Sunday, June 22, 2014

Skinkuhorn fyllt með skinku- og beikonsmurosti.


Ég bakaði í fyrsta skipti skinkuhorn um daginn, ég veit ekki afhverju ég hef aldrei bakað þau fyrr því mér finnst þau sérlega góð.  Þessa uppskrift fékk ég hjá henni Kollu Björns en hún er gestur minn í þættinum mínum Höfðingjar heim að sækja annað kvöld á Stöð 2. Í þættinum bakar hún meðal annars dásamlegar bollur upp úr þessari uppskrift. 

Ég var mjög ánægð með útkomuna og almáttugur hvað hornin eru góð nýbökuð, ég gef það ekki upp hvað ég borðaði mörg horn þennan bakstursdag. ;-)  Ég frysti nokkur horn og mikið er gott að geta gripið eitt og eitt horn af og til. Ég mæli þess vegna með að þið prófið þessa uppskrift sem fyrst. Þið getið auðvitað búið til ostaslaufur, ostabollur og pízzasnúða úr þessu deigi. Möguleikarnir eru endalausir.
Það er alveg á hreinu að ég á eftir að baka mikið af brauðmeti í sumar.

Hér kemur uppskriftin og myndir af bakstursferlinu.

Fyllt skinkuhorn

ca. 40 meðalstórn skinkuhorn

 • 900 g. Hveiti
 • 60 g. Sykur
 • ½ tsk. Salt
 • 100 g. Smjör
 • ½ l mjólk
 • 1 pakki þurrger

Ofan á:
 • 1 egg
 • Smá mjólk
 • t.d. rifinn ostur eða korn

Aðferð:

Hitið mjólkina í potti við vægan hita (mjólkin á að vera volg). Bætið þurrgerinu út í mjólkina og látið standa í 4 – 5 mínútur. Bræðið smjörið við vægan hita. Blandið öllu saman og hnoðið deigið vel saman eða þar til deigið er slétt og samfellt. Leyfið deiginu að lyfta sér í 40 – 50 mínútur. Þá hnoðið þið deigið einu sinni enn og leyfið því að lyfta sér í 30 mínútur til viðbótar.

Á meðan deigið er að lyfta sér þá er gott að undirbúa fyllinguna. Þið getið auðvitað fyllt deigið með allskyns góðgæti en í dag erum við að búa til skinkuhorn og þá er skinka auðvitað aðalatriðið.
Hér er innihaldið í þessa einföldu og stórgóðu fyllingu.

 • 1 pakki skinka ca. 250 g
 • 1 askja skinku smurostur
 • 1 askja beikon smurostur
 • Rifinn ostur, magn eftir smekk

Aðferð:
Skerið skinkuna í litla bita og blandið henni saman við smurostinn. 

Þegar deigið er tilbúið þá er því skipt niður í fimm einingar. (um 300 – 330 g hver eining) Fletjið út hverja einingu í hring og skerið hverja einingu í átta þríhyrninga (mér finnst gott að nota pízzahníf). Setjið fyllingu í hvern þríhyrning og dreifið smá osti yfir. Rúllið deiginu frá breiðari endanum þegar þið lokið hornunum. Pískið eitt egg og smá mjólk saman og penslið yfir hornin. Gott er að sáldra rifnum osti eða kornum yfir hornin áður en þau fara inn í ofn.

Bakið hornin við 200°C í 10 – 12 mínútur. (Fylgist vel með hornunum því ofnar eru auðvitað misjafnir)

Njótið vel kæru vinir og ég vona að þið eigið góðan sunnudag framundan. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, June 19, 2014

Fullkominn lax með hnetukurli. Höfðingjar heim að sækja - Anna Svava Knútsdóttir.

