Tuesday, September 11, 2012

Súkkulaði cupcakes með súkkulaðikremi


..... a piece of happiness



 Fyrir fimm árum þá fæddist dásamlegur prins hann Kristían Mar Kjaran, systursonur minn. Hann er mikið afmælisbarn og ég hefði óskað þess að eyða með honum afmælisdeginum. Það er agalega erfitt að prinsarnir mínir búi í Noregi. Þeir eru þrír prinsar í Noregi, ólíkir og skemmtilegir bræður sem gjörsamlega bræða frænku sína. Þeir eru miklir sælkerar, sérlega Kristían.
 Okkur finnst fátt skemmtilegra en að baka saman, þeir setja á sig svuntu og vilja taka þátt í bakstrinum. 

Súkkulaðikökur eiga svo sannarlega við á afmælisdögum, skreyttar súkkulaðikökur í öllum regnbogans litum. Kökurnar fanga augað og eru svo sannarlega hamingjukökur. 


Þessar kökur eru einfaldar og vissulega ljúffengar. 
Ég fékk tólf kökur úr uppskriftinni, þetta voru frekar stórar bollakökur hjá mér í þetta sinn.


 Súkkulaði cupcakes 


2 egg
115 g smjör, við stofuhita
180 g hveiti 
200 g sykur 
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 tsk vanilla extract
60 g kakó
240 ml uppáhellt kaffi (sterkt)

Aðferð 

Vinnið sykur og smjör vel saman þar til létt er og ljóst. Setjið eggin saman við eitt í einu og vinnið vel saman á milli. Blandið uppáhelltu kaffi og kakóinu saman í skál, setjið það til hliðar og kælið vel áður en þið blandið því saman við eggjablönduna. 
Setjið þurrefnin og vanilludropana saman við eggjablönduna og vinnið rólega í ca. tvær mínútur.  Að lokum bætið þið súkkulaðiblöndunni saman við, í tveimur pörtum. 
Vinnið rólega saman þar til gott deig er komið. 
Skiptið deiginu niður í tólf kökuform. Bakið við 180°C í 18 - 20 mínútur. 

Kælið kökurnar í lágmark 30 mínútur áður en þið skreytið þær með súkkulaðikremi 
(ég svindla stundum og læt þær í frysti í smá stund.. bara ef ég er að flýta mér) Annars er alltaf best að baka í huggulegheitum og vera ekkert í neinu stressi. 


Flestar súkkulaðikökur eru langbestar með góðu súkkulaðikremi, helst bara þessu klassíska smjörkremi sem við þekkjum nú langflest. 

Súkkulaðikrem 

200 g smjör, við stofuhita
3 1/2 dl flórsykur 
2 - 3 msk uppáhellt kaffi, vel sterkt og kalt 
1 tsk vanilla extract 
50  g kakó

Aðferð 

Blandið öllu saman í kremið og vinnið í ca. 4 - 5 mín. þar til kremið fer aðeins að lýsast og verða létt. Smakkið ykkur til, ég hvet ykkur til þess. Ef ykkur finnst kremið of þykkt þá bætið þið meiri vökva t.d. meiri kaffi og ef ykkur finnst kremið of þunnt þá bætið þið meiri flórsykri saman við. 

Sprautið kreminu á kökurnar og skreytið að vild! 

 Litríkt skraut sem gleður augað 






Það er ómissandi að drekka ískalda mjólk með súkkulaðiköku. Mjólkin verður enn betri ef hún er drukkin með svona fínu röri. Þessi rör keypti ég í Magnolia Bakery í New York. Ég hef ekki séð þau hér heima fyrir en ef þið hafið rekist á þau þá megið þið endilega benda mér á. 
Mér finnst þau svo falleg og gamaldags. 




Það skiptir ekki máli á hvaða aldri við erum.. ég held að við getum flest verið sammála um að góð súkkulaðikaka er tímalaus klassíker og á alltaf vel við.
Einn biti af kökunni og einn sopi af mjólk bætir og kætir.


Prinsarnir mínir þrír. 

Daníel Mar, Kristían Mar og Steindór Mar. Ég er svo heppin að eiga þá, mínir strákar sem ég elska út af lífinu. Hlakka svo mikið til að sjá þá og knúsa, sem ég vona að verði sem allra fyrst.

Ég vona að þið eigið góðan dag kæru lesendur

xxx

Eva Laufey Kjaran

8 comments:

  1. Flottar kökur.
    Eru þessi rör ekki farin að fást í Söstrene Grene? Kannski misminnir mig, en einhver af dúlleríisbúðunum hlýtur að vera farin að flytja þau inn.
    Kveðja
    Kristín Sig

    ReplyDelete
  2. http://www.pappirsfelagid.is/?cat=16
    Hér er verið að selja svona rör :)

    ReplyDelete
  3. Vá en flottar :)
    annars langaði mig að spyrja þig um páskakökuna gulu og kremið, ég sendi þér fyrirspurn á netfangið sem er gefið á forsíðunni;
    Hvaða hvítsúkkulaðikrem ertu að nota á kökuna og þá í hvaða magni?

    Með kveðju og takk fyrir brill síðu,
    Ragnheiður

    ReplyDelete
    Replies
    1. Ég notaði hvítsúkkulaðikremið sem er hér á síðunni til hliðar, þegar að ég geri svona stórar kökur þá er nauðsyn að tvöfalda þá uppskrift :) Takk fyrir að skoða síðuna elsku Ragnheiður

      Delete
  4. Takk innilega! Ætla aldeilis að slá um mig með því að reyna að herma eftir fegurðinni um helgina :)
    Kv. Ragnheiður

    ReplyDelete
  5. mmmmm
    eg ðrufaði þessa og hún er algjörtt æði , ég geri hana aftur :D

    ReplyDelete
  6. Rörin fást í Radísu í Hafnarfirði :)

    ReplyDelete
  7. Bestu muffins sem ég hef smakkað og það þarf ekki einu sinni krem á þær, eru svo góðar án þess, takk fyrir

    ReplyDelete