Friday, February 28, 2014

Föstudagskokteillinn



Gleðilegan föstudag kæru lesendur. Veðrið er búið að vera dásamlegt í dag og það verður allt betra þegar sólin skín. Ég fékk mér ljúffengan föstudagskokteil áðan, ávextir í kokteilaglasi með smá piparmyntusúkkulaði. 



Fyrst við erum að tala um ávexti og súkkulaði þá er ég alveg í sólgin í súkkulaðihjúpuð jarðarber, það er fátt betra. Mæli með að þið gæðið ykkur á góðum ávöxtum með súkkulaði um helgina.

Dökkt súkkulaði, hvítt súkkulaði og jarðarber. Ljúffengt konfekt. 

Ég vona að þið eigið góða helgi framundan. Ég vona að veðrið haldi áfram að vera svona fínt og svo er auðvitað bolludagurinn á mánudaginn (já ég er mjög spennt) og ég ætla að baka bollur og borða þær með miklum rjóma um helgina. 

Njótið helgarinnar. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Wednesday, February 26, 2014

Eddan & Freebird

Það var mikill heiður að fá að veita verðlaun fyrir barnaefni ársins á Eddunni s.l. helgi. Mig langaði auðvitað til þess að vera fín á hátíðinni og fór því að leita mér að kjól. Fyrir valinu varð þessi fallegi kjóll frá Freebird. Ég er afskaplega hrifin af Freebird merkinu og ég hvet ykkur kæru lesendur að kíkja þangað. Búðin er staðsett á Laugaveginum. Það er mjög góð útsala á flestum vörum og því er tilvalið að finna sér kjól fyrir árshátíðarnar og sumarbrúðkaupin sem framundan eru. 

Kjólarnir eru svo ævintýralega fallegir.



xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 



Tuesday, February 25, 2014

Laxa tacos.


Mér finnst mjög gott að hafa fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku og eftir að ég byrjaði að hafa fisk oft þá hef ég prófað marga góða fiskrétti og þessi réttur er einn af mínum uppáhalds. Þið sem eruð mikið fyrir taco ættuð að prófa þessa uppskrift en það kemur mjög á óvart hvað fiskur er góður í taco.



Laxa tacos!
Fyrir þrjá til fjóra

Uppskrift. 
  • 600 - 700 g lax, skorinn í litla teninga
Kryddlögur
  • 2 msk. Olía 
  • 1 tsk. paprikukrydd
  • 1/2 tsk. cummin krydd
  • salt og pipar, magn eftir smekk 
  • 1 msk. smátt saxað kóríander 
  • 3 - 4  smátt söxuð hvítlauksrif
  • 1/2 chilialdin, fræhreinsað og smátt skorið
Aðferð: 

Blandið öllu saman í skál. Hreinsið fiskinn og skerið í litla teninga, blandið fiskinum vel saman við kryddlöginn. Best er að geyma fiskinn í 2 - 3 klst í kæli. 

Steikið fiskinn í örfáar mínútur á pönnu við miðlungshita. Þegar fiskurinn er klár þá setjið þið hann í skál og kreistið safa úr 1/2 límónu (lime) yfir. Saxið kóríander, magnið fer eftir smekk og dreifið yfir fiskinn. Það getur líka verið gott að sáldra smávegis af salti og pipar yfir.

Mangósalsa. 

  • 1 ferskt mangó í teningum
  • 1 rauðlaukur, meðalstór fínsaxaður
  • ½ agúrka, smátt skorin
  • 10 kirsuberjatómatar, smátt skornir
  • 1 msk fínsaxaður kóríander
  • 1 meðalstór lárpera
  • safi og rifinn börkur af ½ límónu (lime)
  • 1 tsk gróft salt
  • Ferskmalaður svartur pipar, magn eftir smekk


Aðferð: Blandið öllu sem er í uppskriftinni vel saman og geymið í kæli í 30 mínútur.

Hitið takkóskeljar í ofni samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, þið getið auðvitað notað heilhveitivefjur líka. Berið fiskinn fram í takkóskeljum með salati t.d. spínati, mangósalsa, rifnum osti og sýrðum rjóma. Það er líka gott að saxa niður kóríander og sáldra yfir í lokin. Ég er mjög hrifin af kóríander en það er auðvitað smekksatriði. 

 Njótið vel!


xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Monday, February 17, 2014

Sautjándi febrúar

Þó það hafi verið sérlega ljúft um helgina þá er ég meira en tilbúin í nýja viku. Ég byrjaði daginn á hafragraut eins og aðra daga, Það er nóg framundan í vikunni og mörg ansi skemmtileg verkefni. Veðrið er fallegt og þá er nú alltaf allt aðeins betra, mánudagar geta nefnilega verið mjög góðir dagar ef við bara gerum þá að góðum dögum. 

Besti grauturinn í morgunsárið. Hafragrautur með 1/2 stöppuðum banana, hörfræjum, bláberjum og smá agavesírópi. 
Ristað brauð með osti og sultu er best um helgar en þessi er bestur á virkum dögum. 

Ég vona að þið eigið góðan mánudag framundan kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Sunday, February 16, 2014

Lífið Instagramað @evalaufeykjaran

1. Alltaf gaman að hitta þessa heiðursmenn.
2. Það er svo sannarlega hressandi að koma við á Joe & The Juice og fá sér góðan safa.

 3. Oreo bollakökur með hvítu súkkulaðikremi. Þið finnið uppskriftina hér
4. Fyrir viku síðan þá fór ég út að borða með vinum mínum og fögnuðum við afmæli vinkonu minnar. Og fyrir viku var ég akkúrat hálfnuð með meðgönguna. Það var því tilefni til þess að fara í kjól :)

 5. Morgunbollinn í sveitinni er miklu betri en venjulega. 
6. Fallegt útsýni og sérstaklega fallegur dagur.
 7. Eftir sunnudagslambið þá var leyfilegt að fá sér fyrsta páskaegg ársins í desert. Mér finnst alltaf svo gaman að lesa málshættina, og svo finnst mér auðvitað ekkert leiðinlegt að borða gott súkkulaði.

Ég er endurnærð eftir góða helgi í sveitinni, búin að hafa það mjög fínt. Ég vona að þið hafið haft það gott um helgina og ég vona að vikan ykkar verði góð. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Saturday, February 15, 2014

Fallegur laugardagur, stækkandi magi og pönnukökuveisla.

Við Haddi erum fyrir austan í sælunni og erum búin að eiga ansi ljúfan laugardag. Veðrið er voðlega fínt, það er auðvitað svolítið kalt en nauðsynlegt að fara aðeins út og hressa upp á sig.

Nauðsynlegt að príla svolítið og auðvitað þumalinn upp fyrir því. 
Nú er ég gengin 21 viku með litlu dömuna okkar og ég nota hvaða tækifæri sem er og held utan um stækkandi maga sem ég er svo ánægð með og pósa fyrir myndavélina ;) 


Haddi minn sætur og fínn við Seljalandsfoss. 
Já, það var svolítið kalt en fallegt var það. 
Kaffitími hjá ömmu hans Hadda, pönnukökur með rjóma og sultu. Það allra besta. Ég held svei mér þá að það sé fátt sem slær þessm pönnukökum við.

Njótið helgarinnar - það er eina vitið.

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


Jarðarberja daiquiri

Ég hlakka mikið til að fylgjast með úrslitakvöldinu í Eurovision í kvöld. Ég held svakalega mikið upp á Eurovision og mér finnst alltaf jafn gaman að horfa. Undanfarin ár þá hef ég haldið Eurovision teiti og boðið vinum mínum. Eurovision er ekki allra en það geta nú flestir verið sammála um að það er alltaf gaman að hittast, blanda góða drykki og horfa saman á keppnina. 

Í kvöld kemur í ljós hvaða lag við sendum út í lokakeppnina. Það er því vel við hæfi að bjóða fólkinu ykkar heim í smá teiti. Nú þegar sólin er farin að skína er enn skemmtilegra að bjóða upp á góða drykki. Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að uppáhalds kokteilnum mínum, það kannast sennilega flestir við þennan drykk. Jarðarberja daiquiri er ferskur og sérlega bragðgóður kokteill, hann er mjög einfaldur sem er mikill kostur. Það er ekki nauðsynlegt að hafa áfengi í þessum drykk, hann er jafn góður án þess. 

Þegar að ég var að vinna í bókinni minni þá fannst mér nauðsynlegt að hafa nokkra drykki með, það skapar oft svo skemmtilega stemningu í boðum að bera fram fallega og frískandi drykki (fordrykki). 


Jarðarberja daiquiri
fjögur glös

  • 1 poki frosin jarðarber (500 g)
  • handfylli fersk mynta
  • 4 tsk flórsykur
  • safi úr ½ sítrónu
  • 12-15 cl romm (Má auðvitað sleppa. Mér finnst líka gott að setja kókosvatn í staðinn) 
  • Það er líka gott að setja smávegis af sprite saman við, í lokin.
  • fersk jarðarber til skrauts


Aðferð:

Setjið allt saman í blandara í nokkrar mínútur, hellið í falleg glös
og skreytið með ferskum berjum. Berið strax fram og njótið.


 Ég vona að þið eigið góða helgi kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Friday, February 14, 2014

Oreo bollakökur með hvítsúkkulaðikremi

Oreo bollakökur með hvítsúkkulaðikremi
20 - 24 bollakökur

  • 250 g smjör, við stofuhita 
  • 4 dl sykur 
  • 4 egg 
  • 4 - 5 dl mjólk (eða rjómi) 
  • 6 dl hveiti 
  • 2 - 3 tsk lyftiduft 
  • 1 tsk matarsódi
  • 2 tsk vanilla extract (eða vanillusykur)
  • 16 Oreo smákökur (1 pakki)
Aðferð: 

1. Hitið ofninn í 180°C.(blástur) 
2. Þeytið saman smjör og sykur í þrjár mínútur, bætið einu og
einu eggi saman við. Þeytið vel á milli.
3. Sigtið saman hveiti og lyftiduft a.m.k. þrisvar sinnum. Bætið
hveitiblöndunni, matarsódanum vanillu og mjólkinni saman við og þeytið mjög
vel í nokkrar mínútur þar til blandan verður orðin silkimjúk.
4. Hakkið Oreo smákökurnar í blandara eða þá bara með handaflinu í mjög smáa bita. 
5.Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið í 15-18 mínútur. 

Kælið kökurnar mjög vel áður en að þið smyrjið á þær krem.

Hvítt súkkulaðikrem
  • 220 g smjör, við stofuhita
  • 4 dl flórsykur
  • 2 tsk vanillu extract eða vanillusykur
  • 140 g hvítt súkkulaði
Þeytið saman smjör og flórsykur í nokkrar mínútur, því lengur
sem þið hrærið kremið því betri áferð verður á því. Bræðið hvítt
súkkulaði í vatnsbaði og bætið við smjörkremið ásamt vanillu.
Blandið öllu vel saman þar til kremið verður orðið ansi létt, ef
þið ætlið að nota matarlit þá bætið honum við rétt í lokin.


Ég skreytti kökurnar með Oreo smákökum, einfaldlega vegna þess að ég fæ ekki nóg af þessum kökum. 


Ég mæli með að þið prófið kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir