Edda kökukona og Björg Sigríður sem sá um að smakka kremið. |
Það er í nægu að snúast þessa dagana hjá okkur fjölskyldunni en það er svo sannarlega alltaf tími fyrir kökuát og smá huggulegheit. Edda hefur boðið okkur upp á svo ljómandi góða skúffuköku að ég verð að fá að deila uppskriftinni með ykkur, þessi kaka er ein sú besta sem ég hef smakkað. Ég segi það satt.
Kakan er borin fram þegar hún er enn volg með rjóma eða ís. Auðvitað má bera hana fram kalda líka en kakan er stórfengleg þegar hún er volg, best er að drekka ískalda mjólk með. Við höfum held ég öll systkinin dásamað þessa köku í bak og fyrir, enda miklir súkkulaðisælkerar (ég vil ekki segja súkkulaðigrísir, haha).
Kakan er mjög einföld og á svo sannarlega vel við á svona rigningardögum, mæli með að þið setjið upp svuntuna þegar þið komið heim úr vinnu og skellið í eina Edduköku, kveikið á nokkrum kertum og komið ykkur vel fyrir undir teppi og njótið. Svona dagar eiga einungis, já einungis að fara í notalegheit.
Eddukaka
3 bollar hveiti
2 bollar sykur
3 egg
2 bollar venjuleg ab-mjólk
1 bolli olía
5-6 msk Kötlu eðalkakó
2 tsk lyftiduft
1 tsk natron
nóg af vanilludropum, magn eftir smekk
aðferð:
Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í bökunarform eða ofnskúffu. Bakið við 175°C í 20 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með og stinga gafli í kökuna til þess að athuga hvort hún sé tilbúin, passið ykkur á því að baka ekki of lengi. Kælið kökuna smávegis áður en þið setjið á hana kremið.
Sunnudagskaffið. Eplapæið mitt og Eddukakan. |
Súkkulaðikrem
200 g smjör
1 pakki flórsykur
5 - 6 msk Kötlu eðalkakó
1/2 kaffibolli
nóg af vanilludropum, magn eftir smekk
Hitið 200 g af smjöri í potti við vægan hita og bætið hinum hráefnum saman við, hrærið vel í blöndunni í smá tíma. Edda segir að það sé smá þolinsmæðiverk að hræra og ná sléttri og glansandi áferð, en vel þess virði! Hellið kreminu yfir kökuna og skreytið með kókosflögum og kókosmjöli.
Hermannsdætur. Björg Sigríður, Sigrún, Eva Laufey og Edda, sáttar og sælar eftir kökuátið. |
Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir og ég vona að þið eigið góðan dag.
xxx
Eva Laufey Kjaran