Þegar
að kökulöngunin bankar á dyrnar, þá er gott að skella í einfalda uppskrift af
súkkulaðibitakökum. Það er eitthvað svo sérstaklega gómsætt við þær. Best er að
borða þær nýbakaðar með ískaldri mjólk. Tvenna sem klikkar aldrei. Uppskriftin
er frekar stór og gerir rúmlega 30 kökur. Í þetta skiptið frysti ég helmingin
af deiginu til þess að geta gripið í og skellt í ofn þegar að góða gesti ber að
garði, eða einfaldlega þegar kökulöngunin kallar
Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir. Ég þori að veðja á að þið eigið eftir að verða stórhrifin af þessum kökum!
Amerískar súkkulaðibitakökur með litríkum súkkulaðiperlum
- 2 egg
- 230 g smjör
- 400 g sykur
- 3 tsk vanillusykur
- 320 g Kornax hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- salt á hnífsoddi
- 1 tsk matarsódi
- 1 poki litríkar súkkulaðiperlur frá Nóa Síríus
- 1 poki súkkulaðihnappar frá Nóa Síríus
- Hitið ofninn í 180°C (blástur)
- Þeytið saman smjör, sykur og egg þar til blandan verður létt og ljós.
- Blandið þurrefnum saman við og þeytið. Gott er að stoppa einu sinni til tvisvar og skafa meðfram hliðum svo allt blandist vel saman.
- Blandið súkkulaðiperlum og súkkulaðihnöppum saman við og blandið saman með sleif.
- Ég notaði tvær matskeiðar til þess að móta kökurnar. Setjið kökurnar á pappírsklædda ofnskúffu og bakið við 180°C í 10 - 12 mínútur.
- Kælið kökurnar svolítið áður en þið berið þær fram, mér finnst sérlega gott að bræða svolítið súkkulaði og dreifa yfir kökurnar í lokin. Það gefur kökunum þetta extra!
Uppskriftin að þessum kökum má finna í bókinni minni, Matargleði Evu. Ég notaði reyndar annað súkkulaði í þá uppskrift. Það er gaman að prófa sig áfram með allskyns gúmmilaði í þessa uppskrift.
Litríkt og fallegt deig.
Kökurnar nýkomnar úr ofninum og búnar að fá súkkulaði sjæningu. Þá er ekkert annað í stöðunni en að fá sér nokkrar kökur, já nokkrar og njóta.
Mér finnst mjög gott að dýfa kökunum ofan í mjólkurglasið mitt. Fullkomin tvenna.
Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift um helgina kæru vinir og munið að njóta, til þess er nú elsku baksturinn!
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir
Ekkert smá girnilegt, verð að prófa þessar. En hvar fékkstu þennan mælibolla/pott :)
ReplyDeleteKv. Sigríður Kristjánsdóttir