Wednesday, July 31, 2013

Dásamlegir Marsbitar sem bráðna í munni

Nú styttist í Verslunarmannahelgina og eflaust margir frekar spenntir, enda er mikið um að vera út um allt land. Ég ætla þess vegna að deila með ykkur í dag uppáhalds nammibitanum mínum sem ég geri gjarnan þegar ég ferðast. Dásamlegir Marsbitar sem bráðna gjörsamlega í munni, ég fæ ekki nóg af þessum litlu og ljúffengu bitum. Bitarnir eru af einföldustu gerð og það er þægilegt að taka þá með í fríið. Ég verð heima um helgina en ég gerði mér engu að síður gott súkkulaðinammi til þess að eiga með kaffinu, það er nú algjör nauðsyn.

 Rice Krispies og súkkulaði er tvenna sem getur sjaldan klikkað og bragðast alltaf vel, ég mæli með að þið prófið þessa bita kæru vinir. 




Dásamlegir Marsbitar
ein ofnskúffa eða 12 - 14 Marsbollakökur

150 g smjör
150 g súkkulaði t.s. suðusúkkulaði frá Nóa.
150 g Mars súkkulaðistykki
5 - 6 msk. síróp
6 bollar Rice Krispies 

Aðferð:

Hitið smjör við vægan hita í potti, skerið súkkulaði í litla bita og bætið út í. Hrærið vel í á meðan og leyfið súkkulaðinu að bráðna í rólegheitum. Þegar súkkulaðið er bráðnað þá bætum við sírópinu og Rice Krispies út í blönduna og hrærum vel í. Hellið blöndunni á bökunarpappír í ofnskúffu eða skiptið jafnt niður í muffins form. Ég mæli með að þið sem ætlið að taka þessa bita með í ferðalagið skiptið deiginu niður í muffinsform, það er svolítil hætta á að bitarnir klístrist saman í útileiguboxinu . 

Setjið bitana í kæli í lágmark 2 klukkustundir, gott að hafa þá yfir nótt. Skerið kökuna í litla bita ef þið hafið sett hana í ofnskúffu. 

Njótið vel kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, July 30, 2013

Gjafaleikur á blogginu: PIP Studio bollar



Undanfarið hef ég fengið margar fyrirspurnir varðandi kaffibollana mína frá PIP Studio. 

Í samstarfi við Borð fyrir Tvo, verslun á Laugaveginum ætlum við því að gefa heppnum

lesenda fjóra dásamlega bolla úr þessari fallegu línu.

 Verslunin Borð Fyrir Tvo er staðsett á Laugavegi 97.
Hér getið þið skoðað Facebook síðu verslunarinnar.

 Þessir bollar eru dásamlega fallegir og lífga upp á tilveruna. 

Það eina sem þú þarft að gera lesandi góður til þess að eiga möguleika á því að næla þér í bollana er að skrifa nafn og netfang í athugasemdakerfið hér fyrir neðan og gefa blogginu Like á Facebook, ef þú ert nú þegar búin að gefa blogginu Like þá þarftu einungis að skrifa nafn og netfang í athugasemdakerfið. Ég dreg út heppinn vinningshafa að viku liðinni. 

Bestu kveðjur til ykkar 

xxx

Eva Laufey Kjaran 




Monday, July 29, 2013

Fimm hlaupalög

Myndin gat ekki verið meira bleik, ég reyndi þó. haha.

Ég er búin að skrá mig í hálfmaraþon í Reykjavíkurhlaupinu þann 24. ágúst og hef verið að hlaupa svolítið, svona skemmtilegra að undirbúa sig aðeins. Ég hef aldrei hlaupið 21km áður svo það verður fróðlegt að vita hvort ég komist í mark, markmiðið er auðvitað bara að komast í mark. (hlaupa/skríða - hvur veit!)

Ég verð að hlusta á tónlist þegar ég er að hlaupa, ég veit að sumir gera það ekki en ég er ekki það mikill hlaupari að ég get sleppt músíkinni. Það er aðal fjörið hjá mér! Hér fyrir ofan eru fimm lög sem eru í eftirlæti hjá mér núna, ég ákvað að deila þessum lögum með ykkur því ég er alltaf að spyrjast fyrir um hressandi lög til þess að hlaupa við. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Létt og ljúffengt kjúklingasalat


Í gærkvöldi var ég með kjúklingasalat í matinn og það smakkaðist mjög vel svo ég verð að deila uppskriftinni með ykkur. Matarmikil salöt eiga vel við á sumrin, það tekur enga stund að búa til gott salat og sniðug leið til þess að nota þau hráefni sem eru til í ísskápnum hverju sinni. Það eru ótal möguleikar í salatgerð og það er um að gera að prófa sig áfram, allt er vænt sem vel er grænt. :) 

 Pestókjúklingasalat

fyrir fjóra

1 - 2 msk ólífuolía 
2 hvítlauksrif, pressuð
3 - 4 kjúklingabringur
3 - 4 msk rautt pestó
1 poki blandað salat 
1 agúrka
1 mangó
1 meðalstór rauðlaukur 
1 askja kirsuberjatómatar 
fetaostur, magn eftir smekk 
balsamikedik, magn eftir smekk 
salt og nýmalaður pipar 
radísur 
graskersfræ, ristuð 


Ég notaði þetta góða pestó. 

Aðferð:

1. Hitið olíu við vægan hita og steikið kjúklinginn í olíu, bætið hvítlauknum saman við á pönnuna og kryddið með pipar og jafnvel einhverju góðu kryddi sem þið eigið sem ykkur finnst gott á kjúkling. Bætið pestóinu saman við og örlitlu vatni, leyfið þessu að malla í smá stund. 
2. Skolið grænmetið vel og skerið smátt, blandið öllu saman í skál. Hellið balsamikediki yfir og hrærið vel í, ég læt vel af fetaosti í þetta salat en það er auðvitað smekksatriði. Þið getið notað hvaða ost sem ykkur dettur í hug það er t.d. mjög gott að hafa geitaost og camenbert í þessu salati. Þegar ég nota fetaost þá læt ég líka svolítið af olíunni í krukkunni fylgja með í salatið. 
3. Setjið kjúklinginn saman við og hrærið vel í, kryddið til með smá salti og pipar. Sáldrið nokkrum ristuðum graskersfræjum yfir salatið að lokum. Berið salatið fram með sýrðum rjóma og góðu brauði. 


Þetta salat var sérstaklega gott og heppnin var með mér að það var smá afgangur svo nú á ég dýrindis hádegisverð, mér finnst köld kjúklingasalöt ofsalega góð. Ég mæli hiklaust með að þið prófið þessa uppskrift, hún er bæði einföld og svakalega góð. 

Ég vona að mánudagurinn ykkar fari vel af stað, ég er búin að skrifa mikið í morgun og sitja alltof lengi við tölvuna. Ætla að fá mér kjúklingasalatið góða eftir smá stund og fara síðan út í göngutúr, smá frískt loft og halda síðan áfram að skrifa... :-) 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, July 28, 2013

Sunnudagur til sælu


Það var svo sannarlega fínn kaffitíminn í dag, borðuðum kanilsnúða og kleinur í Paradísarlaut. Mikil ósköp er það fallegur staður, við skoðuðum líka fossinn Glanna og sá er fagur. Það er svo ljómandi skemmtilegt að keyra aðeins um landið okkar og skoða. Þetta var frekar góður sunnudagsbíltúr. 

 Við Haddi vorum í Boston um helgina og Nike-uðum okkur upp eins og allir aðrir. 
Ég er ferlega skotin í bleiku skónum mínum. 

 Glanni.

 Haddi minn sætur og fínn við Glanna. 

Ljómandi fín helgi að baki og ég finn það á mér að það sé góð vika í vændum. Ég vona að ykkar helgi hafi verið góð og að vikan verði ykkur enn betri. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, July 25, 2013

...hún kom

Loksins kom sólin og nú er ég hætt að tuða yfir veðrinu, mikið sem allt verður betra í sólinni. Ég nenni lítið að vera inni á meðan veðrið er svo gott og er voða lítið í eldhúsinu, þess vegna fáið þið svona lítið af uppskriftum hingað inn kæru vinir. Í kvöld ætla ég þó að elda fisk, þið fáið auðvitað uppskriftina ef fiskurinn smakkast vel. ;) 

Í gær eftir vinnu þó fórum við suður út að borða á Steikhúsinu og við fengum ótrúlega góðan mat, mæli með þeim stað. Ég gat loksins notað fína kjólinn minn sem ég keypti í fyrr í sumar í Freebird. Það er algjör nauðsyn að fara í kjól þegar sólin skín. 

Þegar að það er lítið að gerast á blogginu þá getið þið alltaf fylgst með mér á Instagram, þar er ég voða dugleg að setja inn myndir. Þið finnið mig undir evalaufeykjaran. 

Ég vona að þið njótið sólarinnar og gerið eitthvað skemmtilegt í dag.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, July 22, 2013

Morgunkokteill


Ég er örugglega búin að tuða í sérhverju mannsbarni hér á Íslandi um veðrið í sumar, já ég er ein af þeim sem læt veðrið fara svolítið í mig. Í dag er rigningardagur númer 112993...Sólin hefur eiginlega ekkert verið hér á Skaganum í sumar. Einn og einn dagur, en alls ekki nógu mikið. Það er hásumar og þá má maður aðeins nöldra yfir sólarleysi. Í morgun ákvað ég þess vegna að búa mér til morgunkokteil (boozt í háu og fínu glasi), dagurinn varð strax skemmtilegri. 

Morgunkokteill 

1 bolli frosin hindber
1 bolli frosið mangó
1 banani 
1 msk chia fræ
2 bollar trópí tríó 
smá skvetta af agavesírópi

Öllu er blandað saman í blandaranum, ég lét í lokin smá skvettu af agavesírópi.
 Drekkist helst í háu glasi.


Ég mæli með að þið prófið þennan morgunkokteil, ég er nú þegar búin með tvö glös og orðin hressari en ég var í morgun. Drykkurinn hressir og kætir! Nú liggur leið mín til Reykjavíkur, mikið stúss í dag en það er nú bara ágætt. Er að fara að hitta svo mikið af skemmtilegu fólki og ég hlakka til. Það er nauðsynlegt að plana svona rigningardaga vel og passa að hitta bara skemmtilegt fólk. 

Vonandi eigið þið góðan mánudag kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, July 21, 2013

Oreo skyrkaka

 Ég er ferlega hrifin af osta-og skyrkökum. Þær eru svo fljótlegar og einfaldar, smakkast líka guðdómlega. Oreo kexið er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég held að flestir séu sammála um að þessar kexkökur séu þær allra bestu, það smakkast allt betra ef það er Oreo í því. Ég hef smakkað margar tegundir af Oreo ostakökum og mér þykja þær allar góðar, ég var ekki búin að smakka Oreo í skyrkökum og ákvað því að prófa mig áfram í skyrkökugerðinni. Kakan tókst sérdeilis vel til, bauð upp á hana í eftirrétt eitt kvöldið og við vorum öll sammála um að kakan væri stórgóð. Skyrkökur henta sérstaklega vel sem eftirréttur að mínu mati, þær eru svo léttar og góðar. 

Hér kemur uppskriftin og ég vona að þið eigið eftir að njóta vel. 

Ljúffeng Oreo skyrkaka 
ég nota bökunarform sem er í miðlungsstærð (20 cm), kakan er fyrir 4 - 6 manns. Það er ekkert mál að tvöfalda þessa uppskrift. 

Botn 

320 g Oreo kexkökur
100 g smjör

1. Fóðrið formið að innan með filmuplasti, látið plastið ná upp á barmana. (það þarf ekki endilega að nota filmuplast en mér finnst oft betra að ná kökunni úr forminu með því að nota plastið.) Myljið kexið í matvinnusluvél. Blandið smjörinu saman við og þrýstið kexblöndunni á botn og upp með börmum á bökuformi. Kælið á meðan að þið útbúið fyllinguna.

Fylling

1 peli rjómi
1 stór dós vanillu skyr
3 tsk vanillusykur
1 msk flórsykur
5 Oreo kexkökur, muldar

1. Þeytið rjóman og leggið til hliðar. 2. Hrærið saman skyrinu, vanillusykrinum og flórsykrinum 3. Blandið rjómanum saman við skyrblönduna og hrærið vel í. 4. Myljið niður nokkrar Oreo kexkökur og bætið saman  í lokin. 5. Hellið blöndunni ofan í kökubotninn og kælið í lágmark 2- 3 klukkustundir. Ég læt stundum matarlím í kökuna því hún á það til að renna svolítið, það er bara smekksatriði. 

Ofan á 

100 g hvítt súkkulaði 
nokkrar Oreo kexkökur 

1. Bræðið hvítt súkkulaði og dreifið yfir kökuna, skerið nokkrar Oreo kökur í tvennt og skreytið kökuna að vild. Dreifið smá kökumylsnu yfir, þá verður kakan enn fallegri.  


Þessi kaka er af einföldustu gerð eins og þið sjáið á uppskriftinni hér fyrir ofan, það tekur enga stund að búa hana til og hún smakkast mjög vel. Ég er hrædd um að þessi kaka verði oft á boðstólnum hjá mér á næstunni. 

Ég lét ekki matarlím í kökuna að þessu sinni og eins og þið sjáið á myndinni þá rennur hún svolítið til, ég nota stundum matarlímsduft sem ég kaupi út í matarbúð. Það þarf ekki að nota mikið af því til þess að kakan haldi sér betur. 


Ég mæli tvímælalaust að þið prófið þessa stórgóðu uppskrift, ég vona að þið eigið eftir að njóta vel. Í dag er sunnudagur og því er tilvalið að skella í eina köku. 

Ég vona að þið hafið átt góða helgi og eigið ljúfan sunnudag framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, July 18, 2013

Andleg og líkamleg næring

 LOKSINS var gott veður á Skaganum í gær, ég gat ekki hugsað mér að vera inni svo ég ákvað að fara upp á Akrafjall. Ég var ekki búin að fara upp á fjall í nærri því tvö ár. Það var vissulega erfitt en almáttugur hvað það jafnast fátt á við þá sældartilfinningu þegar upp á toppinn er komið. Ég sat þar lengi og naut þess að horfa á dásamlegt útsýni í góða veðrinu.
 Akranesið mitt fallega. 
Æ þetta var voðalega notaleg stund, fjallaganga er bæði ótrúlega góð fyrir líkama og sál. Ég kom endurnærð niður, ég get þó lítið gengið í dag en það er nú lúxus vandamál. Vonandi kemur góða veðrið aftur fljótlega og þá ætla ég aftur upp á fjall, mér finnst lítt spennandi að fara í gráu veðri. 

Ég vona að þið eigið góðan dag kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, July 17, 2013

Dásamlegar vöfflur með súkkulaðibitum

Þann ellefta júlí átti litli bróðir minn hann Allan Gunnberg afmæli, hann er orðinn nítján ára. Ég ákvað að baka vöfflur og súkkulaðiköku í tilefni dagsins, ég prófaði að setja súkkulaðibita í vöfflurnar og það kom ferlega vel út og því langaði mig til þess að deila með ykkur uppskriftinni. 

Tíminn flýgur þessa dagana og ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að blogga, því nú verr og miður. Vinnan, bókin, íbúðarleit í borginni og margt annað á hug minn þessa dagana en mér finnst voðalega leiðinlegt að ná ekki að sinna blogginu eins og ég vildi. En það er margt mjög skemmtilegt framundan hvað varðar bloggið og ég hlakka til þess að deila því með ykkur þegar nær dregur. Það er kannski góðs viti ef maður hefur ekki mikinn tíma til þess að vera fyrir framan tölvuna á sumrin, ekki það að ég sé úti að baða mig í sólskini heldur þá er svo gott að hafa nóg fyrir stafni. 

Hér kemur uppskriftin, ég vona að þið njótið vel kæru vinir. 

Vöfflur með súkkulaðibitum

400 ml AB mjólk 
4egg 
300 g hveiti
1 tsk matarsódi
2 msk sykur
1/2 tsk salt
2 - 3 tsk vanillusykur  (eða dropar)
4 msk smjör, brætt 
100 g súkkulaði, smátt saxað

1. Þeytið eggin og AB mjólkina saman. 2. Blandið þurrefnum saman í skál og bætið saman við eggjablönduna ásamt smjörinu. 4. Saxið súkkulaði mjög smátt og bætið saman við í lokin, hrærið vel í blöndunni en athugið að hræra ekki of lengi. 4. Bakið vöfflurnar í vöfflujárni og staflið þeim á fallegan disk. 


Gott er að bera vöfflurnar fram með þeyttum rjóma, ferskum jarðaberjum og strá svolítið af flórsykri yfir. Einnig er sulta og rjómi alltaf klassískt og mjög gott. 

Sjá þennan litla krúttlega strák, ég man svo vel eftir því þegar þessi drengur kom í heiminn. 
...og nú er hann orðinn nítján og næstum því fullorðinn.  
Þetta var virkilega huggulegur hádegisverður, vöfflurnar runnu ljúflega niður í gestina. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir og njótið vel. 

Ég vona að þið eigið ljúfan dag framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, July 9, 2013

Ofnbakaður fiskréttur með rjómaosti og grænmeti


Helgin mín var stórgóð, ég fór til Reyðarfjarðar á árgangsmót og hef sjaldan skemmt mér jafn vel. Ég var ekki búin að hitta nokkra bekkjarfélaga í tæp sjö ár svo það var virkilega ánægjulegt að hitta alla aftur og eiga góða helgi saman. Ég gisti hjá yndislegri vinkonu, henni Bergey minni og hún eldaði svo afskaplega girnilegan fiskrétt eitt kvöldið, ég náði ekki að smakka hann hjá henni en ég fylgdist grannt með eldamennskunni. Ég ákvað í gær að prófa réttinn og hann kom ótrúlega vel út, ég á eftir að elda hann fljótt aftur. Mjög bragðgóður réttur af einföldustu gerð. Mæli með að þið prófið réttinn kæru vinir, og njótið!

Ofnbakaður fiskréttur með rjómaosti og grænmeti

olía 
smjörklípa 
3 hvítlauksrif, pressuð
1 rauð paprika, smátt söxuð
1/2 blómkál, smátt saxað 
10 - 12 sveppir, smátt saxaðir 
1 1/2 msk smátt söxuð fersk steinselja 
300 ml matreiðslurjómi 
100 g Philadelphia rjómaostur með hvítlauk 
2 tsk ítölsk hvítlaukskryddblanda 
salt og nýmalaður pipar, magn eftir smekk 
600 - 800 g fiskur (þorskur, ýsa.. sá fiskur sem ykkur þykir bestur)
rifinn ostur 
smátt söxuð steinselja 

Aðferð:

1. Hitið olíu og smjör við vægan hita, pressið hvítlauk og steikið í smá stund. Skerið allt grænmetið mjög smátt og bætið því út á pönnuna, steikið grænmetið í 5 - 6  mínútur. 

2. Bætið matreiðslurjómanum saman við og hrærið vel í, kryddið til með salti og pipar. 

Ég notaði Philadelphia rjómaostinn með hvítlauk og kryddjurtum. 

3. Bætið 100 g af rjómaostinum saman við og blandið öllu vel saman. 

4. Kryddið til með hvítlauksblöndu, salti og pipar í lokin. Mikilvægt að prófa sig áfram á þessu stigi og smakka sósuna til. Leyfið sósunni að malla í 7 - 10 mínútur við vægan hita. 

Sósan og grænmetið klárt, lyktin dásamleg. 

5. Skerið fiskinn í bita og leggið í eldfast mót, mér finnst gott að krydda hann svolítið áður en ég læt sósuna ofan á. 

6. Hellið sósunni yfir fiskinn og sáldrið rifnum osti yfir. Setjið inn í ofn og bakið við 180°C (blástur)  í 25 - 30 mínútur, eða þar til osturinn er gullinbrúnn. 

 Svona lítur fiskrétturinn út þegar hann er nýkominn út úr ofninum, saxið smá steinselju og stráið yfir réttinn. 

Ég bauð upp á hýðishrísgrjón og ferskt salat með þessum fiskrétt. Mikil ósköp sem ég naut þess að borða þennan rétt, einn sá besti sem ég hef smakkað. Hlakka til að gera hann aftur í bráð. Á mánudögum finnst mér hálfgerð skylda að hafa fisk í matinn og það er algjör lúxus þegar maturinn er svo góður.


Ég mæli með að þið prófið þennan rétt kæru vinir, ég þori eiginlega að lofa ykkur því að þið verðið ekki svikinn. 

Vonandi fer vikan ykkar vel af stað og ég vona að þið eigið ljúfan þriðjudag framundan.

xxx

Eva Laufey Kjaran