 Í Höfðingjum heim að sækja sótti ég leikkonuna Önnu Svövu heim. Anna og unnusti hennar Gylfi, reka vinsælu ísbúðina Valdísi sem hefur heldur betur slegið í gegn. Ég fékk að fylgjast með þeim bæði í Valdísi og heima í eldhúsi þar sem þau töfruðu fram lax með gómsætu meðlæti. Það var sérstaklega gaman að eyða deginum með þessu góða fólki og það var alls ekki leiðinlegt að fá að smakka á gómsætum ís í Valdísi. Ég mæli með að þið prófið þennan fiskrétt og farið svo beinustu leið í ísbúðina.Fullkominn lax með ljúffengu hnetukurli.
 •          1 laxaflak, ca. 1 kg.
 •          Olía
 •          Salt og pipar

Aðferð: Skolið fiskinn vel og skerið í jafn stóra bita. Hitið olíu á pönnu og steikið laxabitana á hvorri hlið í 2 mínútur. Kryddið laxinn með salti og pipar. Það getur verið gott að kreista smá sítrónusafa yfir pönnuna rétt í lokin. Leggið laxabitana í eldfast mót og dreifið hnetukurlinu yfir. Setjið laxinn inn í ofn við 180°C í 8 – 10 mínútur.

Hnetukurl.

 •          70 g. Pekanhnetur, smátt saxaðar
 •          70 g. Heslihnetur, smátt saxaðar
 •          Handfylli Steinselja, smátt söxuð
 •          1 msk. Ólífuolía

Aðferð: Blandið öllu saman í skál og dreifið yfir laxabitana áður en þeir fara inn í ofn.

Ljúffengt rótargrænmeti með eplum og fersku dilli.
 •         1 rauðrófa (frekar stór eða tvær litlar)
 •         1 meðalstórt grasker
 •         1 sæt kartafla (fremur stór eða tvær litlar)
 •         1 - 2 msk. ólífuolía   
 •         1 rautt epli, skorið í þunnar sneiðar
 •         1 – 2 msk. Dill, smátt saxað
 •         Spínat, magn eftir smekk
 •         Baunaspírur, magn eftir smekk
 •         Sítrónusafi
 •         Salt og pipar, magn eftir smekk

Ofninn hitaður í 200°C. Rótargrænmetið er skorið fremur smátt og raðað í eldfast mót. Passið ykkur á að blanda grænmetinu ekki saman vegna þess að það kemur svo sterkur litur af rauðrófunni og hún smitar í hitt grænmetið sem við viljum helst ekki. Hellið olíu yfir grænmetið og kryddið til með salti og pipar. Setjið inn í ofn og bakið í 35 – 40 mínútur. Þegar grænmetið er tilbúið þá bætið þið spínatinu, eplabitum, baunaspírum og dilli saman við og blandið öllu vel saman. Gott er að kreista smá sítrónu yfir grænmetið í lokin. 

Jógúrtsósa
 •          1 dós grískt jógúrt (350 ml)
 •          1 – 2 msk. Ferskur graslaukur, smátt saxaður
 •          2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
 •          Salt og nýmalaður pipar

Blandið öllu saman í skál og bragðbætið með salti og pipar. Einnig er mjög gott að bæta hunangi eða agave sírópi í þessa sósu. En það er auðvitað smekksatriði. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15 – 20 mínútur áður en hún er borin fram.

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


Monday, June 16, 2014

Rosaleg súkkulaðibomba.

Á þjóðhátíðardaginn er svo sannarlega tilvalið að bjóða fjölskyldu og vinum heim í kaffiboð áður en haldið er í skrúðgöngu. Íslensk Hnallþóra gegnir lykilhlutverki að mínu mati í kaffiboðum á þessum fallega degi.  Súkkulaði, Rice Krispies, rjómi, fersk ber og enn meira súkkulaði. Það er blanda sem getur ekki klikkað. 

Hér kemur uppskriftin að þjóðhátíðarkökunni dásamlegu.


Þjóðgerður

Súkkulaðibotnar:

Ég notaði þessa uppskrift en þið getið auðvitað notað hvaða súkkulaðibotna uppskrift sem þið viljið. Ég mæli þó með þessum botnum en þeir eru einstaklega mjúkir og góðir. 
 •       3 bollar hveiti
 •          2 bollar sykur
 •          3 egg
 •          2 bollar venjuleg ab-mjólk
 •          1 bolli olía
 •          5-6 msk kakó
 •          2 tsk lyftiduft
 •          1 tsk natron
 •          nóg af vanilludropum, magn eftir smekk

Aðferð: 
Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í tvö smurð bökunarform. Bakið við 175°C í 25 – 30 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með og stinga gafli í kökuna til þess að athuga hvort hún sé tilbúin, passið ykkur á því að baka ekki of lengi. Kælið kökuna smávegis áður en þið setjið á hana kremið. 

Rice Krispies botn:

·         50 g smjör
·         50 g suðusúkkulaði
·         50 g Pipp karamellusúkkulaði
·         2 msk síróp
·         2,5 bolli Rice Krispies

Aðferð:
Bræðið smjör við vægan hita, setjið súkkulaðið saman við og leyfið því að bráðna. Bætið sírópinu því næst saman við og hrærið vel í. Passið að hafa vægan hita svo blandan brenni ekki. Þegar allt er orðið silkimjúkt þá er gott að blanda Rice Krispies út í. Hellið blöndunni í form og leyfið botninum að kólna í kæli í lágmark 15 mínútur. 

Rjómakrem
 •         ½ l Rjómi
 •        1 msk. Flórsykur

Aðferð:
Þeytið rjóma og bætið flórsykrinum saman við í lokin.

Súkkulaðisíróp – kremið.
 •          70 g smjör
 •       150 g suðusúkkulaði
 •       2 msk síróp

Aðferð: 
Brjótið súkkulaðið og bræðið saman við smjörið við vægan hita, ekki fara frá pottinum. Það er mjög auðvelt að brenna þessa góðu sósu. Hrærið vel í sósunni og bætið sírópinu saman við í lokin. Það er mjög mikilvægt að kæla sósuna vel áður en þið dreifið henni yfir kökuna. 

Hér eru myndir sem sýna bakstursferlið og hvernig við setjum saman kökuna. 

Ég byrja á að baka súkkulaðibotnana, ég elska þessa uppskrift sem ég nota vegna þess að hún er svo einföld.


Næsta skref er að útbúa Rice Krispies botninn, það tekur enga stund að búa hann til og það er ferlega freistandi að smakka súkkulaðidásemdina í pottinum en passið ykkur, blandan er mjög heit. Þá er komið að því að setja kökuna saman. Fyrst fer súkkulaðibotn, svo Rice krispies botninn og smávegis af súkkulaðisósunni. 


Ég skar niður fersk jarðarber og bláber, sáldraði smá sykri yfir og geymdi í kæli í 15 mínútur. Þess þarf ekki en mér finnst það betra. Dreifið rjómanum yfir botnana og setjið svo berin yfir rjómann. Í rauninni er kakan klár á þessu stigi. Ég ákvað þó að fara alla leið og hafa hana tvöfalda. 


Þá er kakan nánast klár. Nú þarf bara að hella sósunni yfir og skreyta með ferskum berjum. Gott er að sáldra smávegis af flórsykri yfir kökuna - bara rétt áður en þið berið hana fram. 


Þessi kaka er rosalega góð og ætti að koma öllum í hátíðarskapið. Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa köku kæru vinir og njótið með fólkinu ykkar. Ég vona að þið eigið góðan þjóðhátíðardag framundan. Hæhójíbbíjej! 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Friday, June 13, 2014

Beikonvafinn kjúklingur og guðdómleg piparostasósa. Stórgóð grillmáltíð!

 Kjúklingaspjót eru mjög vinsæl á sumrin, þau eru ekki bara gómsæt heldur eru þau ansi einföld og fljótleg. Ég grillaði beikonvafinn kjúkling sem var mjög ljúffengur og því tilvalið að deila uppskriftinni með ykkur.


Beikonvafinn kjúklingur 
 •          600 g kjúklingakjöt (best er að nota bringur eða lundir)
 •          2 – 3 msk. Ólífuolía
 •          1 tsk. Paprikukrydd
 •          1 tsk. Kjúklingakrydd
 •          1 tsk. Kummin
 •          Salt og nýmalaður pipar
 •          1 pakki beikon
 •          1 rauð paprika, skorin í litla bita
 •          Tréspjót, sem legið hafa í bleyti í 20 mínútur.

Aðferð: Best er að nota bringur sem sneiddar eru í hæfilega bita eða lundir.  Kjúklingakjötið er síðan látið liggja í nokkra stund í kryddleginum (olía og kryddin blönduð saman) t.d. um 30 mínútur. Vefjið beikoni utan um kjúklingabitana og þræðið upp á trépinna. Það er bæði fallegt og rosalega gott að þræða allskyns grænmeti á trépinnana, að þessu sinni var ég bara með rauða papriku en endilega bætið við t.d. sveppum og rauðlauk.  Gott er að pensla afganginum af kryddleginum á kjötið meðan á eldun stendur. Grillið í nokkrar mínútur, snúið spjótunum tvisvar til þrisvar sinnum.

Gott er að bera spjótin fram með grilluðum kartöflum og fersku salati. Mér finnst sérlega gott að búa til hvítlaukssmjör og setja smávegis ofan á bökunarkartöfluna mína. (Smjör við stofuhita, smátt söxuð steinselja og nokkur pressuð hvítlauksrif blöndum vel saman)

Piparostasósa

Þessi sósa er að mínu mati ein sú allra besta og hún hentar með öllum grillmat. 
 •         1 msk. Smjör
 •          Sveppir, magn eftir smekk. (það má sleppa þeim)
 •          1 piparostur
 •          ½ l matreiðslurjómi
 •          1 kjúklingateningur


Aðferð: Hitið smjör í potti, skerið sveppina smátt og steikið upp úr smjörinu í smá stund. Skerið piparostinn í litla bita og bætið honum út í pottinum ásamt rjómanum. Bætið kjúklingateningnum saman við. Leyfið ostinum að bráðna við vægan hita, hrærið vel í sósunni af og til.

Það er fátt betra en góð grillmáltíð á sumarkvöldi og það er sérstaklega ánægjulegt að fá góða gesti og njóta í góðra vina hópi. 

 Góða helgi kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Monday, June 9, 2014

Ljúffengar kjötbollur með mexíkósku ívafi


Ég elska góðar kjötbollur og gott meðlæti. Ég fékk mikla löngun í kjötbollur eitt kvöldið í vikunni og þá eldaði ég þessar góðu kjötbollur með mexíkósku ívafi. Ótrúlega fljótlegur og bragðgóður kvöldverður sem ég mæli með að þið prófið. 


Kjötbollur með mexíkósku ívafi 
 • 500 g nautahakk
 • 1 egg, pískað
 • 3 - 4 hvítlauksrif, pressuð
 • 1/4 chili aldin, fræhreinsað og smátt saxað
 • 1 meðalstór rauðlaukur, smátt saxaður
 • handfylli ferskur kóríander, smátt saxaður
 • handfylli mulið nachos, með saltbragði (líka hægt að nota brauðrasp)
 • handfylli rifinn ostur 
 • salt og pipar, magn eftir smekk
 • olía eða smjör til steikingar
 • 1/2 l rjómi 
 • 1/4 - 1/2 kjúklingateningur 
 • salt og pipar, magn eftir smekk
Meðlæti: 
 • Ferskt salat (blandað salat, agúrka, lárpera og fetaostur ) og hrísgrjón
Aðferð: Blandið öllum hráefnum saman, best er að gera það með höndunum. Mótið litlar kúlur, mér finnst gott að miða við eina matskeið af deigi svo bollurnar séu hér um bil jafn stórar. Hitið olíu eða smjör á pönnu og brúnið bollurnar á öllum hliðum. Bætið rjómanum og kjúklingakrafti saman við. Kryddið til með salti og pipar. Leyfið bollunum að malla í sósunni í ca. 10 mínútur - 15 mínútur. Mér finnst sérlega gott að saxa niður kóríander og dreifa  yfir pönnuna í lokin.

Berið bollurnar fram með hrísgrjónum og fersku salati, já eða öðru góðu meðlæti. 


Einfalt, fljótlegt og gómsætt. 

xxx

Eva Laufey K. HermannsdóttirFriday, June 6, 2014

Frönsk súkkulaðikaka með gómsætu Pipp karamellukremi


 Þessi súkkulaðikaka verður mjög oft fyrir valinu þegar ég vil baka eitthvað sérstaklega gott. Það kannast líklega flestir við þessa ómótstæðilegu köku og þessi uppskrift er ótrúlega vinsæl. Hvaðan uppskriftin kemur veit ég ekki en mikil ósköp þakka ég þeim einstakling sem fann upp á henni. Sá á mikið lof skilið. Frönsk súkkulaðikaka á að vera dökk og þétt, svolítið eins og konfektmoli. Sumir setja hnetur í deigið og er það líka mjög gott. Persónulega finnst mér þessi kaka best með gómsætu karamellukremi og helst vil ég hafa hana svolítið kalda á meðan að öðrum þykir hún betri volg. 

 Frönsk súkkulaðikaka með gómsætu Pipp karamellukremi

Botn:
 • 200 g sykur
 • 4 egg
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 200 g smjör
 • 1 dl hveiti
Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C (blástur). Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós. Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin. Smyrjið bökunarfom eða setjið (eins og mér þykir best) bökunarpappír í botninn á forminu og hellið deiginu í formið. Bakið kökuna í 30 mínútur. 

Pipp karamellukrem
 • 150 g Pipp karamellusúkkulaði
 • 70 g smjör 
 • 2 msk síróp
Aðferð: 

Brjótið súkkulaðið og bræðið saman við smjörið við vægan hita, ekki fara frá pottinum. Það er mjög auðvelt að brenna þessa góðu sósu. Hrærið vel í sósunni og bætið sírópinu saman við í lokin. Hellið sósunni yfir kökuna. Þessi sósa er ómótstæðilega góð og það er tilvalið að bera hana fram með fleiri kökum eða ísréttum. Skreytið kökuna gjarnan með ferskum berjum, það gerir kökuna enn betri.  Ég hef alltaf verið mjög hrifin af Pipp súkkulaðinu og nú er hægt að velja um fleiri bragðtegundir t.d. karamellu og banana sem að mínu mati eru mjög góð. 

Berið kökuna fram með þeyttum rjóma eða ís, það er algjört lostæti. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Instagram @evalaufeykjaran

1. Ég heimsótti Kolbrúnu Pálínu í Höfðingjum heim að sækja. Sumarlegar uppskriftir í hollari kantinum.
2. Ég eldaði með Degi B. Eggertssyni í Höfðingjum heim að sækja. Hann eldaði stórgóða smárétti. Ég mæli með að þið prófið þessar uppskriftir en þið finnið uppskriftinar hér

3. Nú erum við búin að taka upp alla þættina og við Andri pródúsent fengum okkur ljúffengan ís í tilefni þess. Þetta hefur verið alveg einstaklega ánægjulegur tími og gaman að elda með skemmtilegu fólki 

4. Ég á svo yndislega vini sem héldu óvænt babyshower fyrir mig. Veitingarnar voru afskaplega fallegar og gómsætar. 
5. Hópmynd í fína veðrinu. Mikið er ég lánsöm að eiga góða og skemmtilega vini. 6. Krúttlegur þvottur á snúrunni á þessu heimili. Styttist í litlu dömuna okkar. 
7. Þann fjórða júní var ár síðan að við kvöddum þennan góða mann, mikil ósköp sem ég sakna hans. Þessi mynd er dýrmæt. Síðasta myndin sem var tekin af okkur saman, þarna vorum við Edda systir að selja föt í Kolaportinu og hann kom og kíkti á okkur. 

8. Alltaf best að komast í sjæningu hjá Svavari mínum. Nú fer ég sátt og sæl með nýja hárið inn í sumarið. 

Ég vona að dagurinn ykkar fari vel af stað. Njótið ykkar í veðurblíðunni. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir