Monday, April 29, 2013

Mánudagsfjör.

Helgar rósirnar mínar sem eru svo fallegar. 

Þá er ný vika gengin í garð, ég hef það á tilfinningunni að þetta verði góð vika. Það boðar alltaf gott að vakna við það að sólin skín í gegnum gluggann. Það er vika síðan að ég skrifaði undir minn fyrsta útgáfusamning og það er ekki langt í að ég skili bókinni frá mér. Þessi vika verður tileinkuð skrifum og prufum í eldhúsinu, það eru algjör forréttindi að fá að gera það sem manni þykir skemmtilegast. Að því sögðu þá ætla ég að hita mér meira kaffi og spýta í lófana, þessir kaflar skrifa sig ekki sjálfir. 

Ég vona að þið eigið ljúfa viku framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, April 28, 2013

Syndsamlega góð Rice Krispies kaka.


Í gær  kom yfir mig svakaleg köku löngun, þá sjaldan sem það nú gerist. Ég átti von á gestum um kvöldið svo ég ákvað að gera Rice Krispies köku, ég fékk þessa uppskrift hjá vinkonu minni fyrir nokkrum árum og ég geri þessa köku reglulega. Það tekur enga stund að búa til kökuna og í öll skipti sem ég hef boðið upp á þessa köku þá hefur hún vakið lukku. Það er mjög erfitt að standast súkkulaðihjúpað Rice Krispies, það er svo syndsamlega gott. 

Rice Krispies kaka með bönunum og karamellusósu. 

Botn:
100 g smjör
100 g suðusúkkulaði
100 g Mars súkkulaði
4 msk síróp
5 bollar Rice Krispies 

Bræðið smjör við vægan hita, setjið súkkulaðið saman við og leyfið því að bráðna. Bætið sírópinu því næst og hrærið vel saman, passið að hafa vægan hita svo blandan brenni ekki. Þegar allt er orðið silkimjúkt þá er gott að blanda Rice Krispies út í. Hellið blöndunni í form og leyfið botninum að kólna í kæli í lágmark 15 mínútur. 

Krem og karamellusósa. 

Þeytið lítinn pela af rjóma og skerið tvo banana í litla bita. Setjið bananabitana ofan á kökubotninn og dreifið síðan rjómanum yfir. 

Karamellusósu. 

1 poki Góa kúlur
1/2 dl rjómi

Bræðið Góa kúlurnar við vægan hita í rjómanum. Setjið karamellusósuna í kæli í smá stund áður en þið setjið ofan á rjómann, það er mjög mikilvægt að sósan sé ekki oft heit því þá er hættan sú að rjóminn fari að leka til og það viljum við svo sannarlega ekki. Gott er að geyma kökuna í kæli í 30 mín - 60 mín áður en að hún er borin fram. 


Eins og þið sjáið þá verður þetta varla einfaldara, ég get eiginlega lofað ykkur því að þið verðið ekki svikinn af þessari köku. Ég mæli með að þið setjið upp betri svuntuna og bjóðið upp á þessa köku með sunnudagskaffinu. 

Ég vona að þið njótið vel kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, April 25, 2013

Hressandi sumarsafi með avókadó.

Ég er alltaf að prófa mig áfram í safagerð og mér finnst það frekar skemmtilegt, ég er svo ánægð þegar þeir heppnast vel. Ég orðin verulega háð avókadó, borða það helst á hverjum degi. Það er bæði svakalega hollt og einstaklega gott, því ákvað ég að búa til safa með avókadó sem heppnaðist svakalega vel. 

 Græni súpersafinn. 

500 ml ískalt vatn
safi úr 1/2 sítrónu
2 sellerí stilkar, skornir í bita
1/2 agúrka, skorinn í bita
handfylli spínat
1 dl ferskt eða frosið mangó í bitum
1 avókadó 

 1. Byrjið á því að skera hráefnið. 
2. Setjið vatn í blandarann, 500 ml ískalt vatn. 
3. Bætið hráefninu saman við vatnið í pörtum, ég læt fyrst agúrkuna og sellerí, leyfi því að hakkast algjörlega áður en ég læt hitt hráefnið saman við. Það tekur góðar 3 - 4 mínútur að blanda safanum vel saman.

 4. Ég sía safann  í gegnum sigti áður en ég drekk hann, þess þarf auðvitað ekki.
5. Hellið safanum í glas og njótið vel.

 Fallegur grænn safi yfirfullur af hollustu. Ég vona þið eigið dásamlegan dag kæru vinir og takk fyrir veturinn. Nú bíður okkar stórgott sumar handan við hornið :-)

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, April 22, 2013

Útgáfusamningur!

Þessi dagur er aðeins betri en aðrir dagar. Í morgun kvittaði ég undir útgáfusamning að matreiðslubók Evu. Mjög skemmtileg tilfinning og spennandi tímar framundan. Ég er svo óskaplega þakklát að hafa fengið þetta tækfæri, ég þakka nú góðum lesendum fyrir að hafa fylgt mér og án ykkar hefði ég ekki verið að skrifa undir útgáfusamning í dag. 

Ég átti svolítið erfitt með að einbeita mér að próflestri í dag, fiðrildin eru svo mörg í maganum á mér. Það verður gott og gaman að klára prófin svo ég geti einbeitt mér að bókarskrifum. Þið fáið auðvitað að fylgjast grannt með þessu ferli, þetta verður spennandi. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, April 20, 2013

Sveitasæla og bananabrauð.


Vikan flaug áfram og var yfir full af verkefnum sem er gott og blessað, en engu að síður þá hafði ég ekki mikinn tíma til þess að stíga fæti inn í eldhús og því hef ég verið ódugleg að setja uppskriftir hingað inn í vikunni. Að vísu gerði ég mjög fínan spaghettí rétt sem ég ætla að deila með ykkur seinna í dag.

Nú er ég komin upp í sumarbústað og ætla að vera hér yfir helgina. Helgin er tileinkuð skrifum og lærdómi. Það góða við að vera upp í bústað er að nettenging er af skornum skammti og ég fæ ekki þá löngun að skrúbba allt og bóna. Í próflestri þá heillar ekkert meira en að byrja að þrífa fyrir sumarið, ég ræð ekki við mig og verð að sortera fataskápinn áður en ég glósa, bara VERÐ.  Hér í sveitinni er ekki fataskápur og  það er heldur ekkert sérlega skemmtilegt veður svo ég sit bara hér á náttfötunum og er búin að vera að skrifa í morgun. Eftir hádegi ætla ég að skipta yfir í lærdóminn.

Það má nú samt ekki gleyma því að það er helgi og því nauðsyn að gera svolítið vel við sig, á eftir ætla ég að  baka mér gott bananabrauð , það er svo gott með lestrinum. (allt fyrir lesturinn)

Ég vona að þið eigið góða helgi framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran.

Thursday, April 18, 2013

Brauðbakstur í Salt eldhúsi.

 Í bakhúsi á Laugaveginum leynist gullmoli sem engin áhugamannekja um matargerð ætti að láta fram hjá sér fara. Þar hefur Auður Ögn Árnadóttir innréttað kennslueldhúsið Salt eldhús. Kennslueldhús sem bíður upp á ótrúlega fjölbreytt úrval matreiðslunámskeiða, þar sem þátttakendur elda sjálfir allan mat frá grunni án þess að stuðst sé við fyrirlestrarformið. 

Á þriðjudaginn þá fór á ég námskeið hjá Salt eldhúsi. Þar lærði ég að baka dásamleg brauð frá grunni. Ég hef oft bakað brauð með ágætum árangri en mig hefur lengi langað að læra það almennilega.  Brauðbaksturinn hjá mér hefur verið svona happa og glappa, stundum eru brauðin voða fín en aðra daga ekki svo fín.  

Á námskeiðinu  lærðum við að baka frönsk og ítölsk brauð úr þremur tegundum af deigi og fengum við þátttakendurnir að prófa okkur áfram á öllum stigum brauðgerðar. Auður, eigandi Salt eldhús kennir námskeiðið og gerir það ótrúlega vel. Ég get ekki beðið eftir því að baka brauð fyrir fjölskylduna mína og vini. Það er algjör nauðsyn að kunna að baka gott brauð, það er líka eitthvað svo dásamlegt við það að baka sín eigin brauð. Þá veit maður nákvæmlega hvað fer í deigið. 

Þetta er í annað sinn sem ég fer á námskeið hjá Salt eldhúsi og ég skora á ykkur að skella ykkur á námskeið hjá Auði. Þetta er algjörlega frábært. Ég tók auðvitað nokkrar myndir af námskeiðinu sem ég ætla að deila með ykkur. 







 Skemmtilegu borðfélagarnir mínir.

 Við fengum ljómandi góða súpu og ljúffengt brauð í kvöldmatinn. 

 Hér sýnir Auður okkur hvernig við búum til einfalt og gott pestó.
 Fallegu og góðu brauðin sem við bökuðum.
 Brauðstangir fylltar með parmesan, kóríander, basilíku og ólífum. 
Það var ekki amalegt að fara af námskeiðinu með fullan poka af nýbökuðu og ljúffengu brauði. 

Ég mæli með að þið skoðið úrvalið af námskeiðum hjá Salt eldhúsi. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, April 15, 2013

Mánudagur.

Svona leit morgunverðurinn minn út, mjög góð byrjun á vikunni sem verður heldur annasöm.  Ég er spennt fyrir verkefnum vikunnar og hlakka til að deila þeim með ykkur. Nú ætla ég hins vegar að fá mér kaffibolla númer þrjú, já það sagði enginn að það væri auðvelt að vakna snemma á mánudögum.

Vonandi eigið þið góðan dag. 

xxx

Eva Laufey Kjaran.

Sunday, April 14, 2013

Súkkulaðisæla á sunnudegi.

Mig dreymdi súkkulaðiköku í nótt svo þegar ég vaknaði þá fór ég beinustu leið inn í eldhús og bakaði ljúffengan mömmudraum. Kakan stendur alltaf fyrir sínu og er stórgóð. Nýbökuð súkkulaðikaka og ískalt mjólkurglas á sunnudagsmorgni er draumabyrjun á deginum. 

Ég sit hér við stofuborðið, drekk kaffi og er að skipuleggja næstu daga. Lærdómur, skrif, vinna, námskeið og meira til er á dagskránni en mér líður alltaf mun betur þegar ég skrifa og skipulegg hvern einasta dag þegar mikið er að gera. Skemmtileg vika með spennandi verkefnum framundan. En nú ætla ég að fá mér aðra sneið af kökunni og byrja á einhverju af þessum lista sem ég er búin að punkta niður. Ég vona að þið eigið góðan dag framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran.

Saturday, April 13, 2013

Lífið Instagrammað.

 1. Kristían Mar Kjaran og Eva Laufey Kjaran. 
2. Ég og Maren systir mín að njóta þess að drekka rósavín í blíðunni í Noregi. 
 3. Fatafjör í Kolaportinu. Söludömur og uppboðsstjóri.. djók. 
4. Menntamálanefndin mín að funda á mánudegi, líf og fjör. 
5. Stórgott hádegisdeit með yndislegu Ebbu Guðný. 
6. Sumarið er næstum því komið, því er nauðsyn að setja upp gleraugun. 

7. Föstudagsblómin fínu. 
8. Hamborgari og með því á Hamborgarabúllu Tómasar. Skál í bernaise!

Þið getið auðvitað fylgst með mér á Instagram, finnið mig undir evalaufeykjaran.

xxx

Eva Laufey Kjaran.




Friday, April 12, 2013

Ítalskar kjötbollur frá grunni og ljúffeng súkkulaðimús.

 Þessi vika hefur gjörsamlega flogið áfram og verið mjög viðburðarík. Ég hlakka til að deila með ykkur þeim verkefnum sem eru framundan hjá mér. Það er svo ótrúlega gaman að stíga út fyrir þægindaramman og  grípa tækifærin þegar þau gefast. 

Það er kærkomið að komast í smá helgarfrí, fríið fer þó meira og minna í lærdóm en það er helgarfrí fyrir því. Ég ætla að elda eitthvað gott og njóta þess að vera með fólkinu mínu. Helgarmaturinn er alltaf eilítið betri. Ég ætla að deila með ykkur tveimur uppskriftum sem eiga það sameiginlegt að vera einfaldar, fljótlegar og sérlega gómsætar. Tilvalið að bjóða fjölskyldu og vinum upp á þessa rétti. 

Ítalskar kjötbollur með pastasósu. 

Þessi uppskrift er í miklu eftirlæti hjá mér. Ég sé Ítalska matarmenningu í hyllingum og get ekki beðið eftir því að heimsækja Ítalíu einn daginn. Þessi réttur færir okkur örlítið nær Ítalíu í huganum... Við byrjum á sósunni. 

Pastasósa. 

2 -3 hvítlauksrif, marin
1/2 laukur, smátt skorinn
2 dósir hakkaðir tómatar
4 dl vatn
1/2 kjúklingateningur
1 msk.fersk steinselja, smátt söxuð
1 msk. fersk basilíka, smátt söxuð
1 tsk. agave síróp
salt og pipar, magn eftir smekk

Aðferð:
Hitið olíu við vægan hita í potti, steikið lauk og hvítlauk í olíunni í 1 - 2 mínútur. Bætið öllu hinu í pottinn og leyfið sósunni að malla á meðan þið búið til kjötbollurnar. 

Kjötbollur.

500 g. nautahakk
1 dl. brauðrasp
1 laukur, smátt skorinn
3 hvítlauksrif, marin
3 msk. fersk steinselja, smátt söxuð
1 msk. fersk basílika, smátt söxuð
2 msk rifinn Parmesan ostur
1 egg, létt pískað
salt og pipar, magn eftir smekk

Aðferð:
Blandið öllum hráefnum saman með höndunum. Mótið í litlar kúlur, passið að hafa þær ekki of stórar vegna þess að þá er hætta á að þær klofni þegar þær fara ofan í sósuna. Hitið olíu á pönnu og steikið bollurnar í smá stund. Látið síðan bollurnar ofan í sósuna, leyfið því að malla við vægan hita í 15 - 20 mínútur. Mér finnst best að bera bollurnar fram með spagettí en þið getið auðvitað notað hvaða pasta sem þið viljið. Sjóðið spagettíið samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Setjið spagettíið í fat og raðið síðan bollunum ofan á og hellið sósunni yfir. Rífið duglega af ferskum Parmesan osti yfir, alls ekki spara þennan dásamlega ost. Þið getið auðvitað borið réttinn fram með salati en mér finnst hann í raun bestur einn og sér með góðu brauði, helst hvítlauksbrauði. 


Svo er auðvitað nauðsynlegt að gera vel við sig um helgar og bjóða upp á ljúffengan eftirrétt. Þessi súkkulaðimús er án efa uppáhalds eftirrétturinn minn, ég geri þessa mús mjög oft en ég fæ bara ekki nóg af henni. Fljótleg, einföld og ótrúlega ljúffeng! Hægt er að nota bæði ljóst sem og dökkt súkkulaði, fer bara eftir smekk hvers og eins. 

Súkkulaðimús.

25 g smjör
200 g 70% súkkulaði
250 ml rjómi
3 stk. egg
2 msk. sykur
Bræðið smjör og súkkulaði saman við vægan hita í potti. Hellið súkkulaðinu síðan í skál og blandið þremur eggjarauðum saman við, blandað eggjarauðunum vel saman við súkkulaðið. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar. Þeytið rjóma og að því loknu bætið súkkulaðiblöndunni saman við, í þremur pörtum. Leggið blönduna til hliðar. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum smátt og smátt saman við. Hrærið eggjahvítublöndunni mjög varlega saman við súkkulaðiblönduna með sleikju, setjið í glös eða skál. Kælið í lágmark 3 klst.
Skreytið súkkulaðimúsina með ferskum berjum og stráið smá flórsykri yfir.

Ég mæli eindregið með að þið prófið þessar uppskriftir og njótið vel, það er auðvitað aðal málið. Góða helgi kæru vinir.

xxx

Eva Laufey Kjaran.

Wednesday, April 10, 2013

Ó, borg mín borg.

Ég hef sagt ykkur það áður hvað ég elska að eiga gæðastundir í hádeginu með fjölskyldunni minni og vinum. Hádegisverður og góður félagsskapur, dagurinn verður bara svo miiiklu betri. Í dag fór ég ásamt vinkonu minni henni Guðrúnu Sóley á Borg Restaurant. 

Borg Restaurant er staðsettur í hjarta borgarinnar. Ég heillaðist upp úr skónum um leið og ég kom þangað inn, innréttingin á staðnum er algjört augnayndi og þjónustan ótrúlega góð. Hlýlegur og elegant veitingastaður. 
 Matseðillinn er mjög spennandi og mig langaði einna helst að prufa allt saman á einu bretti. Ég og Guðrún ákváðum að fá okkur fjarka dagsins, það er ótrúlega sniðugt ef maður vill smakka nokkra rétti. Framsetningin á réttunum er líka mjög skemmtileg og það kunnum við Guðrún svo sannarlega að meta. Réttirnir voru ótrúlega góðir, hver öðrum betri og mæli ég svo sannarlega með að þið smakkið fjarka dagsins. 
 Guðrún Sóley var ánægð með matinn og kaffið, og já auðvitað var súkkulaðibitinn gómsætur líka. 
 Ég hlakka til að fara aftur á Borg Restaurant. Ég er nú þegar farin að skipuleggja stefnumót  með manninum mínum og vinakvöld. Kokteilarnir eru svakalega girnilegir og ég sé fyrir mér ljúf sumarkvöld með vinum mínum á Borginni. 

xxx

Eva Laufey Kjaran


Tuesday, April 9, 2013

Kaupmannahöfn.

Í maí þá ætla ég að fara með fjórum af mínum bestu vinum til Kaupmannahafnar. Tilhlökkunin er vægast sagt mikil og ég get ekki beðið eftir því að eyða með þeim nokkrum dögum í danaveldi. Við höfðum talað svo lengi um að fara til útlanda saman en höfðum aldrei gert  neitt meira í því en að tala um það, en þegar við sáum að vinkona okkar hún Beyonce væri með tónleika í Kaupmannahöfn í maí þá vorum við ekki lengi að panta miða út. Þetta verður stórkostlegt, ég finn það á mér. 

Ég er búin að vera að skoða veitingahús á netinu og skoða hvað við getum gert í Kaupmannahöfn, ég hef ekki farið þangað síðan í útskriftarferð í 10.bekk. Mig langaði svo að athuga hvort elskulegu lesendur mínir geta ekki bent okkur á eitthvað sniðugt í Köben í sambandi við mat og afþreyingu. Mér þætti nú mikið vænt um það :) 

Ég vona að þið eigið góðan dag. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, April 8, 2013

Appelsínu-og gulrótarsafi.

Í morgun bjó ég til appelsínu- og gulrótarsafa. Þessi safi er yfirfullur af hollustu og vítamínum, hentar því afskaplega vel að byrja daginn á einu glasi af góðum og hollum safa.  Það tekur enga stund að búa til safa, minnsta málið í eldhúsinu. Mér finnst voða gott að hefja daginn og þá sérstaklega mánudaga eftir smá helgarsukk á hollum og góðum morgunmat, þá gegnir safinn lykilhlutverki. 
 Ég bý til safa sem dugar í nokkur glös og endist mér út daginn. 

Appelsínu- og gulrótarsafi. 

500 ml ískalt vatn 
5 meðalstórar gulrætur
2 meðalstórar appelsínur
1 sítróna
4 - 5 cm ferskt engifer. 


1. Byrjið á því að flysja og skera hráefnið. 
2. Setjið vatn í blandarann, 500 ml ískalt vatn. 
3. Bætið hráefninu saman við vatnið í pörtum, ég læt fyrst gulræturnar og leyfi þeim að hakkast algjörlega áður en ég læt hitt hráefnið saman við. 
4. Ég sía safann minn í gegnum sigti áður en ég drekk hann, þið ráðið því auðvitað hvort þið viljið sía hann eður ei. 
5. Hellið safanum í glas og njótið. 



Einfalt ekki satt?

 Jæja, nú ætla ég að koma mér af stað út í vikuna... verkefnin bíða. Ég vona að þið eigið góða viku framundan kæru vinir. Við heyrumst fljótlega. 

xxx

Eva Laufey Kjaran.