Sunday, June 16, 2013

Kókosbolludraumur

Þjóðhátíðardagurinn okkar er á morgun og því er tilvalið að bjóða fjölskyldu og vinum í kaffi. Það er ekkert betra en að eyða deginum með fólkinu sínu, byrja á góðu kaffiboði og rölta saman í bæinn. Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er að dásamlegri kókosbolluköku. Ég er sérstaklega hrifin af marenstertum og þá sér í lagi ef kókosbollur fá að vera með. Marens, rjómi, súkkulaði og fersk ber. Það getur nú varla verið betra. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift, hún er af einföldustu gerð og slær alltaf í gegn. 
 Kókosbolludraumur
Þessi uppskrift miðast við 10 - 12 manns. 

Marensbotn:

3 eggjahvítur
200 g sykur
1 tsk lyftiduft
3 dl Rice krispies

Þeytið eggjahvítur, bætið sykri út í og stífþeytið. Myljið Rice krispies og blandið því og lyftidufti varlega saman við eggjahvíturnar. Dreifið úr blöndunni á plötu með bökunarpappír. Bakið við 150°C í 60 mínútur. Kælið botninn vel áður en þið setjið á hann kremið.

Kókosbollukrem:

8 kókosbollur (2 pakkar)
½ l rjómi
½ tsk vanillusykur
3 tsk flórsykur
Fersk ber t.d. jarðarber og bláber

Aðferð:

Skerið kókosbollurnar í litla bita og dreifið jafnt yfir marensbotninn. Þeytið rjóma og bætið flórsykri og vanillu saman við. Smyrjið rjómanum ofan á botninn. Skreytið kökuna að vild t.d. með bláberjum og jarðarberjum. Bræðið ef til vill smávegis af súkkulaði yfir vatnsbaði og dreifið yfir berin, súkkulaðið setur punktinn yfir i-ið. 

 Fánalitirnir okkar fá að njóta sín í kökunni og því er tilvalið að bera hana fram á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Þið getið notað hvaða ber sem þið viljið auðvitað, mér finnst kakan best með jarðarberjum og bláberjum. Hægt er að fá ljúffeng íslensk ber í flestum verslunum um þessar mundir, þau þykir mér langbest. 

 Sumarvinnan mín byrjar á morgun, þá fer ég í mitt fyrsta flug svo ég verð fjarri fjölskyldunni á morgun. Í dag er ég þó búin að njóta dagsins með stórfjölskyldunni. Byrjaði á kökukaffi í vesturbænum hjá Eddu systir og svo hér heima á Skaganum í kjötsúpuveislu hjá mömmu. Það er svo mikilvægt og gott að vera með fjölskyldunni, við eigum að nýta hvert einasta tækifæri sem við höfum og gera eitthvað huggulegt saman. Ég hvet ykkur til þess að setja upp betri svuntuna, baka eina köku og bjóða fólkinu ykkar í kökukaffi á morgun.


Ég vona að þið hafið það sem allra best kæru vinir, ég vil enn og aftur þakka ykkur fyrir fallegar kveðjur og skilaboð undanfarna daga. Ómetanlegt að eiga svo mikið af góðu fólki. Risaknús til ykkar allra. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

No comments:

Post a Comment