Helgin leið hratt og örugglega, við höfum haft það svakalega gott og fengið til okkar góða gesti í mat, fylgst með gleðigöngunni og meira að segja komist í haust tiltektina. Í kvöld langaði mig í eitthvað einfalt og fljótlegt eftir annansaman dag, ég átti kjúklingabringur og tómata sem ég blandaði saman í góðan kjúklingarétt. Mamma mía hvað þetta var gott, ég borðaði á mig gat og hefði alveg getað borðað tómatana eina og sér, þeir voru ljúffengir. Virkilega góður endir á helginni og ég má til með að hvetja ykkur til þess að prófa þennan rétt í vikunni.
Kjúklingur í tómat- og hvítvínssósu
- 2 kjúklingabringur eða álíka mikið magn af öðru kjúklingakjöti
- 6 stórir tómatar
- 6 kirsuberjatómatar
- 1 laukur
- 2 hvítlauksrif
- 1 lítil krukka Dala fetaostur (osturinn + 1 msk af olíunni)
- 1 msk smátt söxuð steinselja
- 1 msk ólífuolía
- 1 dl hvítvín (má sleppa)
- Salt og nýmalaður pipar
- 100 g rifinn ostur
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Skerið tómata í tvennt og leggið í eldfast mót.
- Saxið lauk og hvítlauk, bætið út í mótið.
- Hellið smá olíu af fetaostinum og bætið út í.
- Ég átti gott hvítvín og ákvað að nota smávegis af því, þess þarf ekki en hvítvínið passar vel í þennan rétt.
- Saxið niður ferska steinselju og stráið yfir.
- Blandið vel saman og leggið tvær kjúklinabringur yfir, kryddið þær til með salti og pipar.
- Setjið inn í ofn í 25 - 30 mínútur, það er ágætt að snúa kjúklingabringunum einu sinni á meðan þær eru í ofninum.
- Þegar um það bil 5 mínútur eru eftir af eldunartímanum bætið þið ostinum ofan á bringurnar.
- Berið réttinn gjarnan fram með nýrifnum parmesan.
Fyrst ég var búin að opna hvítvínsflöskuna þá fékk ég mér eitt glas með matnum, einstaklega ljúft og gott sunnudagskvöld.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
No comments:
Post a Comment