Sunday, November 29, 2015

Sörur


Gleðilega fyrstu aðventu kæru lesendur. Hér var kveikt á fyrsta kertinu snemma í morgunsárið og smá jólaskraut er komið upp, ég er byrjuð í lokaprófum og klára prófin um næstu helgi. Ég er búin að lofa mér því að skreyta almennilega þegar prófin eru búin, mig klæjar í puttana að byrja að skreyta, útbúa jólakort og baka smákökur. Það er auðvitað aldrei eins freistandi að byrja jólastússið en þegar maður er í prófatörn. Fyrstu kökurnar á dagskrá eftir próf eru sörur en mér þykja þær ómissandi í desember og þær eru í sérstaklega miklu uppáhaldi. Það er einnig svo gott að eiga þær í frystinum og geymast þær mjög vel. Ég ætla að deila með ykkur uppkskriftinni sem ég geri alltaf fyrir jólin en uppskriftin er frá mömmu minni, þær eru aðeins grófari vegna þess að við notum heslihnetur í botninn en auðvitað má skipta þeim út fyrir möndlur. Ég vona að þið njótið vel og eigið dásamlegan sunnudag framundan með fólkinu ykkar. 

Sörur


Botn:
 • 4 Brúnegg (eggjahvítur)
 • 230 g heslihnetur (eða möndlur)
 • 230 g flórsykur 
Aðferð:

 1.  Hitið ofninn í 180°C. Hakkið heslihneturnar eða möndlurnar í matvinnsluvél.
 2. Stífþeytið eggjahvíturnar þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr.
 3. Blandið hnetunum og flórsykrinum varlega saman við eggjahvíturnar með sleikju. Mótið kökurnar með teskeið og setjið á pappírklædda ofnplötu. Bakið í 10 – 12 mínútur.

 Krem:
 • 4  Brúnegg (eggjarauður)
 • 1 dl vatn
 • 130 g sykur
 • 250 g smjör, við stofuhita
 • 2 – 3 msk kakó
 • ½ tsk vanillusykur eða vanillu extract
 • 1 msk sterkt uppáhellt kaffi
Aðferð: 

 1. Þeytið eggjarauðurnar. 
 2. Hitið vatn og sykur þar til það hitnar og verður að sírópi. 
 3. Hellið sírópinu saman við eggjarauðurnar i mjórri bunu og haldið áfram að þeyta. 
 4. Skerið smjörið í teninga og bætið út í. 
 5. Næsta skref er að bæta kakó, vanillu og kaffi út í kremið. 
 6. Þeytið í svolitla stund eða þar til kremið verður silkimjúkt. Það er ágætt að smakka sig til á þessu stigi.
 7.  Kælið kremið áður en þið setjið það á kökurnar. Gott er að sprauta kreminu á kökurnar með sprautupoka eða nota teskeiðar til þess að smyrja kreminu á þær. Það er algjört smekksatriði hversu mikið af kremi fer á kökurnar. 
 8. Kælið kökurnar mjög vel, helst í frysti áður en kökurnar eru hjúpaðar.

Hjúpur
 • 300 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði 

Aðferð:  Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Dýfið kremhlutanum á sörunum ofan í súkkulaðið.

Gott er að geyma kökurnar í frysti, takið þær út með smá fyrirvara áður en þið berið þær fram. xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Tuesday, November 24, 2015

Brauðið sem allir elska


Það kannast flestir við þetta brauð en það kallast pottabrauð og er án efa einfaldasta brauð í heimi. Í gærkvöldi áður en ég fór að sofa blandaði ég nokkrum hráefnum saman og leyfði deiginu að lyfta sér yfir nótt, í morgun þurfti ég eingöngu að hnoða það örlítið og skella því inn í ofn. Ég hef áður deilt uppskriftinni með ykkur en mig langaði að deila henni enn og aftur. Ég bætti fersku rósmaríni og hvítlauk saman við deigið að þessu sinni og það kom afar vel út. Það er mikilvægt að nota steypujárnspott þegar þið bakið þetta brauð, útkoman verður ekki sú sama í öðrum formum. Ef þið eigið ekki steypujárnspott þá er tilvalið að skella honum á óskalista fyrir jólin, bestu pottarnir sem ég hef átt og ég nota þá mjög mikið bæði í bakstur og í matargerðinni. 

Hér er uppskriftin og ég vona að þið njótið vel. 

Pottabrauð með rósmarín og hvítlauk

 • 470 g brauðhveiti frá Kornax
 • 370 ml volgt vatn
 • 1 tsk salt
 • 1/4 tsk þurrger
 • 1 msk ferskt rósmarín
 • 2 hvítlauksrif
Aðferð: 

 1. Blandið þurrefnum saman í skál og hrærið vatni saman við. Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið við stofuhita í að minnsta kosti tólf klukkustundir. 
 2. Hellið deiginu á hveitistráðborð og stráið smá hveiti yfir deigið. Saxið rósmarín og hvítlauk mjög smátt og blandið við deigið. 
 3. Hnoðið deigið rétt aðeins í höndunum og brjótið það saman þannig að það myndi kúlu. 
 4. Smyrjið ofnpott með olíu og setjið pottinn inn í ofn við 230°C. 
 5. Takið pottinn út úr ofninum, setjið brauðið í pottinn og inn í ofn í 30 mínútur. Þegar 30 mínútur eru liðnar takið þið lokið af pottinum og bakið áfram í 10 - 15 mínútur. 


xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. Sunday, November 22, 2015

Mjúk súkkulaðikaka með fljótandi karamellusósu


Í gærkvöldi fór fram landssöfnun Samhjálpar til uppbyggingar á meðferðarheimilis í Hlaðgerðarkoti. Söfnunin gekk frábærlega og við söfnuðum rúmlega 80 milljónum sem er algjörlega frábært, það var svo gaman að fá að taka þátt í söfnuninni en við Ásgeir Erlendsson vorum í símaverinu með fullt af skemmtilegu fólki. Ég var svo sátt og sæl þegar ég vaknaði í morgun að ég varð að baka eina gómsæta köku. Mig langaði auðvitað í súkkulaðiköku og ég átti til ljúffenga karamellusósu sem passaði fullkomnlega með súkkulaðinu. Úr varð sænsk kladdkaka með þykkri karamellusósu. Þið ættuð að skella í þessa köku sem allra fyrst, lofa að þið eigið eftir að elska þessa. 


Mjúk súkkulaðikaka með fljótandi karamellusósu

 • 150 g smjör 
 • 2 Brúnegg 
 • 2 dl sykur 
 • 3 dl Kornax hveiti 
 • 1 tsk lyftiduft 
 • 2 tsk vanilla extract (eða dropar/sykur)
 • 4 msk kakó 
 • Ögn af salti 
 • 3 - 4 msk Dulce de leche karamellusósa 
Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C. 
 2. Bræðið smjör við vægan hita. 
 3. Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. 
 4. Blandið þurrefnum saman og blandið varlega saman við eggjablönduna með sleif. 
 5. Hellið smjörinu og vanillu saman við og hrærið með sleif, saltið smávegis. 
 6. Smyrjið form og hellið deiginu í formið. 
 7. Setjið karamellusósuna yfir deigið.
 8. Bakið við 180°C í 18 - 20 mínútur, kakan á að vera svolítið blaut. 
 9. Kælið á meðan þið útbúið kremið. 

Súkkulaðikremi með karamellusósu 

 • 70 g smjör 
 • 120 g suðusúkkulaði
 • 2 msk síróp
 • smávegis af salti 
 • 2 msk Dulce de leche

Aðferð: 
 1. Brjótið súkkulaðið og bræðið saman við smjörið við vægan hita, ekki fara frá pottinum. Það er mjög auðvelt að brenna þessa góðu sósu. 
 2. Bætið sírópinu og karamellusósunni við í lokin, hrærið saman og hellið yfir kökuna. 
Berið kökuna fram með flórsykri og þeyttum rjóma, ég lofa ykkur því að kakan mun slá í gegn. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Öll hráefnin sem notuð eru í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 
Grænmetisbaka með fetaosti.


Bökur fylltar með allskyns góðgæti, bæði sætar og ósætar eru algjört lostæti. Eins og ég sagði ykkur frá í síðustu færslu vorum við Haddi í París fyrir nokkrum vikum og auðvitað fékk ég mér Quiche Lorraine og sætar bökur með vanillubúðingi og berjum. Bökur eru franskar að uppruna og því algjör skylda að fá sér slíka ef maður er staddur í Frakklandi. Ég hef oft deilt uppskriftum að bökum hér á blogginu en það skemmtilega við bökur eru að þær eru aldrei eins og það er hægt að gera þær á svo marga vegu. Þessa grænmetisböku gerði ég fyrr í vikunni og mér fannst hún svakalega góð og verð að deila henni með ykkur, það er tilvalið að bera hana fram í brönsinum. Maður fær allt í einum bita ef svo má segja, stökkur botn fylltur með ljúffengri eggjablöndu og allskyns góðu grænmeti. Það má svo auðvitað leika sér með þessa fyllingu að vild, möguleikarnir eru endalausir. 


Grænmetisbaka með fetaosti 

Grunndeig fyrir quiche bökur

 • 200 g Kornax heilhveiti 
 • 100 g kalt smjör 
 • smá salt 
 • 1 eggjarauða 
 • 3 - 4 msk ískalt vatn 
Aðferð:
 1. Skerið smjörið í litla bita og hnoðið saman við heilhveitið. 
 2. Saltið deigið og vinnið deigið vel saman, bætið eggjarauðu og vatni saman við og gætið þess að vinna það ekki of mikið. 
 3. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í kæli í 30 mínútur. 
 4. Fletjið deigið þunnt út og setjið í form, gatið hér og þar með gaffli. Setjið bökunarpappír yfir deigið í forminu og fyllið upp með hrísgrjónum eða bökunarbaunum til að botninn formist vel. 
 5. Bakið botninn við 200°C í 10 - 15 mínútur eða þar til hann hefur fengið smá lit. Á meðan botninn er í ofninum er fyllingin útbúin. 
Grænmetis- og eggjafylling 

 • 1 msk ólífuolía 
 • 1/2 blaðlaukur, smátt skorinn
 • 1 rauð paprika, smátt skorin 
 • 1 meðalstórt spergilkálshöfuð, skorið í litla bita 
 • 6 Brúnegg 
 • 3 msk sýrður rjómi 
 • salt og nýmalaður pipar
 • 1 tsk karrí 
 • Fetaostur (ég notaði fetaostinn í bláu krukkunni frá MS), magnið eftir smekk 
Aðferð: 

 1. Hitið olíu við vægan hita.
 2. Skerið grænmetið smátt, byrjið á að steikja blaðlaukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið síðan öllu grænmetinu út á pönnuna og kryddið til með karrí, salti og pipar. Ég setti eins og 2 msk af vatni saman við og leyfði þessu að krauma á pönnunni í 5 mínútur. 
 3. Pískið 6 egg í skál og setjið sýrða rjómann saman við og hrærið vel. Kryddið með salti og pipar. 
 4. Dreifið grænmetisblöndunni yfir grunndeigið og hellið eggjablöndunni yfir. Setjið fetaostinn yfir í lokin og magnið fer eftir smekk. 
 5. Bakið við 180°C í 25 - 30 mínútur eða þar til bakan er orðin stíf og gullinbrún.
 6. Berið bökuna gjarnan fram með fersku salati og góðri dressingu. 
Bon appétit!

xxx 

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 


Saturday, November 21, 2015

Í París


Í byrjun nóvember heimsóttum við Haddi París í annað sinn. Borgin er ein sú fallegasta og nutum við okkur í botn í þessari heimsókn. Við leigðum til dæmis hjól og hjóluðum um alla borg, skoðuðum fallegar byggingar og borðuðum dýrindis mat og kökur í öll mál. 

Hugur okkar hefur að sjálfsögðu verið hjá frökkum undanfarna daga og það er óraunverulegt að voðaverk hafi verið framin í þessari rólegu og fallegu borg, ég fæ sting í hjartað að hugsa um allt fólkið sem lést og allt fólkið í heiminum sem þjáist af völdum öfgamanna. Þetta er ósanngjarnt og hreint út sagt ömurlegt, svona á heimurinn ekki að vera og það er óþægilegt að finna fyrir vanmætti sínum. Við megum þó ekki gleyma því fallega og góða í lífinu, þess vegna langaði mig að deila nokkrum myndum af ljúfum dögum í París sem er algjör perla og ég mæli með að þið heimsækið ef þið hafið ekki komið þangað. 
xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir