Sunday, June 22, 2014

Skinkuhorn fyllt með skinku- og beikonsmurosti.


Ég bakaði í fyrsta skipti skinkuhorn um daginn, ég veit ekki afhverju ég hef aldrei bakað þau fyrr því mér finnst þau sérlega góð.  Þessa uppskrift fékk ég hjá henni Kollu Björns en hún er gestur minn í þættinum mínum Höfðingjar heim að sækja annað kvöld á Stöð 2. Í þættinum bakar hún meðal annars dásamlegar bollur upp úr þessari uppskrift. 

Ég var mjög ánægð með útkomuna og almáttugur hvað hornin eru góð nýbökuð, ég gef það ekki upp hvað ég borðaði mörg horn þennan bakstursdag. ;-)  Ég frysti nokkur horn og mikið er gott að geta gripið eitt og eitt horn af og til. Ég mæli þess vegna með að þið prófið þessa uppskrift sem fyrst. Þið getið auðvitað búið til ostaslaufur, ostabollur og pízzasnúða úr þessu deigi. Möguleikarnir eru endalausir.
Það er alveg á hreinu að ég á eftir að baka mikið af brauðmeti í sumar.

Hér kemur uppskriftin og myndir af bakstursferlinu.

Fyllt skinkuhorn

ca. 40 meðalstórn skinkuhorn

 • 900 g. Hveiti
 • 60 g. Sykur
 • ½ tsk. Salt
 • 100 g. Smjör
 • ½ l mjólk
 • 1 pakki þurrger

Ofan á:
 • 1 egg
 • Smá mjólk
 • t.d. rifinn ostur eða korn

Aðferð:

Hitið mjólkina í potti við vægan hita (mjólkin á að vera volg). Bætið þurrgerinu út í mjólkina og látið standa í 4 – 5 mínútur. Bræðið smjörið við vægan hita. Blandið öllu saman og hnoðið deigið vel saman eða þar til deigið er slétt og samfellt. Leyfið deiginu að lyfta sér í 40 – 50 mínútur. Þá hnoðið þið deigið einu sinni enn og leyfið því að lyfta sér í 30 mínútur til viðbótar.

Á meðan deigið er að lyfta sér þá er gott að undirbúa fyllinguna. Þið getið auðvitað fyllt deigið með allskyns góðgæti en í dag erum við að búa til skinkuhorn og þá er skinka auðvitað aðalatriðið.
Hér er innihaldið í þessa einföldu og stórgóðu fyllingu.

 • 1 pakki skinka ca. 250 g
 • 1 askja skinku smurostur
 • 1 askja beikon smurostur
 • Rifinn ostur, magn eftir smekk

Aðferð:
Skerið skinkuna í litla bita og blandið henni saman við smurostinn. 

Þegar deigið er tilbúið þá er því skipt niður í fimm einingar. (um 300 – 330 g hver eining) Fletjið út hverja einingu í hring og skerið hverja einingu í átta þríhyrninga (mér finnst gott að nota pízzahníf). Setjið fyllingu í hvern þríhyrning og dreifið smá osti yfir. Rúllið deiginu frá breiðari endanum þegar þið lokið hornunum. Pískið eitt egg og smá mjólk saman og penslið yfir hornin. Gott er að sáldra rifnum osti eða kornum yfir hornin áður en þau fara inn í ofn.

Bakið hornin við 200°C í 10 – 12 mínútur. (Fylgist vel með hornunum því ofnar eru auðvitað misjafnir)

Njótið vel kæru vinir og ég vona að þið eigið góðan sunnudag framundan. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

14 comments:

 1. Hvað er 1 pakki þurrger mörg grömm?

  ReplyDelete
  Replies
  1. Einn pakki er 12 grömm.

   Bestu kveðjur, Eva

   Delete
 2. 12-14 gr minnir mig :D

  ReplyDelete
 3. Er þetta einn og hálfur líter mjólk eða hálfur líter mjólk?
  ½ l mjólk

  ReplyDelete
 4. Takk!
  En þetta er hálfur liter mjólk, ekki 1 og hálfur :)

  ReplyDelete
 5. Hvar get ég fundið uppskriftina að kjúklingaréttinum sem Kolla gerði í þættinum? :)

  ReplyDelete
 6. Hvað ef deigið hefast ekki, hvað gerði ég rangt?

  ReplyDelete
 7. Guðdómlega gott :) Besta uppskrift sem ég hef prófað.

  ReplyDelete
 8. Dásamleg uppskrift:)

  ReplyDelete
 9. Hvað koma mörg skinkuhorn úr einni uppskrift?

  ReplyDelete
 10. Sæl Eva.

  Ef ég ætla að baka þetta núna en bera fram á sunnudaginn hvernig er þá best að haga því?

  Ég frysti þetta væntanlega en ætti ég að hita þetta eitthvað áður ? Hvað heldur þú að komi best út ?

  Bkv. Elísa

  ReplyDelete
  Replies
  1. Sæl Elísa. Þú getur bæðið tekið þetta út með góðum fyrirvara og svo getur þú líka hitað þau rétt aðeins, mér finnst best að gera það ;)

   Delete