Tuesday, December 31, 2013

Ársuppgjör. Kveð árið 2013 með þakklæti efst í huga.

"Áramótaheitið mitt í ár er að einblína á litlu hlutina sem skipta máli og gera lífið skemmtilegra. Mér finnst alltaf í byrjun janúar að ég þurfi að vera með ákveðið plan og háleit markmið sem nauðsyn ber að fylgja, það veldur mér stundum smá áhyggjum því mér líður oft eins og allt þurfi að gerast strax og ég gleymi að einblína á litlu hlutina sem skipta oft öllu máli. Hér eru nokkur lítil atriði sem að mínu mati gera lífið skemmtilegra.. 

Ég ætla að fara oftar í bústað, eiga fleiri notalegar stundir með fjölskyldunni minni, elda oftar með vinkonum mínum, fara vikulega út að borða í hádeginu með vinum mínum, taka enn fleiri myndir af mat og deila uppskriftum, fara á matreiðslunámskeið, prufa að elda indverskan mat, fara oftar út að hlaupa, hrósa oftar, njóta meira, sofa út án þess að fá samviskubit, fara oftar í bíó helst á Akranesi,  fleiri datenight með manni mínum, ferðast meira innanlands, halda áfram að safna matreiðslubókum og tímaritum, hætta að hlusta á neikvæðni, fara oftar upp á Akrafjall, læra meira, lesa meira, vera óhrædd við að prufa nýja hluti og taka fagnandi á móti nýjum áskorunum. 

Aðal markmiðið er þó bara að njóta þess að vera til.

Þann fjórða janúar bloggaði ég um áramótaheit fyrir árið 2013 eins og þið sjáið hér fyrir ofan, textinn er tekinn úr þeirri bloggfærslu.

Ég hef undanfarin tvö ár tekið saman vinsælustu uppskriftir ársins og þannig gert upp við árið, en uppskriftirnr segja þó ekki alveg frá árinu og því ætla ég að breyta aðeins til og fjalla um hvern mánuð í staðinn. 

Janúar 


Janúar var fremur rólegur. Það sem stóð upp úr var málþing sem nefndin mín, Menntmálanefnd SHÍ hélt þann 19.janúar. Þar áttu nemendur og kennarar Háskóla Íslands góðan dag saman og við náðum að ræða mikilvæg málefni sem snéru að bættum menntamálum við HÍ. 

Það voru óvenju margar bakstursfærslur í janúar, það er nú líklega vegna þess að mér finnst janúar oft á tíðum svo grár og leiðinlegur, þá er alltaf dásamlegt að fá sér góða köku.


Febrúar


Ég hélt mitt fyrsta bollakökunámskeið í febrúar. Það var á Akranesi og tókst mjög vel, ég var auðvitað svolítið stressuð eins og eðlilegt er. Þetta var mjög skemmtilegt og ég endurtók leikinn nokkrum sinnum á þessu ári. Ótrúlega gaman að eyða kvöldstund með bakstursglöðu fólki. 

Mars


Hápunktur mars mánaðar var dásamlegt frí til Noregs til fjölskyldunnar minnar. Það er alltaf best að vera í faðmi fjölskyldunnar. Virkilega huggulegt páskafrí. Mig langar helst aftur í þetta fína veður og þennan góða páskamat þegar ég skoða þessar myndir. Ó jæja, það styttist nú í páska;)

Apríl 


Ég skrifaði undir útgáfusamning að matreiðslubók minni, Matargleði Evu í apríl. Mikil ósköp sem ég var ánægð þann dag og er auðvitað enn, ótrúlega gaman að fá tækifæri til þess að skrifa sína eigin bók.

Ég fór á mjög skemmtilegt bakstursnámskeið hjá Salt eldhúsi sem mér finnst standa upp úr í aprílmánuði. Þar lærði ég að baka almennilegt brauð.

Maí


Maí var líklega besti mánuður ársins. Ég held alltaf upp á maí vegna þess að ég á afmæli þann 16.maí og ég er ansi mikið afmælisbarn. Ég fór með vinum mínum út að borða á afmælisdaginn og bauð þeim síðan upp á köku. Við sátum á grasinu fyrir utan Alþingishúsið og gæddum okkur á súkkulaðiköku á sólríkum degi. Það var dásemd. 

Bókaskrifin voru í fullum gangi í maí því það styttist jú í bókaskil. 

Hápunktur ársins verð ég eiginlega að segja að hafi verið Kaupmannarhafnarferð okkar vina. Ég hef sjaldan ef bara aldrei skemmt mér eins vel. Ég prísa mig sæla að eiga svo skemmtilega, frábæra og góða vini. Já maður segir það aldrei of oft. Mikið er maður ríkur!

Júní


Júní kom og þá átti sumarið að byrja. Júní var erfiður mánuður og lífið breyttist.

Júlí


Í júlí ferðaðist ég svolítið innanlands, var að vinna sem flugfreyja hjá Icelandair og naut þess að vera með fjölskyldunni minni. Ég og Haddi fórum í bíltúr einn sunnudaginn og fórum að Paradísarlaut, þar eru myndirnar teknar hér fyrir ofan. Gullfallegur staður. 

Ágúst 



Í ágúst naut ég þess að vera með vinum mínum, tók margar myndir fyrir bókina mína og átti dásamlegan morgun í Central Park. Það er fátt betra en að hlaupa þar og njóta. 

Í ágúst byrjaði ég á því að deila uppskriftum með hlustendum Síðdegisútvarpsins, ég var með eina uppskrift á viku. Það var ofboðslega skemmtilegt og ég lærði mikið. Þau eru líka svo dásamleg í Síðdegisútvarpinu að það var alltaf gaman að koma til þeirra. 



September




September var ansi skemmtilegur. Ég átti frábærar stundir með vinum mínum. Ég og Agla hittum Stefán í New York og það voru aldeilis góðir fagnaðarfundir. Stefán Jóhann flutti til Ameríku á þessu ári og það reynist okkur vinahópnum þungbært. En sem betur fer náðum við að knúsa hann heil ósköp í september, það var dásemd. 

Október



Í október fórum við amma í ferlega ljúfa helgarferð til Noregs, það var án efa hápunktur októbermánaðar. Í lok október fóru matreiðsluþættirnir mínir, Í eldhúsinu hennar Evu í loftið á Stöð 3. 

Nóvember 



Þann 8. nóvember kom matreiðslubókin mín Matargleði Evu út. Það var mjög skrítið en á sama tíma afskaplega gaman að fá bókina í hendurnar í fyrsta sinn. Ég hélt útgáfuboð sama daga og þar átti ég stórgott kvöld með fjölskyldu, vinum og lesendum. Ég var mjög sátt og sæl með daginn. Það má segja að það hafi verið bókajól í fjölskyldunni þetta árið, það var ótrúlega gaman að sjá bækurnar okkar saman á lista yfir mest seldu handbækur eina vikuna. Við vorum mikið búin að grínast með það að fara í almennilegt bókastríð. Það hefði verið mun skemmtilegra ef hann hefði verið hér með okkur í bókafjörinu. 

 Ég bakaði ótrúlega margar bollakökur fyrir bókakynningar í nóvember og desember, spurning hvenær ég baka þær aftur ;) Það var sérlega gaman að hitta lesendur á bókakynningum. 

Ég og Haddi fluttum í nóvember til Reykjavíkur, okkur líður mjög vel hér og heimilið verður heimilislegra með hverjum deginum. 

Desember 





Desember flaug áfram. Það var mikið að gera í þessum mánuði en það var líka skemmtilegt. Ég átti skemmtilegar stundir með vinum mínum, kynnti bókina mína og var nú ekki í leiðinlegum félagsskap. Fór á jólatónleika, fór oft út að borða, hlustaði mikið á jólalög, skreytti heimilið, bakaði og eyddi jólunum með fjölskyldunni minni á Akranesi. 

Árið

Ég verð alltaf svolítið meyr á áramótunum, hef verið það frá því að ég var lítil. Að fara yfir árið sem er að líða og ganga inn í nýtt ár. Árið 2013 var mér mjög erfitt en á sama tíma mjög gott. Þetta er búið að vera mjög sérstakt ár. Í janúar 2013 stefndi ég á að einblína á litlu hlutina sem ég gerði, ég naut þess að vera til og greip þau tækifæri sem mér voru boðin. Ég lærði mjög mikið á þessu ári, stærsta lexían er líklega sú að lífið er ekki sjálfsagt og við erum ekki eilífð. Ég hef ákveðið að lifa lífinu lifandi, gera það sem mig langar til og það sem gerir mig hamingjusama. Ég vil ekki líta til baka eftir nokkur ár og hugsa "afhverju gerði ég þetta ekki". Við eigum ekki að bíða með að stökkva á tækifærin og gera það sem okkur langar til, til hvers að bíða? Við höfum ekki tíma til þess að eyða honum í bið. Að bíða eftir því að lifa og njóta. 

 Ég fékk tækifæri til þess að stíga vel út fyrir þægindarammann á árinu, ég gaf út bók og steig mín fyrstu skref í sjónvarpi. Ég er lánsöm að hafa fengið tækifæri til þess að gera það sem ég hef gaman af og hef ástríðu fyrir. Í fyrsta á ævinni er ég virkilega ánægð og sátt við þann stað sem ég er á í lífinu, oft hef ég verið að efast um hvort ég sé að gera rétt og hvort ég sé að njóta mín sem ég hef ekki eins og nú. Ég leyfi mér því að njóta stundarinnar, gera það sem mér þykir skemmtilegt og gríp tækifærin. Ég hef engu að tapa. 

Ég kveð 2013 með þakklæti efst í huga. Ég er 24 ára gömul, ég hélt að lífð myndi ekki breytast og að allir yrðu alltaf hjá okkur. En það breyttist,  lífið breyttist. Ég er svo þakklát fólkinu mínu fyrir að hjálpa mér í gegnum erfiða tíma. Fjölskyldan mín og vinir mínir, orð fá því ekki lýst hversu mikið mér þykir vænt um þau. 

Njótið þess að vera til, knúsið fólkið ykkar og eigið gott kvöld. 

 Gleðilegt nýtt ár kæru vinir, takk fyrir árið sem er að líða.

Ég tek vel á móti 2014. Ég er handviss um að það verði besta árið. ;)

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Monday, December 30, 2013

Gómsætar kræsingar frá Iceland.

Um jólin elska ég að fá mér eitthvað sætt með kaffinu á kvöldin eftir ljúffengan jólamat. Stundum gefst þó ekki mikill tími til þess að huga að eftirréttum. Þá er nú gott að eiga gómsætar kræsingar í frystinum þegar súkkulaðilöngunin kemur upp eða góðir gestir koma óvænt í heimsókn. Það er ansi þægilegt að eiga tilbúnar kræsingar. Ég bauð fjölskyldu minni upp á þessar kræsingar eitt kvöldið eftir jólamatinn, súkkulaðiostakaka og súkkulaðihjúpuð kirsuber. Einfalt, þægilegt og gómsætt. 


 Súkkulaðihjúpuð kirsuber eru ferlega góð, sérstaklega með kaffinu. 
Súkkulaði- og karamelluostakaka sem sló í gegn. 

 Ég mæli með að þið prófið þessar einföldu kræsingar frá Iceland. Það má nú stundum hafa þetta svolítið þægilegt og kaupa tilbúið.

xxx

Eva Laufey Kjaran


Thursday, December 19, 2013

Lokaþáttur af matreiðsluþáttunum mínum, Í eldhúsinu hennar Evu. Hátíðarmatur. Kalkúnabringa með dásamlegu meðlæti.

Eva eldar sannkallaðan hátíðarmat.


Ofnbakaðar kalkúnabringur
Uppskriftir miðast við fjóra

  • 1 kg kalkúnabringa
  • smjör
  • kalkúnakrydd
  • salt og pipar
  • 3 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur

Aðferð:
Hitið smjör á pönnu, kryddið bringuna með kalkúnakryddi, salti og pipar. Brúnið bringuna á öllum hliðum á pönnunni í örfáar mínútur. Setjið bringuna í eldfast mót. Sjóðið vatn og leysið kjúklingatening upp í vatninu, hellið vökvanum í eldfasta mótið. Gott er að setja smá smjörklípu ofan á bringuna áður en hún fer inn í ofn. Bringan er sett inn í ofn við 90°C í 1,5 klst. Gott er að stinga kjötmæli í bringuna eftir 1,5 klst. Mælirinn ætti að sýna 73–74°C. Þá er bringan tilbúin, ef ekki þá þarf hún að vera svolítið lengur í ofninum. Bringan þarf að hvíla þegar hún er komin út úr ofninum í 15–20 mínútur.

Sveppasósa
  • 250 g blandaðir sveppir
  • smjör
  • ½ l rjómi
  • 2 dl vatn + soð
  • 1 tsk. góð berjasulta
  • salt og pipar

Aðferð:
Skerið sveppina smátt. Steikið sveppina upp úr smjöri í potti og kryddið til með salti og pipar. Bætið síðan rjómanum saman við og leyfið sósunni að malla við vægan hita í nokkrar mínútur. Bætið út í vatni og soðinu sem kom frá kalkúnabringunni, hellið vökvanum sem er í eldfasta mótinu og bætið út í sósuna. Setjið smávegis af sultu saman við. Leyfið sósunni að malla svolítið lengur, smakkið auðvitað til og kryddið að vild.

Sætkartöflumús með piparosti
  • 5–600 g sætar kartöflur
  • 1–2 msk. smjör
  • 90 g rifinn piparostur
  • salt og pipar

Aðferð:
Sætar kartöflur eru skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Suðan látin koma upp og soðið í 25–30 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu er síðan hellt af. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með piparosti, salti og pipar.

Rósakál steikt á pönnu með beikoni og rjóma
  • 500 g ferskt rósakál
  • 100 g beikon
  • 1½  dl rjómi
  • salt og pipar

Aðferð:
Rósakálið er skolað, hreinsað og skorið í tvennt. Sjóðið rósakálið í léttsöltu vatni í 2–3 mínútur. Vatninu er síðan hellt af. Setjið smjörklípu á pönnu, skerið beikonið í litla bita og steikið á pönnunni. Bætið rósakálinu saman við beikonið og steikið í 5 mínútur við vægan hita. Rjómanum er síðan bætt út á pönnuna og kryddað til með salti og pipar. Leyfið rósakálinu og beikoninu að malla í rjómanum við vægan hita í nokkrar mínútur.

Waldorfsalat
  • 2 græn epli
  • 1½ sellerí
  • 25 græn vínber
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2–3 msk. þeyttur rjómi
  • 2 dl valhnetur, þurrristaðar á pönnu
  • 1 tsk. agavesíróp
  • smá súkkulaði til þess að strá yfir

Aðferð:
Kjarnhreinsið eplin, flysjið og skerið í litla bita. Skerið sellerí í litla bita. Skerið vínber í tvennt. Grófhakkið hneturnar og þurrristið á pönnu. Pískið saman sýrðan rjóma og rjóma. Blandið síðan öllu saman í skál og sáldrið smá súkkulaði yfir í lokin. Geymið í kæli þar til salatið er borið fram.



Uppskriftirnar sem ég deili með ykkur í dag voru úr lokaþættinum mínum af frumraun minni í sjónvarpi, Í eldhúsinu hennar Evu. Ég steig algjörlega út fyrir þægindarammann og er afskaplega ánægð með að hafa gripið tækifærið. Þetta var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt ferli. Ég naut mín við gerð þáttanna og hef vonandi veitt ykkur innblástur í eldhúsinu. 

 Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar og skilaboðin sem ég hef fengið frá ykkur í sambandi við þættina, það er ómetanlegt já, ómetanlegt að fá svo góðan stuðning frá  góðu fólki. 

Risajólaknús til ykkar allra. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, December 11, 2013

Vinningshafinn í gjafaleiknum...



Alls tóku 411 lesendur þátt í gjafaleiknum hér á blogginu í samstarfi við Cup Company.  Það var hún Sandra Mjöll sem var númer 29 í þetta skiptið. Hún fær því þessi gullfallegu form frá Cup Company. 

Þúsund þakkir fyrir góða þáttöku í gjafaleiknum kæru vinir, það verður gjafaleikur enn á ný í vikunni. Fylgist vel með. 

Bestu kveðjur til ykkar allra 

Eva Laufey Kjaran