Friday, January 23, 2015

Hugmyndir að brunchréttum.


Heimatilbúið granóla. Það er fátt betra en stökkt og bragðmikið granóla með grísku jógúrti, hunangi og ferskum berjum. 


Ávextir eru alltaf góð hugmynd. Þeir eru bæði ótrúlega góðir og algjört augnayndi. Grænmetisbaka. Þessa einfalda baka er svakalega góð og þið getið leikið ykkur með fyllinguna, það er hægt að setja hvað sem er í þessa böku.


Vöfflur og pönnukökur gleðja alla og það er sko tilvalið að bjóða upp á vöfflur með súkkulaðibitum. 


Ljúfengur boozt. Það er mjög gott að bjóða upp á ferskan safa eða boozt, það er ferlega hressandi.


Amerískar pönnukökur. Það er ekkert brunchboð án þess að bjóða upp á amerískar pönnukökur,  hér er uppskrift að pönnukökum sem eru í mínu uppáhaldi.


Franskt eggjabrauð. Ef ég ætti að velja uppáhalds sæta brunchréttinn þá væri það franskt eggjabrauð. Ef þið hafið ekki smakkað þessa dásemd þá mæli með að þið prófið þessa uppskrift um helgina.Egg Benedict. Þetta er brunch rétturinn, svo mikið er víst. Algjört lostæti.

Njótið vel kæru lesendur.

xxx

Eva Laufey Hermannsdóttir

Sunday, January 18, 2015

Gróft heilhveitibrauðÞað er bæði einstaklega ánægjulegt og róandi að baka sitt eigið brauð. Það veitir öryggistilfinningu að vita nákvæmlega hvað fer í brauðið og svo er notalegt að fylgjast með bakstursferlinu. Í morgun bakaði ég gróft heilhveitibrauð með ýmsum korntegundum. Heilhveiti er malað með kími og klíði og er mun næringarríkara en hvítt hveiti. Heilhveiti hentar ágætlega til brauðgerðar en deig úr því er þó aðeins þyngra í sér en brauð úr hvítu hveiti. Ég notaði eingöngu heilhveiti í þetta brauð en það er líka ágætt að blanda hvítu hveiti saman við heilhveitið þegar bakað er úr því. Ég sigta alltaf hveiti áður en ég nota það í bakstur og það er engin undantekning með heilhveiti, Það gerir gæfumuninn.
  Hér kemur uppskriftin að grófu og góðu brauði sem ég mæli auðvitað með að þið prófið.Gróft heilhveitibrauð

 • 8 dl Kornax heilhveiti
 • 1 dl haframjöl
 • 2 dl sólblómafræ
 • 1 1/2 dl hörfræ
 • 1 dl gróft kókosmjöl (ágætt að saxa það svolítið)
 • 1 dl rúsínur (má sleppa)
 • 1 tsk gróft sjávarsalt
 • 1 tsk lyftiduft  
 • 1 msk lífrænt hunang
 • 7 dl ab mjólk
 • 3 dl ylvolgt vatn
Aðferð:
 1. Hitið ofninn í 200°C. (Blástur)
 2. Blandið öllum þurrefnum saman í skál. Þið getið notað hvaða fræ og korntegundir sem þið viljið, það er um að gera að nýta það sem þið eigið til í skápunum.
 3. Blandið ab mjólkinni, vatninu og hunanginu saman við þurrefnin. Mér finnst gott að bíða með að setja 1 dl af vatni saman við og hella því smám saman við deigið, það er nefnilega betra að bæta í rólega. Um leið og deigið er samlagað þá er það tilbúið. Ég nota bara hendurnar til þess að blanda þessu öllu saman.
 4. Látið deigið í pappírsklætt formkökuform og bakið í 55 - 60 mínútur.
Það er ágætt að leyfa brauðinu að kólna í svolitla stund áður en þið berið það fram. Ilmurinn sem fer um heimilið þegar brauðið er tilbúið er dásamlegur og það er fátt betra en nýbakað brauð með smjöri, osti og góðri sultu. Þetta brauð er mjög gróft og er því mun þéttara í sér en önnur. Brauðið geymist í örfáa daga en er best nýbakað, það er hins vegar frábært að frysta brauðið í sneiðum. Ég er búin að skera mitt brauð niður í sneiðar og setja í frystinn og nú get ég sótt mér eina og eina brauðsneið út vikuna.


Ég vona að þið hafið átt einstaklega góða helgi kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir.

Saturday, January 17, 2015

Egg Benedict með heimagerðri Hollandaise sósu

 Dögurður eða brunch er fullkomin máltíð, morgunmatur og hádegismatur í eina sæng. Að byrja daginn á ljúfengum mat, sitja og spjalla fram eftir degi er uppskrift að góðum degi. Einn af mínum eftirlætis brunch réttum er Egg Benedict og ég ákvað að bjóða vinkonu minni upp á þennan  rétt þegar hún kom í brunch til mín í dag. Þetta var í fyrsta sinn sem ég gerði þennan rétt og í fyrsta sinn sem ég prófaði að gera Hollandaise sósu. Rétturinn heppnaðist sem betur fer mjög vel og sátum við Dísa mjög lengi við matarborðið og nutum þess að borða og spjalla í rólegheitum. Í eftirrétt voru að sjálfsögðu pönnukökur með jarðaberjum og sírópi, það er ekkert brunchboð nema pönnukökur séu í boði. 


 Egg Benedict

Egg Benedict er amerískur réttur samanstendur af enskri múffu, beikoni, hleyptu eggi og Hollandaise sósu. Það var ekki eins flókið að útbúa þennan gómsæta rétt eins og ég var búin að búa mig undir, ég var búin að horfa á mörg Youtube kennslumyndbönd áður en ég tók af skarið, aðal áhyggjuefnið hjá mér var sósan, ó dásamlega Hollandaise sósan. Ég prófaði aðferð sem er mjög einföld og fljótleg og hentaði hún mjög vel og sósan var virkilega góð og áferðin á henni eins og hún á að vera. Ég notaði töfrasprotann og það tók mig tvær til þrjár mínútur að útbúa sósuna, mjög einfalt. Þetta er mín útgáfa að þessum rétt og breytti ég upprunalegu uppskriftinni en eggin og sósan eru vitaskuld í aðalhlutverki 

 • 4 brúnegg 
 • 2l vatn
 • 1 tsk. edik (má sleppa) 
 • 6 sneiðar af góðri hráskinku 
 • Tvær þykkar sneiðar af grófu brauði (ég notaði gróft súrdeigsbrauð)
 • Spínat steikt upp úr smjöri, magn eftir smekk
 • 3 - 4 msk. Hollandaise sósa (sjá uppskrift fyrir neðan)
 • Salt og nýmalaður pipar
 • Smátt söxuð steinselja 
Aðferð: 
 1. Það er best að byrja á sósunni og þið finnið uppskriftina hér fyrir neðan. Næsta skref er að skera súrdeigsbrauðið í þykkar sneiðar, setjið brauðsneiðarnar á pappírsklædda ofnskúffu og sáldrið smávegis af olíu yfir og hitið í ofni í 5 - 7 mínútur við 180°C.
 2. Hleypt egg eru linsoðin án skurnar. Það er mikilvægt að eggin séu fersk. Setjið vatn í pott, bætið edikinu út í vatnið og látið suðuna koma upp, lækkið þá undir pottinum en látið hann samt halda vægri suðu. 
 3. Brjótið egg í bolla og hellið egginu mjög varlega út í vatnið. (ég mæli með að þið skoðið kennslumyndbönd á Youtube, þá sjáið þið aðferðina við að setja eggið út í pottinn). Sjóðið eggin í þrjár mínútur, þá ætti eggjahvítan að vera umvafin eggjarauðunni og þegar skorið er í eggið ætti rauðan að leka fallega út. 
 4. Takið eggið varlega upp úr pottinum, mér finnst best að nota fiskispaða og setjið á eldhúspappír til þess að þerra. 
 5. Snöggsteikið spínat upp úr smjöri og steikið hráskinkuna í smá stund á pönnu eða þar til hún er orðin stökk og fín. 
 6. Setjið brauðsneiðarnar á diska á raðið í eftirfarandi röð, brauð, hráskinka, spínat, egg, tvær matskeiðar af sósu, salt, pipar og smátt söxuð steinselja. 
Þetta er vægast sagt ljúfengur réttur sem allir ættu að prófa. 

