Friday, October 31, 2014

Æðislegt granóla sem allir ættu að prófa.


Ég er með æði fyrir granóla þessa dagana og mér finnst fátt betra en grísk jógúrt með því í morgunmat eða sem millimál. Það er ferlega einfalt að útbúa það og líka miklu skemmtilegra en að kaupa það tilbúið út í búð. Ég er yfirleitt aldrei með það sama í mínu granóla, ég nota bara það sem ég á til í skápunum hverju sinni. Það er ekkert heilagt við þessa uppskrift sem ég deili með ykkur í dag, hægt er að breyta og bæta hana að vild. Ég þori að lofa því að þið eigið eftir að gera ykkar eigið granóla aftur og aftur.


Ljúffengt granóla
  • 8 dl hafrar
  • 2 dl möndlur
  • 2 dl pekanhnetur
  • 2 dl sólblómafræ
  • 2 dl graskersfræ
  • 2 msk hörfræ
  • 2 dl eplasafi
  • 1 dl kókosolía
  • 2 - 3 msk. gott hunang
  • ½ tsk vanilluduft


Aðferð: Hitið ofninn í 170°C. Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og dreifið múslíinu á plötuna. Bakið í ca. 30 mínútur eða lengur. Fylgist vel með og hrærið nokkrum sinnum í blöndunni á meðan bökunartíma stendur.  Kælið vel áður en þið berið fram. Bætið t.d. þurrkuðum berjum eða kókosflögum við múslíið þegar það kemur út úr ofninum.
Hér fyrir neðan eru myndir sem sýna ykkur aðferðina sem er sérstaklega einföld. 









Nú á ég ljúffengt granóla sem ég hlakka til að fá mér í fyrramálið. Ég vona að þið eigið góða helgi framundan kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Tuesday, October 28, 2014

Pekanbaka


Fyrir rúmlega ári deildi ég þremur uppskriftum í Nýju Lífi. Ég áttaði mig á því áðan að ég er ekki búin að setja inn þessar uppskriftir á bloggið sem er algjör hneisa því þessar uppskriftir eiga það sameiginlegt að vera ljúfengar. Í dag deili ég með ykkur uppskrift að uppáhalds bökunni minni, pekanbökunni dásamlegu. Ég fæ ekki nóg af pekanhnetum og hvað þá ef þú blandar þeim saman við súkkulaði. Þessa böku ættu allir að prófa. Njótið vel!

Pekanbaka með súkkulaði
  • 100 g smjör, við stofuhita
  • 185 g hveiti
  • 1 eggjarauða
  • ¼ tsk salt
  • ½ tsk vanilla extract
  • 2 tsk kalt vatn.


Aðferð:

Hnoðið öllu saman með höndum, sláið deiginu upp í kúlu og geymið í kæli í 15 – 20 mínútur. Stráið smávegis af hveiti á borð og fletjið deigið út, setjið deigið í bökuform og útbúið fyllinguna.

Fylling

  • 50 g smjör, við stofuhita
  • 180 g sykur
  • 220 g ljóst síróp
  • 3 egg
  • 1 tsk. Vanilla extract
  • 130 g súkkulaði, helst dökkt (70%)
  • 170 g pekanhnetur


Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C. Þeytið saman smjör og sykur þar til blandan verður ljós og létt, bætið sírópinu saman við og hrærið í 1 – 2 mínútur. Bætið eggjum saman við, einu í einu og hrærið vel á milli. Saxið súkkulaði og hnetur fremur smátt og bætið saman við ásamt vanillu. Hellið fyllingunni ofan í bökunskelina og bakið við 180°C í 40 – 45 mínútur. Berið bökuna fram með þeyttum rjóma eða ís.


xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Saturday, October 25, 2014

Glútenlausar og gómsætar bláberjapönnukökur


Glútenlausar og gómsætar bláberjapönnukökur
  • 5 dl Finax fínt  mjöl
  • 4 msk brætt smjör
  • 1 tsk. Vínsteinslyftiduft
  • Salt á hnífsoddi
  • 2 tsk. Góð vanilla (vanilla extract eða vanillusykur)
  • 2 dl mjólk
  • 1 ½ dl AB mjólk (eða önnur hrein súrmjólk)
  • 1 – 2 msk sykur
  • 2 – 3 dl bláber (fersk eða frosin)

 Aðferð:
  1. Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt.
  2. Bræðið smjör, leggið til hliðar og kælið.
  3. Pískið eitt egg og mjólk saman. 
  4. Næsta skref er að blanda öllum hráefnum vel saman í skál með sleif. Bætið bláberjum saman við deigið í lokin með sleif.
  5. Leyfið deiginu að standa í 30 - 60 mínútur áður en þið steikið pönnukökurnar.
  6.  Hitið smjör á pönnukökupönnu og steikið pönnukökurnar í ca. mínútu eða tvær á hvorri hlið. Þær eru tilbúnar þegar þær eru gullinbrúnar. 
Berið pönnukökurnar fram með ljúffengu sírópi og ferskum berjum. 



Njótið helgarinnar. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Friday, October 17, 2014

Hollustubröns


Ég elska að fá fjölskyldu og vini í bröns um helgar, það er eitthvað svo notalegt að hefja daginn með girnilegum veitingum í góðum félagsskap. Ég útbjó þennan bröns fyrir þáttinn Meistaramánuð sem sýndur er á Stöð 2 á þriðjudögum. Sumir óttast að ekki sé hægt að skipta óhollari mat út fyrir hollari. Það þarf þó ekki að vera þannig. Hægt er að bjóða upp á hlaðborð með gómsætum og hollum kræsingum. Þetta er bröns að mínu skapi, þó mér þyki beikon og steikt egg góð þá líður mér ekkert alltof vel eftir slíka máltíð. Mér verður hálf flökurt það sem eftir lifir dags og það er nú varla þess virði. 

Hér getið þið séð klippu úr þættinum.

Ég mæli með að þið prófið þessar uppskriftir og njótið með fólkinu ykkar. 


Ávaxtaplatti er alltaf góð hugmynd. Ég fer heldur og kaupi mér ljúffeng ber í staðinn fyrir nammibarinn um helgar. Ljúffeng ber eru nefnilega besta sælgætið. Ég veit ekki með ykkur en ég er alltaf svolítið sparsöm þegar kemur að berjum, þau eru nefnilega ekkert ódýr hér á landi svo ég ligg á mínum berjum eins og ormur á gulli. Passa hvert einasta ber og nýt þess að fá mér þau í morgunmat, sem millimál eða nota þau í desert. 



 Sælkerasalat

150 g klettasalat
2 kúlur Mozzarella ostur
300 – 400 g hráskinka
1 askja kirsuberjatómatar
8 – 10 jarðaber
Ristaðar furuhnetur, magn eftir smekk
Balsamik gljái

Aðferð: Leggið klettasalatið á fallegan disk, skerið Mozzarella ostinn í jafnstóra bita og dreifið ofan á salatið. Setjið hráskinkuna yfir salatið og skerið jarðaber og tómata smátt og dreifið yfir hráskinkuna. Ristið furuhnetur og dreifið yfir í lokin. Gott er að bera salatið fram með balsamik gljáa. 


 Eggjamúffur
8 egg
1 dl mjólk  
1 msk. ólífuolía
salt og nýmalaður pipar
1 rauð papríka
1 græn papríka
1 dl vorlaukur, smátt skorinn
Handfylli spínat
2 – 3 msk. Rifinn ostur t.d. parmesan

Aðferð: Hitið ofninn í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eggin eru þeytt létt saman í skál og því næst bætið þið mjólkinni saman við og kryddið til með salti og pipar. Skerið grænmetið fremur smátt, hitið olíu á pönnu og steikið í smá stund. Blandið grænmetinu saman við eggjablönduna og hrærið. Í lokin bætið þið ostinum saman við. Skiptið blöndunni jafnt niður í bollakökuform og bakið í rúmlega 20 – 25  mínútur eða þar til eggjamassinn er orðinn stífur.




Einföldustu pönnukökur í heimi
4 egg
2 bananar
½ tsk. kanill
¼ tsk. Lyftiduft

Aðferð: Pískið eggin vel saman og leggið til hliðar. Stappið banana og blandið saman við eggin ásamt kanil og lyftidufti. Það er einnig og eiginlega betra að blanda þessu öllu saman í blandara í smá stund. Deigið verður fínna ef sú aðferð er notuð. Hitið t.d. kókosolíu eða smjör á pönnu og steikið pönnukökurnar í örfáar mínútur á hvorri hlið. Njótið með ljúffengu sírópi og ferskum ávöxtum.






 Grænn súpersafi
1 banani
Handfylli spínat
2 dl. Frosið mangó
2 cm. Rifinn engiferrót
1 msk. Chiafræ
200 ml. Eplsafi eða annar vökvi t.d. vatn eða kókosvatn

Aðferð: Allt sett í blandarann í nokkrar mínútur. Berið fram í fallegu glasi og njótið.



xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, October 9, 2014

Út að hlaupa....


Það er ekki annað hægt en að vera glaður með þetta dásamlega haustveður, ég vona auðvitað eins og við öll að við fáum fleiri svona góða daga. Ég tók þessa mynd í gærkvöldi þegar ég var úti að hlaupa, ég varð að stoppa til að njóta fegurðarinnar. Ég hljóp fimm kílómetra í fyrsta skipti í langan tíma. Þetta verð ég að telja svolitla framför þar sem ég fór yfir á hraða skjaldböku fyrir mánuði síðan. Nú get ég hlaupið nokkra kílómetra sem er dásamlegt. Það er einmitt þetta sem ég elska við hlaup, maður bætir sig svo fljótt og vellíðan er svo góð eftir hlaupið.

Hreyfing er mér nauðsynleg, hún bætir orkuna mína og mér líður miklu betur þegar ég er búin að hreyfa mig, þó það sé ekki nema einn göngutúr.  

 Ég tók saman nokkur lög eins og ég hef gert áður hér á blogginu. Það er ferlega gaman að hlusta á góða tónlist og hlaupa... sumir vilja enga tónlist en hún er nauðsynleg fyrir mig. 


Þessi bók er afar góð, mæli með henni. 


xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Friday, October 3, 2014

Prinsessuhornið

Mér finnst mjög gaman að dúllast í horninu hennar Ingibjargar Rósu. Ég var að vísu búin að hengja upp kjóla og skreyta hornið hennar þegar hún var enn í bumbunni. Þó hún hafi ekki vit á þessu blessunin þá er voða gaman að gera fínt í kringum hana. Hér eru nokkrar myndir af horninu hennar.

 Vinkona mín hún Emilía Ottesen tók þessar fallegu myndir af henni þegar hún var tveggja vikna. 

 Kjólarnir hennar eru veggjaskrautið. Ég keypti þessi fallegu box í Söstrene Grene.


 Systir ömmu minnar gerði þessa fallegu skó handa henni. Þeir eru algjört listaverk. 


 Þessir litlu fallegu kjólar eru að sjálfsögðu ekki inn í skáp. Of fallegir til þess. Hún er búin að fá svo marga fína kjóla í gjöf og ég hlakka til þegar hún passar í þessa. 

 Uglan hennar sem hún er svo hrifin af, spiladós sem spilar róandi tóna. 

 Hér er snudduþjálfun.. einmitt. Við erum líklega búin að kaupa allar tegundir en daman er ekkert hrifin af þessu. ;)
Þessi þvottakarfa er algjör dásemd. Mjög þægileg og svo er hún líka falleg. Hún fæst hér
Prinsessan á bauninni. Hún verður þriggja mánaða í næstu viku. Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram og hún stækkar svo hratt. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, October 2, 2014

Instagram @evalaufeykjaran

Ég er dugleg að taka myndir og ég deili svolítið mörgum myndum á Instagram. Af öllum þessum 'öppum' þá er Instagram í uppáhaldi hjá mér. Það er ansi langt síðan að ég deildi nokkrum myndum af Instagram hér á blogginu, svo hér koma nokkrar. 


1. Á myndinni er ég gengin akkúrat 40 vikur og var meira en tilbúin að fá stelpuna okkar i heiminn. (hún kom sex dögum síðar)
2. Fyrsti göngutúrinn. Ótrúlega gaman að fara aðeins út, við Haddi vorum ferlega montin á göngu.


3. Bakað fyrir skírn. Allt bleikt, auðvitað.
4. Fallega litla Ingibjörg Rósa. Hún stækkar svo fljótt!


 5. Ég og Elísa Guðrún vinkona mín í brúðkaupi hjá Emilíu vinkonu okkar. 
6. Systir mín hún Maren Rós. Hún eignaðist sinn fjórða dreng viku eftir að Ingibjörg fæddist. Þvílík barnalukka í fjölskyldunni þetta sumarið! Hér eru þær frænkur að knúsast á kaffihúsi. 


7. Sunnudagsmæðgur .
8. Kvöddum yndislega vin okkar hann Stefán Jóhann. Hann býr í New York sem er alveg agalegt, söknuðurinn er mikill.


9. Ég fór með vinkonum mínum á Justin Timberlake. ÓTRÚLEGA gaman. Það var sérlega skrítið að fara út heila kvöldstund frá lillunni minni en það var mjög gaman að fara aðeins út. 
10. Það er heimsins best að vakna með þessum stuðbolta. 

11. Ég byrjaði á dansnámskeiði, það er eiginlega fáránlega gaman. Hér má sjá mynd af okkur systrum, erum mjög liðugar! 
12. Lúxus hádegisverður. 


13, Hollur og góður bröns. Birta heimsótti mig einn morguninn en Birta stýrir þættinum Meistaramánuður á Stöð 2. Afar skemmtilegur og hvetjandi þáttur sem ég mæli með að þið fylgist með í október. Ég kem svo til með að deila uppskriftum sem verða í þættinum hér á blogginu. Ljúffengar pönnukökur, grænt boozt, heimalagað múslí og meira til. Allt saman hollt og gott. 
14. Ingibjörg Rósa stækkar og stækkar, hún er það besta sem ég á. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir