Wednesday, June 26, 2013

Skúffukakan hennar Eddu

Edda kökukona og Björg Sigríður sem sá um að smakka kremið. 

Það er í nægu að snúast þessa dagana hjá okkur fjölskyldunni en það er svo sannarlega alltaf tími fyrir kökuát og smá huggulegheit. Edda hefur boðið okkur upp á svo ljómandi góða skúffuköku að ég verð að fá að deila uppskriftinni með ykkur, þessi kaka er ein sú besta sem ég hef smakkað. Ég segi það satt. 

Kakan er borin fram þegar hún er enn volg með rjóma eða ís. Auðvitað má bera hana fram kalda líka en kakan er stórfengleg þegar hún er volg, best er að drekka ískalda mjólk með. Við höfum held ég öll systkinin dásamað þessa köku í bak og fyrir, enda miklir súkkulaðisælkerar (ég vil ekki segja súkkulaðigrísir, haha). 

Kakan er mjög einföld og á svo sannarlega vel við á svona rigningardögum, mæli með að þið setjið upp svuntuna þegar þið komið heim úr vinnu og skellið í eina Edduköku, kveikið á nokkrum kertum og komið ykkur vel fyrir undir teppi og njótið. Svona dagar eiga einungis, já einungis að fara í notalegheit. 

Eddukaka

3 bollar hveiti
2 bollar sykur
3 egg
 2 bollar venjuleg ab-mjólk
1 bolli olía
5-6 msk Kötlu eðalkakó
 2 tsk lyftiduft
1 tsk natron
nóg af vanilludropum, magn eftir smekk

aðferð: 

Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í bökunarform eða ofnskúffu. Bakið við 175°C í 20 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með og stinga gafli í kökuna til þess að athuga hvort hún sé tilbúin, passið ykkur á því að baka ekki of lengi. Kælið kökuna smávegis áður en þið setjið á hana kremið. 

Sunnudagskaffið. Eplapæið mitt og Eddukakan.
Súkkulaðikrem

200 g smjör
1 pakki flórsykur
5 - 6 msk Kötlu eðalkakó
1/2 kaffibolli 
nóg af vanilludropum, magn eftir smekk

Hitið 200 g af smjöri í potti við vægan hita og bætið hinum hráefnum saman við, hrærið vel í blöndunni í smá tíma. Edda segir að það sé smá þolinsmæðiverk að hræra og ná sléttri og glansandi áferð, en vel þess virði! Hellið kreminu yfir kökuna og skreytið með kókosflögum og kókosmjöli. 



Hermannsdætur. Björg Sigríður, Sigrún, Eva Laufey og Edda, sáttar og sælar eftir kökuátið. 
Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir og ég vona að þið eigið góðan dag. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, June 22, 2013

Morgunbollinn í sveitinni


Morgunkaffið drukkið í sveitinni í ró og næði, þvílíkur draumur. Veðrið er ferlega gott, loksins lét sólin sjá sig. Allt verður svo miklu betra í sólinni, eruð þið ekki sammála? Ég var orðin þreytt á gráum skýjum. Dagurinn í dag fer því í göngur, garðvinnu og notalegheit. 

 Í dag útskrifast nokkrir vinir mínir úr  Háskóla Íslands og mikið sem ég er montin af mínu fólki. Vildi að ég gæti knúsað þau öll í dag en það verður víst að bíða til betri tíma. Hamingjuóskir með daginn þið sem eruð að útskrifast, hipp hipp húrra fyrir ykkur! 

Ég vona að þið eigið góða helgi framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, June 16, 2013

Kókosbolludraumur

Þjóðhátíðardagurinn okkar er á morgun og því er tilvalið að bjóða fjölskyldu og vinum í kaffi. Það er ekkert betra en að eyða deginum með fólkinu sínu, byrja á góðu kaffiboði og rölta saman í bæinn. Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er að dásamlegri kókosbolluköku. Ég er sérstaklega hrifin af marenstertum og þá sér í lagi ef kókosbollur fá að vera með. Marens, rjómi, súkkulaði og fersk ber. Það getur nú varla verið betra. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift, hún er af einföldustu gerð og slær alltaf í gegn. 
 Kókosbolludraumur
Þessi uppskrift miðast við 10 - 12 manns. 

Marensbotn:

3 eggjahvítur
200 g sykur
1 tsk lyftiduft
3 dl Rice krispies

Þeytið eggjahvítur, bætið sykri út í og stífþeytið. Myljið Rice krispies og blandið því og lyftidufti varlega saman við eggjahvíturnar. Dreifið úr blöndunni á plötu með bökunarpappír. Bakið við 150°C í 60 mínútur. Kælið botninn vel áður en þið setjið á hann kremið.

Kókosbollukrem:

8 kókosbollur (2 pakkar)
½ l rjómi
½ tsk vanillusykur
3 tsk flórsykur
Fersk ber t.d. jarðarber og bláber

Aðferð:

Skerið kókosbollurnar í litla bita og dreifið jafnt yfir marensbotninn. Þeytið rjóma og bætið flórsykri og vanillu saman við. Smyrjið rjómanum ofan á botninn. Skreytið kökuna að vild t.d. með bláberjum og jarðarberjum. Bræðið ef til vill smávegis af súkkulaði yfir vatnsbaði og dreifið yfir berin, súkkulaðið setur punktinn yfir i-ið. 

 Fánalitirnir okkar fá að njóta sín í kökunni og því er tilvalið að bera hana fram á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Þið getið notað hvaða ber sem þið viljið auðvitað, mér finnst kakan best með jarðarberjum og bláberjum. Hægt er að fá ljúffeng íslensk ber í flestum verslunum um þessar mundir, þau þykir mér langbest. 

 Sumarvinnan mín byrjar á morgun, þá fer ég í mitt fyrsta flug svo ég verð fjarri fjölskyldunni á morgun. Í dag er ég þó búin að njóta dagsins með stórfjölskyldunni. Byrjaði á kökukaffi í vesturbænum hjá Eddu systir og svo hér heima á Skaganum í kjötsúpuveislu hjá mömmu. Það er svo mikilvægt og gott að vera með fjölskyldunni, við eigum að nýta hvert einasta tækifæri sem við höfum og gera eitthvað huggulegt saman. Ég hvet ykkur til þess að setja upp betri svuntuna, baka eina köku og bjóða fólkinu ykkar í kökukaffi á morgun.


Ég vona að þið hafið það sem allra best kæru vinir, ég vil enn og aftur þakka ykkur fyrir fallegar kveðjur og skilaboð undanfarna daga. Ómetanlegt að eiga svo mikið af góðu fólki. Risaknús til ykkar allra. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, June 13, 2013

Falleg blóm

Heimilið er yfirfullt af fallegum blómum og fallegum kertum. Það er ómetanlegt að eiga svona marga góða einstaklinga í kringum sig á ansi erfiðum tímum. Ég kemst ekki yfir það hvað ég er heppin að eiga allt þetta góða fólk. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, June 9, 2013

04.06.13

Ég er svo ótrúlega rík að hafa átt tvo pabba í mínu lífi. Þann fjórða júní kvaddi þessi einstaki maður þennan heim, alltof snemma. Fjörið var rétt að byrja hjá okkur. Ég er svo þakklát  fyrir þann tíma sem við áttum saman sem var einstaklega ljúfur. Minningarnar um yndislegan mann sem ég á eftir að sakna óskaplega mikið lifa að eilífu.

 Mig langar svo að þakka ykkur vinum mínum og lesendum fyrir fallegar kveðjur.  Ég met þess mikils og kveðjurnar ylja svo sannarlega hjartað.

Risaknús tilbaka á ykkur öll.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sunday, June 2, 2013

Bókin, lautarferð og flugið.

 Elsku vinir, ég vona að þið afsakið bloggleysið hjá mér undanfarna daga. Ég er á fullu að leggja lokahönd á bókina mína, semsé allt skriflegt efni. Ég skila því af mér á næstu dögum. Maginn á mér er yfirfullur af fiðrildum, aðallega góðum þó svo að smá stress poppi upp af og til. Þetta er spennandi og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. 

Maturinn hér að ofan er hins vegar fyrir Gestgjafann, ég er að setja saman ljúffenga lautarferð. Ég er búin að vera mjög spennt fyrir þessu verkefni og ég hlakka til að fara með vinum mínum í lautarferð í sumar. Maður gerir alltof lítið af því! Ég er að leggja lokahönd á textann, maturinn er klár og því fer ég bráðlega suður með þessa veislu í myndatöku. Ég kem auðvitað til með að setja inn myndir á Instagram svo endilega fylgist með þar. Finnið mig undir evalaufeykjaran.

Á morgun byrjar  upprifjunarnámskeiðin í fluginu og eftir viku verð ég á leiðinni til Seattle. Það má með sanni segja að næstu dagar verða fjörugir og nóg að gera, sem er bara rosa gott. En nú ætla ég að drekka fimmta kaffibollan minn í morgun og klára þennan texta svo ég geti drifið mig suður. 

Við heyrumst fljótlega elsku vinir og ég vona að þið eigið ljúfan sunnudag. 

xxx

Eva Laufey Kjaran