Monday, September 29, 2014

Ljúffenga gúllassúpan

Þetta veður kallar á góða og matarmikla súpu, við þurfum mat sem hlýjar okkur að innan á köldum rigningardögum. Það er eins og hellt sé úr fötu! Ég verð að viðurkenna að það er sérstaklega notalegt að vera heima við á svona dögum, ég þarf þó að koma mér út í matarbúð fljótlega. Mig vantar hráefnin í þessa súpu sem er að mínu mati ein sú allra besta. Gúllas, beikon, rófur og fleiri ljúffeng hráefni saman í eitt. Uppskrift sem klikkar ekki. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru lesendur. 



Gúllasdraumur

Uppskrift miðast á við fjóra til fimm manns.
  • 600 – 700 g nautagúllas
  • 2 msk ólífuolía 
  • 3 hvílauksrif, marin 
  • 1 meðalstór laukur, smátt skorinn
  • 2 rauðar paprikur, smátt skornar
  • 2 gulrætur, smátt skornar
  • 1 sellerístöng, smátt skorinn
  • 1 msk fersk söxuð steinselja
  • 5 beikonsneiðar, smátt skornar
  • 1 ½ l vatn 
  • 2 – 3 nautakraftsteningar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 meðalstór rófa, skorinn í litla bita
  • 5 – 6 kartöflur, skrældar og niðurskornar
  • Salt og pipar, magn eftir smekk 
  • 1 tsk kummin
  • 1 tsk paprikuduft 

Aðferð:

Hitið olíu við vægan hita í potti, mýkið hvítlauk og lauk í smá stund. Bætið nautakjötinu, paprikum, gulrætum, sellerí, steinselju og beikoni saman við og brúnið í 5 – 7 mínútur. Bætið vatninu og teningum saman við, hrærið vel í. Setjið tómatana, tómatpúrru, rófu, karöflur ofan í súpuna. Kryddið til með salti, pipar, paprikukryddi og kummin. Leyfið súpunni að malla í 40 – 60 mín við vægan hita. Berið súpuna fram með brauði og sýrðum rjóma. 

Njótið vel!

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment