Tuesday, June 30, 2015

Litlar ostakökur með hvítu súkkulaði og hindberjum


Ostakökur eru ákaflega bragðgóðar og fallegar á veisluborðið. Ég slæ aldrei hendinni á móti ostaköku og mér finnst mjög gaman að baka þær eða búa þær til, þær þurfa auðvitað ekki allar að vera bakaðar. Ég gerði þessar kökur fyrir babyshower sem við héldum handa vinkonu okkar fyrir stuttu. Íslensku hindberin eru auðvitað bæði ótrúlega góð og falleg, þess vegna fannst mér tilvalið að nota þau en þið getið vitaskuld notað hvaða ber sem þið viljið. Hér kemur uppskriftin að þessum ljúffengu kökum, ég vona að þið njótið vel. 

Litlar ostakökur með hvítu súkkulaði og hindberjum 
um það bil 16 - 18 kökur


Botn: 
  • 250 g Lu Bastogne kex
  • 140 g smjör, við stofuhita
  • bollakökupappírsform 

Aðferð:
  1. Setjið kexið og smjörið í matvinnsluvél þar til það verður að mylsnu.
  2. Skiptið kexblöndunni niður í bollakökuform, hér um bil 1 ½ - 2 msk í hvert form. Það fer auðvitað eftir stærð formsins en mér finnst gott að botninn sé 1/3 af forminu.


Ostakökufyllingin:

  • 500 g hreinn rjómaostur frá MS (þessi í stóru og bláu pökkunum)
  • 1 dós sýrður rjómi frá MS
  • 2 dl flórsykur
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilla
  • 150 g hvítt súkkulaði
  • 100 ml rjómi
  • 200 g frosin eða fersk hindber (ég hef bæði notað fersk og frosin og finn ekki mun)
  •  
  • þeyttur rjómi
  • fersk hindber


Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C
  2. Byrjið á því að hræra rjómaostinn, það er gott að mýkja hann svolítið.
  3. Bætið sýrða rjómanum, flórsykrinum, eggjunum (einu í einu) og vanillu við og hrærið þar til ostablandan verður silkimjúk.
  4. Bræðið hvíta súkkulaðið í potti með rjómanum, leggið til hliðar og kælið.
  5. Hellið súkkulaðinu út í ostablöndunni.
  6. Í lokin bætið þið berjunum út í deigið og hrærið í smá stund.
  7. Skiptið ostablöndunni niður í bollakökuformin.
  8. Bakið ostakökurnar í miðjum ofni  við 180°C í 25 – 30 mínútur.
  9. Kælið kökurnar áður en þið berið þær fram.
  10. Þeytið rjóma og sprautið ofan á hverja köku og skreytið með ferskum hindberjum.



Kökurnar eru algjört augnayndi. 


Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 


Sunday, June 28, 2015

Frönsk súkkulaðikaka með karamellusósu og pekanhnetum.


Helgarbaksturinn er að þessu sinni ljúffeng súkkulaðikaka með karamellusósu og pekanhnetum, já ég legg ekki meira á ykkur. Þessi kaka sameinar það sem mér þykir svo gott, súkkulaði og pekanhnetur.  Kakan er ekki bara bragðgóð heldur er hún líka svo einföld og fljótleg í bakstri, það er alltaf plús. Þið getið þess vegna léttilega byrjað að baka núna og borðað hana með kaffinu klukkan fimm, eða þá haft hana sem eftirrétt í kvöld já eða bara baka hana og borða þegar ykkur langar til. Fullkominn endir á helginni myndi ég segja. Ég vona að þið njótið vel. 


Ég bakaði þessa köku seinast á 17.júní og að sjálfsögðu var nauðsynlegt að skreyta hana. 

Hér kemur uppskriftin. 

Frönsk súkkulaðikaka með karamellusósu og pekanhnetum. 

Botn:
  • 200 g sykur
  • 4 Brúnegg
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 200 g smjör
  • 3 msk hveiti 
Aðferð:

1. Hitið ofninn í 180°C (blástur). 
2. Þeytið sykur og egg þar til blandan verður létt og ljós. 
3. Bræðið smjör og súkkulaði við vægan hita. (leggið til hliðar)
4. Blandið hveitinu við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut. 
5. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin. 
6. Smyrjið bökunarfom eða setjið eins og mér þykir best bökunarpappír í botninn á forminu og hellið deiginu í formið.  
7. Bakið kökuna í 25 - 30 mínútur. 

