Thursday, March 17, 2016

Æðislegt andasalat með ristuðum valhnetum, perum og geitaosti.Í þætti kvöldsins lagði ég áherslu á rétti sem tilvalið er að elda um páskana. Þetta andasalat með steiktum perum, stökkum valhnetum og geitaosti er yfirgengilega gott. Andabringur eru auðvitað algjört sælgæti og eru frábærar í salöt, páskamaturinn þarf alls ekki að vera þungur í maga og tilvalið fyrir þá sem kjósa léttari rétti að bera þennan rétt fram um páskana. 

Andasalat með stökkum valhnetum og geitaosti

 • 2 andabringur
 • 1 poki klettasalat
 • 1 granatepli
 • 2 perur
 • 1 tsk ólífuolía
 • 1 tsk smjör
 • Handfylli ristaðar valhnetur
 • Geitaostur, magn eftir smekk
 • Salatdressing
 • 1 tsk rauðvínsedik
 • 1 dl jómfrúarolía
 • 2 skallottulaukar
 • 1 tsk dijon sinnep
 • Salt og pipar


Aðferð:
 1. Skerið aðeins í andabringurnar og steikið á pönnu. Kryddið bringuna til með salti og pipar og steikið bringurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Setjið andabringurnar í eldfast mót og inn í ofn við 180°C í 8 - 10 mínútur. Eins og með allt kjöt er mikilvægt að leyfa því að hvíla í fáeinar mínútur áður en það er skorið, en það kemur í veg fyrir að safinn leki út og kjötið verði þurrt. 
 2. Skerið perur í sneiðar og steikið upp úr olíu og smjöri í 1-2 mínútur á hvorri hlið.
 3. Þurristið valhnetur á pönnu. 
 4. Útbúið franska salatdressingu, saxið niður skallottulauk mjög smátt og setjið í skál. Blandið jómfrúarolíu, sinnepi og rauðvínsediki saman við og hrærið vel í dressingunni.
 5. Veltið kálinu upp úr dressingunni og leggið salatið á fat, raðið perum yfir, skerið andabringuna í sneiðar og leggið yfir, myljið geitaosti, sáldrið valhnetum og dreifið granateplum yfir salat í lokin. 
 6. Berið strax fram og njótið vel. 


Missið ekki af Matargleði Evu öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

No comments:

Post a Comment