Thursday, January 15, 2015

Sætkartöflu - og spínatbaka

Það er eitthvað svo ómótstæðilega gott við bökur, þær eru svo hlýlegar og ilma svo vel. Þegar ég fór til Parísar fyir þremur árum þá smakkaði ég margar gerðir af bökum og ég kolféll fyrir þeim öllum. Þá sérstaklega þeim í sætari kantinum með allskyns rjómafyllingum, ég þarf endilega að prófa mig áfram í þeim bakstri. Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að grænmetisböku sem er ótrúlega góð, ég tíndi til það sem átti í ísskápnum og úr var dásamleg baka. 

 Grænmetisbaka
Uppskriftin skiptist í þrjá hluta. Fyrst fyllingin svo deigið og í lokin eggjablandan. 

  • væn smjörklípa 
  • 2/4 blaðlaukur
  • 1/2 meðalstór rauðlaukur
  • 1 hvítlauksrif 
  • 1 stór gulrót
  • 1/2 sæt kartafla
  • 1 meðalstór rauð paprika
  • 6 - 7 sveppir 
  • spínat, magn eftir smekk
  • fersk steinselja, smátt söxuð
  • rifinn ostur 
  • 1 tómatur 
  • salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

 1. Hitið smjörið á pönnu, þið getið auðvitað notað olíu ef þið viljið það heldur. Mér finnst bara smjörið betra.  Skerið rauðlaukinn, hvítlaukinn og blaðlaukinn smátt niður, setjið á pönnuna og mýkið í smá stund. 

 2. Skerið allt grænmetið fremur smátt. Bætið kartöflu og gulrót saman við laukana á pönnunni, leyfið því að malla á pönnunni í 3 - 4 mínútur. Kryddið til með ferskri steinselju, salti og pipar. Bætið því næst restinni saman við og blandið vel saman. Ég læt svolítið vel af spínati en það er auðvitað smekksatriði, þið getið líka sleppt spínati ef ykkur þykir það ekki gott.   Á meðan að grænmetisblandan er að malla á pönnunni þá snúum við okkur að deiginu. 

 Botn:

Deig:
  • 125 g smjör
  • 2 bollar Kornax heilhveiti (bollarnir sem ég nota eru 240 ml)
  • 2 msk ískalt vatn 
  • 1 eggjarauða
  • salt og pipar 

Aðferð:
Skerið smjörið í litla teninga, blandið smjörinu, hveitinu og saltinu saman með höndunum í skál. Bætið síðan vatninu saman við smám saman. Smjörið þarf að blandast vel saman við hveitið, svo þetta tekur nokkrar mínútur. Sláið deiginu upp í myndarlega kúlu , setjið plastfilmu utan um og geymið í kæli í lágmark 30 mínútur.

 Eftir 30 mínútur er deigið tilbúið, takið deigið út úr ísskápnum og fletjið út. Smyrjið bökunarform og setjið deigið í formið. Potið nokkrum sinnum í deigið með gaffli og bakið við 180°C í 8 - 10 mínútur. 

 4. Hellið grænmetisblöndunni í heilhveitibotninn. 

 Eggjablandan

  • 5 stór Brúnegg
  • 2 msk kotasæla 
  • smá mjólk
  • salt og nýmalaður pipar

Aðferð:
Pískið eggin léttilega saman við mjólkina, bætið kotasælu saman við og kryddið til með salti og pipar. Hellið eggjablöndunni yfir bökuna. Rífið niður ost og sáldrið yfir, skerið einn tómat og raðið nokkrum sneiðum ofan á ostinn. Bakið við 180°C í 30 - 35 mínútur. 

 Steinseljan góða, ég nota steinselju mikið við matargerð og á hana alltaf til í ísskápnum. Dásamleg kryddjurt!

 Kælið bökuna vel áður en þið berið hana fram. Mér finnst best að bera hana fram með fersku salati og léttri sósu. Þessi baka er fyrir fjóra til fimm manns myndi ég halda, það er líka mjög þægilegt að frysta nokkrar sneiðar og eiga þegar að maður er ekki í miklu stuði til þess að elda. Þessi baka er af einföldustu gerð og bragðast mjög vel, tilvalið að bera hana fram t.d. í brönsboðum og bæta þá beikoni saman við. Prófið ykkur endilega áfram með þessa uppskrift, það hefur tekið mig svolítið langan tíma að búa til hina "fullkomnu" böku að mínu mati, þessi baka kemst frekar nálægt því og er sú besta sem ég hef prófað.

 Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa uppskrift. 


Njótið vel kæru vinir.

xxx

Eva Laufey Kjaran

No comments:

Post a Comment