Karamellusósa

5 msk sykur
50 g smjör 
rjómi, magn eftir smekk 

Aðferð: 

1. Bræðið sykurinn á pönnu, þegar hann er uppleystur þá bætið þið smjörinu út á pönnuna. Takið blönduna af hitanum, hrærið stanslaust og hellið rjómanum út á. Karamellusósan er tilbúin þegar sósan fer að þykkna. 
2. Dreifið pekanhnetum yfir kökuna og hellið sósunni yfir. Setjið aftur inn í ofn í 3 - 4 mínútur. 
3. Berið kökuna gjarnan fram með rjóma eða ís. 


Ég vona að þið hafið átt stórgóða helgi í blíðunni. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 




Friday, June 26, 2015

Grillaðir hamborgarar með beikon- og piparosti.


Það er ótrúlega lítið mál að útbúa heimatilbúna hamborgara og þeir smakkast miklu betur en þeir sem eru keyptir út í búð. Þegar sólin skín er tilvalið að dusta rykið af grillinu og grilla góðan mat, helst í góðra vina hópi. Ég grillaði þennan ómótstæðilega hamborgara um daginn og svei mér þá ef hann er ekki bara kominn í uppáhald, svo góður er hann. Ég mæli með að þið prófið núna um helgina. 

Grillaðir hamborgarar með beikon- og piparosti. 

600 g nautahakk
olía
rauðlaukur
1 dl smátt skorið stökkt beikon
2 msk dijon sinnep
2 msk söxuð steinselja
1 egg
brauðrasp
2 dl rifinn piparostur
salt og pipar

hvítmygluostur

Aðferð:


  1.  Hitið olíu á pönnu, skerið rauðlaukinn í sneiðar og steikið upp úr olíunni í nokkrar mínútur eða þar til hann er mjúkur í gegn.
  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál fyrir utan hvítmygluostinn. Brauðrasp eða hveiti bindur deigið betur saman en notið eins mikið og þið ykkur finnst þið þurfa af því. Best er að nota hendurnar til verksins!
  3. Mótið fjóra til fimm hamborgara, ég keypti mér ágæta hamborgarapressu frá Weber í Hagkaup um daginn og mér finnst hún alveg frábær. Kostar tæplega 2000 kr. Kjarakaup!
  4. Grillið hamborgarana í þrjár mínútur á lokuðu grilli, snúið þeim við og bætið hvítmygluosti að eigin vali ofan á og grillið áfram í 4 – 6 mínútur.
  5. Það er gott að setja hamborgarabrauðin á grillið rétt í lokin.
  6. Berið borgarann fram með majónesi, dijon sinnepi, káli, tómat og gjarnan enn meiri rauðlauk. Ég var einnig með sætar kartöflufranskar, en ég skar niður nokkrar sætar kartöflur í lengjur. Velti þeim upp úr olíu og kryddaði til með salti, pipar og paprikukryddi. Bakaði við 180°C í 35 – 40 mínútur.


    Það er alltaf líf og fjör í upptökum. Hér er búið að klemma mig í bak og fyrir á meðan ég stilli matnum upp fyrir myndatöku. Allt eins og það á að vera.

    Ég vona að þið eigið góða helgi framundan.

    xxx

    Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


    Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 

Tuesday, June 23, 2015

Snittubrauð og útskriftin hans Hadda

Á laugardaginn útskrifaðist Haddi minn sem viðskiptafræðingur frá HR. Að sjálfsögðu vorum við með boð fyrir fjölskyldu og vini hér heima fyrir og fögnuðum þessum áfanga. Ég ákvað að bjóða upp á smárétti en það er einstaklega þægilegt og það er hægt að vinna sér inn tíma og undirbúa réttina svolítið áður. Ég var búin að baka allar kökur fyrr í vikunni og setti í frysti, tók þær svo út með smá fyrirvara og þá átti ég bara efir að skreyta þær. Snitturnar tóku sennilega lengsta tímann en það er ákaflega gaman að skreyta snittur og það er endalaust hægt að leika sér með hráefni.

Dagurinn var alveg frábær, veðrið var gott og fólkið okkar svo skemmtilegt. Þetta gat ekki klikkað. Ég tók að sjálfsögðu myndir og hér koma nokkrar sem og uppskriftir að góðu og einföldu snittubrauði og tillögur að áleggi. 


Vanillu- og súkkulaðibollakökur slá alltaf í gegn. 


Fjórar tegundir af snittum sem gleðja bæði auga og bragðlauka. 

Ég keypti bæði tilbúin snittubrauð og bakaði nokkur, ég hefði átt að byrja fyrr að baka brauðin og eiga í frysti en stundum er tíminn ekki að vinna með manni og þá er gott að geta skotist út í bakarí! 

Snittubrauð 
  • 500 g brauðhveiti frá Kornax (gæti þurft meira en minna) 
  • 320 ml volgt vatn
  • 1 msk hunang
  • 15 g ger
  • 1 tsk salt
  • 2  msk ólífuolía

1.    Blandið þurrgeri, volgu vatni og hunangi saman. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að vakna í rólegheitum, það tekur 6 - 8 mínútur. Þegar byrjar að freyða í blöndunni er hún tilbúin. 
2.    Blandið gerblöndunni, hveiti, salti og olíu saman og hnoðið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður mjúkt. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund. 
3.    Búið til tvær lengjur úr deiginu og  skerið létt í brauðin eftir endilöngu. Látið hefast á ný í 20 – 30 mínútur.
4.    Hitið ofninn í 220 – 230°C. Það er afar mikilvægt að ofninn sé mjög heitur þegar brauðið fer inn í hann.

5.    Bakið í um það bil 10 mínútur eða þar til brauðið er orðið stökkt og gullinbrúnt.



Frönsk súkkulaðikaka og litlar pavlovur. 



Caprese snittur 

snittubrauð 
grænt pestó 
kirsuberjatómatar 
mozzarella ostur 
basilíka 
salt og nýmalaður pipar 

Aðferð: 

1. Skerið snittubrauð í sneiðar. 
2. Smyrjið brauðsneiðarnar með grænu pestó. 
3. Skerið kirsuberjatómata og litlar mozzarellakúlur í sneiðar. 
4. Raðið tómötum og ostinum ofan á hverja sneið, kryddið til með salti og pipar. Leggið eitt basilíkulauf yfir hverja sneið. 



Ítölsk dásemd 

snittubrauð 
hvítlauks alioli 
Ítölsk krydduð pylsa eða hráskinka
klettasalat 
hægeldaðir kirsuberjatómatar 
salt og nýmalaður pipar
parmesan ostur 

Aðferð: 

1. Skerið snittubrauð í sneiðar. 
2. Smyrjið brauðsneiðarnar með hvítlauks alioli. 
4. Raðið kryddpylsu eða hráskinku ofan á hverja sneið.
5. Skerið klettasalatið niður og setjið yfir pylsuna. 
6. Skerið kirsuberjatómata í tvennt, leggið í eldfast mót og dreifið olíu yfir. Kryddið til með salti og pipar og bakið í ofni við 150°C í 2 - 3 klst. Setjið tómat ofan á hverja sneið. 
7. Kryddið til með salti og pipar. Rífið niður parmesan ost og sáldrið yfir í lokin. 


Herra Salómon

snittubrauð 
majónes 
dill 
dijon sinnep 
sítróna 
salt og nýmalaður pipar 
reyktur lax 
grænt epli 
graslaukur 

Aðferð: 

1. Skerið snittubrauð í sneiðar. 
2. Setjið 5 msk af majónesi, handfylli af fersku dilli, 1 msk af dijon sinnepi, safann úr hálfri sítrónu, salt og pipar í matvinnsluvél og maukið þar til sósan verður silkimjúk. Smakkið ykkur að sjálfsögðu til! 
3. Smyrjið hverja sneið með dillsósunni og leggið laxinn yfir. 
4. Skerið niður grænt epli í þunnar sneiðar og setjið yfir laxinn. 
5. Skerið niður graslauk og dreifið yfir snitturnar í lokin. 



Sælkerasnitta 

snittubrauð 
hvítlauks alioli 
camenbert ostur 
beikon 
rauð paprika 
tyttuberjasulta 
radísuspírur 

Aðferð: 

1. Skerið snittubrauð í sneiðar. 
2. Smyrjið hverja sneið með hvítlauks ailoli. 
3. Skerið niður Camenbert og leggið yfir hverja sneið. 
4. Steikið beikon þar til það verður mjög stökkt og skerið það í litla bita. Setjið beikonbita yfir ostinn. 
5. Setjið eina tsk af tyttuberjasultu yfir.
6. Skerið rauða papriku mjög þunnt og leggið yfir. 
7. Í lokin setjið þið smá radísuspírur yfir, þær eru ofsalega bragðgóðar. 




Loksins er hægt að fá fallegar bóndarósir út í blómabúð, þessar eru einstaklega fallegar. 




Ein fjölskyldumynd, Ingibjörg Rósa er ekkert ofsalega hrifin af þessu myndastússi og grettir sig bara ;-) 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.