Tuesday, September 2, 2014

Ljúffengur lax í rjómasósu með döðlum og sólþurrkuðum tómötum.




September er genginn í garð og það er óhætt að segja að haustið sé komið, það hefur rignt talsvert undanfarna daga (ekki að það hafi ekki rignt í sumar, haha). Rigning og vindur, ég kalla það inniveður og þá er ekkert betra en að matreiða góðan mat. Í gær var svona dagur og mig langaði í eitthvað gott í kvöldmatinn. Ég var búin að lesa þónokkrar uppskriftir sem innihéldu döðlur og sólþurrkaða tómata, ég var aldrei búin að prófa að nota döðlur í matargerð. Ég nota þær óspart í baksturinn og mér finnst þær svakalega góðar einar og sér en ég var ekki komið svo langt að nota þær í matargerðina. Ég átti góðan lax og ég ákvað að prófa að elda hann með döðlum og sólþurrkuðum tómötum. 

Útkoman var ljúffeng, ég á eftir að matreiða þennan rétt mjög oft.  Döðlurnar og sólþurrkuðu tómatarnir gegna lykilhlutverki í þessum rétti en þessi tvenna er svakalega góð. Ég mæli með að þið prófið þennan einfalda og bragðgóða rétt. 

Lax í rjómasósu með döðlum og sólþurrkuðum tómötum. 
  • 500 - 600 g laxabitar (ca. 4 - 5 bitar)
  • olía til steikingar og smá smjörklípa 
  • 1 1/2 dl smátt skorinn púrrlaukur 
  • 10 döðlur, mjúkar og smátt skornar
  • 10 sólþurrkaðir tómatar, smátt skornir
  • 1/2 tsk. timjan 
  • salt og nýmalaður pipar, magn eftir smekk 
  • 2 - 3 dl rjómi.
Aðferð: 

Hitið ofninn í 180°C. Skolið fiskinn og þerrið vel. Hitið olíu á pönnu og steikið laxabitana á hvorri hlið í tvær mínútur. Kryddið laxinn með timjan, salti og pipar. Bætið smjörklípu út á pönnuna rétt í lokin. Leggið laxabitana í eldfast mót og byrjið að undirbúa sósuna. Steikið púrrlauk við meðalhita á pönnunni, bætið síðan döðlum og sólþurrkuðum tómötum saman við og steikið í smá stund. Bætið rjómanum við og blandið öllu vel saman. Það er gott að pipra sósuna svolítið í lokin. Hellið sósunni yfir laxabitana og setjið fiskréttinn inn í ofn við 180°C í 6 - 7 mínútur. 

Berið fiskréttinn fram með góðu salati og kartöflum/hrísgrjónum. Nýjar kartöflur eru svo gómsætar og passa mjög vel með þessum rétti.

Hér koma svo myndir af ferlinu, skref fyrir skref. 














xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment