Mér finnst fátt huggulegra en að fá góða vini í mat til mín, ég reyni að vera dugleg að halda smá matarboð eða kaffiboð af og til, það eitt að setjast niður með góðum vinum, borða mat og spjalla frá sér allt vit gerir manni svo gott. Gott fyrir líkama og sál.
Matur er fyrir mér sameiningarkraftur, ef til vill hljómar þetta klisjulega en það eru oft bestu og huggulegustu stundirnar sem ég á með fjölskyldu minni og vinum eru einmitt yfir matarborðinu.
Að njóta þess að borða og vera saman skiptir öllu máli.
Uppáhalds forrétturinn minn, Bruchetta með tómötum.
Hvítlauksbrauð með osti, Haraldur fær líka forrétt :)
Kjúklingabringur úr Einarsbúð.
Ofnbökuð Ýsa. Uppskrift fylgir hér að neðan, að vísu notaði ég síðast lax en ýsan er ansi góð líka.
Að mínu mati skiptir eftirrétturinn miklu máli. Oftast er maður búin að borða á sig gat en langar ef til vill í smá súkkulaði, eða ég allavega þrái oft einn súkkulaði mola eða smá ís eftir góða máltíð. Ég smakkaði þessa mús hjá frænku minni og það var ekki aftur snúið.
Ég mæli hiklaust með súkkulaðimús í eftirrétt, músin var borin fram í kaffibollum. Mér fannst það krúttlegt við þetta tilefni, svo er líka ansi fallegt að bera hana fram í háum glerglösum. Skreyta hana með allskyns berjum, allt eftir smekk hvers og eins.
Aðal atriðið er auðvitað að njóta og aftur njóta.
Dökk súkkulaðimús með ferskum berjum
Einföld og frekar létt súkkulaðimús, hentar vel sem desert. Hægt er að nota bæði ljóst sem og dökkt súkkulaði.
25 g smjör
200 g 70% súkkulaði
250 ml rjómi
3 stk. egg
2 msk. sykur
Bræðið smjör og súkkulaði saman við vægan hita í potti. Hellið súkkulaðinu síðan í skál og blandið þremur eggjarauðum saman við, blandað eggjarauðunum vel saman við súkkulaðið. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar. Þeytið rjóma og að því loknu bætið súkkulaðiblöndunni saman við, í þremur pörtum. Leggið blönduna til hliðar. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum smátt og smátt saman við. Hrærið eggjahvítublöndunni mjög varlega saman við súkkulaðiblönduna með sleikju, setjið í glös eða skál. Kælið í lágmark 3 klst.
Skreytið súkkulaðimúsina með ferskum berjum,myntulaufum og stráið smá flórsykri yfir.
Þessi stúlka heitir Sigurbjörg Heiða og hún er í miklu uppáhaldi hjá frænku sinni.
Var svo heppin að fá dásamlegt súkkulaði frá vinkonu minni.
Gott kvöld með góðum vinum.
xxx
Eva Laufey Kjaran
Þetta er hvert öðru girnilegra hjá þér og frábærlega fallega sett upp. Værirðu til í að deila hvernig þú gerir hvítlauksbrauðið :)
ReplyDeleteMmmm þessi súkkulaðimús! Best!
ReplyDeleteMikið er ég sammála. Ekkert betra en að setjast niður með famelíunni og borða góðann mat og chatta :)
ReplyDeleteps. Flott í Skessuhorninu!!!