Monday, November 18, 2013

Dásamlega vetrarsúpa sem yljar


Veturinn er kominn, það má með sanni segja. Það er snjór úti og svolítið kalt, þá er nú ekkert betra að mínu mati en ljúffeng súpa sem yljar. Ég er einstaklega mikil súpukona og mér finnst fátt betra en góð og matarmikil súpa. Ég bjó til afskaplega einfalda og gómsæta tómatsúpu um daginn og ég verð að deila uppskriftinni með ykkur. Ég prófaði að nota kirsuberjatómata í dós að þessu sinni og ég verð að segja að ég er yfir mig hrifin af þeim, einstaklega bragðgóðir. Ég mæli með að þið prófið þessa súpu, það er svo huggulegt þegar heimilið ilmar af matargerð og á köldum dögum gefa súpur hita í kroppinn. 


Dásamlega vetrarsúpa
uppskrift miðast við 3 - 4 

  • 1 msk. ólífuolía
  • 1/2 meðalstór laukur
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 dósir tómatar, kirsuberja
  • 10 - 12 fersk basilíkulauf
  • 1 kjúklingateningur eða grænmetisteningur
  • 4 dl vatn 
  • 1 dl rjómi 
  • 50 g rifinn ostur 
  • salt og nýmalaður pipar, magn eftir smekk
Aðferð:

  • Við byrjum á því að hita olíu við vægan hita í potti, skerum laukinn smátt og setjum út á pönnuna. Bætið hvítlauknum saman við og hrærið vel í, við ætlum bara rétt að mýkja laukinn. Því næst fara tómatar og basilíkulauf saman við, bætið kjúklinga eða grænmetistening saman við. Næsta skref er að setja allt saman í blandarann í örfáar mínútur eða þar til súpan er orðin silkimjúk. Hellið henni aftur í pottinn, bætið vatninu, rjómanum og ostinum saman við. Leyfið súpunni að malla við vægan hita í fimm - sjö mínútur. Kryddið auðvitað til með salti og pipar. Það er mikilvægt að smakka sig til, sérstaklega í súpugerð að mínu mati. 


 Ég vona að þið njótið vel kæru vinir. Ég minni svo á sjónvarpsþáttinn minn í kvöld 'Í eldhúsinu  hennar Evu' klukkan 20:45 á Stöð 3. Í kvöld ætlum við að fara í pestógerð og útbúa fljótlegan og gómsætan kjúklingarétt. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

1 comment:

  1. Ofsalega góð súpa sem yljar manni á svona köldum degi. Ég setti rjómaost með sweet chilli, eins og þú bentir á í þættinum þínum varðandi kjúklingasúpuna. Rosalega bragðgott!
    Kveðja, Guðrún Birna

    ReplyDelete