Thursday, July 30, 2015

Grillaður ananas með ljúffengri karamellusósu




Ef ég ætti að velja einn eftirlætis grill-eftirrétt þá væri það án efa grillaður ananas með ljúffengri karamellusósu og ferskum hindberjum. Það er ekkert mál að bjóða upp á þennan eftirrétt í útileigunni og hann á eftir að slá í gegn hjá börnum og fullorðnum. 

Grillaður ananas með karamellusósu 


Ferskur ananas, niðursneiddur
80 g smjör
3 msk. púðursykur
1 tsk. kanill 



Aðferð: 

Hitið smjör í potti og bætið púðursykrinum og kanil út í, leyfið þessu að malla í smástund og takið af hitanum. Skerið ananasinn niður og penslið kryddsmjörinu á hann. Það er ágætt að geyma hann í ísskáp í svolitla stund áður en þið grillið hann. 



Grillið sneiðarnar í 2 – 3 mínútur á hvorri hlið og berið fram með góðum vanilluís og karamellusósu. Bætið smávegis af rjóma út í afganginn af smjörblöndunni og hitið í smástund þar til sósan þykknar. 




Njótið vel!

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir



Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 

Kokteill sumarsins....


Kókos- og ananas kokteill sem kemur manni alltaf í sumarskap og í stuð ef út í það er farið. Bragðgóður, ferskur og auðveldur kokteill sem allir ættu að geta leikið eftir. 

Piña colada 
4 dl frosinn ananas 
2 dl ananassafi 
1 dl kókosmjólk
1/2 - 1 dl kókosromm t.d. Malibu (magn fer auðvitað eftir smekk) Skvetta af sítrónusafa 

Allt blandað í blandara þar til drykkurinn verður silkimjúkur. 

Berið strax fram og njótið.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.




Brakandi ferskt humarsalat


Stærsta ferðahelgi ársins framundan og eflaust margir að velta fyrir sér matnum um helgina, að minnsta kosti er ég að spá í því en ég er svosem alltaf að spá í mat. Ég grillaði humar í lokaþætti Matargleði Evu sem sýndir voru á Stöð 2 í vor og útbjó þetta gómsæta humarsalat sem ég mæli með að þið prófið.  Þetta er auðvitað sælkerasalat fyrir þá sem vilja gera vel við sig og það er ekki vitlaust að fá sér glas af góðu hvítvíni með. Einfalt, fljótlegt og ofboðslega gott. 


Hvítlaukshumar á salatbeði 
600 – 700 g humarhalar 
100 g smjör 
3 hvítlauksrif
1 rautt chili, fræhreinsað
Handfylli steinselja 
Börkur af hálfri sítrónu 
Skvetta af hvítvíni 
Safi af hálfri sítrónu 
Salt og pipar 

Hitið smjör í potti. Saxið niður hvítlauk, chili og steinselju og bætið út í smjörið. Sjóðið í smástund við vægan hita. 

Takið pottinn af hitanum og undirbúið humarinn. 

Mér finnst ágætt að nota álform þegar ég er að grilla humar en þið getið auðvitað sett hann beint á grillið.

Klippið humarhalana og hreinsið görnina úr, ekki taka humarinn alveg úr skelinni heldur leyfið honum að hanga föstum á halaendanum. Það er best að gera þetta við vaskinn áður en þið farið með humarinn út. 

Dreifið smjörsósunni yfir humarhalana og hellið hvítvíni yfir og kreistið hálfa sítrónu í lokin.
Kryddið til með salti og pipar. 
Það er ágætt að leyfa humrinum að standa í ca. 30 mínútur áður en þið setjið hann á grillið en þannig nær hann að marinerast fullkomlega. 

Grillið humarinn á háum hita í nokkrar í ca. 5 – 6 mínútur. 
Berið fram með hvítlaukssósu og fersku salati. Sagði einhver meiri hvítlauk? Já, takk. 

Hvítlaukssósa

150 ml sýrður rjómi 
2 hvítlauksrif
Salt og pipar
Safi úr hálfri sítrónu 

Setjið sýrða rjómann í skál, bætið maukuðum hvítlauknum út í ásamt sítrónusafanum, salti og pipar. Blandið öllu vel saman og það er ágætt að leyfa sósunni að jafna sig í ísskáp í hálftíma til klukkustund áður en þið berið hana fram með humrinum. 
Skerið niður gott grænmeti og ávexti og leggið humarhalana yfir og njótið með hvítlaukssósunni góðu.




Njótið vel. 

Ég vona að þið eigið góða helgi með fólkinu ykkar og munið að fara varlega í umferðinni. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 


Wednesday, July 29, 2015

Ómótstæðilegur skyr eftirréttur með súkkulaðiköku og hindberjum


Sumarið hefur flogið áfram og það er óhætt að segja að það hafi verið dásamlegt, ég hef notið þess að vera í sumarfríi með Hadda og Ingibjörgu Rósu. Að vísu gátum við Haddi ekki tekið mikið frí saman, þurfum auðvitað að púsla þessu eins og annað fjölskyldufólk. Engu að síður höfum við náð að bralla margt skemmtilegt saman og ég mætti endurnærð til vinnu í morgun full tilhlökkunar varðandi haustið. Ég bakaði mjög mikið í fríinu og fyrr í sumar útbjó ég þennan ómótstæðilega eftirrétt sem þið ættuð að prófa. Skyrkökur og súkkulaðikökur eru gómsætar, þið getið þess vegna ímyndað ykkur þegar þessar tvær koma saman... brjálæðislega gott og einfalt. 


Eftirréttur með súkkulaðiköku og berjaskyri. 


100 smjör, brætt
2 Brúnegg
2,5 dl sykur
1,5 dl Kornax hveiti
2 tsk vanillusykur
3 msk gott kakó
½ tsk salt

Aðferð: Hitið ofninn í 175°C (blástur). Bræðið smjör í potti við vægan hita. Þeytið saman sykur og egg í smá stund eða þar til blandan verður létt og ljós. Blandið hinum hráefnunum saman við og hrærið í smá stund eða þar til deigið verður silkimjúkt. Smyrjið bökunarform (mér finnst best að nota smelluform en þá er mikið þægilegra að ná kökunni úr forminu).  Hellið deiginu í formið og bakið við 175°C í 20 mínútur. Kælið kökuna og skerið í litla munnbita.

*Formið sem ég nota er 20cm að stærð.
*Mér finnst best að baka þennan botn við blástur en ef þið notið yfir-og undirhita þá þurfið þið að hafa hærri hita t.d. 200°C.

Skyrkakan
  • 400 g hindberjaskyr t.d. frá KEA (það er líka hægt að nota blandað berjaskyr)
  • 200 ml rjómi, þeyttur
  • 3 msk flórsykur
  • 1 tsk vanilla extract eða sykur
  • 6 – 8 fersk hindber
Aðferð: 
  1.  Hrærið skyrinu, flórsykrinum, vanillu og ferskum hindberjum saman í skál. Þegar það hefur blandast vel saman þá bætið þið þeytta rjómanum saman við.
  2.  Setjið eftirréttinn gjarnan saman í háu glasi eða í fallegri skál. Rífið niður hvítt súkkulaði í lokin og skreytið með ferskum hindberjum.




Algjört augnakonfekt og ljúffengur á bragðið. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Sunday, July 26, 2015

Ítölsk eggjakaka með kartöflum og papriku




Ég bauð vinkonum mínum í brunch í síðustu viku en eins og ég hef margoft sagt þá er brunch í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég bauð stelpunum meðal annars upp á ítalska eggjaköku en það er í raun bökuð eggjakaka sem er yfirleitt steikt á annarri hliðinni og síðan kláruð inn í ofni. Það er hægt að setja allt það sem hugurinn girnist í þessa eggjaköku en ég var með kartöflur, púrrulauk og grillaða papriku sem setti punktinn yfir i-ið. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hef keypt grillaða papriku og ég var hálf svekkt að hafa ekki gert það fyrr, paprikurnar voru svo bragðmiklar og eru að mínu mati lykil hráefnið í þessari eggjaköku. Eggjakakan er skorin í sneiðar og gjarnan borin fram með salati og dressingu, ég var salat og  einfalda salatdressingu (dijon sinnep, góða ólífuolíu, salt, pipar og smá sítrónusafa). 

Ef þið eruð eggjakökufólk þá þurfið þið algjörlega að prófa þessa


Ítölsk eggjakaka bökuð í ofni 
Bökuð á pönnu sem má fara inn í ofn, stærðin á pönnunni er 26cm

  • Olía + smá smör 
  • Púrrulaukur, smátt skorinn
  • 2 meðalstórar bökunarkartöflur, smátt skornar 
  • 1 krukka grilluð paprika (smá af olíunni líka eins og 2 msk)
  • 10 Brúnegg, léttþeytt
  • 100 g rifinn ostur
  • Handfylli rifinn Parmesan ostur
  • Salt og pipar
Aðferð: 

  1. Hitið olíu og smjör á pönnu. (Athugið að það þarf að nota pönnu sem má fara inn í ofn)
  2. Látið laukinn malla í olíunni/smjörinu í smá stund eða þar til hann verður mjúkur í gegn. Bætið þá kartöflum og steikið í 1 - 2 mínútur, því næst bætið þið grilluðu paprikunum út á pönnuna. Blandið öllu vel saman og kryddið til með salti og pipar, steikið á pönnunni í 3 - 4 mínútur. 
  3. Á meðan létt pískið þið 10 brúnegg og kryddið til með salti og pipar.
  4. Bætið rifnum osti saman við eggin og hellið eggjablöndunni út á pönnuna. 
  5. Steikið á lágum hita í 4 - 5 mínútur eða þar til eggjakakan er að verða stíf og flott. 
  6. Setjið eggjakökuna inn í ofn við 180°C í 15 - 20 mínútur eða þar til eggjakakan er stíf í gegn og gullinbrún. 
  7. Berið eggjakökuna fram með fersku salati og stráið gjarnan rifnum Parmesan osti yfir. 


Ég vona að þið eigið ljúfan sunnudag, vinkona mín er að koma til mín og við ætlum að skella okkur á Esjuna. Þannig ég þarf að drífa mig... sit hér enn á náttfötunum ;)

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.





Friday, July 24, 2015

Mexíkóskur hamborgari með guacamole og nachos flögum


Ég elska góða og matarmikla hamborgara, þessi djúsí borgari er með mexíkósku ívafi og er einn af mínum uppáhalds. Það er leikur einn að útbúa hamborgara og ég mæli hiklaust með því. Ég er búin að borða hamborgara ansi oft núna í sumar og fæ ekki leið, það er auðvitað skemmtilegt við hamborgara að þeir eru aldrei eins. Bjóðið upp á þessa um helgina og þið sláið í gegn, ég segi það satt.


 Mexíkóskur hamborgari með guacamole og nachos flögum
  • 600 g nautahakk
  • 1 meðalstór rauðlaukur, smátt skorin
  • 1/2 rautt chilialdin, fræhreinsað og smátt skorið 
  • 2 dl steikt smátt skorið beikon
  • handfylli ferskt kóríander, smátt skorið (það má líka vera steinselja)
  • 1 egg
  • brauðrasp, magn eftir smekk 
  • 150 g rifinn mexíkóostur 
  • salt og pipar
Tillögur að meðlæti:
  • Ostur 
  • Salsa 
  • Guacamole  (besta sem ég veit, stundum svindla ég og kaupi það tilbúið út í Hagkaup um helgar en þá er hægt að kaupa ljúffengt og ferskt guacamole)
  • Jalepeno
  • Kál
  • Tómatar
  • Agúrka
  • Nachos flögur 

Aðferð: 
  1. Blandið öllum hráefnum saman í skál. Brauðrasp eða hveiti bindur deigið betur saman en notið eins mikið og ykkur finnst þið þurfa. Best er að nota hendurnar til verksins!
  2. Mótið fjóra til fimm hamborgara, ég keypti mér ágæta hamborgarapressu frá Weber í Hagkaup um daginn og mér finnst hún alveg frábær. Kostar tæplega 2000 kr. Kjarakaup!
  3. Grillið hamborgarana í þrjár mínútur á lokuðu grilli, snúið þeim við og bætið osti að eigin vali ofan á og grillið áfram í 4 – 6 mínútur.
  4. Það er gott að setja hamborgarabrauðin á grillið rétt í lokin.
  5. Berið borgarann fram með góðu meðlæti, hér fyrir ofan sjáið þið nokkrar tillögur. 
  6. Sætar kartöflufranskar eru ótrúlega góðar og ég ber þær yfirleitt fram með borgurum. Ég skar niður nokkrar sætar kartöflur í lengjur. Velti þeim upp úr olíu og kryddaði til með salti, pipar og paprikukryddi. Bakaði við 180°C í 35 – 40 mínútur. Voila! 

 Þetta er afar ljúffengt, ég segi það og skrifa. 

Mæli með að þið prófið núna um helgina. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 



Thursday, July 23, 2015

Yndislegir dagar á Spáni

Við fjölskyldan áttum yndislega daga á Spáni í byrjun júlí. Þetta var besta skyndiákvörðunin sem við höfum tekið í langan tíma, við nutum þess að vera í algjöru fríi. Slöppuðum af og borðuðum ís í öll mál, vorum ekkert að vandræðast yfir einhverju bikiníformi. Allir voru sælir og glaðir og það er fyrir öllu.  Það var ekkert mál að ferðast með skottuna okkar sem fagnaði eins árs afmæli í fríinu.

Hér eru nokkrar myndir af ljúfa lífinu... mig langar aftur þegar ég skoða þær.















Þetta eru myndirnar sem ég tók á símann minn og deildi með Instagram fylgjendum mínum, ykkur er velkomið að fylgjast með mér þar en þið finnið mig undir nafnið @evalaufeykjaran

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sunday, July 19, 2015

1 árs afmæli Ingibjargar Rósu og bestu bollakökurnar



Ingibjörg Rósa varð eins árs þann 6.júlí og við fögnuðum vel og innilega með fólkinu okkar um helgina. Ég ákvað að hafa afmælið eins einfalt og kostur væri, hamborgarar, ein tegund af köku og ís. Spáin var sæmileg og það var slegið upp garðapartí á Akranesi. Það var ekkert smá skemmtilegt að fá ættingja og vini í smá kaffi og fagna fyrsta ári Ingibjargar. Ég bakaði bestu bollakökurnar, en það eru súkkulaðibollakökur með súkkulaðikreminu sem ég geri alltaf. Uppskriftin er hér að neðan ásamt nokkrum myndum frá deginum. 


Við keyptum ís hjá Valdís og fengum ískæli með, það er algjör snilld sem ég mæli með. Allir voru yfir sig ánægðir með ísinn enda er hann svakalega góður. 


Bestu súkkulaðibollakökurnar með hvítu smjörkremi 

um það bil 30 bollakökur 


  • 3 bollar Kornax hveiti (Amerísk mæling, 1 bolli = 2,4 dl)
  • 2 bollar sykur
  • 3 Brúnegg
  • 2 bollar AB mjólk
  • 1 bolli bragðdauf olía
  • 5 msk kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 2 tsk vanilludropar eða sykur


Aðferð:

Blandið öllum hráefnum saman í skál, hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Skiptið deigblöndunni niður í bollakökuform og bakið við 180°C í 15 - 18 mínútur. 

Það er mikilvægt að leyfa kökunum að kólna alveg áður en þær eru skreyttar með kreminu góða. 

Hvítt súkkulaðikrem 


  • 300 g smjör við stofuhita 
  • 500 g flórsykur
  • 2 tsk vanilludropar 
  • 150 g hvítt súkkulaði 
  • 2 - 3 msk rjómi eða mjólk 

Aðferð: 

1. Þeytið saman flórsykur og smjör þar til það verður létt og ljóst (tekur nokkrar mínútur)
2. Á meðan bræðið þið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði.
3. Hellið súkkulaðinu út í og bætið einnig vanillu og rjóma saman við, hrærið mjög vel í nokkrar mínútur. 
4. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á kökurnar. 

Það er í góðu lagi að frysta þessar kökur, það skemmir ekki bragðið! Skreytið þær að vild með öllu sem hugurinn girnist. Bollakökur slá alltaf í gegn, þær eru eins góðar og þær eru fallegar. 












Amman og afinn að gefa prinsessunni smá ís, það má víst allt á afmælinu. 



Ingibjörg Rósa á hæfileikaríkar frænkur sem spiluðu svo fallega. 



Fallega Ingibjörg Rósa sátt og sæl með afmælispartíið. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.