Thursday, June 19, 2014

Fullkominn lax með hnetukurli. Höfðingjar heim að sækja - Anna Svava Knútsdóttir.

 Í Höfðingjum heim að sækja sótti ég leikkonuna Önnu Svövu heim. Anna og unnusti hennar Gylfi, reka vinsælu ísbúðina Valdísi sem hefur heldur betur slegið í gegn. Ég fékk að fylgjast með þeim bæði í Valdísi og heima í eldhúsi þar sem þau töfruðu fram lax með gómsætu meðlæti. Það var sérstaklega gaman að eyða deginum með þessu góða fólki og það var alls ekki leiðinlegt að fá að smakka á gómsætum ís í Valdísi. Ég mæli með að þið prófið þennan fiskrétt og farið svo beinustu leið í ísbúðina.



Fullkominn lax með ljúffengu hnetukurli.
  •          1 laxaflak, ca. 1 kg.
  •          Olía
  •          Salt og pipar

Aðferð: Skolið fiskinn vel og skerið í jafn stóra bita. Hitið olíu á pönnu og steikið laxabitana á hvorri hlið í 2 mínútur. Kryddið laxinn með salti og pipar. Það getur verið gott að kreista smá sítrónusafa yfir pönnuna rétt í lokin. Leggið laxabitana í eldfast mót og dreifið hnetukurlinu yfir. Setjið laxinn inn í ofn við 180°C í 8 – 10 mínútur.

Hnetukurl.

  •          70 g. Pekanhnetur, smátt saxaðar
  •          70 g. Heslihnetur, smátt saxaðar
  •          Handfylli Steinselja, smátt söxuð
  •          1 msk. Ólífuolía

Aðferð: Blandið öllu saman í skál og dreifið yfir laxabitana áður en þeir fara inn í ofn.

Ljúffengt rótargrænmeti með eplum og fersku dilli.
  •         1 rauðrófa (frekar stór eða tvær litlar)
  •         1 meðalstórt grasker
  •         1 sæt kartafla (fremur stór eða tvær litlar)
  •         1 - 2 msk. ólífuolía   
  •         1 rautt epli, skorið í þunnar sneiðar
  •         1 – 2 msk. Dill, smátt saxað
  •         Spínat, magn eftir smekk
  •         Baunaspírur, magn eftir smekk
  •         Sítrónusafi
  •         Salt og pipar, magn eftir smekk

Ofninn hitaður í 200°C. Rótargrænmetið er skorið fremur smátt og raðað í eldfast mót. Passið ykkur á að blanda grænmetinu ekki saman vegna þess að það kemur svo sterkur litur af rauðrófunni og hún smitar í hitt grænmetið sem við viljum helst ekki. Hellið olíu yfir grænmetið og kryddið til með salti og pipar. Setjið inn í ofn og bakið í 35 – 40 mínútur. Þegar grænmetið er tilbúið þá bætið þið spínatinu, eplabitum, baunaspírum og dilli saman við og blandið öllu vel saman. Gott er að kreista smá sítrónu yfir grænmetið í lokin. 

Jógúrtsósa
  •          1 dós grískt jógúrt (350 ml)
  •          1 – 2 msk. Ferskur graslaukur, smátt saxaður
  •          2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  •          Salt og nýmalaður pipar

Blandið öllu saman í skál og bragðbætið með salti og pipar. Einnig er mjög gott að bæta hunangi eða agave sírópi í þessa sósu. En það er auðvitað smekksatriði. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15 – 20 mínútur áður en hún er borin fram.

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


No comments:

Post a Comment