Sunday, January 31, 2016

Tryllt Snickerskaka

Eftir að ég var búin að setja inn uppskrift að æðislegri rjómaostabrownies í morgun þá kom yfir mig löngun í súkkulaði- og karamelluköku. Ég skaust út í búð og keypti þau hráefni sem mig vantaði,   Snickers kaka skyldi það nú vera. Ég elska og þá meina ég elska Snickers súkkulaði, hvað þá Snickers köku? Mamma mía! Ég setti inn myndband að aðferðinni á Instagram og á Facebook síðu bloggsins og aldrei áður hef ég fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift. Ég varð hreinlega að setja hana inn strax þrátt fyrir að ég hafi fyrr í dag sett inn uppskrift að brownies. Við fáum ekki nóg af súkkulaði. Kakan er afar einföld og fljótleg, þið hafið þess vegna nægan tíma til þess að skjótast út í búð og skella í þessa fyrir eftirrétt kvöldsins. 

Snickers brownies 


Brownies uppskrift:
 • 150 g smjör
 • 250 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði 
 • 200 g sykur 
 • 2 stór egg 
 • 100 g KORNAX hveiti
 • 1 tsk vanillusykur 
 • 2 msk kakó
Karamellufylling
 • 1 krukka Dulce de leche, karamellusósa 
 • 5 góðar matskeiðar af hnetusmjöri 
 • 1 dós sykurpúðakrem, sjá mynd hér að neðan
 • 100 g ristaðar kasjúhnetur 
Súkkulaðikrem:

 • 250 g mjólkursúkkulaði

Aðferð: 
 • Hitið ofninn í 170°C (blástur).
 • Bræðið smjör við vægan hita, saxið súkkulaðið og bætið því við smjörið og leyfið því að bráðna í smjörinu. Takið pottinn af hellunni og leyfið súkkulaðiblöndunni að kólna. 
 • Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu, hveiti og kakó saman við og hrærið þar til deigið er silkimjúkt. Í lokin hellið þið súkkulaðiblöndunni við og blandið vel saman. 
 • Hellið deiginu í pappírsklætt form (20x20) og bakið við 170°C í 30 mínútur. Það er mjög mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg í forminu. 
 • Setjið öll hráefnin sem eiga að fara í karamellufyllinguna í pott við vægan hita og hrærið mjög vel þar til fyllingin hefur blandast vel saman. 
 • Hellið karamellufyllingunni ofan á súkkulaðiköku og kælið. 
 • Bræðið mjólkursúkkulaði yfir vatnsbaði og hellið yfir kökuna í lokin. Kælið og þegar súkkulaðið er orðið hart þá er kakan tilbúin, skerið hana í bita og berið strax fram.  


Þessa köku ættu allir að prófa. Njótið vel <3

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


Æðisleg rjómaostabrownie með hindberjum


Ég bakaði þessa stórgóðu og einföldu brownie með rjómaosti og hindberjum um síðustu helgi. Súkkulaði, rjómaostur og hindber eru auðvitað hin fullkomna þrenna. Þessa köku bakaði ég handa frænku minni sem hefur hjálpað okkur Hadda svo mikið undanfarnar vikur með hana Ingibjörgu Rósu. Við höfum verið að vinna mikið og hún hefur skotist frá Akranesi til Reykjavíkur og passað dömuna okkar í nokkur skipti. Það er sko ekki sjálfsagt að eiga svona góðar frænkur, svo mikið er víst. Við færðum henni þess vegna góða súkkulaðiköku sem við fengum svo auðvitað að smakka hjá henni, hehe. Kakan var ótrúlega góð, sérstaklega nýbökuð með ísköldu mjólkurglasi. Ég náði því nú verr og miður ekki að dunda mér við að taka myndir en þessar myndir koma því vonandi til skila hvað hún er girnileg og góð. 

Rjómaostabrownies með hindberjum 


Brownies uppskrift:
 • 150 g smjör
 • 250 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði 
 • 200 g sykur 
 • 2 stór egg 
 • 100 g KORNAX hveiti
 • 1 tsk vanillusykur 
 • 2 msk kakó
Rjómaostafylling:
 • 300 g hreinn rjómaostur frá MS 
 • 70 g sykur 
 • 1 egg 

Aðferð: 
 • Hitið ofninn í 170°C (blástur).
 • Bræðið smjör við vægan hita, saxið súkkulaðið og bætið því við smjörið og leyfið því að bráðna í smjörinu. Takið pottinn af hellunni og leyfið súkkulaðiblöndunni að kólna. 
 • Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu, hveiti og kakó saman við og hrærið þar til deigið er silkimjúkt. Í lokin hellið þið súkkulaðiblöndunni við og blandið vel saman. 
 • Hellið deiginu í pappírsklætt form (20x20) og snúið ykkur að rjómaostafyllingunni. 
 • Þeytið saman rjómaost við stofuhita, sykur og egg þar til blandan verður létt og ljós. Hellið rjómaostablöndunni yfir súkkulaðið og stingið nokkrum hindberjum ofan í kökuna. 
 • Bakið við 170°C í 30 mínútur. Það er mjög mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg í forminu. 
Kakan er auðvitað æðisleg með rjóma eða ís!

Njótið vel og eigið góðan sunnudag framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


Friday, January 29, 2016

Döðlukaka með dásamlegri karamellusósu


Í þætti gærkvöldsins bakaði ég döðluköku með dásamlegri karamellusósu, þessi kaka er í alvörunni svo góð að þið verðið að prófa hana. Fullkomin í alla staði, ég segi ykkur það satt. Ég smakkaði hana í fyrsta sinn þegar ég vann á litlu kaffihúsi í Oxford fyrir nokkrum árum og það var ást við fyrsta smakk. Það má til gamans segja frá því að tökuteymið mitt var tæplega fimm mínútur að klára þessa köku, aldrei áður hefur neinn réttur horfið svo fljótt. Það er þess vegna rík ástæða fyrir ykkur að prófa kökuna um helgina,  þið eigið eftir slá í gegn :) 


Döðlukaka með heimsins bestu karamellusósu

 • 5 msk sykur
 • 120 g smjör, við stofuhita
 • 2 egg
 • 100 g hveiti 
 • 210 g döðlur
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/2 salt
 • 1/2 vanillu extract, eða dropar
 • 1 1/2 tsk lyftiduft

 Aðferð: 
 1. Best er að byrja á því að stilla ofninn í 180°C. 
 2. Setjið döðlurnar í pott og látið vatn fljóta yfir, þegar vatnið nær suðu takið þá pottinn af hitanum og látið hann standa í 3 – 4 mínútur. Það er gott að stappa döðlurnar rétt aðeins með gaffli.
 3. Blandið matarsóda saman við döðlumaukið og blandið því vel saman. Leyfið blöndunni að standa í svolitla stund.
 4.  Næsta skref er að þeyta smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós, bætið einu og einu eggi saman við og gott er að þeyta í eina mínútu á milli. 
 5. Setjið þurrefnin saman við ásamt vanillu. Þeytið í smá stund og bætið síðan döðlumaukinu saman við í þremur skömmtum.
 6.  Smyrjið hringlaga form, mér finnst best að nota smelluform og hellið deiginu í formið. Bakið við 180°C í 35 – 40 mínútur.

Heimsins besta karamellusósa


 • 120 g smjör
 • 1 1/2 dl rjómi
 • 120 g púðursykur
1. Hitið öll hráefnin í potti þar til karamellan fer að sjóða, hrærið reglulega í pottinum eða þar til þið hafið náð ágætri þykkt á karamellunni. Ég vil ekki hafa hana of þykka og ég hræri þess vegna ekki of lengi. Þessa sósu er hægt að bera fram með flestum eftirréttum, en hún er algjört lostæti. 

Berið kökuna fram með rjóma eða ís... og njótið vel <3 Missið ekki af Matargleði Evu öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni sem voru notuð í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups
D

Beef Bourguignon, hinn fullkomni vetrarmatur.


Í þætti gærkvöldsins eldaði ég meðal annars þennan guðdómlega rétt sem kallast 'Beef bourguignon'. Þegar við Haddi fórum til Parísar í haust smakkaði ég réttinn á litlu sætu veitingahúsi í borginni og ég kolféll fyrir honum. Hægeldað nautakjöt í rauðvínssósu og fullkomin kartöflumús, ég fæ vatn í munninn við það eitt að skrifa niður uppskriftina fyrir ykkur. Nautakjötið verður svo bragðmikið og safaríkt að það er algjör óþarfi að tyggja það, svo mjúkt er það. Þetta er hinn fullkomni vetrarmatur sem ég mæli innilega með að þið prófið. Ég lofa ykkur því að þið eigið eftir að elda hann aftur og aftur. 

Beef Bourguignon 

 • 1 msk smjör
 • 1 msk ólífuolía
 • 600 g nautakjöt, skorið í litla bita
 • salt og pipar 
 • skallottulaukar, má líka nota venjulegan lauk en þá er notaður 1 stór laukur
 • 1 1/2 sellerí stilkur
 • 2 gulrætur
 • 4 sveppir
 • 500 ml - 600 ml nautakjötssoð (vatn + 2 teningar)
 • 1 glas gott rauðvín
 • 3 hvítlauksrif
 • 3 lárviðarlauf
 • 5 greinar tímían
 • 3 greinar rósmarín
 • handfylli fersk steinselja 

Aðferð: 
 1. Hitið olíu og smjör í potti og steikið nautakjötið, kryddið til með salti og pipar. Skerið niður beikon og bætið út í pottinn, steikið í smá stund. 
 2. Skerið sellerí, gulrætur og sveppi í litla bita og setjið út í pottinn, rífið niður hvítlauk og hrærið vel í pottinum. 
 3. Saxið niður steinselju og sáldrið yfir, setjið tímían greinar og rósmarín greinar í pottinn. Hellið soðinu og rauðvíninu saman við, leyfið réttinum að malla í 3 - 4 klukkustundir við vægan hita. Berið fram með sellerí-og kartöflumús.

Sellerí - og kartöflumús

 • 4 stórar bökunarkartöflur
 • 1/2 sellerírót
 • salt og pipar
 • rjómi
 • smjör

Aðferð: Sjóðið kartöflur og sellerírót í 35 - 40 mínútur, hellið vatninu frá og stappið saman. Kryddið til með salti, pipar og bætið rjóma og smjöri saman við eftir smekk.Haha, stundum er smá action í tökum þegar réttirnir eru farnir að sjóða of mikið ;)

Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Öll hráefni sem eru notuð í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups.