Saturday, September 8, 2012

Spínatbaka


Quiche er komið frá Frökkum. Dásamlegar bökur fylltar með ýmsu góðgæti. 
Ég fór til Frakklands í fyrrasumar og smakkaði margar útgáfur af Quiche, þeir kunna svo sannarlega að gera góðar bökur. 

Mér finnst agalega gott að fá mér Quiche af og til, það getur líka verið gott að gera mikið í einu ef þið eruð í stuði og eiga í frystinum. Það er ansi gott að grípa eina og eina sneið úr frystinum þegar að maður nennir ekki alveg að elda eða þá til þess að taka með í nesti í skólann/vinnuna. 

Hægt er að nota hvað sem er í þessar bökur, bara það sem er til í ísskápnum hverju sinni. 
Uppskriftin sem ég deili með ykkur í dag er ansi einföld og ég vona að þið eigið eftir að prufa. 
Ég geri stundum þessa böku, eða böku svipaða og þessa um helgar. Tilvalið að bjóða upp á þessa böku  í brunch-boði ef þú ert að halda slíkt eða þá að fara með í saumaklúbbinn. Enginn verður svikinn af ljúffengri böku, svo mikið er víst. 

 Spínatbaka


Uppskrift miðast á við þrjá - fjóra. 

Deig: 
2 bollar grófmalað spelt, (á myndinni fyrir neðan sjáið þið stærðina á bollanum sem ég nota. En bollinn rúmar 237 ml )
100 g smjör, skorið í teninga
80 ml kalt vatn
Salt & pipar

Fylling:
4 egg
80 ml mjólk
handfylli spínat
chorizo, magn eftir smekk
1/4 paprika
2 - 3 msk blaðlaukur, fínt saxaður
Rifinn ostur, magn eftir smekk
1/2 tsk hvítlaukskrydd
Salt & nýmalaður pipar eftir smekk

Aðferð: 


 Skerið smjörið í litla teninga, blandið smjörinu, speltinu og saltinu saman með höndunum.
Bætið síðan vatninu saman við smám saman.


Smjörteningarnir þurfa að blandast vel saman við hveitið, á myndinni hér fyrir ofan þá er blandan nánast tilbúin. 
Svo er bara að slá deiginu upp í myndarlega kúlu, setja plastfilmu utan um og geyma inn í ísskáp í 30 - 60 mín. 
Fletjið deigið út og í bökuformið. Ég notaði frekar lítið bökunarform í þetta sinn, var jafn stórt og ca. stór matardiskur. Ég lét bökunarpappír undir deigið svo það myndi ekki festast við formið. 
Potið í deigi með gaffli og inn í ofn í 8 - 10 mínútur. 

Þið getið notað hvað sem er! Bara það sem þið eigið ísskápnum hverju sinni. Ég notaði spínat, papriku, blaðlauk og chorizo að þessu sinni. Ég skar grænmetið og chorizo smátt niður, raðaði ofan í bökunarskelina og hellti eggjablöndunni yfir. 

Eggjablanda: pískið fjögur egg léttilega, bætið mjólkinni og kryddinu saman við. 

Grænmetið, chorizo, eggjablandan og osturinn kominn á sinn stað. Fínt er að sáldra smá kryddi yfir ostinn að lokum. Bakið í ca. 35 - 40 mínútur eða þar til osturinn er orðinn fallega brúnn. 
Svona lítur bakan út eftir bakstur.




Mæli með að þið berið bökuna fram með salati, fetaost og léttri sósu t.d. jógúrtsósu (grískt jógúrt, hvítlaukur, pipar og agúrka) 

Ég vona að þið njótið vel. Góða helgi, gerið nú vel við ykkur um helgina í mat og drykk. Þið eigið það skilið. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

3 comments:

  1. Ó hvað ég varð svöng af því að sjá þessar myndir. :)
    Kveðja
    Kristín Sig.

    ReplyDelete
  2. Eva þú ert snillingur
    Kv. Birta Líf

    ReplyDelete
  3. Á hvaða hita? það kemur hvergi fram

    ReplyDelete