. 

2 msk ólífuolía
4 kjúklingabringur
1 pk. beikon, skorið í litla bita 
8 - 10 sveppir, skornir
2 msk fersk steinselja, smátt söxuð
2 msk ferskt timjan, smátt saxað
1/2 kjúklingateningur
350 ml matreiðslurjómi 
salt og pipar eftir smekk

Aðferð:
 1. Skerið sveppina og beikonið í litla bita         
2. Hitið olíu við vægan hita, steikið sveppina og beikonið á pönnunni
 3. Mér finnst langbest að nota ferskar kryddjurtir.
 4. Saxið kryddjurtirnar smátt niður og bætið þeim á pönnuna.
 5. Bætið matreiðslurjómanum og kjúklingateningnum saman við, leyfið þessu að malla við vægan hita í nokkrar mínútur. 
6. Skolið kjúklingabringurnar, leggið þær í eldfast mót og kryddið þær með salti og pipar. 
 7. Hellið sósunni yfir kjúklinginn og inn í ofn við 180°C í 30 - 35 mínútur. 
Berið réttinn gjarnan fram með hrísgrjónum, fersku salati og fetaosti. 
Sósan var ótrúlega bragðmikil og kjúklingurinn safaríkur. Sósuna hefði ég geta borðað eina og sér, svo góð var hún. Ég á pottþétt eftir að gera hana oftar með öðrum réttum, væri t.d. tilvalin í pastarétt. Beikonið, sveppirnir og fersku kryddjurtirnar vinna svo sannarlega vel saman og útkoman var dásamleg. 
 Við áttum verulega gott kvöld saman og mér þykir svo vænt um svona kósí kvöld. Góður matur og góður félagsskapur er galdurinn að góðu kvöldi. Ég mæli með að þið eldið eitthvað gott og bjóðið fjölskyldu eða góðum vinum í mat á næstu dögum, það gefur lífinu svo sannarlega lit. 

xxx

Eva Laufey Kjaran