Hollandaise sósa

 • 2 eggjarauður 
 • 1 tsk kalt vatn
 • 1 tsk sítrónusafi 
 • 200 g brætt smjör
 • salt og nýmalaður pipar
Aðferð: 
 1. Setjið eggjarauður, vatn og sítrónusafa í ílat sem töfrasprotinn kemst ofan í. Það verður að vera svipað og sést á þessu myndbandi sem ég fylgdi. (Fool proof Hollandaise, haha).
 2. Bræðið smjörið og passið að það sé enn heitt þegar þið hellið því saman við eggjarauðurnar.
 3. Þeytið eggjarauður, vatn og sítrónusafa með töfrasprotanum í eina til tvær mínútur eða þar til það er komin ljós og létt froða sem hefur margfaldast, hellið smjörinu í mjórri bunu saman við sósuna þar til hún er tilbúin. 
 4. Ef sósan verður of þykk þá má þeyta svolitlu volg uvatni saman við. Að lokum er sósan smökkuð til með salti, pipar og svolitlum sítrónusafa. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, January 15, 2015

Sætkartöflu - og spínatbaka

Það er eitthvað svo ómótstæðilega gott við bökur, þær eru svo hlýlegar og ilma svo vel. Þegar ég fór til Parísar fyir þremur árum þá smakkaði ég margar gerðir af bökum og ég kolféll fyrir þeim öllum. Þá sérstaklega þeim í sætari kantinum með allskyns rjómafyllingum, ég þarf endilega að prófa mig áfram í þeim bakstri. Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að grænmetisböku sem er ótrúlega góð, ég tíndi til það sem átti í ísskápnum og úr var dásamleg baka. 

 Grænmetisbaka
Uppskriftin skiptist í þrjá hluta. Fyrst fyllingin svo deigið og í lokin eggjablandan. 

 • væn smjörklípa 
 • 2/4 blaðlaukur
 • 1/2 meðalstór rauðlaukur
 • 1 hvítlauksrif 
 • 1 stór gulrót
 • 1/2 sæt kartafla
 • 1 meðalstór rauð paprika
 • 6 - 7 sveppir 
 • spínat, magn eftir smekk
 • fersk steinselja, smátt söxuð
 • rifinn ostur 
 • 1 tómatur 
 • salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

 1. Hitið smjörið á pönnu, þið getið auðvitað notað olíu ef þið viljið það heldur. Mér finnst bara smjörið betra.  Skerið rauðlaukinn, hvítlaukinn og blaðlaukinn smátt niður, setjið á pönnuna og mýkið í smá stund. 

 2. Skerið allt grænmetið fremur smátt. Bætið kartöflu og gulrót saman við laukana á pönnunni, leyfið því að malla á pönnunni í 3 - 4 mínútur. Kryddið til með ferskri steinselju, salti og pipar. Bætið því næst restinni saman við og blandið vel saman. Ég læt svolítið vel af spínati en það er auðvitað smekksatriði, þið getið líka sleppt spínati ef ykkur þykir það ekki gott.   Á meðan að grænmetisblandan er að malla á pönnunni þá snúum við okkur að deiginu. 

 Botn:

Deig:
 • 125 g smjör
 • 2 bollar Kornax heilhveiti (bollarnir sem ég nota eru 240 ml)
 • 2 msk ískalt vatn 
 • 1 eggjarauða
 • salt og pipar 

Aðferð:
Skerið smjörið í litla teninga, blandið smjörinu, hveitinu og saltinu saman með höndunum í skál. Bætið síðan vatninu saman við smám saman. Smjörið þarf að blandast vel saman við hveitið, svo þetta tekur nokkrar mínútur. Sláið deiginu upp í myndarlega kúlu , setjið plastfilmu utan um og geymið í kæli í lágmark 30 mínútur.

 Eftir 30 mínútur er deigið tilbúið, takið deigið út úr ísskápnum og fletjið út. Smyrjið bökunarform og setjið deigið í formið. Potið nokkrum sinnum í deigið með gaffli og bakið við 180°C í 8 - 10 mínútur. 

 4. Hellið grænmetisblöndunni í heilhveitibotninn. 

 Eggjablandan

 • 5 stór Brúnegg
 • 2 msk kotasæla 
 • smá mjólk
 • salt og nýmalaður pipar

Aðferð:
Pískið eggin léttilega saman við mjólkina, bætið kotasælu saman við og kryddið til með salti og pipar. Hellið eggjablöndunni yfir bökuna. Rífið niður ost og sáldrið yfir, skerið einn tómat og raðið nokkrum sneiðum ofan á ostinn. Bakið við 180°C í 30 - 35 mínútur. 

 Steinseljan góða, ég nota steinselju mikið við matargerð og á hana alltaf til í ísskápnum. Dásamleg kryddjurt!

 Kælið bökuna vel áður en þið berið hana fram. Mér finnst best að bera hana fram með fersku salati og léttri sósu. Þessi baka er fyrir fjóra til fimm manns myndi ég halda, það er líka mjög þægilegt að frysta nokkrar sneiðar og eiga þegar að maður er ekki í miklu stuði til þess að elda. Þessi baka er af einföldustu gerð og bragðast mjög vel, tilvalið að bera hana fram t.d. í brönsboðum og bæta þá beikoni saman við. Prófið ykkur endilega áfram með þessa uppskrift, það hefur tekið mig svolítið langan tíma að búa til hina "fullkomnu" böku að mínu mati, þessi baka kemst frekar nálægt því og er sú besta sem ég hef prófað.

 Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa uppskrift. 


Njótið vel kæru vinir.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, January 14, 2015

Besta súkkulaðikakan með klassísku smjörkremi

Ef það er eitthvað sem hægt er að treysta á, þá er það klassísk og dásamleg súkkulaðikaka með ljúffengu smjörkremi. Ég baka þessa köku að lágmarki einu sinni í mánuði. Það er fátt sem jafnast á við nýbakaða súkkulaðiköku með góðu kremi og ískaldri mjólk. Þessi súkkulaðikaka er án efa í miklu uppáhaldi hjá mér, þegar ég kom heim úr skólanum á mínum yngri árum var svo notalegt að finna kökuilminn taka á móti mér þegar að mamma var búin að baka. Þetta er þó ekki uppskriftin sem mamma var vön að baka en þetta er engu að síður þessi gamla og góða, dökkir súkkulaðibotnar með ljósu og silkimjúku smjörkremi. Ég notaði þessa uppskrift fyrir botnanna, en uppskriftin er bæði lygilega einföld og svakalega góð.

Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift, njótið vel. 


Súkkulaðibotnar
 • 3 bollar Kornax hveiti
 • 2 bollar sykur
 • 3 egg       
 • 2 bollar AB mjólk
 • 1 bolli bragðlítil olía (ekki nota ólífuolíu)
 • 5-6 msk. Gott kakó
 • 2 tsk. Lyftiduft
 • 1 tsk. Matarsódi
 • 2 tsk. Vanillu exctract eða vanillusykur.

Aðferð: Hitið ofninn í 180°C (blástur). Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið er orðið silkimjúkt. Smyrjið tvö lausbotna form og skiptið deiginu niður í formin. Bakið við 180°C í 20 – 25 mínútur. Tíminn fer auðvitað eftir ofnum, eins og alltaf. Gott er að athuga baksturinn með því að stinga prjóni í kökuna, prjóninn á að koma hreinn út og þá er kakan klár. Leyfið botnunum að kólna alveg áður en þið setjið á þá krem.


Klassískt og ómótstæðilegt smjörkrem.
 • 370 g. Flórsykur
 • 220 g. Smjör
 • 4 msk. Gott kakó
 • 2 msk. Mjólk eða rjómi
 • 2 tsk. Vanilla extract eða vanillusykur
 • 1 msk. Uppáhellt kaffi

Aðferð: Þeytið saman smjör við stofuhita og flórsykur í svolitla stund, því næst fer annað hráefni og þeytið vel í nokkrar mínútur. Kremið verður silkimjúkt ef þið þeytið það í 4 – 5 mínútur. Því lengur því betra verður kremið, það er mín skoðun. Smyrjið kremi jafnt á milli botnanna og þekjið kökuna svo með þessu gómsæta kremi. Ég reif niður súkkulaði með ostaskera og notaði sem skraut, það kom vel út og það var ekki verra að fá litla súkkulaðibita með kökunni. xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Tuesday, January 13, 2015

Bananabrauð


Bananabrauð er í miklu eftirlæti hjá mér og það er vissulega svolítið sætt en þess vegna finnst mér brauðið henta einstaklega vel á helgum þegar við spegúlerum ekkert svakalega mikið í sykri, eða ég geri það alla vega ekki um helgar.  Ég smakkaði það fyrst þegar ég vann á sambýli hér á Akranesi fyrir nokkrum árum. Þá bökuðum við þetta brauð mjög oft og fengum aldei nóg af því. Það góða við þetta brauð er einfaldleikinn, það tekur enga stund að hræra í brauðið og það er rúmlega 50 mínútur í ofninum. Það kalla ég lúxus svo það er um  að gera að  hefja daginn á því að hræra í brauðið, skella því inn í ofn og dundast svo á náttfötunum þar til brauðið er klárt og fá sér svo morgunverð í rólegheitum. Nýbakað brauð með smjöri og osti, gerist það nokkuð betra? 

 Bananabrauð 

 • 2 Brúnegg
 • 2 þroskaðir bananar
 • 60 g smjör
 • 2 dl sykur
 • 3 1/5 dl Kornax hveiti 
 • 1 tsk vanillu extract (eða vanillusykur)
 • 1/2 dl mjólk
 • 2 tsk lyftiduft (ég nota vínsteinslyftiduft)

Aðferð:

 1. Hrærið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. 
 2. Bræðið smjörið við vægan hita og leggið til hliðar. 
 3. Sigtið saman hveiti og lyftiduft a.m.k. tvisvar sinnum saman og blandið saman við eggjablönduna. 
 4. Merjið banana og bætið saman við ásamt mjólkinni og smjörinu. 
 5. Smyrjið form og hellið deiginu í formið, ég sáldra alltaf svolítið af haframjöli yfir en það er algjörlega valfrjálst. 
 6. Bakið við 180°C í 45 - 50 mínútur.
Lyktin er svo dásamleg af nýbökuðu brauði.

Nýbakað brauð með smjöri og osti, dagurinn getur bara ekki farið betur af stað. 
Ef þið viljið gera örlítið betur við ykkur þá getið þið bætt söxuðu súkkulaði saman við brauðið, þá er þetta hálfgerð kaka sem hægt er að bjóða upp á með kaffinu. 
Virkilega ljúffengt.

Einfalt, fljótlegt og ljúffengt. xxx
Eva Laufey Kjaran


Sunday, January 11, 2015

Klassískar vanillubollakökur með silkimjúku súkkulaðikremi
Það eru ekki mörg ár síðan ég smakkaði bollakökur í fyrsta skipti. Ég var auðvitað búin að smakka jógúrtmuffins en bollakökur með miklu kremi og fallegu skrauti heilluðu mig upp úr skónum og það má með sanni segja að það hafi verið ást við fyrsta bita. Vanillubollakökur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og skemmtilegast þykir mér hvað þær bjóða upp á marga möguleika. Það er hægt að leika sér með þessar kökur og bæta við því hráefni sem hverjum þykir gott t.d. súkkulaðibitum eða berjum. 

 Klassískar vanillubollakökur með súkkulaðikremi

 • 250 g sykur
 • 140 g smjör, við stofuhita (mikilvægt)
 • 3 Brúnegg, við stofuhita (mikilvægt)
 • 250 g Kornax hveiti 
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 dl rjómi eða nýmjólk
 • 2 tsk vanilla extract eða vanillusykur (það er líka gott að nota fræin úr vanillustöng)
 • bollakökuform
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Þeytið saman smjör og sykur í um það bil þrjár mínútur, bætið einu og einu eggi saman við. Þeytið vel á milli. Sigtið saman hveiti og lyftiduft, bætið hveitiblöndunni, vanillu og rjómanum saman við eggjablönduna og þeytið mjög vel í nokkrar mínútur þar til blandan verður silkimjúk. Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið við 180°C í 15 - 18 mínútur. Kælið kökurnar mjög vel áður en þið smyrjið á þær krem. Uppskriftin gefur 18 - 20 bollakökur. 

Súkkulaðikrem

 • 200 g smjör, við stofuhita (mikilvægt)
 • 400 g flórsykur
 • 130 g súkkulaði
 • 1 tsk vanilla extract eða vanillu sykur (Þið fáið vanillu extract t.d. í Hagkaup og Kosti)
Aðferð: Þeytið smjör og flórsykur saman í nokkrar mínútur, því lengur sem þið hrærið kremið því betri áferð verður á því. Bræðið dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði og hellið súkkulaði saman við smjörkremið í mjórri bunu. Bætið einnig vanillu út í og þeytið enn betur í 2 - 3 mínútur. Setjið kremið í sprautupoka og skreytið kökurnar að vild. Það er afar gott að rífa niður smá súkkulaði og skreyta kökurnar með súkkulaðibitum. 
Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir