Friday, October 17, 2014

Hollustubröns


Ég elska að fá fjölskyldu og vini í bröns um helgar, það er eitthvað svo notalegt að hefja daginn með girnilegum veitingum í góðum félagsskap. Ég útbjó þennan bröns fyrir þáttinn Meistaramánuð sem sýndur er á Stöð 2 á þriðjudögum. Sumir óttast að ekki sé hægt að skipta óhollari mat út fyrir hollari. Það þarf þó ekki að vera þannig. Hægt er að bjóða upp á hlaðborð með gómsætum og hollum kræsingum. Þetta er bröns að mínu skapi, þó mér þyki beikon og steikt egg góð þá líður mér ekkert alltof vel eftir slíka máltíð. Mér verður hálf flökurt það sem eftir lifir dags og það er nú varla þess virði. 

Hér getið þið séð klippu úr þættinum.

Ég mæli með að þið prófið þessar uppskriftir og njótið með fólkinu ykkar. 


Ávaxtaplatti er alltaf góð hugmynd. Ég fer heldur og kaupi mér ljúffeng ber í staðinn fyrir nammibarinn um helgar. Ljúffeng ber eru nefnilega besta sælgætið. Ég veit ekki með ykkur en ég er alltaf svolítið sparsöm þegar kemur að berjum, þau eru nefnilega ekkert ódýr hér á landi svo ég ligg á mínum berjum eins og ormur á gulli. Passa hvert einasta ber og nýt þess að fá mér þau í morgunmat, sem millimál eða nota þau í desert. 



 Sælkerasalat

150 g klettasalat
2 kúlur Mozzarella ostur
300 – 400 g hráskinka
1 askja kirsuberjatómatar
8 – 10 jarðaber
Ristaðar furuhnetur, magn eftir smekk
Balsamik gljái

Aðferð: Leggið klettasalatið á fallegan disk, skerið Mozzarella ostinn í jafnstóra bita og dreifið ofan á salatið. Setjið hráskinkuna yfir salatið og skerið jarðaber og tómata smátt og dreifið yfir hráskinkuna. Ristið furuhnetur og dreifið yfir í lokin. Gott er að bera salatið fram með balsamik gljáa. 


 Eggjamúffur
8 egg
1 dl mjólk  
1 msk. ólífuolía
salt og nýmalaður pipar
1 rauð papríka
1 græn papríka
1 dl vorlaukur, smátt skorinn
Handfylli spínat
2 – 3 msk. Rifinn ostur t.d. parmesan

Aðferð: Hitið ofninn í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eggin eru þeytt létt saman í skál og því næst bætið þið mjólkinni saman við og kryddið til með salti og pipar. Skerið grænmetið fremur smátt, hitið olíu á pönnu og steikið í smá stund. Blandið grænmetinu saman við eggjablönduna og hrærið. Í lokin bætið þið ostinum saman við. Skiptið blöndunni jafnt niður í bollakökuform og bakið í rúmlega 20 – 25  mínútur eða þar til eggjamassinn er orðinn stífur.




Einföldustu pönnukökur í heimi
4 egg
2 bananar
½ tsk. kanill
¼ tsk. Lyftiduft

Aðferð: Pískið eggin vel saman og leggið til hliðar. Stappið banana og blandið saman við eggin ásamt kanil og lyftidufti. Það er einnig og eiginlega betra að blanda þessu öllu saman í blandara í smá stund. Deigið verður fínna ef sú aðferð er notuð. Hitið t.d. kókosolíu eða smjör á pönnu og steikið pönnukökurnar í örfáar mínútur á hvorri hlið. Njótið með ljúffengu sírópi og ferskum ávöxtum.






 Grænn súpersafi
1 banani
Handfylli spínat
2 dl. Frosið mangó
2 cm. Rifinn engiferrót
1 msk. Chiafræ
200 ml. Eplsafi eða annar vökvi t.d. vatn eða kókosvatn

Aðferð: Allt sett í blandarann í nokkrar mínútur. Berið fram í fallegu glasi og njótið.



xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

1 comment:

  1. Vá hvað þetta hljómar allt vel - hlakka til að prófa sem flest af þessu :)

    kveðja
    Kristín S

    ReplyDelete